//
Helstu upplýsingar

xd
Listabókstafur: D
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að gera Borgarbyggð að enn betri búsetukosti fyrir fólk á öllum aldri. Við viljum bjóða upp á góða þjónustu og byggja upp sterka innviði.

Í því skyni stefnum við að uppbyggingu íþróttamannvirkja og aukið aðgengi að þeim. Mikilvægt er að skipuleggja græn svæði þar sem áhersla verður lögð á fjölbreytta hreyfingu til dæmis með útitækum til líkamsræktar og púttvelli í samræmi við áherslur í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Fjölga þarf göngu- og hjólastígum.

Við leggjum áherslu á opna stjórnsýslu og aukið upplýsingaflæði til íbúa til dæmis með enn betri og gagnvirkri heimasíðu. Einnig viljum við beita okkur fyrir aukinni markaðssetningu á okkar ágæta sveitarfélagi og standa þannig markvisst að fjölgun íbúa. Með fjölmennara samfélagi eykst getan til að byggja upp og styðja við grunnstoðir þess.

Fegrun umhverfisins er sameiginlegt hagsmunamál allra og viljum við fara í átak varðandi fegrun Borgarbyggðar og fá íbúa og aðra hagsmunaðila í lið með okkur í það verkefni.

Við bjóðum áfram ábyrga forystu og viljum stuðla að auknum lífsgæðum í Borgarbyggð fyrir alla.
XD – Gerum lífið betra !

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð telja að ungt fólk hafi margt til málanna að leggja og eigi að fá að koma að undirbúningi að ákvarðanatöku og stefnumótun um eigin hagi.

Með það að markmiði viljum við að ungmennaráð fái greiðara aðgengi að stjórnsýslu sveitarfélagsins og fái áheyrnarfulltrúa í fræðslunefnd. Einnig að komið verði á reglulegum fundum milli sveitastjórnarfulltrúa og ungmennaráðs þar sem málefni ungmenna verða rædd, til dæmis félagslíf, íþróttastarf og tómstundir.

Við stefnum af því að stuðla að bættri heilsu og vellíðan ungmenna í Borgarbyggð og höfða til ábyrgðar mismunandi hópa til að mæta því markmiði. Því viljum við koma á samstarfsvettvangi við fulltrúa ungmenna og vinna að stefnumótun sem lýtur að heilbrigðari lífstíl. Þar yrði sett saman aðgerðaráætlun sem tekur meðal annars mið af forvörnum, fræðslu, aðstöðu, þjónustu og annarra þátta sem eru mikilvægir í þessu samhengi.

Mikilvægt er að styðja við starfssemi Menntaskóla Borgarfjarðar og gera honum kleyft að vaxa og dafna. Einnig viljum við kanna möguleika á auknum samgöngum fyrir nemendur við Menntaskóla Borgarfjarðar í samstarfi hagsmunaaðila.

Við hvetjum ungt fólk til að kynna sér vel sveitastjórnarmálin og vera dugleg að láta rödd sína heyrast.
XD – Gerum lífið betra !

Önnur framboð - Borgarbyggð