xd_logo-small

Listabókstafur: X-D
Formaður: Bjarni Benediktsson
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 21
Stutt lýsing: ,,Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Heilbrigðismál

Við ætlum að halda áfram að endurreisa heilbrigðiskerfið. Efnahagur fólks á ekki að ráða aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Kostnaður má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Við ætlum að halda áfram að draga úr kostnaði sjúklinga við og bæta áfram aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fjármögnun nýs spítala hefur verið tryggð og fjölga verður heilsugæslustöðuvm. Þannig bætum við aðbúnað sjúklinga, aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks.

 

Húsnæðis- og menntamál

Við viljum að ungu fólki verði auðveldað að kaupa sína fyrstu fasteign. Við styðjum það að ungt fólk geti staðið á eigin fótum undir eigin þaki. Við munum líka stuðla að virkari sölu- og leigumarkaði. Við ætlum að einfalda byggingareglugerð og lækka þannig byggingakostnað. Þá þarf ríkið að hætta að skipta sér af greiðslumati og ábyrgðum. Við erum þegar byrjuð að horfast í augu við vandann og kynna raunhæfar lausnir til að hjálpa ungu fólki að flytja af æskuheimilinu. Séreignasparnaðarleiðin hvetur ungt fólk til sparnaðar sem nýta má skattfrjálst til íbúðarkaupa eða niðurgreiðslu á húsnæðisláni. Við erum á réttri leið – höldum áfram.

Öll erum við ólík og tryggja þarf aðgengi að fjölbreyttri menntun. Kerfið á ekki að steypa alla í sama mót. Menntuð þjóð er grundvöllur hagvaxtar og bættra lífskjara og góð menntun er lykill að lífsgæðum einstaklinga og opnu samfélagi. Við höfum lagt fram frumvarp þar sem öllum námsmönnum verður í fyrsta sinn tryggð full framfærsla með námsstyrkjum sem mun auka jafnrétti til háskólanáms. Frumvarpið gerir líka ráð fyrir því að greiðslubyrði af námslánum muni almennt verða léttari. Vonandi frumvarpið að lögum fyrir kosningar, en takist það ekki munum við berjast fyrir því að svo verði á næsta kjörtímabili.

Efnahagsmál

Okkur hefur tekist að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og munum viðhalda honum. Sjálfstæðisflokkurinn hugsar til lengri tíma, framtíðarsýn er mikilvæg. Stöðugleikinn í efnahagsmálum er ákaflega mikilvægur fyrir alla því þegar vel gengur í hagkerfinu er meira til skiptanna. Stöugleiki skapar líka svigrúm til að efla heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu til framtíðar. Við þurfum því að halda áfram á þeirri braut.

Við ætlum áfram að tryggja bætt lífskjör fólks með lægri sköttum og sterkri grunnþjónustu. Að lækka og einfalda skatta stuðlar að því að einstaklingar hafi meira í vasanum um hver mánaðarmót. Einstaklingar eru nefnilega betur til þess fallnir að ráðstafa sínum eigin pening en ríkið. Við höfum því þegar tryggt að tekjuskattur lækki á einstaklinga um næstu áramót, afnumið tolla og vörugjöld sem skila sér í lægra vöruverði á fötum og öðrum vörum hér á landi svo fólk þurfi ekki að æða til útlanda til að versla, við styrkjum íslenska verslun. Með því að skapa svigrúm fyrir einstaklinginn til að sækja fram og grípa ný tækifæri eflum við atvinnusköpun um land allt.  

Við munum áfram greiða niður skuldir ríkisins af því að það er grátlegt að sóa fjármunum í vaxtagreiðslur þegar hægt væri að nýta þá fjármuni í eitthvað sem kemur fólki til góða, eins og t.d. öflugri heilbrigðisþjónustu.

 

Við erum á réttri leið.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

 

 • Auka skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum.
 • Nýta betur tækniþróun og samskiptatækni til menntamála.
 • Auka framlög til háskólastigsins til meðaltals OECD-landa
 • Efla verknám almennt og ekki síst menntun fyrir fólk í ferðaþjónustu.
 • Hlúð verði að menningu og listum. Listnám og skapandi greinar efldar á öllum skólastigum.
 • Auka vægi íþrótta og heilsuræktar í tengslum við skólastarf.

 

Sjálfstæðisflokkurinn styður valfrelsi í menntamálum. Að menntakerfið bregðist við fjölbreytni einstaklinganna og steypi ekki alla í sama mót.  Við viljum því fjölga sjálfstætt starfandi skólum einkum á grunnskólastigi og tryggja að námið sé fjölbreytt. Nemendur eiga að hafa raunverulegt val um námsleiðir á öllum skólastigum þannig allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Tryggja þarf að allir þeir sem útskrifast úr grunnskóla geti lesið sér til gagns. Sjálfstæðisflokkurinn setti nýlega í gang lestrarátak um allt land sem var afar vel tekið bæði af kennurum og nemendum. Við viljum halda áfram á þessari braut. Það þarf líka að auka sveigjanleiki á milli skólastiga, þannig að leikskólabörn geti farið yngri í grunnskóla og grunnskólanemar geti lokið framhaldsskólaáföngum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka efla verknám og gera nemendum auðveldara að komast á samning, til dæmis með því að tryggja samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Við viljum efla listnám á öllum skólastigum ásamt því að skapandi greinar, forritun og hönnun verði kennd á almennu grunn- og framhaldsskólastigi.

Breyta þarf lánakerfinu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) býður upp á og koma betur til móts við einstaklinginn sem er í námi. Gera þarf kerfið einfaldara og sanngjarnara fyrir alla. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram frumvarp til laga á Alþingi nú fyrir stuttu sem leggur til breytingar á kerfinu, öllum til hagsbóta. Þær breytingar eru studdar af öllum stærstu nemendafélögum á háskólastigi sem sýnir að frumvarpið ber hag námsmanna fyrir brjósti. Höldum áfram á þessari braut.

Sjá nánar á www.xd.is

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

 

 • Við ætlum að auðvelda fyrstu íbúðarkaup ungs fólks
 • Stuðlað verður að virkari sölu- og leigumarkaði
 • Byggingarreglugerð verði einfölduð og byggingarkostnaður þannig lækkaður
 • Afskiptum hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum verði hætt
 • Ríki og sveitarfélög stuðli að jafnvægi á fasteignamarkaði

 

Já, og erum þegar byrjuð á því. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum nefnilega að allir geti keypt sér sitt eigið húsnæði og staðið á eigin fótum án ölmusu frá ríkisvaldinu. Á kjörtímabilinu kynntum við til leiks nýja leið til þess að auðvelda fólki að kaupa sér sína fyrstu fasteign – Séreignarsparnaðarleiðina.

Séreignasparnaður safnast upp hjá hverjum og einum sem leggur sjálfur til 2% af launum sínum á meðan vinnuveitandinn leggur 2% á móti. Það jafnast á við launahækkun í formi sparnaðar.

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins heimilar því ungu fólki skattfrjálsa úttekt á séreignasparnaðinum sínum. Þá upphæð má svo nýta til að koma eigin þaki yfir höfuðið á eigin verðleikum. Upphæðina er líka hægt að nota til þess að borga inná húsnæðislánið eða greiða niður höfuðstólinn skattfrjálst í 10 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka einfalda reglur í kringum byggingu húsnæðis á Íslandi. Mjög íþyngjandi byggingareglugerðir draga úr uppbyggingu lítilla, hagkvæmra og ódýrra íbúða sem henta best ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref. Sjálfstæðisflokkurinn vill að folk eigi val og hægt sé að byggja venjulegt húsnæði, fyrir venjulegt fólk á venjulegu verði. Þannig komist fleiri í eigið húsnæði sem henti hverjum og einum.  Ríkisvaldið er ekki lausnin á húsnæðismarkaði heldur vandamálið. Við styðjum einfalt regluverk.

Sjá nánar á www.xd.is

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?
 • Við ætlum að bæta áfram aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
 • Við ætlum að fylgja eftir nýsamþykktri geðheilbrigðisstefnu
 • Framboð á sálfræðiþjónustu í heilsugæslu verður aukið
 • Við ætlum að koma á fót geðheilsuteymi
 • Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans verður styrkt
 • Stuðla verður að markvissri geðrækt í skólum þar sem skimað verður fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna

Við höfum mótað heildræna stefnu í geðheilbrigðismálum, þar sem áhersla er lögð á að greina og taka á vandamálum á fyrstu stigum, bæði í heilbrigðiskerfinu og með félagslegum úrræðum. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál. Þá er lagt til að framboð sálfræðiþjónustu í heilsugæslu verði aukið, komið verði á fót geðheilsuteymum, barna- og unglingageðdeild Landspítala verði styrkt og einnig að stuðningur við börn sem eiga foreldra með geðvanda verði aukinn.Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði. Við munum bæta aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu.

 

Sjá nánar á www.xd.is

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

 

 • Við ætlum að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum
 • Við ætlum að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman
 • Auka jafnrétti til háskólanáms og tryggja framfærslu nemenda með námsstyrkjum
 • Við ætlum að efla menntakerfið og styrkja heilbrigðiskerfið

 

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum að ungt fólk grípi tækifærin hér en ekki í útlöndum. Við höfum því unnið sleitulaust að því á liðnu kjörtímabili að gera íslenskt samfélag þannig úr garði að hér vilji ungt fólk búa, vinna og vera með fjölskyldu sína um aldur og ævi. Við höfum framtíðarsýn og framkvæmum hana – við viljum því halda áfram á þeirri braut. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra framtíðarsýn og hugsi lengra fram í tímann en aðeins til næsta árs.

Við höfum gert ungu fólki auðveldara með að eignast eigið húsnæði á Íslandi með séreignasparnaðarleiðinni og viljum halda áfram og einfalda regluverk og aflétta margvíslegum kröfum sem keyra upp húsnæðisverð. Við viljum að ungt fólk geti komið undir sig fótunum hér á landi með vinnusemi og frjálsu framtaki. Þess vegna höfum við afnumið ýmis gjöld og skatta og einfaldað regluverkið hér á landi. Um áramótin dettur út milliþrep tekjuskattsins og ungar fjölskyldur sem áður lenntu í mikilli skattheimtu hafa meira á milli handanna. Við viljum afnema ríkisafskipti af nöfnum fólks og lögðum því fram frumvarp á kjörtímabilinu sem leggur niður mannanafnanefnd – það mál er enn óklárað og við viljum klára það. Við viljum líka afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að selja áfengi eins og aðrar löglegar vörur. Við lögðum fram frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu en það er enn óklárað og við viljum klára það. Við viljum að það sé betra að versla á Íslandi en í útlöndum. Við höfum því afnumið tolla og vörugjöld og tryggt að íslensk verslun sé samkeppnishæf. Hingað eru nú á leiðinni H&M og Costco.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

 

 • Sátt um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
 • Gjaldtaka við náttúruperlur
 • Sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu ríkisins
 • Nýtum vistvæna orku – drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda

 

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir víðtækri sátt um nýtingu náttúruauðlinda. Standa vörð um náttúruna og gæta þess að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti og með virðingu fyrir náttúrufegurð og lífríki. Það mun auka lífsgæði og velferð þjóðarinnar.

Gæta þarf að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila, en nýtingin þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka með sama hætti og gilt hefur um sjávarútveg.

Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga þegar slíkt er ekki brýn nauðsyn vegna þjóðarhags.

Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnuuppbyggingu með hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, en sjálfbærni hennar og virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt skilyrði. Í því skyni er brýnt að bæta raforkuflutningskerfi landsins. Við viljum nýta samkeppnisforskot umhverfisvænnar orku og leggja okkar af mörkum í þágu hnattrænnar sjálfbærni í orkumálum.

Fylgja skal í einu og öllu því ferli sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í því felst að ekki verði vikið frá kröfum um virkt umhverfismat á öllum stigum. Einnig að leitað verði sátta á sem breiðustum grundvelli og að tekið verði tillit til athugasemda frá almenningi, fagfólki og hagsmunaaðilum eftir að tillögur verkefnastjórnar liggja fyrir.

Miðhálendi Íslands er einstakur staður á heimsvísu, óspillt víðerni sem illa má við raski. Mikilvæg mannvirkjagerð, líkt og fyrir flutningskerfi raforku, yrði þar til svo mikilla lýta, að allar aðrar leiðir hljóta að koma fyrst til álita.

Náttúruvá vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum verður að taka alvarlega og við þurfum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda með minni bruna og kolefnisbindingu með eflingu gróðurlenda.

Sjá nánar á www.xd.is

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

 

 • Móttaka flóttafólks er sjálfsögð
 • Aðstoð við flóttafólk leiði til tækifæra til sjálfsbjargar
 • Tökum vel á móti útlendingum sem hér setjast að

 

Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Jafnframt skal alltaf hafa að leiðarljósi að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til sjálfsbjargar. Móttaka flóttafólks er sjálfsögð. Leggja skal áherslu á að kerfið sé í stakk búið til að taka á móti fólki og vanda til verka, flóttafólki og samfélaginu til heilla. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar í kjölfar neyðar sem skapast hefur í Evrópu undanfarin misseri.

Í fjölmenningarsamfélagi er mannauður og fjölbreytt reynsla til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga og víðsýni. Taka skal vel á móti fólki sem hingað vill flytja og tryggja að það njóti jafnra tækifæra á við aðra.

Tryggja þarf samkeppnishæfni landsins, með því að einfalda veitingu atvinnuleyfa, meta menntun þeirra sem hingað leita að verðleikum og tryggja að aðbúnaður á íslandi geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Sjá nánar á www.xd.is

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

 

 • Tryggja aðgengi og jafnan rétt allra landsmanna að nauðsynlegri, öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu.
 • Geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd
 • Lækkun lyfja- og sjúkrakostnaðar einstaklinga. Lög sett sem tryggja þak á kostnað einstaklinga
 • Uppbygging Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut, fjármögnun hefur verið tryggð
 • Forvarnir og heilsuefling almennings
 • Heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað en styrkja verður grunn heilbrigðisþjónustunnar enn frekar
 • Áframhaldandi átak í að stytta biðlista
 • Aukin þjónusta við aldraða
 • Heildstæð heilbrigðisstefna mótuð og henni hrint í framkvæmd
 • Stefna um fjarheilbrigðisþjónustu

 

Liðlega 38 milljörðum króna meira hefur verið varið í heilbrigðismál á kjörtímabilinu en áður. Það er raunaukning á framlögum til heilbrigðismála upp á 16%. Það munar um minna. Vel tókst til við að verja og efla heilbrigðiskerfið á erfiðum tímum. Nú er komið að uppbygginu en forsenda uppbyggingar í þessum málaflokki er stöðugleiki í efnahagsmálum. Þá þarf að greiða niður skuldir ríkissjóðs en þannig skapast aukið svigrúm til að ráðstafa fjármunum í heilbrigðismálin.

Efnahagur fólks á ekki ráða aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Kostnaður má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt, í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs, að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar og færa hana til til jafns við það sem þekkist á Norðurlöndum.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu sem er einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og mikilvægur þáttur í að tryggja góð lífskjör og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Jafn aðgangur og réttur til heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, skal vera ófrávíkjanlegur hluti af heilbrigðisstefnunni.

Sjá nánar á www.xd.is

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

 

 • Frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi
 • Ísland standi utan ESB
 • Tengsl við Bretland eftir Brexit tryggð
 • Fríverslunarsamnings við Bandaríkin leitað
 • Utanríkisstefnan grundvöluð á norrænu samstarfi, EFTA- EES og NATO
 • Hagsmuna Íslands á norðurslóðum gætt

 

Ísland á að beita sér fyrir frjálsum viðskiptum á alþjóðavettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn vill kappkosta að treysta tengslin við Bretland þar sem úrsögn þess úr Evrópusambandinu er í undirbúningi. Eins er brýnt að leitað verði eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin og víðar um heim. Sjálfstæðisflokkyrinn telur að hagmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins. Aðildarviðræður má ekki hefja að nýju nema þjóðin verði fyrst spurð í beinni atkvæðagreiðslu hvort hún óski eftir aðild að ESB.

Forsendur þess að bæta kjör íbúa fátækustu ríkja heims eru aukin utanríkisviðskipti og virðing fyrir umhverfismálum. Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að reisa viðskiptamúra gegn þeim.

Sjá nánar á www.xd.is

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

 

 • Stjórnarskráin er grunnlög landsins og breytingar á henni geta reynst afdrifaríkar
 • Vanda þarf breytingar og forðast kollsteypur
 • Víðtæk sátt þarf að vera um stjórnarskrárbreytingar

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill fara varlega í breytingar á stjórnarskránni. Heildarendurskoðun og umbylting á öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist ekki sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika í stjórnskipun landsins og fyrirsjáanleika í samfélaginu. Það þarf því að gæta vel að öllum breytingum og að þær fari ekki í gegn nema um þær ríki sátt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að mikilvægum breytingum á stjórnarskránni, síðast árið 1995 þegar mannréttindi fólks voru tryggð í stjórnarskrá.

Við í Sjálfstæðisflokknum teljum einnig að þær tillögur sem liggja nú fyrir frá stjórnarskrárnefnd séu góður grunnur að breytingum á stjórnarskránni t.d. ákvæði um þjóðaratkvæðisgreiðslur, án þess þó að kollvarpa henni. En breytingar þarf að gera í áföngum til að tryggja þannig stöðugleika í stjórnskipun landsins.