170px-bright_future_logo_bf_version

Listabókstafur: X-A
Formaður: Óttarr Proppé
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 4
Stutt lýsing: Björt framtíð er frjálslynt afl, grænt og alþjóðlega sinnað.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Græn framtíð

Við viljum ganga vel um landið okkar, minnka mengun, stofna miðhálendisþjóðgarð og koma Íslandi í forystu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Skapandi framtíð

Við viljum byggja samfélagið á skapandi lausnum ásamt því að efla skapandi hugsun, sköpunargáfu og sköpunargleði þjóðarinnar.

Heiðarleg framtíð

Við viljum heiðarleg stjórnmál, gagnsæi og opin vinnubrögð. Þess vegna erum við að kjósa núna.

Ef þú vilt kynna þér fyrir hvað Björt framtíð stendur þá mælum við með að þú lesir Ályktunina okkar og einnig getur þú kynnt þér málin okkar sem við lögðum fyrir þingið á kjörtímabilinu 2013-2016. Sérstakar áherslur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og það sem var á döfinni í okkar ráðuneytum má svo lesa um í ályktun ársfundar 2017.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Við viljum að skólar lagi sig að þörfum og áhugasviði nemenda þannig að styrkleikar allra fái notið sín. Kennsluefni og kennsluaðferðir séu í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar séu vakandi fyrir nýjum áherslum.

Við viljum auka fjölbreytni í skólaflórunni og sjá líka öfluga lýðháskóla til viðbótar við hefðbundna bók- og verknámsskóla.

Þá þarf að hugsa fjármögnun framhalds- og háskóla alveg upp á nýtt. Og raunar grunnskóla líka þó þeir séu á valdsviði og undir stjórn sveitarfélaganna.

Viðhorf okkar til LÍN er að við samningu þess skorti verulega á samráð við aðra stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila. Verulega vantar upp á greiningar á áhrifum þeirra reglna sem settar eru fram og hvernig þær koma niður á einstökum hópum námsmanna.

Við styðjum að hluti námsaðstoðar sé í formi styrkja, ekki síst til að jafna félagslega stöðu nemenda og/eða til að umbunda nemendum fyrir árangur í námi.

Við teljum að áherslan á námshraða henti tilteknum hópum mjög illa, s.s. fötluðum, fólki sem eignast börn á námstímanum og fleirum.

Hið nýja kerfi gerir eldri nemendum mjög erfitt fyrir að komast inn í skólakerfið á nýjan leik. Það er afleitt og hefur alvarleg neikvæð áhrif á möguleika fólks til endurmenntunar.

Við gagnrýnum líka verulegar takmarkanir á lán til skólagjalda því það kemur efnaminna fólki mjög illa.

Kerfið gerir hins vegar ráð fyrir föstum endurgreiðslum óháð tekjum. Það kemur harðast niður á kvennastéttum sem, miðað við núverandi ástand fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu.

Þetta eru eingöngu nokkur þeirra atriða sem við höfum gert athugasemdir við. Við viljum sjá frumvarpið unnið í þverpólitískri nefnd þar sem hagsmunafélög nemenda hafa aðkomu.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Björt framtíð hefur lagt fram mál á þingi sem snýst um að námsmenn sem leigja herbergi í íbúðum eigi rétt á húsaleigubótum. Margir námsmenn leigja íbúðir sem þeir deila með öðrum og verður þeim gert kleift að sækja um húsaleigubætur eins og þeir nemendur sem leigja herbergi á heimavist. Þetta er ein af þeim leiðum sem við viljum sjá til að einfalda ungu fólki í námi að geta flutt að heiman.

Stóra málið er svo að hér komist á húsnæðislánamarkaður með lágum raunvöxtum til langs tíma.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Það sem við erum hvað stoltust af eftir stutta veru okkar í heilbrigðisráðuneytinu er einmitt aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu m.a. með því að vinna að fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og bættri upplýsingagjöf. Við viljum halda áfram að vinna að uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustunnar. Við viljum að hið opinbera taki þátt í niðurgreiðslu vegna þjónustu sálfræðinga enda er geðheilbrigðisvandi vaxandi hérlendis, t.d. meðal ungmenna. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónsutu í grunn- og framhaldsskólum og færa slíka þjónustu í auknum mæli inn í sjúkratryggingakerfið.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Við leggjum sérstaka áherslu á börn og ungt fólk í okkar stefnumálum. Við leggjum upp úr því að hugsa sérstaklega um þarfir barna og ungmenna og speglum þarfir ungs fólks í okkar málum og tillögum. Þannig höfum við til að mynda lagt sérstaka áherslu í þingmálum okkar að mannréttindi barna séu virt, að búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum verði virt til jafns, að námsmenn í leiguherbergjum fái húsaleigubætur eins og aðrir leigjendur og lagt til aukna fræðslu til að auka lýðræðsivitund ungmenna.

Fyrir okkur eru öll málefni mikilvæg fyrir ungt fólk, því það eru þau sem taka við keflinu og því mikilvægt að undirbúa jarðveginn þannig að það geri ungu fólki auðveldar að taka við. Við viljum að ungt fólk sjái sér fært að vilja búa hér á landi, við viljum að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd. Við viljum að fólk sjái fyrir sér að hér sé gott að ala upp börn og ungt fólk og að hér sé gott að alast upp.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Þrátt fyrir stutta viðveru í umhverfisráðuneytinu síðustu mánuði höfum við komið töluverðu í verk í umhverfismálunum. Við beittum okkur af hörku í ríkisstjórninni fyrir auknu vægi grænna skatta og komum upp samráðsvettvangi ráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum. Þá fengum við það í gegn að horfið yrði formlega frá stóriðjustefnu fyrri ríkisstjórna og hætt að gefa ívilnanir til mengandi stóriðju. Vinna við stór verkefni á borð við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030 og stofnun miðhálendisþjóðgarðs var langt kominn.

Stefna Bjartrar framtíðar í umhvefismálum er í stuttu máli þessi:

Auðlindir jarðarinnar eru ekki ótæmandi og getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við höfum gert. Vistkerfi jarðar eru víða í ójafnvægi eða röskuð, lífbreytileiki hefur rýrnað, loftgæði minnkað, vatn er víða af skornum skammti, moldin eyðist hratt og hafið súrnar æ meir. Loftslagsbreytingar eru líka staðreynd sem við verðum að bregðast við á ábyrgan hátt.

Umhverfis og náttúruvernd verður grunnstef í allri stefnumótun stjórnvalda; hvort sem það er á sviði auðlindanýtingar, menntunar, lýðheilsu eða velferðar. Við viljum að ákvarðanatka um nýtingu náttúruauðlinda byggi alltaf á fræðilegri þekkingu um ástand auðlindanna og á forsendum náttúruverndar. Við viljum að Ísland verði sjálfu sér nægt á sviði orkuframleiðslu og noti aðeins græna orku. Við viljum að landnýting í dreifbýli og þéttbýli miðist við að viðhalda heilbrigðum vistkerufm og að efla innlenda matvælaframleiðslu með því að styrkja sjáfbæran landbúnað.

Hér má lesa ýtarlegri útgáfu af umhverfisstefnu flokksins sem samþykkt var á Ársfundi 2015

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Björt framtíð hefur lagt og mun leggja áherslu á málefni flóttafólks í komandi alþingiskosningum enda er fólkið okkar víðsýnt og frjálslynt. Við teljum það skyldu okkar Íslendinga að taka vel á móti fólki sem leitar griðlands og alþjóðlegrar verndar utan síns heimalands vegna stríðsátaka. Björt framtíð horfir til þess mannauðs sem í flóttamönnum býr og þess virðis sem þeir geta fært íslensku samfélagi en ekki eingöngu til þess kostnaðar sem í því felst að taka á móti fólki í neyð.

Móttaka flóttafólks þarf að byggja á skynsemi, yfirvegun, mannúðarsjónarmiðum og skilvirkni til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem til þarf til að það hafi möguleika á að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

Þingmenn Bjartrar framtíðar og flokksmenn hafa ítrekað bent á að Dyflinar-reglugerðin er reglugerð sem Íslendingar eru ekki bundnir af, heldur sé um að ræða valfrjálsa notkun á henni. Það að beita henni án þess að gefa kost á efnislegri meðferð máls sé ómannúðlegt. Vegna þess styður Björt framtíð að hvert og eitt mál verði tekið til efnislegrar meðferðar til að tryggja mannúðlega meðferð, skilvirkni og tryggja að Íslendingar uppfylli siðferðilegar skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið. Björt framtíð mun beita sér fyrir endurskoðun á eftirfylgni reglugerðarinnar hérlendis í þeim tilgangi að tryggja ofangreint.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Björt framtíð leggur áherslu á velferð barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Til þess teljum við að þörf sé á aukinni samvinnu allra þjónustuaðila til að styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Björt framtíð leggur áherslu á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé virtur. Þjónustan þarf að vera samstillt og aðgengileg öllum börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra án tillits til efnahags, þannig bætum við lífsgæði og minnkum sóun. Heilsugæslan hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár bæði hvað varðar mönnun og stefnumörkun. Þetta hefur haft áhrif á samskipti innan kerfis og utan. Mikilvægt er að efla samvinnu heilbrigðisþjónustu og menntakerfis til að auka lífsgæði og draga úr langvinnum heilsufarsvandamálum barna og ungmenna. Björt framtíð leggur áherslu á að grípa þau tækifæri sem eru sannarlega til staðar til heilsueflingar barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra.

Björt framtíð álítur mikilvægt að heilbrigðisþjónustan tryggi aðgengi að þjónustu og ráðgjöf sem felur í sér fjölbreytilega þjónustu allra heilbrigðisstétta og hæfir einstaklingum best hverju sinni. Áhersla er á forvarnir og meðferð sem miðast við að efla lífsgæði, sjálfstæði, val og ábyrgð hvers einstaklings. Margar vísbendingar eru um að almenningur leiti á marga staði til að leita að réttu þjónustunni. Þetta felur í sér verulegan og óþarfa kostnað og á einkum við þegar um er að ræða almennan heilbrigðisvanda en síður þegar um að ræða bráðatilvik, slys eða áföll.

Björt Framtíð telur að gera þurfi sérstakar ráðstafanir innan heilbrigðiskerfisins til þess að koma til móts við þarfir jaðarsettra hópa. Sýnt þykir að skaðaminnkandi þjónusta sem kemur til móts við jaðarsetta einstaklinga og hefur mikið forvarnargildi varðandi ýmsa sjúkdóma og bætir líðan og heilsu þeirra sem þjónustunnar njóta. Við viljum með þessu draga úr álagi á bráðadeildir.

Hér má lesa heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar


Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Við viljum beita okkur fyrir því að Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu og verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum. Við viljum að Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði.

Við viljum líka að Íslendingar landi eins góðum samningi og völ er á við Evrópusambandið og að þjóðin taki afstöðu til aðildar á grunni fullkláraðs samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu, að undangenginni upplýstri og vandaðri umræðu. Við viljum að Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum meira frelsi ríki í viðskiptum neytendum til hagsbóta, þ.m.t. í innflutningi á matvælum. Við viljum að Ísland vinni Eurovision.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Björt framtíð leggur þunga áherslu á að við setjum okkur nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs í samræmi við vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012.