//
Helstu upplýsingar

samfylkingin_merki_xs-1
Listabókstafur: S
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Áfram Reykjavík

Reykjavík er á fleygiferð – við erum að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg sem er fjölbreytt, skemmtileg og lifandi. Áfram Reykjavík er okkar slagorð því það skiptir öllu máli að við höldum áfram í þessa átt. Við bjóðum skýra framtíðarsýn og áframhaldandi stefnufestu við stjórn borgarinnar.

Á þessu kjörtímabili höfum við gert það sem við sögðumst ætla að gera. Á næsta kjörtímabili viljum við halda áfram og leggja áherslu á fjögur aðalmál.

1. Borgarlína og Miklubraut í stokk

Borgarlína er besta og hagkvæmasta leiðin til að bæta samgöngur í Reykjavík. Við viljum hefja framkvæmdir við Borgarlínu strax á næsta ári.

Samhliða framkvæmdum við Borgarlínu viljum við setja Miklubraut í stokk. Þannig má hafa rólega og blandaða hverfisumferð á yfirborðinu en leiða hraðari umferð í gegnum hverfið neðanjarðar.

2. Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Nú stendur yfir mesta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu í borginni á einu kjörtímabili. Árið 2017 var mesta íbúafjölgun í Reykjavík í 30 ár.

Við viljum halda áfram að byggja upp hagkvæmar íbúðir á spennandi stöðum um alla borg og taka sérstaklega frá lóðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur – m.a. í Gufu­nesi, Úlfarsár­dal­, Bryggju­hverfi, Skerja­firði, á Veður­stofu­hæð og á lóð Stýri­manna­skól­ans.

3. Leikskóli fyrir 12 til 18 mánaða

Á næsta kjörtímabili viljum við klára uppbyggingu leikskólanna í eitt skipti fyrir öll með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti.

Við höfum sett fram ítarlega áætlun um hvað þarf að gera, hvernig og hvenær: Byggja 5 til 6 nýja leikskóla, opna 7 nýjar ungbarnadeildir strax í haust, bæta við enn fleiri nýjum deildum þar sem eftirspurnin er mest og síðast en ekki síst: ráða 40 nýja starfsmenn inn á leikskólana á ári.

4. Borg fyrir alla

Við höfum aukið framlög til velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum og eflt mannréttindaskrifstofu borgarinnar auk þess að leiða markvissa vinnu gegn ofbeldi í öllum myndum.

Við viljum auka sálfræðiþjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar, tryggja jöfn tækifæri allra barna til frístunda og vinna áfram að heilsueflingu og gegn einsemd og einangrun meða eldri borgara.

 

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Borg fyrir ungt fólk

Öll okkar helstu stefnumál eru stefnumál sem skipta máli fyrir ungt fólk. Það er vegna þess að við höfum skýra framtíðarsýn fyrir Reykjavík og viljum halda áfram að leiða þær breytingar sem orðið hafa í borginni á undanförnum árum. Borgir þurfa að breytast í takt við tímann – og Reykjavík er svo sannarlega að breytast til hins betra.

Eins og fram kemur hér að ofan eru fjögur helstu áherslumál okkar eftirfarandi:

  1. Borgarlína og Miklubraut í stokk

  2. Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

  3. Leikskóli fyrir 12 til 18 mánaða

  4. Borg fyrir alla

En það eru ýmis fleiri mál sem mætti nefna.

Betri hverfi

Stefna okkar um þétta og lifandi borg hefur þegar skilað árangri með betri og sjálfbærari hverfum í borginni þar sem ekki þarf að sækja þjónustu langt utan hverfis. Við viljum vinna hverfisskipulag fyrir hvert hverfi borgarinnar og auka þannig enn frekar lífsgæði og þjónustu í hverfunum.

Skapandi borg

Við erum hreykin af menningarlífi Reykjavíkur og af kraftmiklu, fjölbreyttu og skapandi atvinnulífi. Opnun Marshall-hússins, kvikmyndaþorps í Gufunesi, Mathallar á Hlemmi, uppbygging Grósku og þekkingarstarfsemi í Vatnsmýrinni eru allt dæmi um samstarf borgarinnar og menningar- og atvinnulífsins. Við ætlum að bæta enn frekar skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf, lítil og meðalstór fyrirtæki, listafólk, sprota, skapandi greinar og nútímalegt atvinnulíf sem byggist á fjölbreytni og sköpunarkrafti.

Geðheilbrigðismál

Við viljum svara kalli tímans með aukinni áherslu á bætta geðheilsu, vellíðan og geðrækt í borginni – sérstaklega á meðal ungs fólks. Í því skyni viljum við auka sálfræðiþjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar, mæta betur þörfum fólks með fíknivanda, fjölga geðheilsustöðvum á borð við þá sem var opnuð í Breiðholti á kjörtímabilinu og styðja áfram frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Önnur framboð - Reykjavík