Helstu upplýsingar

XS_Merki-1
Listabókstafur: S
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Hugmyndafræði Samfylkingarinnar byggir á gildum um jöfnuð, félagslegt jafnrétti og mannréttindi. Við teljum að allar manneskjur eigi að hafa jafnan kost á því að upplifa farsæld og hamingju óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, ætterni eða kynhneigð. Þessi sýn endurspeglast í stefnumálum okkar þar sem jöfnuðu og frelsi gegna lykilhlutverki.

Samfylkingin hefur verið í meirihluta á því kjörtímabili sem er senn á enda og erum við gríðarlega stolt af fjölmörgum jákvæðum verkefnum sem við höfum tekið þátt í á sama tíma og góður árangur hefur náðst í rekstri bæjarfélagsins. Þó þarf að sjálfsögðu að halda áfram rétta leið og eru mörg krefjandi verkefni framundan. Við teljum að eitt mikilvægasta verkefni næstu sveitastjórnar á Akureyri verði að beita sér fyrir því að bæjarfélagið fái meira fjármagn til þess að geta með sómasamlegum hætti staðið undir þeim verkefnum sem okkur ber að sinna samkvæmt lögum. Við teljum það jákvætt að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga, enda sýnir reynslan okkur að því nær íbúum sem þjónustan er því betri er hún. Það er hins vegar algjörlega óásættanlegt að verkefni séu flutt frá ríki til sveitarfélaga en fjármagnið ekki í samræmi við umfang þess, á þessu er því miður brotalöm, ekki síst hvað við kemur þjónustu við aldraða og því einfaldlega verður að breyta.

Stefnumál okkar eru að sjálfsögðu fjölmörg en hér koma nokkur dæmi um það sem við teljum mikilvægt nú: Við viljum brúa bilið í leikskólamálum bæjarins og teljum að leita þurfi leiða og gera markvissa langtíma áætlun til þess að börn komist á leikskóla að fæðingarorlofi loknu. Við viljum fylgja eftir metnaðarfullri íþróttastefnu sem gerð hefur verið og teljum nauðsynlegt að fjárveitingar til íþróttafélaga séu skilyrtar við markvissar siðareglur og jafnréttisstefnu. Við viljum tryggja að Akureyri sé leiðandi í umhverfismálum m.a. með því að efla enn frekar flokkun á sorpi og þá sérstaklega að draga úr plastnotkun, enda er plastið slíkur skaðvaldur á jörðinni okkar að við sem mannverur einfaldlega verðum að taka ábyrgð og breyta hegðun okkar. Í raun er aðalatriðið að við teljum að bæjarfélagið eiga að þjóna manneskjum með jöfnuð og farsæld að leiðarljósi.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Á því kjörtímabili sem er senn á enda tók Samfylkingin þátt í því að hækka frístundastyrk barna úr 12.000 krónum í 30.000 krónur og að hann væri í boði til 18 ára aldurs. Við viljum stefna á enn frekari hækkun frístundastyrksins á næsta kjörtímabili. Samfylkingin mun leggja áherslu á að byggðar verði ódýrar íbúðir sérstaklega með ungt fólk í huga sem er að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði, þannig fjölgum við valkostum fyrir ungt fólk og ýtum leiguverði niður.

Akureyrarbær tók þátt í stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar í bænum, enda teljum við nauðsynlegt að efla umgjörð nýsköpunar ekki síst í þeirri fjórðu iðnbyltingu sem við upplifum nú. Akureyri er þátttakandi í verkefninu Barnvænt samfélag sem m.a. miðar að því að efla lýðræðisþátttöku barna og ungs fólks á öllum sviðum samfélagsins. Það þýðir meðal annars það að allar ákvarðanir er varða börn skulu teknar með hagsmuni þeirra í forgangi. Námsgögn í grunnskólum voru gerð gjaldfrjáls sem þýðir að nú geta börn fengið þau námsgögn sem þau þurfa til námsins í skólanum sem jafnar stöðu þeirra. Við viljum halda áfram að efla og fegra græn svæði innan bæjarins og í Kjarnaskógi með fleiri afþeyingar- og líkamsræktarmöguleikum t.d. setja upp körfuboltavelli, hreystistöðvar og annarri aðstöðu til útivistar. Við viljum horfa á til skipulagningu og þéttingu byggðar með góðum tengingum við göngu- og hjólastíga í bænum sem tengja þjónustu, skóla og íbúðahverfi vel saman, þannig er komið til móts við auknar kröfur um umhverfisvænar samgöngur. Við viljum standa vörð um og efla starf Ungmennahússins í Rósenborg, Virkisins og forvarnarfulltrúa bæjarins, enda í okkar huga mikilvægt að öflug umgjörð sé í boði fyrir ungt fólk og þá ekki síst þegar eitthvað bjátar á.

Við viljum að Akureyri sé skemmtilegur bær, þar sem fólk í öllum regnbogans litum fær tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.

Önnur framboð - Akureyri