Helstu upplýsingar

logo_XS
Listabókstafur: S
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Kosið um framtíð borgarinnar
Þessar kosningar skipta öllu máli fyrir framtíð borgarinnar – ekki bara næstu fjögur árin, heldur líka næstu áratugina. Hvernig borg viljum við að Reykjavík verði? Í hvaða átt viljum við að borgin okkar fari?

Eins og flestir vita þá hefur Reykjavík tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Þær breytingar hafa verið leiddar af samhentum meirihluta fjögurra flokka undir forystu Samfylkingarinnar.

Reykjavík á tímamótum
Við getum tekið stór skref áfram á næsta kjörtímabili í átt að því að Reykjavík verði skemmtilegri og betri borg fyrir alla. Við getum fest í sessi þær miklu breytingar sem orðið hafa í borginni og tryggt að ekki verði horfið aftur til fyrri tíma. Við getum hugsað stærra og haldið áfram að leggja grunninn að nútímalegri og framsækinni borg þar sem er gott að vera ungur og gamall og allt þar á milli.

Afturábak eða áfram
Samfylkingin hefur skýra sýn fyrir borgina okkar til framtíðar og við óskum eftir umboði til að fylgja þeirri framtíðarsýn áfram. Reykjavík má ekki fara afturábak og festast í viðjum gamaldags hugmynda um þróun borgarinnar og 20. aldar áherslum þegar kemur að uppbyggingu samfélagsins. Slíkt bakslag yrði of dýrkeypt.

Um þetta verður kosið og þess vegna skipta kosningarnar í vor öllu máli fyrir framtíð Reykjavíkur.

Ítarleg kosningastefna Samfylkingarinnar verður kynnt á sérstökum viðburði þann 21. apríl næstkomandi en á meðal helstu áherslumála okkar verða eftirfarandi:

  • Við viljum þétta byggð og lifandi borg fyrir alla.
  • Við viljum Borgarlínu og Miklubraut í stokk.
  • Við viljum aukna áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
  • Og við viljum stórauknar forvarnir og fræðslu um geðheilbrigðismál og fíknivanda – einkum fyrir þá hópa sem er viðkvæmastir fyrir.
Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Borg fyrir ungt fólk
Helstu stefnumál Samfylkingarinnar í Reykjavík eru stefnumál sem skipta máli fyrir ungt fólk. Það er vegna þess að öll okkar sýn fyrir Reykjavík horfir til framtíðar. Borgir þurfa að breytast í takt við tímann – og Reykjavík er svo sannarlega að breytast til hins betra.

Lifandi borg
Reykjavík hefur aldrei verið skemmtilegri og fjölbreytilegri. Stefnan um þétta og blandaða byggð og alls konar lausnir í samgöngum er þegar byrjuð að skila árangri.

Þarna er Reykjavík á réttri leið. Ungt fólk vill lifandi borg.

Hagkvæmt húsnæði
Mesta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur er hafið og síðustu þrjú ár hafa verið metár í útgáfu nýrra byggingarleyfa í Reykjavík. Þetta aukna framboð mun lækka bæði húsnæðisverð og leiguverð.

Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin í Reykjavík lagt áherslu á uppbyggingu í samvinnu við félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða – eins og til dæmis á 1350 stúdentaíbúðum sem eru nú að verða raunverulegur valkostur fyrir stúdenta á Íslandi.

Á næsta kjörtímabili viljum við leggja aukna áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Geðheilbrigðismál og fíknivandi
Við viljum stórauka forvarnir og fræðslu um geðheilbrigðismál og fíknivanda. Þar þarf að bregðast við breyttri stöðu af festu í samstarfi við ríkið. Reykjavík rekur grunnskólana og ríkið rekur framhaldsskólana en við þessi skil er áhættan mest.

Samfylkingin í Reykjavík vill blása til sóknar í þessum málum – því samfélagið okkar verður að gera betur fyrir þá sem þjást af geðsjúkdómum og fíknivanda.

Önnur framboð - Reykjavík