Helstu upplýsingar

14344181_1293689110642393_8552525054270521219_n
Listabókstafur: D
Staða: Í minnihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Sjálfstæðisfólk í Ísafjarðarbæ leggur mesta áherslu á að koma sveitarfélaginu okkar í efstu deild og það sé eftirsóknarvert að búa hér. Til þess að ná þessum markmiðum ætlum við að gera þetta:

1. Fara í alvöru hagsmunagæslu fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og fyrirtækin á svæðinu. Við viljum leggja okkur fram við að styrkja stoðir samfélagsins og auka lífsgæði íbúa með því að berjast fyrir okkar stóru málum; fiskeldi, Hvalárvirkjun og betri samgöngum.
2. Fjölnota íþróttahús sem allra fyrst. Þannig stórbætum við aðstöðu barna og ungs fólks til íþróttaiðkunnar. Fyrst og fremst þarf að skipuleggja Torfnessvæðið með þarfir íbúa að leiðarljósi. Það er grundvallaratriði að skapa skýra framtíðarsýn fyrir svæðið áður en uppbygging hefst. Þá getum við ákveðið hvar við ætlum að hafa sundlaug og útipotta í framtíðinni, þó það taki okkur tíma að byggja aðstöðuna.
3. Dagvistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Við viljum stefna að því að tryggja börnum frá 12 mánaða aldri dagvistun í sveitarfélaginu, úrræði í þessum efnum þurfa að vera til langs tíma. Það þarf að fjölga leikskólaplássum, við ætlum að stækka Eyrarskjól svo hægt sé að taka við fleiri börnum og í leiðinni bæta vinnuaðstöðu starfsmanna.
4. Ábyrg fjármálastjórn Ísafjarðarbæjar. Við ætlum að lækka álögur á íbúa með því að fara betur með peninga bæjarins en hefur verið gert. Það er mjög mikilvægt að greiða niður skuldir því í dag erum við að greiða 100 milljónir kr. á ári í vexti og annað eins í verðbætur.
5. Auka stolt íbúa Ísafjarðarbæjar. Það er virkilega gott að búa í Ísafjarðarbæ og tækifærin hér eru ótal mörg. Við viljum gera gott sveitarfélag enn betra og vera með fyrsta flokks skóla, fyrsta flokks aðstöðu til íþróttaiðkunnar og fyrsta flokks þjónustu fyrir bæjarbúa.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Það er mikilvægt að hlusta á þarfir ungs fólks og taka vel á móti hugmyndum þeirra. Við viljum hvetja ungt fólk til að koma skoðunum sínum á framfæri og taka þátt í því að efla samfélag okkar með jákvæðum hætti. Við viljum vinna saman að því að koma hlutum í framkvæmd sem að efla Ísafjarðarbæ sem eftirsóknarverðan stað til að búa á. Það gerum við með því að líta á hvert verkefni sem tækifæri til að gera vel fyrir samfélagið. Við ætlum að stórbæta aðstöðu til íþróttaiðkunar sem nýtist okkar unga og efnilega íþróttafólki. Efla þarf fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri í sveitarfélaginu. Við viljum stuðla að jákvæðum hvata til þess að fyrirtæki og samfélag okkar geti aukið störf fyrir ungt fólk. Jafnframt ætlum við að minnka álögur á íbúa sem er nauðsynlegt fyrir ungt fólk sem er að byrja fóta sig í lífinu.

Önnur framboð - Ísafjörður