//
humanistar_trans

Listabókstafur: X-H
Formaður: Júlíus Valdimarsson
Staða: Ekki á þingi
Fjöldi þingmanna: 0
Stutt lýsing: Húmanistaflokkurinn er alþjóðlegur flokkur sem starfar á Íslandi og stefnir að róttækum breytingum á ríkjandi kerfi. Flokkurinn byggir stefnu sína á frelsi og mannréttindum.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Umhverfismál:

Gegndarlaus ofneysla, losun gróðurhúsaloftegunda og notkun jarðefna eins og olíu til orkuöflunar veldur hlýnun jarðar og ógnar vistkerfinu sem við búum í og þar með mannkyninu öllu og lífríkinu. Við Íslendingar þurfum að leggja fram okkar skerf og bregðast skjótt við til að snúa þessari þróun við. Við þurfum að draga stórlega úr vistspori Íslands á allra næstu árum til þess að við Íslendingar komumst í hóp þess helmings mannkyns sem mengar minnst.

Utanríkismál/friðarmál:

Afnám kjarnorkuvopna tafarlaust og Ísland hætti þátttöku í árásarstríðum Bandaríkjanna og NATO. Ísland segi sig úr NATO – þessum samtökum sem vilja nota stríð til þess að koma sínu fram. Ágreiningsmál milli landa verði leyst með samkomulagi og þjóðir heims geri sáttmála sín í milli um að ráðast ekki hver á aðra.

Efnahagsmál:

Húmanistaflokkurinn vill gera grundvallar kerfisbreytingar á núverandi efnahagskerfi sem olli m.a. síðasta efnahagshruni sem var það stærsta í sögunni hingað til. Húmanistaflokkurinn vill nýtt efnahagskerfi  án vaxta. Þjóðarheimilið (heimilin, atvinnulífið og ríkið) borgar nú 4 – 500 milljarða í vexti á ári sem aðeins þjónar ofurríkrum eigendum bankanna en ekki almenningi. Við teljum að bankar ættu ekki að vera reknir í gróðaskyni heldur til að þjóna samfélaginu. Í vaxtalausu bankakerfi yrði hægt að losa um þetta fjármagn og beina því til þess að sinna félagslegum málefnum eins og að byggja upp heilbrigðiskerfið, sinna málefnum öryrkja og aldraðra og leysa húsnæðisvandann.

Tekið verði upp þjóðpeningakerfi eins og samtökin Betra peningakerfi leggja til þar sem peningakerfið yrði sett undir lýðræðislega stjórn. Þjóðpeningakerfið myndi forða efnahagshruni á borð við það sem gerðist árið 2008 í núverandi kerfi, sjá: www. betra peningakerfi.is .

Í nýju efnahagskerfi ætti að taka upp óskilyrta grunnframfærslu (borgaralaun).

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Það þarf að koma á lýðræði innan skólanna. Nemendur og skólar eiga að hafa frumkvæði og vald í sínum málum.

Skólanám á fyrst og fremst að miðast við þarfir nemendanna sjálfra til að þróa sína hæfileika og  möguleika til að skapa sér framtíð á eigin forsendum, en ekki fyrst og fremst til að framleiða starfskrafta fyrir atvinnulífið eða stíga hamstrahjólið fyrir skuldum sínum eins gerist í núverandi kerfi. Áfram þarf að staðfesta að nemendur hafi þekkingu og færni til að sinna skilgreindum störfum og öðrum verkefnum í samfélaginu en skólar hafi þess utan frelsi til að fara mismunandi leiðir.

Fólk á ekki að þurfa mikla menntun til að hafa sómasamleg lífskjör. Menntun á ekki að vera forsenda betri lífskjara heldur á fólk að hafa möguleika á að velja og stunda það nám sem það hefur löngun til.

Nemendur ættu að taka þátt í ákvörðunum um hvaða námsefni er valið, hvernig kennsla fer fram og  hvaða tilgangur á að vera með skólanáminu. Nemendur ættu að geta krafist þess að fá réttar upplýsingar um það kerfi sem við búum við, t.d. um hvernig bankarnir virka sem ollu síðasta hruni með hrikalegum afleiðingum fyrir almenning og um það hvað veldur þeirri stjarnfræðilegu misskiptingu sem er í þjóðfélaginu og öllum heiminum.  Einnig þarf að upplýsa og fjalla um vistkerfið og alvarlega stöðu þess. Allt þetta ætti að felast í skólanáminu.

Það þarf að þjálfa nemendur í að tjá sig og koma fram og öðlast meira sjálfstraust. Þeir þurfa að læra og þjálfast í að hugsa rökrétt og til að mynda sér sjálfstæða skoðun út frá eigin sannfæringu en vera ekki hópsálir vegna ótta við gagnrýni annarra.

Menntun ætti að vera raunverulega opin öllum og þess vegna ókeypis á öllum skólastigum og án allra skólagjalda. Innifalið í þessu ætti að vera falinn kostnaður af námsbókum og annar kostnaður sem nauðsynlegur er vegna námsins.

Í stað lánakerfis LÍN komi námslaun.  Nám er engu síður mikilvægt fyrir þjóðfélagið en vinna. Með þessum hætti er jafnaður munur milli efnameiri og efnaminni námsmanna og allir námsmenn geta beint sér að fullu að náminu en þurfa ekki að vinna með því eða hafa áhyggjur af afkomu sinni. Námslaunakerfi stuðlar líka að meiri tekjujöfnuði og minni tilkostnaði í þjóðfélaginu þegar til lengdar lætur því langskólagengið fólk þarf ekki að krefjast hærri launa út af ofurhárri skuldabyrði að námi loknu eins og nú er.

Skilyrðislaus grunnframfærsla (Borgaralaun) – eins og Húmanistaflokkurinn leggur til – kemur hins vegar í stað námslaunakerfisins  og annarra sérlausna fyrir einstaka hópa  þegar þeim yrði komið á.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Við höfum ekki að markmiði að ungt fólk “flytji að heiman”, en fólk á að hafa möguleika á því þegar því hentar.

Húmanistar líta á húsnæði sem mannréttindi en ekki markaðsvöru. Námsmenn ættu að hafa lögvarinn rétt til húsnæðis og það ætti einnig að gilda um annað fólk í þjóðfélaginu. Við viljum einnig að sett verði lög sem banna útburð fólks af heimilum sínum.

Húmanistar vilja gjörbreytt peningakerfi þar sem bankarnir og markaðurinn geta ekki gert mannréttindi eins og húsnæði að féþúfu. Við viljum stofna ríkisbanka sem lánar fé án vaxta til húsbygginga með sérstakri áherslu á húsnæðissamvinnufélög þar sem fólk getur eignast eða leigt húsnæði til lífstíðar.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu?

Við erum ekki sérfróð um þetta svið en við teljum að notendur svona þjónustu eigi að taka þátt í því að ákveða hvernig svona mál skuli leyst.

Við viljum losna við alla orsakavalda geðsjúkdóma eins og streitu, einelti og alls konar ofbeldi sem getu orsakað þunglyndi og aðra geðræna sjúkdóma. Þess vegna ætti að felast í skólanámi umræður og þjálfun þar sem nemendur skiptast á skoðunum um hvernig hægt er að stuðla að betri samskiptum og hegðun innan skólans og uppræta allt einelti þannig nemendur finni ekki til einangrunar eða vanlíðunar af þeim völdum.

Það er mikilvægt að koma á ókeypis sálfræðiþjónustu í öllum skólum.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Við ætlum ekki að gera neitt “sérstaklega” fyrir ungt fólk.  Við viljum hins vegar vinna að hagsmunum alls fólk  – þar með talið ungs fólks – og að það hafi allir eitthvað um tilveru sína segja út frá sínum hagsmunum og útfrá því hvernig  samfélagi þeir vilja búa í.

Ungt fólk eru manneskjur rétt eins og annað fólk burt séð frá aldri. Ungt fólk hefur mjög mismunandi skoðanir og viðhorf til þjóðfélagsins sem manneskjur en ekki vegna þess að þau eru ung eða vegna þess að þau stunda nám í staðinn fyrir að gera eitthvað annað.

Húmanistar vilja að kosningaaldur miðist við 16 ár en ekki 18 ár einsog nú er. Ungt fólk byrjar að borga skatta þegar það er 16 ára og ætti því að hafa eitthvað um það að segja til hvers þeir eru notaðir.

Húmanistaflokkurinn er ekki með neina ungliðadeild, þar taka allir þátt á jafnréttisgrundvelli án tillits til aldurs. Við teljum að ungliðadeildir hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka séu til þess fallnar að líta á ungt fólk sem sérstakan þjóðfélagshóp sem er ekki talinn fullgildur. Í þessu viðhorfi er falin niðurlæging á ungu fólki sem byggist gjarnan á því að ungt fólk skorti reynslu og þroska – rétt eins og þjóðfélagið sem búið var til af þeim eldri og “reyndari” eru sé einhver fullkomin fyrirmynd! Við húmanistar höfnum þessu viðhorfi, við teljum að ungt fólk sé jafn fært um að móta sér skoðanir og ákvarða þarfir sínar og þarfir samfélagsins sem það býr í eins og þeir sem eldri eru.

Skilyrðislaus grunnframfærsla (borgaralaun) mun vissulega koma til með að bæta hag ungs fólks og veita því frelsi til að velja sér þá leið í lífinu sem því hentar.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Við búum við gegndarlausa ofneysla, losun gróðurhúsaloftegunda og notkun jarðefna eins og olíu sem ógnar nú vistkerfinu. Orsakavaldurinn er meðal annars markaðshyggjan og kapitalisminn eða nýfrjálshyggjan, sem býr stöðugt til nýjar og nýjar gerfiþarfir og lífsstíl sem krefst sífellt aukins hagvaxtar svo hægt sé að græða sem mest. Hins vegar er ekkert tillit tekið til þeirra afleiðinga sem þetta hefur fyrir umhverfið. Þessi stefna byggist á einstaklingshyggju – grunnstefnu kapitalismans – sem gerir ráð fyrir að einstaklingar eða hópar einstaklinga geti fari sínu fram í eiginhagsmunaskyni án tillits til heildarinnar, þ.e. án tillits til afleiðinganna fyrir annað fólk eða fyrir plánetuna sem við búum á.

Rannsóknir hafa bent til þess að ef það neyslustig sem ríkir núna að meðaltali í heiminum öllum myndi halda áfram þyrftu jarðarbúar 5 hnetti á borð við jörðina til þess að standa undir því. Ef hins vegar það neyslustig sem ríkir á Íslandi yrði yfirfært á öll önnur lönd þyrfti meira en 20 hnetti til þess að halda uppi slíkri neyslu.

Við viljum að maðurinn nái að læra að lifa í samræmi við vistkerfið sem hann eru hluti af. Það er alls ekki útilokað að ná því markmiði. Við þurfum að gera allt sem við getum til að vernda fjölbreytileika vistkerfisins og draga úr álaginu sem ráðandi stefna hefur valdið.  

Við Íslendingar þurfum að bregðast skjótt við og draga stórlega úr vistspori Íslands á allra næstu árum til þess að við komumst í hóp þess helmings mannkyns sem mengar minnst.

Þetta er hægt að gera með ýmsum ráðum, Húmanistaflokkurinn leggur meðal annars til eftirfarandi ráðstafanir:

  1. Hætt verði við olíuleit á Drekasvæðinu og öll önnur áform um aukna nýtingu á jarðefnum til orkuöflunar.
  2. Stefn verði að kolefnislausu Íslandi á allra næstu áratugum.
  3. Dregið verði úr hagvexti og hætt að nota peningalega mælikvarða á velferð.
  4. Vinnuvikan verði stytt sem stuðlað getur að minni neyslu og meiri tíma með fjölskyldu og vinum. 
  5. Innflutningur og útflutningur verði minnkaður og stuðst fremur við staðbundinn iðnað í sambandi við matvæli og aðra framleiðslu. 
  6. Dregið verði úr virkjanaframkvæmdum og þær eingöngu leyfðar í sambandi við framleiðslu á rafmagni til umhverfisvænnar starfsemi eins og gróðurhúsaræktar o.fl..
  7. Veitt verði fé til rannsókna á grænum orkugjöfum og öðrum leiðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum
  8. Votlendi verði endurheimt.
  9. Háar álögur verði settar á losun gróðurhúsalofttegunda sem gætu m.a. að skila sér inní borgaralaunakerfið.
  10. Almenningssamgöngur verði stórlega elfdar og dregið að sama skapi úr notkun einkabíla.
  11. Komið verði á hálendisþjóðgarði.

Maðurinn hefur ekki rétt til að taka til sín meira en jörðin þolir með sjálfbærum hætti. Núlifandi kynslóð ber skylda til að skila vistkerfinu í að minnsta kosti eins góðu ástandi og það var í þegar hún tók við því til hinnar næstu.

Til að ná þessum markmiðum þarf að gera grundvallarbreytingar á hagkerfinu, peningakerfinu og neyslusamfélaginu.

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Við viljum opna landamæri í átt til heims án landamæra með frjálsum flutningi fólks milli landa og búseturétti þar sem það kýs að búa.  Við Íslendingar teljum sjálfsagt að hafa þennan rétt og það sama ætti að gilda um allar aðrar þjóðir.

Fyrstu skrefin eru að taka á móti mun fleiri flóttamönnum en við gerum núna. Ísland er meðal ríkustu landa í heimi og við getum tekið á móti mörg þúsund flóttamönnum. Móttaka flóttamanna getur verið útgjaldaauki í fyrstu en rannsóknir hér á landi hafa sýnt að þegar fólk frá öðrum löndum fer að taka þátt í þjóðfélaginu þá verður meiri verðmætasköpun í landinu en ella.

Það þarf að veita mun meira fjármagni til mótttöku hælisleitenda og stöðva allar brottvísanir. Móttaka Íslendinga á þeim sem leitað hafa hælis hér á undanförnum árum er þjóðarskömm og í mörgum tilfellum er um alvarleg mannréttindabrot að ræða þar sem fólk er sent út í opinn dauðann.

Það ríkir mikil hræsni í sambandi við svokallaðan “flóttamannavanda” þar sem milljónir fólks hafa misst heimili sín vegna stríðsátaka og þarf nú að flýja og leita skjóls í Evrópu.  Vesturlönd, þar með talin Evrópa, byggja ennþá á nýlendustefnu og ágirnast auðlindir þeirra landa sem fólkið flýr frá – einkum olíulindir – og beita hervaldi til að ná yfirráðum yfir þeim. Það eru Vesturlönd undir forystu Bandaríkjanna og Nato sem eru orsakavaldarnir af þessum miklu fólksflutningum.

Við Íslendingar styðjum þessar árásir með veru okkar í NATO og stuðningi við árásarstríð Bandaríkjanna. Ísland var meðal viljugra þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna in í Írak 2003. Ísland studdi einnig innrás Nato inn í Lýbanon árið 2011. Báðar þessar innrásir eru taldar hafa stuðlað að því að ISIS samtökin urðu til. Þetta er niðurstaða sérfræðinga í málefnum miðausturlanda og í síðara tilfellinu einnig niðurstaða nýlegrar rannsóknar Breskrar þingnefndar.

Þegar flóttafólkið flýr sprengjuregnið og kemur til Evrópu er því mjög illa tekið og dyrum lokað á það í mörgum löndum og það sent heim. Þetta er eins og að kveikja í húsi og þegar fólkið kemur hlaupandi út þá er því illa tekið og rekið aftur inn í húsið.

Það er mikið ríkidæmi á Vesturlöndum og þau eiga stóra skuld að gjalda þeim stríðsþjáðu löndum sem fólkið er að flýja frá. Þess vegna þurfa lönd Evrópu að bjóða velkomna þessa flóttamenn – Ísland meðtalið – og umfram allt hætta að ráðast á lönd þeirra til að sölsa undir sig auðlindir þeirra heldur bæta þeim það tjón sem  þeim hefur verið búið.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Heilbrigðiskerfið er að þrotum komið og það vantar tugi milljarða króna til þess að endurreisa það.  M.a. þess vegna viljum við húmanistar gjörbreyta fjármálakerfinu. Þjóðarheimilið (heimilin, atvinnulífið, ríkið) greiðir nú hundruðir milljarða króna árlega í vexti.

Við viljum samfélag án vaxta, við viljum ekki að bankar séu reknir í gróðaskyni. Við viljum losa um þetta gífurlega fjármagn, þessar hundruðir milljarða sem renna til bankanna árlega í gegnum vextina og beina því þess í stað til að byggja upp heilbrigðiskerfið og sinna öðrum félagslegum málefnum eins og kjörum öryrkja og eldra fólks og lausn á húsnæðisvandanum.

Við viljum einnig breyta hugsunarhætti í sambandi við heilbrigðiskerfið. Eins og er þá er heilbrigðiskerfið fyrst og fremst sjúkrakerfi fyrir veikt fólk. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að sinna veiku fólki en ennþá betra er að koma í veg fyrir að fólk  verði veikt.

Við viljum draga úr stórum orsakavöldum sjúkdóma eins og áhyggjum og streitu. Rannsóknir benda til þess að með bættum lífsgæðum, heilbrigðum lífsstíl og forvarnarstarfi sé hægt að fækka verulega þeim sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu.

Með þessu verður gífurlegur sparnaður á útgöldum til Heilbrigðiskerfisins. Einnig yrði minnkað verulega vinnutap vegna sjúkdóma og annað tap á framlagi þeirra sem heilbrigðir eru til samfélagsins.

Heilbrigðiskerfið  á að vera öflugt, af bestu gæðum og ókeypis fyrir alla þar með taldar tannlækningar, augnlækningar og sálfræðiþjónusta.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Unnið verði að myndun bandalags við þau ríki sem skuldbinda sig til að koma á raunverulegu lýðræði og grundvallar mannréttindum, svo sem að tryggja afkomu alls almennings. Ákveðið hlutfall af fjárlögum verði ætlað til þess að hjálpa illa stöddum þjóðum til að uppfylla þetta markmið.

Við viljum opna landamæri í átt til heims án landamæra með frjálsum flutningi fólks milli landa og búseturétti þar sem fólk kýs að búa.  Frelsi og jafn réttur verði tryggður fyrir alla menningarheima og trúarbrögð og tryggð verði virðing fyrir fjölbreytileika.

Öllum kjarnavopnum verði eytt án tafar. Ísland hætti þátttöku í árásarstríðum Bandaríkjanna og NATO. Ísland segi sig úr NATO – þessum samtökum sem vilja nota stríð til þess að koma sínu fram. Ágreiningsmál milli landa verði leyst með samkomulagi og þjóðir heims geri sáttmála sín í milli um að ráðast ekki á hvert annað.

Húmanistar hafna stríði sem lausn á deilumálum og hafna einnig öllum hernaðarbandalögum og krefjast þess að árásarherir yfirgefi hernumin svæði.

Húmanistaflokkurinn er alþjóðlegur og alþjóðlega sinnaður  flokkur. Flokkurinn er hins vegar á móti því að Ísland gangi í ESB. Ástæðan er sú að ESB er fyrst og fremst samtök banka og alþjóðlegra fyrirtækja en ekki lýðræðisleg samtök fólksins sem býr í Evrópu.

Við styðjum hins vegar hreyfingu sem komin er af stað og studd af lýðræðissinnuðum öflum, m.a. Húmanistaflokkum í Evrópu, til þess að koma raunverulegu lýðræði í ESB löndunum. Þessi samtök nefnast DIEM 25 og voru stofnuð að frumkvæði hagfræðingsins Yanis Varoufakis fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands.

 

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Húmanistaflokkurinn telur að stjórnarskrárfrumvarpið sem Stjórlagaráð samdi gangi ekki nógu langt í  lýðræðisátt.  Við vildum að heimilað væri að þjóðin greiddi atkvæði um fjármál og skatta en þessi mál eru undanþegin í ákvæðinu um þjóðaratkvæði í frumvarpi Stjórnlagaráð.  Við töldum einnig að nýja stjórnarskráin ætti að fjalla um fjármálakerfið en um það er ekkert fjallað í frumvarpinu.

Hins vegar var stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar var það samþykkt af þjóðinni. Þess vegna telur Húmanistaflokkurinn að stjórnarskrárfrumvarpið ætti að taka gildi þótt við teljum að  það hefði mátt bæta.