piratar

Listabókstafur: X-P
Formaður: Enginn formaður
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 10
Stutt lýsing: Píratar leggja áherslu á borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins, gagnsæi, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Píratar leggja hvað mesta áherslu á að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs. Þær breytingar eru undirstaða þess að hægt sé að ná lýðræðislegri sátt í öðrum málum. Önnur mál, svo sem breytingar á sjávarútvegskerfinu, endurreisn heilbrigðiskerfisins, húsnæðismál, ferðaþjónustumál og menntamál þarfnast nauðsynlega athygli og umbóta. Þetta er ekki tæmandi listi og erfitt að gera upp á milli þessara málaflokka.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Píratar sjá menntun sem grunnstoð nútímasamfélags. Þar sem Píratar eru að grunni til réttindabaráttu­ og lýðræðisflokkur þá telja Píratar mjög nauðsynlegt að virkja lýðræðislega og gagnrýna hugsun í öllu menntakerfinu. Það þarf að tryggja aðgang fyrir alla að menntakerfinu, óháð búsetu og efnahag, og einnig setja jafnari áherslu á mismunandi námsgreinar; svo sem bók­, list­, verk­ og aðrar greinar.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í menntamálum.

Varðandi LÍN þá leggja Píratar áherslu á að tryggja nemendum grunnframfærslu á meðan námi stendur, að tekjur skerði ekki námslán eða námsstyrki og að framfærsla skuli vera greidd fyrirfram og mánaðarlega. Þrátt fyrir að Píratar styðji viðleitni í átt að styrktarkerfi, þá felur LÍN­frumvarpið að okkar mati í sér óásættanlegan niðurskurð, afnám tekjutenginga afborgana, afnám námslána til doktorsnám og aðra þætti sem við getum ekki fallist á.Sjá til dæmis eftirfarandi töflu um afborgunarbyrði námslána:

piratar-lintafla

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Já, Píratar vilja að ríkið styðji við aukið framboð á húsnæði, hvort sem er til leigu eða kaupa, sem og að styrkja samtök sem aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni, hækka húsaleigubætur svo þær miðist við framfærsluviðmið og að stjórnvöld fylgist með verðhækkunum á leigumarkaði til að geta brugðist við óeðlilegri þróun þar. Stöðugur og ódýr leigumarkaður er góður fyrir ungt fólk sem vill flytja að heiman og hefur sömuleiðis kosti fyrir þá sem velja leigu sem varanlegt búsetuform.

Stefna Pírata í byggðarmálum snýst um sjálfsákvörðunarrétt og uppbyggingu nærsamfélagsins. Til þess að búsetukostur teljist raunhæfur fyrir nútímasamfélag þá þarf aðgengi að grunnþjónustu að vera tryggt og skýrt. Markmiðið er að byggja upp öfluga samfélagskjarna sem munu gefa fjölbreyttara val til búsetu en við búum við núna.

4. Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Já, stefna Pírata er að andleg vellíðan og geðheilsa sé órjúfanlegur þáttur af heilsu einstaklinga. Því er það stefna Pírata að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af almennri heilbrigðisþjónustu.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Píratar vilja efla beint lýðræði og þar með auka möguleika ungs fólks eins og annarra Íslendinga til þess að hafa raunveruleg áhrif á samfélag sitt á milli kosninga. Við viljum að stjórnvöld bjóði borgurum og samfélagshópum á borð við ungt fólk sérstaklega til virks samráðs um alla stefnumótun sem við þeim kemur frá upphafi, þannig að þau hafi raunveruleg áhrif á ferlið, t.d. í gegnum samráðsfundi, borgarafundi og internetið. Í stuttu máli viljum við valdefla fólk til þess að geta tekið þátt í ákvörðunum sem það varðar.

Stefna Pírata er einnig að lækka kosningaaldur og kjörgengi niður í 16 ára (á árinu). Sömuleiðis höfum við mikinn áhuga á því að styðja betur við félags­, sjálfboða­ og hagsmunastarf ungmenna á aldrinum 15-­25 ára, sem er mikilvægt í sjálfu sér, byggir upp reynslu og færni í samfélagslegum málefnum sem og tengingu við lýðræðið í heild.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Meginmarkmið umhverfisstefnu Pírata er sjálfbær þróun. Píratar vilja byggja mannlíf og atvinnulíf sem mest á sjálfbærri hugsun og virðingu við alþjóðaviðmið í umhverfismálum.

Náttúra hálendisins er mjög viðkvæm og það þarf sérstaklega að huga að verndun hálendisins. Einnig vilja Píratar draga úr olíunotkun, sem er ósjálfbær orkuauðlind og umhverfisáhrifin ekki þolanleg.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í umhverfismálum.

 

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Píratar eru alþjóðlega sinnaður flokkur sem gerir ekki siðferðislegan greinarmun á fólki eða réttindum þeirra eftir uppruna. Af því leiðir að við teljum nauðsynlegt að Íslendingar geri mun betur í að aðstoða fólk sem er á flótta undan stríði og öðrum hörmungum, m.a. með því að taka á móti mun fleiri flóttamönnum og hælisleitendum en nú er gert.

Sömuleiðis teljum við að samræma skuli íslenska innflytjendastefnu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt gagnvart öllum erlendum ríkisborgurum, hvort sem þeir sækja um hæli eða dvöl, óháð uppruna þeirra. Stefnt er að sem jöfnustum réttindum, aðgengi og tækifærum alls fólks sem á búsetu á Íslandi.

Nauðsynlegt er að leitað sé eftir þátttöku og aðild innflytjenda, flóttamanna, hælisleitenda og ríkisfangslausra við ákvarðanatöku, sérstaklega í málefnum sem varða þá.

Auka ber ferðafrelsi eftir fremsta megni, sérstaklega á milli þjóðríkja.

Sjá grunnstefnu Pírata um innflytjendamál.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Píratar hafa gagnrýnt verulega fjársvelti heilbrigðiskerfisins og vilja styðja mun betur við það, m.a. í samræmi við stefnu okkar um að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls og aðgengileg öllum. Sömuleiðis viljum við að almannatryggingar og þjónusta heilbrigðiskerfisins nái utan um fleiri meðferðarúrræði; svo sem sjúkraendurhæfingu, meðferð við fíkn, sálfræðiþjónustu, öldrunarþjónustu og tannlækningar.

Píratar hafa viðamikla stefnu í heilbrigðismálum sem gengur m.a. út á að gera langtíma­heilbrigðisáætlun þar sem forvarnir gegna stærra hlutverki en nú. Auka verður þjónustu í dreifðri byggð til að tryggja jafnræði í aðgengi og sinna auknu álagi, til dæmis út af fjölgun ferðamanna út um allt land.

Heilbrigðiskerfið á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag og búsetu. Saman höfum við nefnilega efni á öryggi þegar við verðum veik.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í heilbrigðismálum.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Píratar eru eins og áður sagði alþjóðlega sinnaður flokkur og vilja að Ísland taki aukinn þátt í alþjóðlegum verkefnum og samstarfi, t.d. með því að gerast aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu og CERN. Með auknu alþjóðlegu samstarfi í vísindarannsóknum stóraukast möguleikar Íslendinga á atvinnu, menntun og tækniþróun á Íslandi.

Píratar vilja boða til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort klára eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Aðildin sjálf krefst svo að sjálfsögðu annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland vilji gerast meðlimur að Evrópusambandinu sjálfu að loknum aðildaviðræðum.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Samþykkja skal nýja stjórnarskrá þar sem tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar. Píratar leggja gríðarlega áherslu á þetta mál í þessum kosningum og munu gera það á komandi kjörtímabili ef við fáum til þess umboð, enda er löngu kominn tími til að stjórnvöld efli loforð sitt um nýja og nútímalegri stjórnarskrá þjóðarinnar og virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór 20. október 2012.