althyduf_logo_trans

Listabókstafur: X-R
Formaður: Þorvaldur Þorvaldsson
Staða: Ekki á þingi
Fjöldi þingmanna: 0
Stutt lýsing: Flokkurinn er róttækur vinstri flokkur sem ætlar sér að vera „baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar“.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Við erum með þriggja liða „neyðaráætlun“, hluti sem við gerum í fyrstu viku ef við fáum tækifæri til þess. Það er:

  1. Færa örorkubætur upp í samræmi við launaþróun í landinu frá hruni.
  2. Stöðva alla sölu ríkiseigna þangað til tími gefst til að velja hverjar eiga að vera félagslega reknar.
  3. Setja a.m.k. milljarð í Landspítalann undir eins, áður en byrjað er á kerfisbreytingum.

Félagsvæðing fjármálakerfisins er okkar aðalmál, og samhliða því félagsvæðing innviða samfélagsins. Með félagsvæðingu meinum við andstæðuna við markaðsvæðingu: að taka eigi viðkomandi starfsemi úr rekstri þar sem borga þarf einhverjum gróða, og reka hana í staðinn sem þjónustu við samfélagið, sem er rekin af samfélaginu. Með fjármálakerfið þýðir það að hið opinbera ætti að reka banka sem veitir lán og aðra fjármálaþjónustu án þess að taka af því gróða, tekur s.s. ekki vexti af lánum, og veitir fólki þannig húsnæðislán af hóflegri stærð.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Alþýðufylkingin lítur á menntun sem hluta af lífsgæðum sem allir eigi rétt á og eigi því að vera samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara. Því viljum við ókeypis skólagöngu á öllum skólastigum, fyrir alla aldursflokka, m.a. þannig að öldungadeildir opinberra framhaldsskóla verði opnaðar aftur. Við viljum afnema tengsl LÍN við bankakerfið, þannig að LÍN verði félagslega rekinn og peningarnir sem hann lánar komi úr sameiginlegum sjóðum en ekki frá bönkunum. Námslán eiga að duga fyrir framfærslu og við viljum að þau, eins og önnur lán í félagslega reknu fjármálakerfi, verði vaxtalaus. Við viljum að frammistöðutengda lánaniðurfellingu, og að námi loknu verði eftirstandandi lán fryst í tíu ár, en felld niður að þeim tíma liðnum fyrir fólk sem hefur starfað þann tíma á Íslandi. Í fyllingu tímans viljum við taka upp námsstyrkjakerfi, líkt því sem er í Danmörku, í stað námslána.

Eins og sjá má vantar mikið upp á að LÍN-frumvarp menntamálaráðherra uppfylli óskir okkar!

Við viljum stórauka fjárframlög til list- og verknáms, enda er það forsenda þess að fögur fyrirheit námsskráa geti ræst.

Þótt leikskólar og grunnskólar séu formlega á könnu sveitarstjórna, mundi Alþýðufylkingin engu að síður beita sér fyrir stórátaki í þeim ef hún sæti menntamálaráðuneytið. Í leikskólunum vantar mannskap vegna þess að það vantar peninga. Í grunnskólum viljum við gera nám fjölbreyttara og víðfeðmara: Við viljum m.a. að opinberir skólar bjóði upp á sérhæfingu fyrir börn sem hafa sérstaklega mikinn áhuga á íþróttum eða listum eða handverki eða dýrum, svo nokkuð sé nefnt. Við viljum að móðurmálskennsla leggi meiri áherslu á að njóta móðurmálsins, fá tilfinningu fyrir því og skapa með því. Við viljum að heimspeki verði skyldunámsgrein á öllum skólastigum. Undirstöðuatriði þjóðfélagsins ætti að kenna í grunnskólum, s.s. efnahagsmál, mannréttindi, umhverfismál og kunnáttu í því að keyra bíl. Kennsla um vímuefni á að vera hrinskilin og heiðarleg, því skilningur er betri forvörn en ótti. Kynfræðsla á að vera eðlileg og spennandi og þarf að byrja mun fyrr en hún gerir.

Alþýðufylkingin hefur sérstakar áhyggjur af ískyggilega miklu brottfalli nemenda af erlendum uppruna. Því viljum við veita þeim sérstakan stuðning í skólakerfinu, m.a. með almennilegri móðurmálskennslu, svo móðurmál þeirra verði þeim (og samfélaginu) styrkur en ekki veikleiki.

Okkar tillögur í menntamálum kosta mikla peninga, en við erum sannfærð um að þær muni margborga sig til lengri tíma litið — og auk þess vitum við hvaðan við ætlum að taka peningana sem þær kosta: úr fjármálakerfinu, sem við viljum félagsvæða, svo það verði rekið sem þjónusta hins opinbera við fólk og fyrirtæki, en ekki í gróðaskyni. Með öðrum orðum: Brot af þeim peningum sem í dag renna til fjármálakerfisins, mestmegnis í formi vaxta, mundi auðveldlega borga endurreisn menntakerfisins, auk margra annarra innviða þjóðfélagsins.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Almenn stefna okkar í húsnæðismálum mundi gagnast öllum, nema þeim sem græða á okurlánum til heimilanna. Einn megintilgangur þess að félagsvæða fjármálakerfið er að við viljum tryggja öllum húsnæði án vaxtaklyfja af lánum. Það þýðir að þeir sem vilja kaupa húsnæði geti fengið hóflega stórt vaxtalaust lán. Félagslega rekin húsnæðisleigufélög eiga að tryggja nægt framboð á leiguhúsnæði til þess að húsnæðisskortur skrúfi ekki verðið upp. Þau eiga að vera fjármögnuð án vaxta, svo vextirnir séu ekki bara innbyggðir í markaðsverðið.

Þar sem hátt verð og lítið framboð eru aðalhindranirnar fyrir því að ungt fólk geti flutt úr foreldrahúsum, má geta nærri hvort þessar aðgerðir mundu ekki gagnast því stórlega.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Við viljum auka aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal ungs fólks. Mánaða eða ára löng bið eftir greiningu eða innlögn á BUGL er hneyksli og það sem verra er: mannréttindabrot, sem afar brýnt er að leysa úr.

Við viljum taka sálfræðiþjónustu inn í heilsugæsluna, þar sem hún nýtist ekki síst ungu fólki, sem hefur kannski ekki efni á að borga fullt verð fyrir viðtalsmeðferð. Og við viljum stórátak í að byggja sérhæfð búsetuúrræði fyrir fólk sem í dag er innlyksa á geðdeildum mánuðum eða misserum saman vegna úrræðaleysis kerfisins, en þegar það getur útskrifast á eðlilegum tíma losna fyrr pláss sem þá munu nýtast öðrum, m.a. ungu fólki.

Í leiðinni: Ef ungt fólk (eða eldra fólk) ánetjast vímuefnum, þá viljum við ekki líta á það sem glæpamenn, heldur sem sjúklinga. Fíkn er umfram allt sjúkdómur, og það er verkefni heilbrigðiskerfisins en ekki valdstjórnarinnar að eiga við hana.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Við viljum félagsvæða menntakerfið, en það felur m.a. í sér að skólar sem hið opinbera borgar fyrir taki ekki skólagjöld; það felur í sér að Lánasjóður íslenskra námsmanna slíti tengslin við bankakerfið og veiti lán sem duga fyrir framfærslu, beri ekki vexti og falli niður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við viljum bæta úr sárri fjárþörf leikskóla (nemendur þar eru ungt fólk og foreldrarnir oft líka) og gera námsskrá grunnskóla og framhaldsskóla sveigjanlegri, m.a. þannig að meiri áhersla sé lögð á persónulegan þroska — þ.e.a.s. sköpun, gagnrýna hugsun og þekkingu á þjóðfélaginu heldur en undirbúning fyrir vinnu.

Við viljum stórauka fjárframlög í list- og verknám, svo það verði raunhæfari kostur fyrir þá sem hafa áhuga á því. Við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk sé hlunnfarið á vinnumarkaði með því að borga því jafnaðarkaup fyrir vaktavinnu eða með félagslegum undirboðum og við viljum setja ströng viðurlög við brotum á reglum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

Við viljum lengja fæðingarorlof þannig að tveir foreldrar með eitt barn fái samanlagt tvö ár í orlof. Upphæðin á að vera sú sama fyrir alla og miðast við framfærslu.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Við teljum að gróðasókn kapítalismans sé mesta umhverfisvandamálið. Bæði vegna þess að hún veldur rányrkju á náttúruauðlindum og bruðli með orku, og vegna þess að í sókninni eftir meiri gróða eru gríðarlega miklir og menganri vöruflutningar um heiminn. Auk þess er reynt að auka gróðann með því að spara í mengunarvörnum eða förgun spilliefna.

Stærsta verkefnið í umhverfismálum er því að setja kapítalismanum svo kirfileg mörk, að hagsmunir fólks og umhverfis verði öruggir.

En það er fleira. Það þarf að draga úr útblæstri farartækja og það viljum við m.a. gera með því að efla almenningssamgöngur mjög mikið, bæði á sjó og landi og í lofti. Það þarf að koma umhverfisvænum orkugjöfum á skipaflotann og á landbúnaðarvélar, og stuðla að sjálfbærum og lífrænum landbúnaði. Og það þarf að endurheimta votlendi og skóga, þar sem land hefur verið ræst fram eða rutt en er ekki ræktað.

Við viljum ekki að olía verði unnin á Drekasvæðinu.

Við viljum alls ekki að það verði lagður rafmagnssæstrengur til Skotlands, vegna þess að þá mundi verð fyrir íslenskt rafmagn hækka mjög mikið, sem yrði afar dýrt fyrir landsmenn og mundi setja miklu meiri þrýsting á fleiri virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Í innflytjendamálum viljum við fyrst og fremst komið sé fram við innflytjendur sem jafningja, með sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir. Þeir hafa ákveðnar sérþarfir sem þarf að sinna vel, einkum eru það innflytjendabörn sem þurfa sérstaka tungumálakennsla, þannig að móðurmál þeirra verði styrkleiki en ekki veikleiki — bæði fyrir þau sjálf og fyrir samfélagið.

Við viljum að Ísland búi sig undir að taka á móti miklum fjölda flóttamanna, bæði með því að byggja upp úrræðin sem þarf til að geta sinnt þörfum þeirra, og með því að skapa sátt um það í þjóðfélaginu, enda verður að vera sátt til þess að það sé hægt. Það er ekki hægt að taka á móti miklum fjölda flóttamanna ef það þýðir að upplausn verði í samfélaginu, og þess vegna þarf að vanda sig mjög mikið til að það heppnist vel.

Aðalstefnan í flóttamannamálum er samt að berjast gegn því sem rekur fólk á flótta til að byrja með: berjast gegn stríði, gegn hungri, gegn drepsóttum og gegn náttúruhamförum.

Við viljum gera Ísland að sérstökum griðastað fyrir fólk sem er ofsótt vegna þess að það sé samkynhneigt eða af öðrum persónulegum ástæðum, og fyrir fólk sem hefur ljóstrað upp um glæpi herveldanna.

Við viljum stofna embætti umboðsmanns fyrir aðflutta, sem hjálpar bæði innflytjendum, flóttamönnum og farandverkafólki að þekkja réttindi sín og skyldur og njóta mannréttinda, kjarasamninga og annars sem á að gilda í landinu.

Við viljum rækta alls konar menningartengsl við lönd þaðan sem margir innflytjendur á Íslandi koma, og við lönd þangað sem margir Íslendingar hafa flutt.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Með því að félagsvæða það! Allir eiga að geta fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu án endurgjalds og eins nálægt heimili sínu og hægt er. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í mikla uppbyggingu um allt land, bæði á heilsugæslu og sjúkrahúsum.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er algjört forgangsmál hjá okkur, enda vitum við að það er ekki hægt að endurreisa það nema með mjög mikilli samstöðu og festu. Af hverju? Vegna þess að það eru sterk hagsmunaöfl sem standa í veginum. Það þarf t.d. að snúa við einkavæðingu í læknisþjónustu, en peningarnir sem borga fyrir hana koma úr sama sjóði og Landspítalinn fær peninga úr: Sjúkratryggingum Íslands. Það þýðir að dýr einkaframkvæmd skerðir möguleika Landspítalans á að vinna sama verk, sem þýðir að biðlistarnir þar verða lengri. Annað dæmi: Margar heilbrigðisstofnanir eru reknar í húsnæði sem er á leigu hjá fasteignafélögum. Leigusamningarnir eru oft dýrir og ekki hægt að segja þeim upp. Með öðrum orðum renna þar peningar út úr kerfinu, beint í vasa auðmanna. Þeir fáu sem njóta þessa fyrirkomulags munu berjast harkalega gegn félagsvæðingu, og þess vegna þurfum við að berjast enn harkalegar fyrir henni.

Við viljum að ríkið taki yfir lyfjaframleiðslu og lyfjasölu í landinu og að hún sé ekki rekin í gróðaskyni, heldur sé áherslan eingöngu sú að útvega fólki þau lyf sem það þarf fyrir eins lítinn kostnað og hægt er.

Það á að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið.

Það er dýrt að missa heilsuna, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir samfélagið. Þess vegna þurfum við að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja sjúkdóma og lækna þá sem samt veikjast. Það er nefnilega ekki sparnaður, heldur sóun að skera niður í heilbrigðismálum.

Þótt þessi stefna muni spara mikla peninga, sem núna borga fyrir gróða fárra, þá mun hún sjálfsagt kosta heilmikla peninga líka, sérstaklega til skamms tíma. Sem betur fer vitum við hvaðan þeir peningar eiga að koma: úr félagsvæðingu fjármálakerfisins. Núna sogar fjármálakerfið hundruð milljarðar út úr raunhagkerfinu á hverju ári. Lítið brot af þeim peningum mundi duga til að endurreisa heilbrigðiskerfið mjög rausnarlega.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Við erum algjörlega á móti aðild að ESB vegna þess að við álítum ESB vera samsteypu auðvaldsríkja með það aðalmarkmið að verja hagsmuni evrópsks auðvalds, gegn almenningi í Evrópu og annars staðar. Við viljum að Ísland haldi fast í fullveldi sitt vegna þess að við viljum nota þann rétt sem fullveldið gefur, til þess að félagsvæða innviði landsins — svo þeir þjóni almenningi en ekki auðvaldinu. ESB-aðild mundi trufla það alvarlega vegna þess að markaðsvæðing er stefna ESB, sem aðildarríkin þurfa að fylgja.

Við erum líka alfarið á móti því að Ísland taki þátt í fleiri árásarstríðum, og þess vegna viljum við að Ísland hætti í NATÓ, sem dró landið inn í stríðið gegn Júgóslavíu 1999, gegn Afganistan 2001 og gegn Líbýu 2011.

Í utanríkismálum viljum við að Ísland beiti sér fyrir friði, mannréttindum og umhverfisvernd, og gegn kapítalismanum sem ógnar þessu öllu.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Við erum að mörgu leyti ánægð með frumvarp stjórnlagaráðs, t.d. með ákvæði um auðlindir í þjóðareign (sem þó mættu ganga lengra) og með beinni aðkomu almennings að ákvörðunum í gegn um þjóðaratkvæðagreiðslur (sem þó eru ekki nein töfralausn). Við erum ekki ánægð með 111. grein, um valdaframsal, vegna þess að við viljum ekki að Ísland framselji fullveldi sitt.

Við teljum stjórnarskrána hvorki eiga sök á kreppunni né spillingu í stjórnmálum almennt. Þess vegna teljum við ekki að ný stjórnarskrá sé svo mikilvæg að allt sé leggjandi í sölurnar fyrir hana.

Aðalbreytingarnar sem við teljum nauðsynlegar á Íslandi snúast þess vegna ekki um stjórnarskrána. Hins vegar verður tilefni til að skrifa nýja og róttækari stjórnarskrá í framtíðinni, þegar þessar breytingar eru orðnar.