logo-01

Listabókstafur: X-S
Formaður: Logi Már Einarsson
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 3
Stutt lýsing: Flokkurinn staðsetur sig vinstra megin við miðju og eru þrjú grunngildi hans jafnaðarstefna, félagshyggja og kvenfrelsi.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Endurreisn heilbrigðiskerfisins með því að styðja mun betur við opinbera hluta þess

Fyrr á þessu ári skrifuðu 87.000 Íslendingar undir áskorun um meira fé til heilbrigðismála. Það gengur ekki að veikt fólk fái ekki viðunandi þjónustu, komist ekki í bráðnauðsynlegar aðgerðir eða þurfi að húka úti á gangi eða inni á salerni þegar það fær loksins þjónustu. Það er sérstaklega sárt að horfa upp á þetta á meðan efnahagurinn er á uppleið og útgerðin græðir á tá og fingri.

Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra eiga að hafa forgang. Þeir eiga að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land án þess að taka upp veskið.

Við ætlum að byggja upp besta heilbrigðiskerfi í heimi. Sem á að vera ókeypis, alltaf.

 • Við ætlum að auka aðgengi að sálfræði– og geðheilbrigðisþjónustu og gera hana gjaldfrjálsa fyrir framhaldsskólanema.
 • Við ætlum að reisa nýjan Landspítala og byggja fleiri hjúkrunarheimili.
 • Við ætlum að efla heilsugæslu, sem tekur á móti öllum.
 • Við ætlum að útrýma biðlistunum, þeir eru óþolandi.

 

Tvöföldun á stuðningi við barnafjölskyldur

Það er allt of mikið af ungu fólki sem getur ekki flutt að heiman, eða velkist milli dýrra leiguíbúða á árs fresti og nær aldrei að safna fyrir útborgun á íbúð. Það er allt of mikið af barnafólki sem nær ekki endum saman – þúsundir barna búa við skort og er ástandið verst fyrir börn á leigumarkaði. Á sama tíma á ríkasta 1% landsmanna 507 milljarða í hreinni eign.

Samfylkingin ætlar að bjóða strax upp á betri stuðning við leigjendur, úrræði fyrir fyrstu kaupendur,  hærri barnbætur og betra fæðingarorlof. Við ætlum að setja aukið fjármagn í verkefnið sem nemur tvöföldun á þeim stuðningi sem barnafjölskyldur fá í dag í formi barnabóta og fæðingarorlofsgreiðslna.

Í hnotskurn

 • Við ætlum að styðja betur við leigjendur með
  • því að tryggja byggingu 5000 nýrra leiguíbúða á næstu 4 árum, þar af 1000 stúdentaíbúða,
  • nýjum og hærri húsnæðisbótum með mun minni tekjutengingu en nú.
 • Við ætlum að styðja betur við fyrstu kaupendur og auðvelda þeim að eignast eigin húsnæði.
 • Við ætlum að hlúa að barnafjölskyldum með því að
  • hækka barnabætur þeirra 30.000 fjölskyldna sem njóta þeirra núþegar,
  • Oog láta þær ná til 9000 fjölskyldna sem ekkert fá frá kerfinu í dag.
 • Við ætlum að tryggja betra fæðingarorlof með því að
  • lengja orlofið í 12 mánuði,
  • hækka svo þak hámarksgreiðslna í 600.000 kr.

Tryggja öldruðum og öryrkjum a.m.k. 300 þúsund króna mánaðargreiðslur árið 2018

Laun aldraðra og öryrkja verða að nægja til að lifa góðu lífi.

Við ætlum að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja þannig að þær verði 300.000 kr. á mánuði að lágmarki.  Við lögðum fram tillögur á Alþingi um þetta í vor en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framskóknar felldi þær. Einnig viljum við afturvirkar hækkanir frá 1. maí 2016 en þá hækkuðu lægstu laun á vinnumarkaði. Við ætlum ekki að skilja aldraða og öryrkja eina eftir.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Allir eigi þess kost að afla sér menntunar og styrkja stöðu sína. Þar á hvorki aldur, stétt né efnahagur að vera hindrun. Fjölbreytt námsframboð og gott aðgengi að skólum, dreif- og fjarkennslu um allt land sem tengir saman atvinnustefnu, menntastefnu og byggðastefnu er markmið okkar. Við munum afnema reglu sem meinar 25 ára og eldri inngöngu í framhaldsskóla.

Það verður að auka framlög til menntunar. Við erum langt á eftir hinum norrænu ríkjunum þegar að litið er fjárframlaga til háskóla og þar ætlum við að jafna leikinn. Góðir háskólar eru  nauðsynlegir drifkraftar fyrir heilbrigðan vinnumarkað sem býður upp á fjölbreytt og vel launuð störf.  

Um LÍN frumvarp ríkisstjórnarinnar

Við viljum tryggja öllum jafnrétti til náms og að fólk geti sótt sér það nám sem því hentar. Því miður vinnur frumvarp sitjandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ekki að þeim markmiðum. Þar á hækka vexti af lánunum og afnema tekjutengdar afborganir sem bitnar á þeim sem helst þurfa á námslanum að halda: námsmönnum sem koma frá efnaminni fjölskyldum, þeim sem sjá ekki fram á miklar tekjur að námi loknu, íbúum landsbyggðarinnar sem eiga ekki kost á að búa í foreldrahúsum. Þess vegna leggjumst við alfarið gegn frumvarpinu.

 

Hækka verður framfærslu námsmanna, sérstaklega þeirra sem búa erlendis en framfærsla þeirra er hefur dregist mikið saman á liðnu kjörtímabili. Við ætlum að styðja betur við námsmenn og viljum að hluti lána breytist í styrki en þó ekki þannig að greiðslubyrði fólks verði meiri. Við viljum auka sveigjanleika LÍN í samskiptum við fólk og styrkja félagslegt hlutverk hans. Taka á upp samtímagreiðslur námslána og hækka frítekjumark námsmanna til að koma til móts við þá sem vilja stunda vinnu í námsleyfum án þess að sæta stórfelldum skerðingum lána.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Já, svo sannarlega. Við ætlum að tryggja það að að lágmarki 4000 nýjar leiguíbúðir verði byggðar á kjörtímabilinu, auk 1000 stúdentaíbúða, og fjölga þannig valkostum fólks og ýta leiguverði niður.

Við viljum styðja betur við leigjendur með hærri húsaleigubótum og gera stuðning við leigjendur sambærilegan við þann sem eigendur njóta.

Það hafa ekki mörg ungmenni efni á margra milljóna útborgun fyrir fyrstu íbúð. Við viljum styðja betur við fyrstu íbúðarkaupendur en staða þeirra er óviðunandi í dag. Aðgerðir sitjandi ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í húsnæðismálum hafa allar komið best út fyrir þá efnameiri og eldri. Nú þarf að styðja ungt fólk og þá sem helst þurfa á stuðningi að halda. Við eigum öll að hafa aðgang að öruggu húsnæði á Íslandi.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Já, eitt af stóru kosningamálum okkar er endurreisn heilbrigðiskerfisins. Eitt af markmiðunum þar er gjaldfrjáls sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Við ætlum að byrja á því að gera sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri fyrir framhaldsskólanema – og ókeypis.

Því miður eru alltof margir, sérstaklega ungt fólk, sem þurfa að neita sér um nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu með slæmum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið allt.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?
 • Við ætlum að styrkja barnafjölskyldur sérstaklega og byggja upp menntakerfið. Við viljum stöðva landflótta ungs og efnilegs fólks með því að hjálpa til við að skapa fjölbreytt og vel launuð störf með því að efla nýsköpun og fjárfesta meira í menntun. Við viljum bjóða út fiskveiðikvóta og nýta auknar tekjur til bæta heilbrigðiskerfið og bjóða ungu fólki upp á betri aðstæður.
 • Við ætlum að auðvelda fólki að flytja heiman og búa í húsnæði sem hentar þeirra aðstæðum. Við viljum skapa aðstæður fyrir styttri vinnuviku og aukna samveru barna með foreldrum sínum.
 • Við ætlum tvöfalda þá upphæð sem fer í stuðning til barnafjölskyldna.
 • Við ætlum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækka viðmiðunarupphæðina í fæðingarorlofi í 600 þúsund krónur á mánuði. Þannig er unnið gegn þeirri þróun að færri feður taka fæðingarorlof. Jafnframt þarf að tryggja að börn geti komist á leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur.
 • Við ætlum okkur að útrýma launamun kynjanna. Það er fullkomlega óþolandi að kynin fái ekki jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Þar verður að bæta úr! Við viljum sjá fleiri konu í stjórnunarstöðum – halda áfram á þeirri vegferð sem hófst árið 2010 þegar settir voru kynjakvótar í stjórnir stærstu fyrirtækjanna.
 • Við viljum færa kosningaaldur niður í 16 ár.
Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Að vinna gegn hlýnun jarðar er stærsta og mikilvægasta sameiginlega verkefni mannskyns. Við eigum að gera aðgerðaráætlun þar sem tilgreint er hvaða skref við ætlum að stíga og hvað hvert skref dregur mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar má nefnda orkuskipti í samgöngum og aðgerðir til að auka votlendi aftur hér á landi. Losun gróðurhúsalofttegunda spyr ekki um landamæri og áhrifin á súrnun sjávar er stórkostlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Við ætlum að vera fyrirmynd annarra í þessum málum.

Bann við plastpokanotkun og notkun plastíláta er einnig skref í þá átt að draga úr mengun sjávar. Við viljum fylgja rammaáætlun sem sátt á milli þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja vernda virkjunarkosti okkar. Þjóðgarður á miðhálendinu er mikilvægt umhverfismál sem við ætlum að vinna að.

 

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Samfylkingin hefur alltaf lagt áherslu á að Ísland taki á móti fleira flóttafólki. Innflytjendur og flóttafólk auðga íslenskt samfélag og menningu.

Á síðasti ári lögðum við fram tillögu að þingsályktun á Alþingi um að taka eigi á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum.

Við leggjum áherslu á að:

 • Bjóða fleiri fjölskyldur frá stríðshrjáðum ríkjum velkomnar til Íslands.
 • Sameina fjölskyldur á flótta.
 • Hælisleitendum sem koma til Íslands á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum sé veitt sérstök þjónusta.
 • Hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám.
 • Foreldrar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga.
 • Flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér á landi.
 • Vinna gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar.
 • Íslenskt samfélag sé alþjóðlegt og byggi á fjölbreytni og frjálsu flæði einstaklinga og fjölskyldna milli landa.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun, hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig mótum við samfélag þar sem borgarar bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta jafnréttis. Ísland er heimili okkar allra.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Við ætlum að efla opinberahluta heilbrigðiskerfisins. Stórauka á fjárframlög til kerfisins með það að markmið að þau nái 11% af landsframleiðslu eins og var markmið undirskriftarsöfnunarinnar endurreisn.is.

Þá getum við stytt biðlista þannig engin þurfi að bíða lengur en tvo mánuði eftir viðeigandi aðgerð eða þjónustu. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og þar er fyrstu skrefin að lækka kostnað langveikra og gera geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu aðgengilega fyrir alla. Við ætlum ekki að rukka fólk þegar að það stendur veikast fyrir og þarf helst á stuðningi að halda.

 

Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem kenna sér meins og bjóði upp á sálfræðiþjónustu. Við viljum að læknar verði í fullu starfi á spítölum landsins en í dag eru margir í hlutastarfi sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítala óhagkvæma.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Við viljum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðan við ESB. Þjóðin á að ráða för í þessu risastóra hagsmunamáli með það fyrir augum að hér verði hægt að njóta annarra valkosta í gjaldeyrismálum.

Samfylkingin hefur til margra ára talað fyrir því að hagsmunum Ísland sé best borgið innan Evrópusambandsins. Margfalt hærri vextir hér á landi rýra lífskjör fólks hér og hækka húsnæðiskostnað fram úr hófi. Besta leiðin til að lækka vexti og tryggja stöðugleika er að taka upp evru samhliða inngöngu í Evrópusambandið. Upptaka evru er líka nauðsynleg til að skapa betri starfsskilyrði hér á landi fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og í nýsköpun.

Samfylkingin vill að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir frjálsri Palestínu, aukinni þróunarsamvinnu, vinni að auknu jafnrétti kynjanna, friðsamlegum lausnum í deilumálum, umhverfisvernd og alvöru aðgerðum til að berjast gegn hlýnun jarðar. Við ætlum að berjast gegn aukinni misskiptingu í heiminum og fyrir mannréttindum allra við hlið systurflokka okkar sem eru leiðandi á þessum sviðum. Það gerum við með best með góðri samvinnu við önnur lýðræðisríki, virkri þátttöku innan alþjóðasamfélagsins og á vettvangi Evrópusambandsins.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá

Eitt af okkar fyrstu verkum verður að halda áfram þar sem frá var horfið vorið 2013 við gerð nýrrar stjórnarskrár. Við ætlum í þeirri vinnu að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá frá því í október 2012. Fullbúin stjórnarskrá verði borin undir þjóðina fyrir lok kjörtímabilsins.