merki_framsoknarflokksins-svg

Listabókstafur: X-B
Formaður: Sigurður Ingi Jóhannsson
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 8
Stutt lýsing: Framsókn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem spilar á miðjunni og leitar lausna á hverju málefni fyrir sig á grundvelli skynsemi og rökhyggju.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

a) Tryggja að allir geti menntað sig eins og þeir vilja óháð búsetu, efnahag og aldri. Ísland er í dag vel statt fjárhagslega en raunverulegt ríkidæmi felst fyrst og fremst í upplýstu og menntuðu samfélagi.

b) Geðheilbrigðisþjónusta verði niðurgreidd líkt og almenn sjúkraþjónusta. Það á ekki að skipta máli hvort þú þurfir læknisaðstoð vegna meiðsla á fæti eða andlegra veikinda, bæði tilvik eiga að vera niðurgreidd af ríkinu.

c) Umhverfismál eru eitt stærsta mál samtímans og framtíðarinnar. Ungir framsóknarmenn leggja mikla áherslu á að Ísland verði fyrirmyndir annarra þjóða í umgengni um náttúruna, haldi áfram sinni stefnu um sjálfbæra nýtingu auðlinda, minnki losun á gróðurhúsalofttegundum, endurvinni og minnki sóun og banni einnota plastumbúðir í ætt við það sem Frakkar gerðu nýlega.
Hver er stefna ykkar í menntamálum?
Ungir Framsóknarmenn vilja að allir hafi jafnan rétt til náms óháð aldri, búsetu, kyni og uppruna. Mikilvægt er að skólakerfið endurspegli fjölbreytileika nemendanna og fjölbreyttar þarfir samfélagsins. Einstaklingar verða að fá tækifæri til að blómstra á eigin forsendum, liður í því er að verknámi sé gert hærra undir höfði.

Ungir Framsóknarmenn vilja að betur verði stutt við íslenska háskóla og fjárframlög til þeirra nái meðaltali OECD ríkjanna. Það er Íslensku samfélagi mikilvægt að hér séu starfandi sterkir háskólar, sem stundi öflugar rannsóknir og bjóði fjölbreytt námstækifæri. Ríkisreknir háskólar eiga ekki innheimta skólagjöld, hvaða nafni sem þau nenfast.

Ungir Framsóknarmenn vilja að í námslánakerfinu verði teknir upp beinir styrkir að norrænni fyrirmynd. Það er fagnaðarefni að komið sé fram frumvarp sem miði að slíku styrkjakerfi. Frumvarpið er hins vegar ekki gallalaust og mikilvægt að hafa alltaf að leiðarljósi hið félagslega hlutverk sjóðsins, að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag. Ein af mikilvægustu kerfisbreytingunum sem Framsóknarflokkurinn heur náð fram á nýju lánasjóðsfrumvarpi eru mánaðarlegar greiðslur námslána. Þær koma í veg fyrir að námsmenn þurfi taka yfirdrátt til að framfleyta sér og að fjármálakerfið sé áskrifandi af vaxtatekjum frá námsmönnum.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Frumvarpið sem liggur nú fyrir þinginu um fyrstu fasteign, sem ríkisstjórn undir forrystu Framsóknarflokksins lagði fram, miðar af því að hjálpa ungu fólki við kaup á sinni fyrstu fasteign með því að nota séreignasparnað. Ungir framsóknarmenn fagna þessari tillögu og telja að það muni vera mjög til bóta. Einnig má nefna að í húsnæðisfrumvörpum Eyglóu Harðardóttir velferðarráðherra eru margvíslegar aðgerðir til styrktar leigu kerfinu meðal annars hækkun á húsaleigubótum sem mun lækka kostnað ungs fólks við að leigja umtalsvert.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Já, eitt af aðaláhersluatriðum SUF fyrir kosningarnar eru að geðheilbrigisþjónusta verði niðurgreidd af ríkinu eins og annars konar heilbrigðisþjónusta. Það er hreinlega ótrúlegt að á 21. öldinni sé enn við lýði gamaldags hugsunarháttur þar sem þeir sem glími við andleg veikindi eru skör lægra í kerfinu en þeir sem glíma við „viðurkennd“ veikindi.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

SUF ætlar að berjast fyrir því áfram að bæta hag ungs fólks á Íslandi og gera það að enn betri stað til þess að búa á. Áherslur okkar varðandi mennta, húsnæðis og heilbrigðismál byggja á grunngildum okkar, félagshyggju og frjálslyndri miðjustefnu með áherslu á öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

SUF fagnar þeim merka áfanga að þjóðir heims hafi komið sér saman um Parísarsamkomulagið og fagnar að Íslendingar hafi innleitt sinn hluta undir forystu Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra. SUF vill að Ísland verði fyrirmynd annarra þjóða er kemur að sjálfbærni og skynsamlegrar nýtingu náttúruauðlinda með áherslu á að draga saman losun á mengandi efnum, minnka sóun, auka endurvinnslu og stórdraga úr notkun á óæskilegum mengandi efnum eins og plasti.

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

SUF telur að Ísland eigi að sýna ábyrgð og taka á móti fólki frá stríðshrjáðum löndum eins og við höfum burði til. Mikilvægt er að vel sé tekið á móti fólkinu og að það nái að aðlagast íslensku samfélagi fljótt.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Ísland hefur þrátt fyrir allt yfir að ráða mjög góðu heilbrigðiskerfi með afbragsstarfsfólki. SUF leggur áherslu á að byggður verði nýr Landsspítali á nýjum stað sem uppfyllir nútímakröfur starfsfólks og sjúklinga. Þangað til verði aðstaðan á Hringbraut bætt en jafnframt verði horft til þess að byggja upp aftur heilbrigðiskerfið vítt og breitt um landið en síðastliðin ár hefur heilbrigðisþjónusta útá landsbyggðinni dregist mjög saman. Kostnaðarþáttaka sjúklinga verði hverfandi enda lítum við svo á að það sé eitt af grunnverkefnum ríkisins að útvega þegnum landsins heilbrigðisþjónustu, óháð stöðu eða efnahag. SUF lýst illa á hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu enda gæti slíkt leitt til tvöfalds kerfis.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Ísland á allt sitt undir því að alþjóðasamningar og lög séu virt og deilur skuli leystar friðsamlega. SUF leggur sértaka áherslu á að Ísland á mikla samleið með norðurlandaþjóðunum enda höfum við sameiginlegra hagsmuna gæta hvað varðar auðlindir, arfleið, þjóðmenningu og öryggismál. Norræn samvinna skipar mikilvægan sess í utanríkisstefnu landsins. Ennfremur vill SUF beita sér fyrir því að Ísland fordæmi og beiti sér gegn hverskonar mannréttindabrot auk þess að framlög til þróunarsamvinnu verði aukin. Ísland hefur mikið fram að færa tengt jafnréttismálum og viljum við halda áfram að berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna á alþjóðavettvangi líkt og Gunnar Bragi lagði sérstaka áherslu á í utanríkisráðherra tíð sinni.
SUF telur hagsmuni Íslands best borgið utan ESB, ljóst má vera að þær forsendur sem voru fyrir inngöngu á síðasta kjörtímabili eru brostnar og ljóst að ef einhver áhugi væri fyrir að halda þeim áfram ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aftur.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Hófsamar breytingar af vel yfirlögðu ráði á stjórnarskránni eru til bóta. Frumvarp Sigurðar Inga forsætisráðherra eru dæmi um slíkar breytingar en þær voru unnar af þverpólítískri nefnd, þar sem allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi höfðu sæti.