Helstu stefnumál

 Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Alþýðufylkingin

Við erum með þriggja liða „neyðaráætlun“, hluti sem við gerum í fyrstu viku ef við fáum tækifæri til þess. Það er: (1) Færa örorkubætur upp í samræmi við launaþróun í landinu frá hruni. (2) Stöðva alla sölu ríkiseigna þangað til tími gefst til að velja hverjar eiga að vera félagslega reknar. (3) Setja a.m.k. milljarð í Landspítalann undir eins, áður en byrjað er á kerfisbreytingum.

Félagsvæðing fjármálakerfisins er okkar aðalmál, og samhliða því félagsvæðing innviða samfélagsins. Með félagsvæðingu meinum við andstæðuna við markaðsvæðingu: að taka eigi viðkomandi starfsemi úr rekstri þar sem borga þarf einhverjum gróða, og reka hana í staðinn sem þjónustu við samfélagið, sem er rekin af samfélaginu. Með fjármálakerfið þýðir það að hið opinbera ætti að reka banka sem veitir lán og aðra fjármálaþjónustu án þess að taka af því gróða, tekur s.s. ekki vexti af lánum, og veitir fólki þannig húsnæðislán af hóflegri stærð.

Björt framtíð

Græn framtíð

Við viljum ganga vel um landið okkar, minnka mengun, stofna miðhálendisþjóðgarð og koma Íslandi í forystu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Skapandi framtíð

Við viljum byggja samfélagið á skapandi lausnum ásamt því að efla skapandi hugsun, sköpunargáfu og sköpunargleði þjóðarinnar.

Heiðarleg framtíð

Við viljum heiðarleg stjórnmál, gagnsæi og opin vinnubrögð. Þess vegna erum við að kjósa núna.

Ef þú vilt kynna þér fyrir hvað Björt framtíð stendur þá mælum við með að þú lesir Ályktunina okkar og einnig getur þú kynnt þér málin okkar sem við lögðum fyrir þingið á kjörtímabilinu 2013-2016. Sérstakar áherslur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og það sem var á döfinni í okkar ráðuneytum má svo lesa um í ályktun ársfundar 2017.

Dögun

AUKIÐ LÝÐRÆÐI

 • Róttækar lýðræðisbreytingar, ný stjórnarskrá, beint lýðræði og aukið vald til almennings

EFNAHAGS- OG KVÓTAKERFI FYRIR FÓLKIÐ Í LANDINU

 • Við viljum róttækar breytingar á þessum kerfum til að hægt sé að búa öllum hópum samfélagsins velferð og mannréttindi.
 • Við viljum færa hagnað af auðlindum þjóðarinnar, bæði á landi og til sjós aftur til almennings þar sem hann á heima!
 • Við viljum stofna samfélagsbanka sem er viðskiptabanki fyrir fólk sem stundar ekki áhættufjárfestingar með pening fólksins.

ÞAK YFIR HÖFUÐIÐ FYRIR ALLA

 • Öruggt húsnæði er sjálfsögð mannréttindi
 • Við viljum að allir geti átt þak yfir höfuðið á sanngjörnu verði og að langtímaréttur leigjenda sé tryggður.
 • Við viljum búa í haginn fyrir leigufélög sem hafa ekki það meginmarkmið að græða á fólki
Framsókn

a) Tryggja að allir geti menntað sig eins og þeir vilja óháð búsetu, efnahag og aldri. Ísland er í dag vel statt fjárhagslega en raunverulegt ríkidæmi felst fyrst og fremst í upplýstu og menntuðu samfélagi.

b) Geðheilbrigðisþjónusta verði niðurgreidd líkt og almenn sjúkraþjónusta. Það á ekki að skipta máli hvort þú þurfir læknisaðstoð vegna meiðsla á fæti eða andlegra veikinda, bæði tilvik eiga að vera niðurgreidd af ríkinu.

c) Umhverfismál eru eitt stærsta mál samtímans og framtíðarinnar. Ungir framsóknarmenn leggja mikla áherslu á að Ísland verði fyrirmyndir annarra þjóða í umgengni um náttúruna, haldi áfram sinni stefnu um sjálfbæra nýtingu auðlinda, minnki losun á gróðurhúsalofttegundum, endurvinni og minnki sóun og banni einnota plastumbúðir í ætt við það sem Frakkar gerðu nýlega.
Húmanistaflokkurinn

Umhverfismál:

Gegndarlaus ofneysla, losun gróðurhúsaloftegunda og notkun jarðefna eins og olíu til orkuöflunar veldur hlýnun jarðar og ógnar vistkerfinu sem við búum í og þar með mannkyninu öllu og lífríkinu. Við Íslendingar þurfum að leggja fram okkar skerf og bregðast skjótt við til að snúa þessari þróun við. Við þurfum að draga stórlega úr vistspori Íslands á allra næstu árum til þess að við Íslendingar komumst í hóp þess helmings mannkyns sem mengar minnst.

Utanríkismál/friðarmál:

Afnám kjarnorkuvopna tafarlaust og Ísland hætti þátttöku í árásarstríðum Bandaríkjanna og NATO. Ísland segi sig úr NATO – þessum samtökum sem vilja nota stríð til þess að koma sínu fram. Ágreiningsmál milli landa verði leyst með samkomulagi og þjóðir heims geri sáttmála sín í milli um að ráðast ekki hver á aðra.

Efnahagsmál:

Húmanistaflokkurinn vill gera grundvallar kerfisbreytingar á núverandi efnahagskerfi sem olli m.a. síðasta efnahagshruni sem var það stærsta í sögunni hingað til. Húmanistaflokkurinn vill nýtt efnahagskerfi  án vaxta. Þjóðarheimilið (heimilin, atvinnulífið og ríkið) borgar nú 4 – 500 milljarða í vexti á ári sem aðeins þjónar ofurríkrum eigendum bankanna en ekki almenningi. Við teljum að bankar ættu ekki að vera reknir í gróðaskyni heldur til að þjóna samfélaginu. Í vaxtalausu bankakerfi yrði hægt að losa um þetta fjármagn og beina því til þess að sinna félagslegum málefnum eins og að byggja upp heilbrigðiskerfið, sinna málefnum öryrkja og aldraðra og leysa húsnæðisvandann.

Tekið verði upp þjóðpeningakerfi eins og samtökin Betra peningakerfi leggja til þar sem peningakerfið yrði sett undir lýðræðislega stjórn. Þjóðpeningakerfið myndi forða efnahagshruni á borð við það sem gerðist árið 2008 í núverandi kerfi, sjá: www. betra peningakerfi.is .

Í nýju efnahagskerfi ætti að taka upp óskilyrta grunnframfærslu (borgaralaun).

Píratar

Píratar leggja hvað mesta áherslu á að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs. Þær breytingar eru undirstaða þess að hægt sé að ná lýðræðislegri sátt í öðrum málum. Önnur mál, svo sem breytingar á sjávarútvegskerfinu, endurreisn heilbrigðiskerfisins, húsnæðismál, ferðaþjónustumál og menntamál þarfnast nauðsynlega athygli og umbóta. Þetta er ekki tæmandi listi og erfitt að gera upp á milli þessara málaflokka.

Samfylkingin

Endurreisn heilbrigðiskerfisins með því að styðja mun betur við opinbera hluta þess

Fyrr á þessu ári skrifuðu 87.000 Íslendingar undir áskorun um meira fé til heilbrigðismála. Það gengur ekki að veikt fólk fái ekki viðunandi þjónustu, komist ekki í bráðnauðsynlegar aðgerðir eða þurfi að húka úti á gangi eða inni á salerni þegar það fær loksins þjónustu. Það er sérstaklega sárt að horfa upp á þetta á meðan efnahagurinn er á uppleið og útgerðin græðir á tá og fingri.

Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra eiga að hafa forgang. Þeir eiga að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land án þess að taka upp veskið.

Við ætlum að byggja upp besta heilbrigðiskerfi í heimi. Sem á að vera ókeypis, alltaf.

 • Við ætlum að auka aðgengi að sálfræði– og geðheilbrigðisþjónustu og gera hana gjaldfrjálsa fyrir framhaldsskólanema.
 • Við ætlum að reisa nýjan Landspítala og byggja fleiri hjúkrunarheimili.
 • Við ætlum að efla heilsugæslu, sem tekur á móti öllum.
 • Við ætlum að útrýma biðlistunum, þeir eru óþolandi.

Tvöföldun á stuðningi við barnafjölskyldur

Það er allt of mikið af ungu fólki sem getur ekki flutt að heiman, eða velkist milli dýrra leiguíbúða á árs fresti og nær aldrei að safna fyrir útborgun á íbúð. Það er allt of mikið af barnafólki sem nær ekki endum saman – þúsundir barna búa við skort og er ástandið verst fyrir börn á leigumarkaði. Á sama tíma á ríkasta 1% landsmanna 507 milljarða í hreinni eign.

Samfylkingin ætlar að bjóða strax upp á betri stuðning við leigjendur, úrræði fyrir fyrstu kaupendur,  hærri barnbætur og betra fæðingarorlof. Við ætlum að setja aukið fjármagn í verkefnið sem nemur tvöföldun á þeim stuðningi sem barnafjölskyldur fá í dag í formi barnabóta og fæðingarorlofsgreiðslna.

Í hnotskurn

 • Við ætlum að styðja betur við leigjendur með
  • því að tryggja byggingu 5000 nýrra leiguíbúða á næstu 4 árum, þar af 1000 stúdentaíbúða,
  • nýjum og hærri húsnæðisbótum með mun minni tekjutengingu en nú.
 • Við ætlum að styðja betur við fyrstu kaupendur og auðvelda þeim að eignast eigin húsnæði.
 • Við ætlum að hlúa að barnafjölskyldum með því að
  • hækka barnabætur þeirra 30.000 fjölskyldna sem njóta þeirra núþegar,
  • Oog láta þær ná til 9000 fjölskyldna sem ekkert fá frá kerfinu í dag.
 • Við ætlum að tryggja betra fæðingarorlof með því að
  • lengja orlofið í 12 mánuði,
  • hækka svo þak hámarksgreiðslna í 600.000 kr.

Tryggja öldruðum og öryrkjum a.m.k. 300 þúsund króna mánaðargreiðslur árið 2018

Laun aldraðra og öryrkja verða að nægja til að lifa góðu lífi.

Við ætlum að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja þannig að þær verði 300.000 kr. á mánuði að lágmarki.  Við lögðum fram tillögur á Alþingi um þetta í vor en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framskóknar felldi þær. Einnig viljum við afturvirkar hækkanir frá 1. maí 2016 en þá hækkuðu lægstu laun á vinnumarkaði. Við ætlum ekki að skilja aldraða og öryrkja eina eftir.

 

Sjálfstæðisflokkurinn

Heilbrigðismál

Við ætlum að halda áfram að endurreisa heilbrigðiskerfið. Efnahagur fólks á ekki að ráða aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Kostnaður má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Við ætlum að halda áfram að draga úr kostnaði sjúklinga við og bæta áfram aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fjármögnun nýs spítala hefur verið tryggð og fjölga verður heilsugæslustöðuvm. Þannig bætum við aðbúnað sjúklinga, aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks.

Húsnæðis- og menntamál

Við viljum að ungu fólki verði auðveldað að kaupa sína fyrstu fasteign. Við styðjum það að ungt fólk geti staðið á eigin fótum undir eigin þaki. Við munum líka stuðla að virkari sölu- og leigumarkaði. Við ætlum að einfalda byggingareglugerð og lækka þannig byggingakostnað. Þá þarf ríkið að hætta að skipta sér af greiðslumati og ábyrgðum. Við erum þegar byrjuð að horfast í augu við vandann og kynna raunhæfar lausnir til að hjálpa ungu fólki að flytja af æskuheimilinu. Séreignasparnaðarleiðin hvetur ungt fólk til sparnaðar sem nýta má skattfrjálst til íbúðarkaupa eða niðurgreiðslu á húsnæðisláni. Við erum á réttri leið – höldum áfram.

Öll erum við ólík og tryggja þarf aðgengi að fjölbreyttri menntun. Kerfið á ekki að steypa alla í sama mót. Menntuð þjóð er grundvöllur hagvaxtar og bættra lífskjara og góð menntun er lykill að lífsgæðum einstaklinga og opnu samfélagi. Við höfum lagt fram frumvarp þar sem öllum námsmönnum verður í fyrsta sinn tryggð full framfærsla með námsstyrkjum sem mun auka jafnrétti til háskólanáms. Frumvarpið gerir líka ráð fyrir því að greiðslubyrði af námslánum muni almennt verða léttari. Vonandi frumvarpið að lögum fyrir kosningar, en takist það ekki munum við berjast fyrir því að svo verði á næsta kjörtímabili.

Efnahagsmál

Okkur hefur tekist að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og munum viðhalda honum. Sjálfstæðisflokkurinn hugsar til lengri tíma, framtíðarsýn er mikilvæg. Stöðugleikinn í efnahagsmálum er ákaflega mikilvægur fyrir alla því þegar vel gengur í hagkerfinu er meira til skiptanna. Stöugleiki skapar líka svigrúm til að efla heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu til framtíðar. Við þurfum því að halda áfram á þeirri braut.

Við ætlum áfram að tryggja bætt lífskjör fólks með lægri sköttum og sterkri grunnþjónustu. Að lækka og einfalda skatta stuðlar að því að einstaklingar hafi meira í vasanum um hver mánaðarmót. Einstaklingar eru nefnilega betur til þess fallnir að ráðstafa sínum eigin pening en ríkið. Við höfum því þegar tryggt að tekjuskattur lækki á einstaklinga um næstu áramót, afnumið tolla og vörugjöld sem skila sér í lægra vöruverði á fötum og öðrum vörum hér á landi svo fólk þurfi ekki að æða til útlanda til að versla, við styrkjum íslenska verslun. Með því að skapa svigrúm fyrir einstaklinginn til að sækja fram og grípa ný tækifæri eflum við atvinnusköpun um land allt.  

Við munum áfram greiða niður skuldir ríkisins af því að það er grátlegt að sóa fjármunum í vaxtagreiðslur þegar hægt væri að nýta þá fjármuni í eitthvað sem kemur fólki til góða, eins og t.d. öflugri heilbrigðisþjónustu.

 

Við erum á réttri leið.

Viðreisn
 1. Kerfisbreytingar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Markaðsleið farin í sjávarútvegi, þar sem hluti kvótans er settur á uppboð á hverju ári og afgjaldinu varið í innviðasjóði á hverju svæði um sig. Stuðningur við bændur miði að auknu hagræði landbúnaðar. Valfrelsi neytenda verði aukið með opnun á innflutningi á erlendum landbúnaðarvörum og markvissri lækkun verndartolla. Þetta mun stórlega bæta hag þeirra sem hafa úr litlu að spila.
 2. Efla þarf heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu samfélagsins. Standa vörð um rétt allra til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og tryggja gott aðgengi. Tryggt verði að kostnaðarþátttaka notenda sé með sanngjarnt hámark sem miðist við heildarkostnað hverrar fjölskyldu. Sálfræðiþjónusta verði eðlilegur hluti tryggingakerfis.
 3. Vextir eru einn hæsti kostnaðarliður íslenskra heimila og fyrirtækja. Lækka má vexti umtalsvert með  upptöku myntráðs í því skyni að tryggja stöðugleika krónunnar. Stöðugt gengi er jafnframt forsenda verðlagsstöðugleika. Aukinn stöðugleiki og lægri vextir er kjarabót til allra.
Vinstri græn

Helstu stefnumál okkar í komandi alþingiskosningum eru: meiri jöfnuður, efling heilbrigðiskerfisins fyrir alla landsmenn og betra húsnæðiskerfi.

Meiri jöfnuður. Við viljum minnka bilið á milli hinna ríku og fátæku, og við viljum að allir hafi jafnan rétt í samfélaginu og sé ekki mismunað.

Til þess að auka jöfnuð er nauðsynlegt að byggja upp gott velferðarkerfi, þar sem þau sem þurfa hjálp fái þá hjálp til þess að geta tekið þátt í samfélaginu eins og aðrir. Því viljum við t.d. leggja áherslu á að hækka bætur til öryrkja og aldraðra, tryggja fötluðum stuðning til þess að taka fullan þátt í samfélaginu, styðja betur við barnafólk og hjálpa þeim sem stríða við fátækt eða aðra erfiðleika sem mögulegt væri að takast á við með félagslegum úrræðum.

Til að létta af þeim verst stöddu og minnka fátækt finnst okkur mikilvægt að lágmarkslaun verði hækkuð upp í 300.000 krónur. Við viljum einnig að skattbyrði á þá sem eru með lág laun sé lítil, en skref í þá átt væri að hækka skattleysismörk. Sanngjörnum auðlegðarskatti á að koma aftur á, þannig að þeir sem hafa tök á því borgi meira til samfélagsins.
Of mikið af peningum í samfélginu safnast á fáar hendur og fer til kvótakónga og útgerða, auðjöfra í ferðaiðnaði og hátt settra einstaklinga sem gegna stjórnunarstöðum í bönkum og öðrum stórfyrirtækjum. Við viljum koma veiðigjöldum á aftur og breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, láta þá sem græða mest í ferðaþjónustu borga hærra gistináttagjald og e.t.v. annarskonar gjöld sem sett yrðu á, að hærra hlutfall bónusgreiðslna sé skattskylt, að stórfyrirtæki sem græða mjög stórar fjárhæðir greiði hærri skatta og að stofnaður sé samfélagsbanki þar sem er ekki rekinn með gróðarsjónarmið í huga heldur þjóðarhagsmuni. Þá milljarða sem hægt væri að útvega með þessum hætti gætu auðveldlega nýst í það að auka jöfnuð með því að bæta heilbrigðis- og menntakerfið okkar.

Efling heilbrigðiskerfisins. Það þarf að stórauka fjárframlög í heilbrigðiskerfið. Heilbrigðiskerfið okkar er að molna að innan vegna fjárskorts; mikil þörf er á endurnýjun í húsnæði og tækjabúnaði, álag á heilbrigðisstarfsfólk er ólíðandi og lengd á biðlistum óásættanleg. Við viljum að peningar verði lagðir í það heilbrigðiskerfi og geðheilbrigðiskerfi sem þjónar almenningi, en ekki í einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sem fær styrk frá ríkinu og getur síðan borgað sér arð, líkt og sú sem hefur verið komið á fót á heilsugæslustöðvum í Reykjavík.

Betra húsnæðiskerfi. Grípa þarf til aðgerða til þess að breyta þeirri hörmulegu stöðu sem er á húsnæðismarkaðnum. Þar viljum við m.a. að stofnað sé leigu- eða kaupleigufélag sem sæi um að bjóða upp á húsnæði á viðráðanlegu verði til sölu eða leigu. Einnig þarf að finna lausn á Air-bnb vandanum, þar sem stór hluti húsnæðis fer undir gististarfsemi fyrir túrista, sem minnkar mjög framboð á íbúðum til langtímaleigu miðsvæðis í Reykjavík.

Menntamál

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin lítur á menntun sem hluta af lífsgæðum sem allir eigi rétt á og eigi því að vera samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara. Því viljum við ókeypis skólagöngu á öllum skólastigum, fyrir alla aldursflokka, m.a. þannig að öldungadeildir opinberra framhaldsskóla verði opnaðar aftur. Við viljum afnema tengsl LÍN við bankakerfið, þannig að LÍN verði félagslega rekinn og peningarnir sem hann lánar komi úr sameiginlegum sjóðum en ekki frá bönkunum. Námslán eiga að duga fyrir framfærslu og við viljum að þau, eins og önnur lán í félagslega reknu fjármálakerfi, verði vaxtalaus. Við viljum að frammistöðutengda lánaniðurfellingu, og að námi loknu verði eftirstandandi lán fryst í tíu ár, en felld niður að þeim tíma liðnum fyrir fólk sem hefur starfað þann tíma á Íslandi. Í fyllingu tímans viljum við taka upp námsstyrkjakerfi, líkt því sem er í Danmörku, í stað námslána.

Eins og sjá má vantar mikið upp á að LÍN-frumvarp menntamálaráðherra uppfylli óskir okkar!

Við viljum stórauka fjárframlög til list- og verknáms, enda er það forsenda þess að fögur fyrirheit námsskráa geti ræst.

Þótt leikskólar og grunnskólar séu formlega á könnu sveitarstjórna, mundi Alþýðufylkingin engu að síður beita sér fyrir stórátaki í þeim ef hún sæti menntamálaráðuneytið. Í leikskólunum vantar mannskap vegna þess að það vantar peninga. Í grunnskólum viljum við gera nám fjölbreyttara og víðfeðmara: Við viljum m.a. að opinberir skólar bjóði upp á sérhæfingu fyrir börn sem hafa sérstaklega mikinn áhuga á íþróttum eða listum eða handverki eða dýrum, svo nokkuð sé nefnt. Við viljum að móðurmálskennsla leggi meiri áherslu á að njóta móðurmálsins, fá tilfinningu fyrir því og skapa með því. Við viljum að heimspeki verði skyldunámsgrein á öllum skólastigum. Undirstöðuatriði þjóðfélagsins ætti að kenna í grunnskólum, s.s. efnahagsmál, mannréttindi, umhverfismál og kunnáttu í því að keyra bíl. Kennsla um vímuefni á að vera hrinskilin og heiðarleg, því skilningur er betri forvörn en ótti. Kynfræðsla á að vera eðlileg og spennandi og þarf að byrja mun fyrr en hún gerir.

Alþýðufylkingin hefur sérstakar áhyggjur af ískyggilega miklu brottfalli nemenda af erlendum uppruna. Því viljum við veita þeim sérstakan stuðning í skólakerfinu, m.a. með almennilegri móðurmálskennslu, svo móðurmál þeirra verði þeim (og samfélaginu) styrkur en ekki veikleiki.

Okkar tillögur í menntamálum kosta mikla peninga, en við erum sannfærð um að þær muni margborga sig til lengri tíma litið — og auk þess vitum við hvaðan við ætlum að taka peningana sem þær kosta: úr fjármálakerfinu, sem við viljum félagsvæða, svo það verði rekið sem þjónusta hins opinbera við fólk og fyrirtæki, en ekki í gróðaskyni. Með öðrum orðum: Brot af þeim peningum sem í dag renna til fjármálakerfisins, mestmegnis í formi vaxta, mundi auðveldlega borga endurreisn menntakerfisins, auk margra annarra innviða þjóðfélagsins.

Björt framtíð

Við viljum að skólar lagi sig að þörfum og áhugasviði nemenda þannig að styrkleikar allra fái notið sín. Kennsluefni og kennsluaðferðir séu í stöðugri mótun í takt við nýja tíma og skólar séu vakandi fyrir nýjum áherslum.

Við viljum auka fjölbreytni í skólaflórunni og sjá líka öfluga lýðháskóla til viðbótar við hefðbundna bók- og verknámsskóla.

Þá þarf að hugsa fjármögnun framhalds- og háskóla alveg upp á nýtt. Og raunar grunnskóla líka þó þeir séu á valdsviði og undir stjórn sveitarfélaganna.

Viðhorf okkar til LÍN er að við samningu þess skorti verulega á samráð við aðra stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila. Verulega vantar upp á greiningar á áhrifum þeirra reglna sem settar eru fram og hvernig þær koma niður á einstökum hópum námsmanna.

Við styðjum að hluti námsaðstoðar sé í formi styrkja, ekki síst til að jafna félagslega stöðu nemenda og/eða til að umbunda nemendum fyrir árangur í námi.

Við teljum að áherslan á námshraða henti tilteknum hópum mjög illa, s.s. fötluðum, fólki sem eignast börn á námstímanum og fleirum.

Hið nýja kerfi gerir eldri nemendum mjög erfitt fyrir að komast inn í skólakerfið á nýjan leik. Það er afleitt og hefur alvarleg neikvæð áhrif á möguleika fólks til endurmenntunar.

Við gagnrýnum líka verulegar takmarkanir á lán til skólagjalda því það kemur efnaminna fólki mjög illa.

Kerfið gerir hins vegar ráð fyrir föstum endurgreiðslum óháð tekjum. Það kemur harðast niður á kvennastéttum sem, miðað við núverandi ástand fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu.

Þetta eru eingöngu nokkur þeirra atriða sem við höfum gert athugasemdir við. Við viljum sjá frumvarpið unnið í þverpólitískri nefnd þar sem hagsmunafélög nemenda hafa aðkomu.

Dögun

Dögun vill tryggja öllum jafnan rétt til náms og leggur áherslu á að nám verði ekki skuldagildra.

Við erum EKKI hlynnt nýja LÍN frumvarpinu vegna mikilla hækkana á vöxtum fyrir þá hópa sem þurfa mest á lánum að halda. Okkur finnst aftur á móti jákvætt að LÍN veiti nemendum styrki þá teljum við afar neikvætt að vextir hækki á móti.  

Framsókn
Ungir Framsóknarmenn vilja að allir hafi jafnan rétt til náms óháð aldri, búsetu, kyni og uppruna. Mikilvægt er að skólakerfið endurspegli fjölbreytileika nemendanna og fjölbreyttar þarfir samfélagsins. Einstaklingar verða að fá tækifæri til að blómstra á eigin forsendum, liður í því er að verknámi sé gert hærra undir höfði.

Ungir Framsóknarmenn vilja að betur verði stutt við íslenska háskóla og fjárframlög til þeirra nái meðaltali OECD ríkjanna. Það er Íslensku samfélagi mikilvægt að hér séu starfandi sterkir háskólar, sem stundi öflugar rannsóknir og bjóði fjölbreytt námstækifæri. Ríkisreknir háskólar eiga ekki innheimta skólagjöld, hvaða nafni sem þau nenfast.

Ungir Framsóknarmenn vilja að í námslánakerfinu verði teknir upp beinir styrkir að norrænni fyrirmynd. Það er fagnaðarefni að komið sé fram frumvarp sem miði að slíku styrkjakerfi. Frumvarpið er hins vegar ekki gallalaust og mikilvægt að hafa alltaf að leiðarljósi hið félagslega hlutverk sjóðsins, að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag. Ein af mikilvægustu kerfisbreytingunum sem Framsóknarflokkurinn heur náð fram á nýju lánasjóðsfrumvarpi eru mánaðarlegar greiðslur námslána. Þær koma í veg fyrir að námsmenn þurfi taka yfirdrátt til að framfleyta sér og að fjármálakerfið sé áskrifandi af vaxtatekjum frá námsmönnum.

Húmanistaflokkurinn

Það þarf að koma á lýðræði innan skólanna. Nemendur og skólar eiga að hafa frumkvæði og vald í sínum málum.

Skólanám á fyrst og fremst að miðast við þarfir nemendanna sjálfra til að þróa sína hæfileika og  möguleika til að skapa sér framtíð á eigin forsendum, en ekki fyrst og fremst til að framleiða starfskrafta fyrir atvinnulífið eða stíga hamstrahjólið fyrir skuldum sínum eins gerist í núverandi kerfi. Áfram þarf að staðfesta að nemendur hafi þekkingu og færni til að sinna skilgreindum störfum og öðrum verkefnum í samfélaginu en skólar hafi þess utan frelsi til að fara mismunandi leiðir.

Fólk á ekki að þurfa mikla menntun til að hafa sómasamleg lífskjör. Menntun á ekki að vera forsenda betri lífskjara heldur á fólk að hafa möguleika á að velja og stunda það nám sem það hefur löngun til.

Nemendur ættu að taka þátt í ákvörðunum um hvaða námsefni er valið, hvernig kennsla fer fram og  hvaða tilgangur á að vera með skólanáminu. Nemendur ættu að geta krafist þess að fá réttar upplýsingar um það kerfi sem við búum við, t.d. um hvernig bankarnir virka sem ollu síðasta hruni með hrikalegum afleiðingum fyrir almenning og um það hvað veldur þeirri stjarnfræðilegu misskiptingu sem er í þjóðfélaginu og öllum heiminum.  Einnig þarf að upplýsa og fjalla um vistkerfið og alvarlega stöðu þess. Allt þetta ætti að felast í skólanáminu.

Það þarf að þjálfa nemendur í að tjá sig og koma fram og öðlast meira sjálfstraust. Þeir þurfa að læra og þjálfast í að hugsa rökrétt og til að mynda sér sjálfstæða skoðun út frá eigin sannfæringu en vera ekki hópsálir vegna ótta við gagnrýni annarra.

Menntun ætti að vera raunverulega opin öllum og þess vegna ókeypis á öllum skólastigum og án allra skólagjalda. Innifalið í þessu ætti að vera falinn kostnaður af námsbókum og annar kostnaður sem nauðsynlegur er vegna námsins.

Í stað lánakerfis LÍN komi námslaun.  Nám er engu síður mikilvægt fyrir þjóðfélagið en vinna. Með þessum hætti er jafnaður munur milli efnameiri og efnaminni námsmanna og allir námsmenn geta beint sér að fullu að náminu en þurfa ekki að vinna með því eða hafa áhyggjur af afkomu sinni. Námslaunakerfi stuðlar líka að meiri tekjujöfnuði og minni tilkostnaði í þjóðfélaginu þegar til lengdar lætur því langskólagengið fólk þarf ekki að krefjast hærri launa út af ofurhárri skuldabyrði að námi loknu eins og nú er.

Skilyrðislaus grunnframfærsla (Borgaralaun) – eins og Húmanistaflokkurinn leggur til – kemur hins vegar í stað námslaunakerfisins  og annarra sérlausna fyrir einstaka hópa  þegar þeim yrði komið á.

Píratar

Píratar sjá menntun sem grunnstoð nútímasamfélags. Þar sem Píratar eru að grunni til réttindabaráttu­ og lýðræðisflokkur þá telja Píratar mjög nauðsynlegt að virkja lýðræðislega og gagnrýna hugsun í öllu menntakerfinu. Það þarf að tryggja aðgang fyrir alla að menntakerfinu, óháð búsetu og efnahag, og einnig setja jafnari áherslu á mismunandi námsgreinar; svo sem bók­, list­, verk­ og aðrar greinar.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í menntamálum.

Varðandi LÍN þá leggja Píratar áherslu á að tryggja nemendum grunnframfærslu á meðan námi stendur, að tekjur skerði ekki námslán eða námsstyrki og að framfærsla skuli vera greidd fyrirfram og mánaðarlega. Þrátt fyrir að Píratar styðji viðleitni í átt að styrktarkerfi, þá felur LÍN­frumvarpið að okkar mati í sér óásættanlegan niðurskurð, afnám tekjutenginga afborgana, afnám námslána til doktorsnám og aðra þætti sem við getum ekki fallist á.Sjá til dæmis eftirfarandi töflu um afborgunarbyrði námslána:

piratar-lintafla

Samfylkingin

Allir eigi þess kost að afla sér menntunar og styrkja stöðu sína. Þar á hvorki aldur, stétt né efnahagur að vera hindrun. Fjölbreytt námsframboð og gott aðgengi að skólum, dreif- og fjarkennslu um allt land sem tengir saman atvinnustefnu, menntastefnu og byggðastefnu er markmið okkar. Við munum afnema reglu sem meinar 25 ára og eldri inngöngu í framhaldsskóla.

Það verður að auka framlög til menntunar. Við erum langt á eftir hinum norrænu ríkjunum þegar að litið er fjárframlaga til háskóla og þar ætlum við að jafna leikinn. Góðir háskólar eru  nauðsynlegir drifkraftar fyrir heilbrigðan vinnumarkað sem býður upp á fjölbreytt og vel launuð störf.  

Um LÍN frumvarp ríkisstjórnarinnar

Við viljum tryggja öllum jafnrétti til náms og að fólk geti sótt sér það nám sem því hentar. Því miður vinnur frumvarp sitjandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ekki að þeim markmiðum. Þar á hækka vexti af lánunum og afnema tekjutengdar afborganir sem bitnar á þeim sem helst þurfa á námslanum að halda: námsmönnum sem koma frá efnaminni fjölskyldum, þeim sem sjá ekki fram á miklar tekjur að námi loknu, íbúum landsbyggðarinnar sem eiga ekki kost á að búa í foreldrahúsum. Þess vegna leggjumst við alfarið gegn frumvarpinu.

Hækka verður framfærslu námsmanna, sérstaklega þeirra sem búa erlendis en framfærsla þeirra er hefur dregist mikið saman á liðnu kjörtímabili. Við ætlum að styðja betur við námsmenn og viljum að hluti lána breytist í styrki en þó ekki þannig að greiðslubyrði fólks verði meiri. Við viljum auka sveigjanleika LÍN í samskiptum við fólk og styrkja félagslegt hlutverk hans. Taka á upp samtímagreiðslur námslána og hækka frítekjumark námsmanna til að koma til móts við þá sem vilja stunda vinnu í námsleyfum án þess að sæta stórfelldum skerðingum lána.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Auka skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum.
 • Nýta betur tækniþróun og samskiptatækni til menntamála.
 • Auka framlög til háskólastigsins til meðaltals OECD-landa
 • Efla verknám almennt og ekki síst menntun fyrir fólk í ferðaþjónustu.
 • Hlúð verði að menningu og listum. Listnám og skapandi greinar efldar á öllum skólastigum.
 • Auka vægi íþrótta og heilsuræktar í tengslum við skólastarf.

 

Sjálfstæðisflokkurinn styður valfrelsi í menntamálum. Að menntakerfið bregðist við fjölbreytni einstaklinganna og steypi ekki alla í sama mót.  Við viljum því fjölga sjálfstætt starfandi skólum einkum á grunnskólastigi og tryggja að námið sé fjölbreytt. Nemendur eiga að hafa raunverulegt val um námsleiðir á öllum skólastigum þannig allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Tryggja þarf að allir þeir sem útskrifast úr grunnskóla geti lesið sér til gagns. Sjálfstæðisflokkurinn setti nýlega í gang lestrarátak um allt land sem var afar vel tekið bæði af kennurum og nemendum. Við viljum halda áfram á þessari braut. Það þarf líka að auka sveigjanleiki á milli skólastiga, þannig að leikskólabörn geti farið yngri í grunnskóla og grunnskólanemar geti lokið framhaldsskólaáföngum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka efla verknám og gera nemendum auðveldara að komast á samning, til dæmis með því að tryggja samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Við viljum efla listnám á öllum skólastigum ásamt því að skapandi greinar, forritun og hönnun verði kennd á almennu grunn- og framhaldsskólastigi.

Breyta þarf lánakerfinu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) býður upp á og koma betur til móts við einstaklinginn sem er í námi. Gera þarf kerfið einfaldara og sanngjarnara fyrir alla. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram frumvarp til laga á Alþingi nú fyrir stuttu sem leggur til breytingar á kerfinu, öllum til hagsbóta. Þær breytingar eru studdar af öllum stærstu nemendafélögum á háskólastigi sem sýnir að frumvarpið ber hag námsmanna fyrir brjósti. Höldum áfram á þessari braut.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Í menntamálum telur Viðreisn brýnt að auka fjölbreytni og sveigjanleika. Mikilvægt er að fólk fái svigrúm og frelsi til að læra það sem hentar hæfileika- og áhugasviði þeirra. Það hentar einum að gera eitt og öðrum að gera annað. Mikilvægt er að virða þetta svo hægt sé að nýta krafta og eiginleika einstaklinga til fulls.

Við viljum stytta námstíma á grunn- og framhaldsskólastigi til samræmis við nágrannalönd okkar. Markmiðið með því er meðal annars að auka sveigjanleika í námshraða. Auka þarf fjölbreytni og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði. Sporna þarf gegn brotthvarfi nemenda úr námi. Þar þarf sérstaklega að horfa til drengja og nemenda af erlendum uppruna. Tryggja þarf fjármögnun menntakerfisins. Auka þarf samstarf atvinnulífs og menntakerfis á öllum skólastigum og tryggja að námsframboð endurspegli atvinnutækifæri hverju sinni.

Viðreisn styður þá megin hugsun í LÍN frumvarpi að teknir verði upp beinir námsstyrkir í stað niðurgreiddra lána. Slíkt fyrirkomulag mun minnka skuldsetningu flestra námsmanna og virka hvetjandi á námsframvindu. Huga þarf þó vel að áhrifum þessara breytinga á einstaka hópa áður en þeim er hrint í framkvæmd. Viðreisn vill áfram tekjutengja afborganir námslána.

Vinstri græn

Ung vinstri græn leggja áherslu á jafnrétti til náms, þannig að nám sé aðgengilegt öllum, óháð búsetu, fjárhagsstöðu eða öðrum þáttum. Við viljum því að skólar séu gjaldfrjálsir á öllum stigum náms, frá leikskóla og upp í háskóla. Skólagögn og bækur eiga einnig að vera gjaldfrjáls fyrir alla nemendur.

Við viljum sveigjanlegt menntakerfi þar sem nemendur eru ekki steyptir í eitt mót, svo að þau sem að þurfa á að halda fái viðeigandi stuðning og allir hafi val um fjölbreytt nám og námsleiðir sem að henta þeirra þörfum og áhugasviði. Efla þarf kynfræðslu og kennslu í kynjafræði og praktísku námi, s.s. fjármálalæsi. Hækka þarf laun kennara, en þeir eiga að fá greitt í samræmi við þá menntun sem þeir hafa og það álag sem fylgir starfi þeirra. Nemar eiga þar að auki að geta haft áhrif á skólastarf, þannig að nemendur hjálpi við að móta námið og kennsluna.

Í framhaldsskóla á fólk að geta valið hvenær það hefur nám og á hve löngum tíma það klárar námið; það hentar alls ekki öllum að klára framhaldsskóla á þremur árum. Námið á að vera þannig að nemendur geti valið sér fög sem að þeir hafa áhuga á og nýtist þeim í áframhaldandi námi eða vinnu.

Það á að reyna að koma í veg fyrir að fólk detti úr námi með öllum tiltækum ráðum. Mikilvægur liður í því er að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í öllum framhaldaskólum, og raunar í skólum á öllum skólastigum. Það hefur sýnt sig að margir eiga erfitt með nám vegna andlegra erfiðleika og því er sálfræðiþjónusta nauðsynleg í skólum.
Við viljum að meira sé lagt til ríkisrekinna háskóla, en háskóli íslands hefur t.a.m. ekki undan að sinna þeim nemendafjölda sem þangað kemur, sem kemur niður á kennslu og gæðum náms.

Umbylta þarf námslánakerfinu í þágu nemenda. Í fyrsta lagi þarf að hækka námslán þannig að námsmenn geti í raun og veru framfleytt sér með þeim og þurfi ekki að vinna meðfram skóla, en það getur skapað mikla streitu og jafnvel brottfall. Við viljum breyta hluta námslánakerfisins í styrkjakerfi.

Þó margt sé gott við nýtt frumvarp um LÍN, bitna breytingar á námslánakerfinu mest á hópum sem standa höllum fæti fyrir, t.a.m. námsmönnum sem eiga ekki mikla peninga, einstæðum foreldrum og námsmönnum af landsbyggðinni. Það er m.a. vegna þess að frumvarpið leggur til að stórhækka afborgarnir námslána og afnema tekjutenginu. Þessir þættir gætu einnig valdið því að fólk sækji minna í nám fyrir störf sem borga minna, t.d. leikskólakennaranám eða þroskaþjálfanám. Styrkurinn sem frumvarpið boðar mun svo helst gagnast háskólanemum sem geta búið í foreldrahúsum á meðan námi stendur. Við teljum að LÍN eigi að vera jöfnunartæki, þannig að þau sem mest þurfa á að halda fái mesta hjálp úr sjóðnum, en frumvarpið vinnur á móti því sjónarmiði. Katrín Jakobsdóttir lagði fram frumvarp á síðasta kjörtímabili sem við teljum mun betra að mörgu leyti. Þar er m.a. lagt til að klári námsmaður grunnnám á réttum tíma sé lán hans lækkað um 25%.

Húsnæði

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman? Hvernig?

Alþýðufylkingin

Almenn stefna okkar í húsnæðismálum mundi gagnast öllum, nema þeim sem græða á okurlánum til heimilanna. Einn megintilgangur þess að félagsvæða fjármálakerfið er að við viljum tryggja öllum húsnæði án vaxtaklyfja af lánum. Það þýðir að þeir sem vilja kaupa húsnæði geti fengið hóflega stórt vaxtalaust lán. Félagslega rekin húsnæðisleigufélög eiga að tryggja nægt framboð á leiguhúsnæði til þess að húsnæðisskortur skrúfi ekki verðið upp. Þau eiga að vera fjármögnuð án vaxta, svo vextirnir séu ekki bara innbyggðir í markaðsverðið.

Þar sem hátt verð og lítið framboð eru aðalhindranirnar fyrir því að ungt fólk geti flutt úr foreldrahúsum, má geta nærri hvort þessar aðgerðir mundu ekki gagnast því stórlega.

Björt framtíð

Björt framtíð hefur lagt fram mál á þingi sem snýst um að námsmenn sem leigja herbergi í íbúðum eigi rétt á húsaleigubótum. Margir námsmenn leigja íbúðir sem þeir deila með öðrum og verður þeim gert kleift að sækja um húsaleigubætur eins og þeir nemendur sem leigja herbergi á heimavist. Þetta er ein af þeim leiðum sem við viljum sjá til að einfalda ungu fólki í námi að geta flutt að heiman.

Stóra málið er svo að hér komist á húsnæðislánamarkaður með lágum raunvöxtum til langs tíma.

Dögun

Já, það er eitt af okkar aðalstefnumálum, sjá svar við spurningu 1. Ungt fólk skiptir okkur miklu máli og við viljum tryggja næstu kynslóðum betri framtíð.

 • Að eiga þak yfir höfuðið eru ávallt grundvallar mannréttindi. Þar eiga þættir eins og aldur og efnahagsstaða ekki að skipta neinu máli.
 • Við erum afar óánægð með óöruggan leigumarkað og hátt húsnæðisverð.
 • Við viljum byggja upp óhagnaðardrifin leigufélög eins og eru í Svíþjóð, þar sem þarfir fólks fyrir öruggt húsnæði er í forgangi
Framsókn

Frumvarpið sem liggur nú fyrir þinginu um fyrstu fasteign, sem ríkisstjórn undir forrystu Framsóknarflokksins lagði fram, miðar af því að hjálpa ungu fólki við kaup á sinni fyrstu fasteign með því að nota séreignasparnað. Ungir framsóknarmenn fagna þessari tillögu og telja að það muni vera mjög til bóta. Einnig má nefna að í húsnæðisfrumvörpum Eyglóu Harðardóttir velferðarráðherra eru margvíslegar aðgerðir til styrktar leigu kerfinu meðal annars hækkun á húsaleigubótum sem mun lækka kostnað ungs fólks við að leigja umtalsvert.

Húmanistaflokkurinn

Við höfum ekki að markmiði að ungt fólk „flytji að heiman“, en fólk á að hafa möguleika á því þegar því hentar.

Húmanistar líta á húsnæði sem mannréttindi en ekki markaðsvöru. Námsmenn ættu að hafa lögvarinn rétt til húsnæðis og það ætti einnig að gilda um annað fólk í þjóðfélaginu. Við viljum einnig að sett verði lög sem banna útburð fólks af heimilum sínum.

Húmanistar vilja gjörbreytt peningakerfi þar sem bankarnir og markaðurinn geta ekki gert mannréttindi eins og húsnæði að féþúfu. Við viljum stofna ríkisbanka sem lánar fé án vaxta til húsbygginga með sérstakri áherslu á húsnæðissamvinnufélög þar sem fólk getur eignast eða leigt húsnæði til lífstíðar.

Píratar

Já, Píratar vilja að ríkið styðji við aukið framboð á húsnæði, hvort sem er til leigu eða kaupa, sem og að styrkja samtök sem aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni, hækka húsaleigubætur svo þær miðist við framfærsluviðmið og að stjórnvöld fylgist með verðhækkunum á leigumarkaði til að geta brugðist við óeðlilegri þróun þar. Stöðugur og ódýr leigumarkaður er góður fyrir ungt fólk sem vill flytja að heiman og hefur sömuleiðis kosti fyrir þá sem velja leigu sem varanlegt búsetuform.

Stefna Pírata í byggðarmálum snýst um sjálfsákvörðunarrétt og uppbyggingu nærsamfélagsins. Til þess að búsetukostur teljist raunhæfur fyrir nútímasamfélag þá þarf aðgengi að grunnþjónustu að vera tryggt og skýrt. Markmiðið er að byggja upp öfluga samfélagskjarna sem munu gefa fjölbreyttara val til búsetu en við búum við núna.

Samfylkingin

Já, svo sannarlega. Við ætlum að tryggja það að að lágmarki 4000 nýjar leiguíbúðir verði byggðar á kjörtímabilinu, auk 1000 stúdentaíbúða, og fjölga þannig valkostum fólks og ýta leiguverði niður.

Við viljum styðja betur við leigjendur með hærri húsaleigubótum og gera stuðning við leigjendur sambærilegan við þann sem eigendur njóta.

Það hafa ekki mörg ungmenni efni á margra milljóna útborgun fyrir fyrstu íbúð. Við viljum styðja betur við fyrstu íbúðarkaupendur en staða þeirra er óviðunandi í dag. Aðgerðir sitjandi ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í húsnæðismálum hafa allar komið best út fyrir þá efnameiri og eldri. Nú þarf að styðja ungt fólk og þá sem helst þurfa á stuðningi að halda. Við eigum öll að hafa aðgang að öruggu húsnæði á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Við ætlum að auðvelda fyrstu íbúðarkaup ungs fólks
 • Stuðlað verður að virkari sölu- og leigumarkaði
 • Byggingarreglugerð verði einfölduð og byggingarkostnaður þannig lækkaður
 • Afskiptum hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum verði hætt
 • Ríki og sveitarfélög stuðli að jafnvægi á fasteignamarkaði

 

Já, og erum þegar byrjuð á því. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum nefnilega að allir geti keypt sér sitt eigið húsnæði og staðið á eigin fótum án ölmusu frá ríkisvaldinu. Á kjörtímabilinu kynntum við til leiks nýja leið til þess að auðvelda fólki að kaupa sér sína fyrstu fasteign – Séreignarsparnaðarleiðina.

Séreignasparnaður safnast upp hjá hverjum og einum sem leggur sjálfur til 2% af launum sínum á meðan vinnuveitandinn leggur 2% á móti. Það jafnast á við launahækkun í formi sparnaðar.

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins heimilar því ungu fólki skattfrjálsa úttekt á séreignasparnaðinum sínum. Þá upphæð má svo nýta til að koma eigin þaki yfir höfuðið á eigin verðleikum. Upphæðina er líka hægt að nota til þess að borga inná húsnæðislánið eða greiða niður höfuðstólinn skattfrjálst í 10 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn vill líka einfalda reglur í kringum byggingu húsnæðis á Íslandi. Mjög íþyngjandi byggingareglugerðir draga úr uppbyggingu lítilla, hagkvæmra og ódýrra íbúða sem henta best ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref. Sjálfstæðisflokkurinn vill að folk eigi val og hægt sé að byggja venjulegt húsnæði, fyrir venjulegt fólk á venjulegu verði. Þannig komist fleiri í eigið húsnæði sem henti hverjum og einum.  Ríkisvaldið er ekki lausnin á húsnæðismarkaði heldur vandamálið. Við styðjum einfalt regluverk.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Auðvelda þarf ungu fólki fyrstu skrefin á fasteignamarkaði. Í húsnæðismálum er einna helst þrennt sem torveldar ungu fólki að flytja að heiman; háir vextir, hár byggingakostnaður og ómarkviss stuðningur. Því þurfa lausnir að vera markvissar og byggjast á skynsemi.

Tryggja þarf nægt framboð lóða hverju sinni til að mæta eftirspurn, hvort heldur sem er til leigu eða kaups. Skapa þarf hvata til að byggja húsnæði með hagkvæmum hætti til að auka framboð af húsnæði og lækka byggingakostnað. Stjórnvöld eiga að horfa til aukinnar nýsköpunar á íbúðamarkaði, þar sem horft verði til íbúðarforma sem endurspegla breyttar kröfur. Má þar nefna smærri íbúðir, aukið vægi sameigna o.s.frv. Viðreisn styður frumvarp um almennar íbúðir sem ætlað er að stuðla að uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Samræma þarf vaxta- og húsaleigubætur. Heimila á ungu fólki að nýta lífeyrissparnað til útborgunar við fyrstu kaup.

Stefna Viðreisnar að taka upp myntráð á Íslandi mun strax hafa jákvæð áhrif á vaxtastig og því bein áhrif á möguleika ungs fólks til fasteignakaupa.

Vinstri græn

Já, við viljum að að leigumarkaðurinn verði að raunverulegum valkosti fyrir ungt fólk, þar sem örugg langtímaleiga á viðráðanlegu standi öllum til boða. Markaðurinn eins og hann er í dag er stjórnað af stórfyrirtækjum sem einungis hugsa um gróðasjónarmið. Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er fátæktargildra fyrir ungt fólk og á landsbyggðinni er leigumarkaðurinn lítill. Þúsundir íbúða í skammtímaleigu fyrir erlenda ferðamenn hafa mikil áhrif á framboð á íbúðum sem bjóðast til leigu til langs tíma.

Það er orðið löngu tímabært að grípa til aðgerða til þess að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman. Við leggjum til að sett verði á laggirnar leigufélag og/eða kaupleigufélag sem starfa án hagnaðarsjónarmiða, sem gera ungu fólki kleift að kaupa eða leigja sér íbúð á sanngjörnu verði. Félagið gæti m.a. haft félagsstofnun stúdenta eða sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum sér til fyrirmyndar. Til þess að það geti orðið að veruleiku þurfa bæði að koma til lagabreytingar, breytingar á skattaumhverfi og að lánastofnanir geti lánað fé til lengri tíma. Mikilvægt er að slíkt félag bjóði íbúðir af ýmsu tagi, allt frá einstaklingsíbúðum upp í stærri íbúðir. Sama fjölskylda gæti því flutt milli íbúða hjá sama félagi þrátt fyrir breyttar fjölskylduaðstæður.

Við viljum einnig skoða hugmyndir um þak á leiguverði verði til að koma til móts við leigjendur. Einnig viljum við skoða möguleikann á því að ríkið eða Íbúðalánasjóður bjóði upp á sérstök útborgunarlán sem næmu 25% af verði fyrstu eignar vaxtalaust til 5 ára. Lán af slíku tagi byðist fólki til fyrstu kaupa á íbúð og væri hugsað til þess að brúa það bil sem oft er óbrúanlegt fyrir margt ungt fólk sem er að hefja búskap og vill eignast íbúð. Loks er brýnt að standa vörð um Íbúðalánasjóð í samfélagslegri eigu.

Við teljum ofangreindir leiðir vera mun raunsæir valkostir til þess að stuðla að því að ungt fólk geti flutt úr foreldrahúsuml. Aftur á móti teljum við ólíklegt að aðgerðir ríkisstjórnar varðandi borgun séreignasparnaðar upp í  útborgun í íbúð muni hjálpa mikið af ungu fólki að kaupa sér húsnæði. Það er óraunsætt að séreignasparnaður muni gagnast ungu fólki á lágum til meðallaunum til að eiga fyrir útborgun í íbúð, þar sem stór hluti þess þarf að borga þunga leigu, standa skil á afborgunum af námslánum, ungt fjölskyldufólk borgar há leikskólagjöld og svo mætti lengi telja. Að safna fyrir útborgun í íbúð, jafnvel þegar séreignasparnaðurinn er tekinn upp í, er möguleiki fyrir fáa.

Geðheilbrigði

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Alþýðufylkingin

Við viljum auka aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal ungs fólks. Mánaða eða ára löng bið eftir greiningu eða innlögn á BUGL er hneyksli og það sem verra er: mannréttindabrot, sem afar brýnt er að leysa úr.

Við viljum taka sálfræðiþjónustu inn í heilsugæsluna, þar sem hún nýtist ekki síst ungu fólki, sem hefur kannski ekki efni á að borga fullt verð fyrir viðtalsmeðferð. Og við viljum stórátak í að byggja sérhæfð búsetuúrræði fyrir fólk sem í dag er innlyksa á geðdeildum mánuðum eða misserum saman vegna úrræðaleysis kerfisins, en þegar það getur útskrifast á eðlilegum tíma losna fyrr pláss sem þá munu nýtast öðrum, m.a. ungu fólki.

Í leiðinni: Ef ungt fólk (eða eldra fólk) ánetjast vímuefnum, þá viljum við ekki líta á það sem glæpamenn, heldur sem sjúklinga. Fíkn er umfram allt sjúkdómur, og það er verkefni heilbrigðiskerfisins en ekki valdstjórnarinnar að eiga við hana.

Björt framtíð

Það sem við erum hvað stoltust af eftir stutta veru okkar í heilbrigðisráðuneytinu er einmitt aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu m.a. með því að vinna að fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og bættri upplýsingagjöf. Við viljum halda áfram að vinna að uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustunnar. Við viljum að hið opinbera taki þátt í niðurgreiðslu vegna þjónustu sálfræðinga enda er geðheilbrigðisvandi vaxandi hérlendis, t.d. meðal ungmenna. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónsutu í grunn- og framhaldsskólum og færa slíka þjónustu í auknum mæli inn í sjúkratryggingakerfið.

Dögun

Heilsa fólks snýr bæði að líkama og sál og þess vegna viljum við:

 • Gera sálfræðiþjónustu hluta af almennri heilbrigðisþjónustu
 • Stytta biðlista eftir greiningum
 • Gera alla heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa. Hvernig? Með því að færa arð af auðlindum þjóðarinnar til fólksins og stofna samfélagsbanka. Sjá nánar í svari við sp. 1
Framsókn

Já, eitt af aðaláhersluatriðum SUF fyrir kosningarnar eru að geðheilbrigisþjónusta verði niðurgreidd af ríkinu eins og annars konar heilbrigðisþjónusta. Það er hreinlega ótrúlegt að á 21. öldinni sé enn við lýði gamaldags hugsunarháttur þar sem þeir sem glími við andleg veikindi eru skör lægra í kerfinu en þeir sem glíma við „viðurkennd“ veikindi.

Húmanistaflokkurinn

Við erum ekki sérfróð um þetta svið en við teljum að notendur svona þjónustu eigi að taka þátt í því að ákveða hvernig svona mál skuli leyst.

Við viljum losna við alla orsakavalda geðsjúkdóma eins og streitu, einelti og alls konar ofbeldi sem getu orsakað þunglyndi og aðra geðræna sjúkdóma. Þess vegna ætti að felast í skólanámi umræður og þjálfun þar sem nemendur skiptast á skoðunum um hvernig hægt er að stuðla að betri samskiptum og hegðun innan skólans og uppræta allt einelti þannig nemendur finni ekki til einangrunar eða vanlíðunar af þeim völdum.

Það er mikilvægt að koma á ókeypis sálfræðiþjónustu í öllum skólum.

Píratar

Já, stefna Pírata er að andleg vellíðan og geðheilsa sé órjúfanlegur þáttur af heilsu einstaklinga. Því er það stefna Pírata að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af almennri heilbrigðisþjónustu.

Samfylkingin

Já, eitt af stóru kosningamálum okkar er endurreisn heilbrigðiskerfisins. Eitt af markmiðunum þar er gjaldfrjáls sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Við ætlum að byrja á því að gera sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri fyrir framhaldsskólanema – og ókeypis.

Því miður eru alltof margir, sérstaklega ungt fólk, sem þurfa að neita sér um nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu með slæmum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið allt.

Sjálfstæðisflokkurinn
 • Við ætlum að bæta áfram aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
 • Við ætlum að fylgja eftir nýsamþykktri geðheilbrigðisstefnu
 • Framboð á sálfræðiþjónustu í heilsugæslu verður aukið
 • Við ætlum að koma á fót geðheilsuteymi
 • Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans verður styrkt
 • Stuðla verður að markvissri geðrækt í skólum þar sem skimað verður fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna

Við höfum mótað heildræna stefnu í geðheilbrigðismálum, þar sem áhersla er lögð á að greina og taka á vandamálum á fyrstu stigum, bæði í heilbrigðiskerfinu og með félagslegum úrræðum. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál. Þá er lagt til að framboð sálfræðiþjónustu í heilsugæslu verði aukið, komið verði á fót geðheilsuteymum, barna- og unglingageðdeild Landspítala verði styrkt og einnig að stuðningur við börn sem eiga foreldra með geðvanda verði aukinn.Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði. Við munum bæta aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu.

 

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Góð andleg heilsa er forsenda velferðar. Viðreisn vill að lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir gegn sjálfsvígum með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu, ekki síst í aldurshópnum 18 til 25 ára. Taka skal mið af þörfum nemenda og almennri vellíðan þeirra. Stefnt sé að því sálfræðiþjónusta verði eðlilegur hluti tryggingakerfis.

Vinstri græn

Já, við viljum berjast fyrir því að sálfræðiþjónusta og önnur geðheilbrigðisþjónusta verði frí og aðgengileg öllum sem á þurfa að halda. Til þess að það verði að veruleika þarf að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu og gera geðheilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa. Ráða þyrfti mikið fleiri sálfræðinga á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, þar sem allir sem þurfa á að halda geta fengið meðferð. Útrýma ætti biðlistum í sálfræðimeðferð inni á landsspítala með meira fjármagni og ráðningu fleira fagsfólks í geðheilbrigðismálum. Með því að bjóða upp á fría sálfræðiþjónustu og aðra geðheilbrigðisþjónustu væri hægt að minnka líkur á því að fólk verði alvarlega andlega veikt vegna þess að það fékk ekki þá hjálp sem það þurfti á að halda þegar að það varð fyrst veikt.

Það er gríðarlegt álag og vöntum á geðlæknum og langir biðlistar. Með því að leggja meiri peninga í heilbrigðiskerfið væri hægt að minnka álag og gera staði eins og landsspítalann að betri vinnustað fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þannig ættu fleiri geðlæknar að fást til þess að starfa hér á landi í stað þess að flytja til annarra landa til að starfa.
Við viljum tryggja nemendum á öllum skólastigum aðgengi að nauðsynlegri sálfræðiþjónustu. Mikilvægt er að slík þjónusta sé gjaldfrjáls, svo fjárhagur ungs fólk standi ekki í vegi fyrir því að það geti leitað sér aðstoðar þegar þess er þörf.

Ungt fólk

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Alþýðufylkingin

Við viljum félagsvæða menntakerfið, en það felur m.a. í sér að skólar sem hið opinbera borgar fyrir taki ekki skólagjöld; það felur í sér að Lánasjóður íslenskra námsmanna slíti tengslin við bankakerfið og veiti lán sem duga fyrir framfærslu, beri ekki vexti og falli niður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við viljum bæta úr sárri fjárþörf leikskóla (nemendur þar eru ungt fólk og foreldrarnir oft líka) og gera námsskrá grunnskóla og framhaldsskóla sveigjanlegri, m.a. þannig að meiri áhersla sé lögð á persónulegan þroska — þ.e.a.s. sköpun, gagnrýna hugsun og þekkingu á þjóðfélaginu heldur en undirbúning fyrir vinnu.

Við viljum stórauka fjárframlög í list- og verknám, svo það verði raunhæfari kostur fyrir þá sem hafa áhuga á því. Við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk sé hlunnfarið á vinnumarkaði með því að borga því jafnaðarkaup fyrir vaktavinnu eða með félagslegum undirboðum og við viljum setja ströng viðurlög við brotum á reglum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

Við viljum lengja fæðingarorlof þannig að tveir foreldrar með eitt barn fái samanlagt tvö ár í orlof. Upphæðin á að vera sú sama fyrir alla og miðast við framfærslu.

Björt framtíð

Við leggjum sérstaka áherslu á börn og ungt fólk í okkar stefnumálum. Við leggjum upp úr því að hugsa sérstaklega um þarfir barna og ungmenna og speglum þarfir ungs fólks í okkar málum og tillögum. Þannig höfum við til að mynda lagt sérstaka áherslu í þingmálum okkar að mannréttindi barna séu virt, að búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum verði virt til jafns, að námsmenn í leiguherbergjum fái húsaleigubætur eins og aðrir leigjendur og lagt til aukna fræðslu til að auka lýðræðsivitund ungmenna.

Fyrir okkur eru öll málefni mikilvæg fyrir ungt fólk, því það eru þau sem taka við keflinu og því mikilvægt að undirbúa jarðveginn þannig að það geri ungu fólki auðveldar að taka við. Við viljum að ungt fólk sjái sér fært að vilja búa hér á landi, við viljum að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd. Við viljum að fólk sjái fyrir sér að hér sé gott að ala upp börn og ungt fólk og að hér sé gott að alast upp.

Dögun
 • Við viljum búa í haginn fyrir ungt fólk á Íslandi þannig að þau búi við aukið öryggi á húsnæðismarkaði,
 • Við viljum byggja upp gjaldfrjáls heilbrigðiskerfi og byggja upp námslánakerfi sem styður við nemendur í stað þess að skuldsetja þá til fjölda ára eða áratuga fram í tímann
 • Til þess að ná því takmarki viljum við gera róttækar breytingar á húsnæðismarkaði, heilbrigðiskerfi og fjármálakerfi þar sem mannréttindi eru höfð að leiðarljósi.
Framsókn

SUF ætlar að berjast fyrir því áfram að bæta hag ungs fólks á Íslandi og gera það að enn betri stað til þess að búa á. Áherslur okkar varðandi mennta, húsnæðis og heilbrigðismál byggja á grunngildum okkar, félagshyggju og frjálslyndri miðjustefnu með áherslu á öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

Húmanistaflokkurinn

Við ætlum ekki að gera neitt „sérstaklega“ fyrir ungt fólk.  Við viljum hins vegar vinna að hagsmunum alls fólk  – þar með talið ungs fólks – og að það hafi allir eitthvað um tilveru sína segja út frá sínum hagsmunum og útfrá því hvernig  samfélagi þeir vilja búa í.

Ungt fólk eru manneskjur rétt eins og annað fólk burt séð frá aldri. Ungt fólk hefur mjög mismunandi skoðanir og viðhorf til þjóðfélagsins sem manneskjur en ekki vegna þess að þau eru ung eða vegna þess að þau stunda nám í staðinn fyrir að gera eitthvað annað.

Húmanistar vilja að kosningaaldur miðist við 16 ár en ekki 18 ár einsog nú er. Ungt fólk byrjar að borga skatta þegar það er 16 ára og ætti því að hafa eitthvað um það að segja til hvers þeir eru notaðir.

Húmanistaflokkurinn er ekki með neina ungliðadeild, þar taka allir þátt á jafnréttisgrundvelli án tillits til aldurs. Við teljum að ungliðadeildir hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka séu til þess fallnar að líta á ungt fólk sem sérstakan þjóðfélagshóp sem er ekki talinn fullgildur. Í þessu viðhorfi er falin niðurlæging á ungu fólki sem byggist gjarnan á því að ungt fólk skorti reynslu og þroska – rétt eins og þjóðfélagið sem búið var til af þeim eldri og „reyndari“ eru sé einhver fullkomin fyrirmynd! Við húmanistar höfnum þessu viðhorfi, við teljum að ungt fólk sé jafn fært um að móta sér skoðanir og ákvarða þarfir sínar og þarfir samfélagsins sem það býr í eins og þeir sem eldri eru.

Skilyrðislaus grunnframfærsla (borgaralaun) mun vissulega koma til með að bæta hag ungs fólks og veita því frelsi til að velja sér þá leið í lífinu sem því hentar.

Píratar

Píratar vilja efla beint lýðræði og þar með auka möguleika ungs fólks eins og annarra Íslendinga til þess að hafa raunveruleg áhrif á samfélag sitt á milli kosninga. Við viljum að stjórnvöld bjóði borgurum og samfélagshópum á borð við ungt fólk sérstaklega til virks samráðs um alla stefnumótun sem við þeim kemur frá upphafi, þannig að þau hafi raunveruleg áhrif á ferlið, t.d. í gegnum samráðsfundi, borgarafundi og internetið. Í stuttu máli viljum við valdefla fólk til þess að geta tekið þátt í ákvörðunum sem það varðar.

Stefna Pírata er einnig að lækka kosningaaldur og kjörgengi niður í 16 ára (á árinu). Sömuleiðis höfum við mikinn áhuga á því að styðja betur við félags­, sjálfboða­ og hagsmunastarf ungmenna á aldrinum 15-­25 ára, sem er mikilvægt í sjálfu sér, byggir upp reynslu og færni í samfélagslegum málefnum sem og tengingu við lýðræðið í heild.

Samfylkingin

Við ætlum að styrkja barnafjölskyldur sérstaklega og byggja upp menntakerfið. Við viljum stöðva landflótta ungs og efnilegs fólks með því að hjálpa til við að skapa fjölbreytt og vel launuð störf með því að efla nýsköpun og fjárfesta meira í menntun. Við viljum bjóða út fiskveiðikvóta og nýta auknar tekjur til bæta heilbrigðiskerfið og bjóða ungu fólki upp á betri aðstæður.

Við ætlum að auðvelda fólki að flytja heiman og búa í húsnæði sem hentar þeirra aðstæðum. Við viljum skapa aðstæður fyrir styttri vinnuviku og aukna samveru barna með foreldrum sínum.

Við ætlum tvöfalda þá upphæð sem fer í stuðning til barnafjölskyldna.

Við ætlum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækka viðmiðunarupphæðina í fæðingarorlofi í 600 þúsund krónur á mánuði. Þannig er unnið gegn þeirri þróun að færri feður taka fæðingarorlof. Jafnframt þarf að tryggja að börn geti komist á leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur.

Við ætlum okkur að útrýma launamun kynjanna. Það er fullkomlega óþolandi að kynin fái ekki jafnhá laun fyrir sömu vinnu. Þar verður að bæta úr! Við viljum sjá fleiri konu í stjórnunarstöðum – halda áfram á þeirri vegferð sem hófst árið 2010 þegar settir voru kynjakvótar í stjórnir stærstu fyrirtækjanna.

Við viljum færa kosningaaldur niður í 16 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Við ætlum að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum
 • Við ætlum að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman
 • Auka jafnrétti til háskólanáms og tryggja framfærslu nemenda með námsstyrkjum
 • Við ætlum að efla menntakerfið og styrkja heilbrigðiskerfið

 

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum að ungt fólk grípi tækifærin hér en ekki í útlöndum. Við höfum því unnið sleitulaust að því á liðnu kjörtímabili að gera íslenskt samfélag þannig úr garði að hér vilji ungt fólk búa, vinna og vera með fjölskyldu sína um aldur og ævi. Við höfum framtíðarsýn og framkvæmum hana – við viljum því halda áfram á þeirri braut. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra framtíðarsýn og hugsi lengra fram í tímann en aðeins til næsta árs.

Við höfum gert ungu fólki auðveldara með að eignast eigið húsnæði á Íslandi með séreignasparnaðarleiðinni og viljum halda áfram og einfalda regluverk og aflétta margvíslegum kröfum sem keyra upp húsnæðisverð. Við viljum að ungt fólk geti komið undir sig fótunum hér á landi með vinnusemi og frjálsu framtaki. Þess vegna höfum við afnumið ýmis gjöld og skatta og einfaldað regluverkið hér á landi. Um áramótin dettur út milliþrep tekjuskattsins og ungar fjölskyldur sem áður lenntu í mikilli skattheimtu hafa meira á milli handanna. Við viljum afnema ríkisafskipti af nöfnum fólks og lögðum því fram frumvarp á kjörtímabilinu sem leggur niður mannanafnanefnd – það mál er enn óklárað og við viljum klára það. Við viljum líka afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að selja áfengi eins og aðrar löglegar vörur. Við lögðum fram frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu en það er enn óklárað og við viljum klára það. Við viljum að það sé betra að versla á Íslandi en í útlöndum. Við höfum því afnumið tolla og vörugjöld og tryggt að íslensk verslun sé samkeppnishæf. Hingað eru nú á leiðinni H&M og Costco.

Viðreisn

Ungt fólk hefur frá upphafi tekið virkan þátt í stofnun og mótun Viðreisnar. Þá er ungt fólk áberandi í efstu sætum á listum flokksins í öllum kjördæmum landsins. Þetta fólk þekkir stöðu ungs fólks vel. Viðreisn telur mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt stefnumótun og skipulagningu samfélagsins. Stefna flokksins í málefnum ungs fólks einkennist því af raunverulegum og raunhæfum lausnum, þá ekki síst hvað varðar húsnæðis- og menntamál.

Vinstri græn

Við viljum að ungt fólki sjái fyrir sér möguleika og framtíð á Íslandi. Til þess viljum við að gripið sé til aðgerða til þess að mögulegt sé fyrir fólk að leigja eða kaupa húsnæði á viðráðanlegu verði, að heilbrigðiskerfið verði eflt til muna og að námslánakerfinu verði umbylt þannig að lánin verði raunhæf fyrir fólk að lifa á, hluti námslána verði að styrk og að afborganir námslána séu sanngjarnar og viðráðanlegar.

Það er klárt mál að það þarf að huga betur að ungu fólki á landsbyggðinni. Við teljum að brýn þörf sé á betri þjónustu fyrir þennan hóp. Ungt fólk á landsbyggðinni á erfiðara að sækja sér menntun og atvinnu en þeir sem að búa á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðisþjónusta er ekki nægilega aðgengileg og samgöngur misgóðar. Námsmenn sem koma af landsbyggðinni standa höllum fæti. Jafnrétti vegna búsetu verður ekki raunhæft nema með róttækum aðgerðum svo sem búsetustyrk, skattaívilnunum og aukins framboðs á tækifærum til náms og atvinnu.

Við viljum bæta þjónustu almenningssamgangna um allt land, svo þær verði raunverulegur og góður kostur í stað bíla. Einnig viljum við skoða möguleikann á öðrum almenningssamgöngum en strætó, t.d. lestarkerfi. Netsamband þarf að vera gott um land allt, svo að fólk sem að vill búa út á landi og starfa þar hafi raunhæfan möguleika á því með því að stunda sína vinnu í gegnum tölvu.

Ungir foreldrar eiga að hafa kost á því að njóta tímans með börnunum sínum og þess að snúa aftur á vinnumarkað eða í nám ef þau kjósa svo að fæðingarorlofi loknu. Við viljum lengja fæðingarorlof í 12 mánuði, og í framhaldinu eiga öll börn að komast inn í gjaldfrjálsa leikskóla. Sú ömurlega staða sem margir ungir foreldrar eru í á tímanum milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar börn komast inn á leikskóla er óviðunandi. Börn eiga rétt á þessari þjónustu óháð stétt og stöðu foreldra.
Við viljum betri úrræði fyrir þau sem verða fyrir ofbeldi og almennilega meðhöndlun á kynferðisbrotum. Ungar stelpur lifa við þann veruleika að munu líklegast lenda í einhvers konar kynferðisofbeldi. Mjög lítið hlutfall af þeim kæra svo, því að öllum líkindum mun kerfið bregðast þeim. Vinstri græn vilja breyta þessu með aukinni fræðslu í grunnskólum og menntaskólum. Einnig finnst þeim löngu tímabært að lögreglan sé með almennilega verkferla þegar kemur að kynferðisbrotamálum.

Við teljum mikilvægt að hvetja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku og við viljum að ungt fólk fái að hafa áhrif á stefnumótun í samfélaginu. Þess vegna viljum við lækka kosningaaldur niður í 16 ára og auka sýnileika ungs fólks í stjórnmálum. Ungt fólk til áhrifa!

Umhverfismál

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Alþýðufylkingin

Við teljum að gróðasókn kapítalismans sé mesta umhverfisvandamálið. Bæði vegna þess að hún veldur rányrkju á náttúruauðlindum og bruðli með orku, og vegna þess að í sókninni eftir meiri gróða eru gríðarlega miklir og menganri vöruflutningar um heiminn. Auk þess er reynt að auka gróðann með því að spara í mengunarvörnum eða förgun spilliefna.

Stærsta verkefnið í umhverfismálum er því að setja kapítalismanum svo kirfileg mörk, að hagsmunir fólks og umhverfis verði öruggir.

En það er fleira. Það þarf að draga úr útblæstri farartækja og það viljum við m.a. gera með því að efla almenningssamgöngur mjög mikið, bæði á sjó og landi og í lofti. Það þarf að koma umhverfisvænum orkugjöfum á skipaflotann og á landbúnaðarvélar, og stuðla að sjálfbærum og lífrænum landbúnaði. Og það þarf að endurheimta votlendi og skóga, þar sem land hefur verið ræst fram eða rutt en er ekki ræktað.

Við viljum ekki að olía verði unnin á Drekasvæðinu.

Við viljum alls ekki að það verði lagður rafmagnssæstrengur til Skotlands, vegna þess að þá mundi verð fyrir íslenskt rafmagn hækka mjög mikið, sem yrði afar dýrt fyrir landsmenn og mundi setja miklu meiri þrýsting á fleiri virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum.

Björt framtíð

Þrátt fyrir stutta viðveru í umhverfisráðuneytinu síðustu mánuði höfum við komið töluverðu í verk í umhverfismálunum. Við beittum okkur af hörku í ríkisstjórninni fyrir auknu vægi grænna skatta og komum upp samráðsvettvangi ráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum. Þá fengum við það í gegn að horfið yrði formlega frá stóriðjustefnu fyrri ríkisstjórna og hætt að gefa ívilnanir til mengandi stóriðju. Vinna við stór verkefni á borð við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030 og stofnun miðhálendisþjóðgarðs var langt kominn.

Stefna Bjartrar framtíðar í umhvefismálum er í stuttu máli þessi:

Auðlindir jarðarinnar eru ekki ótæmandi og getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við höfum gert. Vistkerfi jarðar eru víða í ójafnvægi eða röskuð, lífbreytileiki hefur rýrnað, loftgæði minnkað, vatn er víða af skornum skammti, moldin eyðist hratt og hafið súrnar æ meir. Loftslagsbreytingar eru líka staðreynd sem við verðum að bregðast við á ábyrgan hátt.

Umhverfis og náttúruvernd verður grunnstef í allri stefnumótun stjórnvalda; hvort sem það er á sviði auðlindanýtingar, menntunar, lýðheilsu eða velferðar. Við viljum að ákvarðanatka um nýtingu náttúruauðlinda byggi alltaf á fræðilegri þekkingu um ástand auðlindanna og á forsendum náttúruverndar. Við viljum að Ísland verði sjálfu sér nægt á sviði orkuframleiðslu og noti aðeins græna orku. Við viljum að landnýting í dreifbýli og þéttbýli miðist við að viðhalda heilbrigðum vistkerufm og að efla innlenda matvælaframleiðslu með því að styrkja sjáfbæran landbúnað.

Hér má lesa ýtarlegri útgáfu af umhverfisstefnu flokksins sem samþykkt var á Ársfundi 2015

Dögun
 • Dögun telur að hinu opinbera beri skylda til að vernda landið og náttúruna fyrir ágangi ferðamana og óafturkræfum skemmdum sem geta orðið vegna virkjana
 • Dögun vill að nýting náttúruauðlinda sé sjálfbær og að orkufyrirtæki séu í eigu almennings en ekki einkaaðila
 • Dögun vill standa við alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfis-og loftlagsmálum og hvetur til þess að hver og einn sýni ábyrgð í um hverfismálum.
 • Dögun vill að tekið sé hóflegt gjald af ferðamönnum til að kosta nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og bæta þjónustu og aðstöðu víða um land.
 • Dögun vill efla íslenskan landbúnað með því að ýta undir nýliðun og frelsi bænda til athafna
 • Við viljum minnka minnka vægi framleiðslutengdra styrkja og taka upp búsetutengda styrki í staðinn til að veita bændum aukið frelsi til ákveða sjálfir hvað þeir framleiða
 • Dögun vill lækka fjármagnskostnað og afnámi verðtryggingar sem auðveldar nýliðun og kynslóðaskipti á bújörðum.
Framsókn

SUF fagnar þeim merka áfanga að þjóðir heims hafi komið sér saman um Parísarsamkomulagið og fagnar að Íslendingar hafi innleitt sinn hluta undir forystu Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra. SUF vill að Ísland verði fyrirmynd annarra þjóða er kemur að sjálfbærni og skynsamlegrar nýtingu náttúruauðlinda með áherslu á að draga saman losun á mengandi efnum, minnka sóun, auka endurvinnslu og stórdraga úr notkun á óæskilegum mengandi efnum eins og plasti.

Húmanistaflokkurinn

Við búum við gegndarlausa ofneysla, losun gróðurhúsaloftegunda og notkun jarðefna eins og olíu sem ógnar nú vistkerfinu. Orsakavaldurinn er meðal annars markaðshyggjan og kapitalisminn eða nýfrjálshyggjan, sem býr stöðugt til nýjar og nýjar gerfiþarfir og lífsstíl sem krefst sífellt aukins hagvaxtar svo hægt sé að græða sem mest. Hins vegar er ekkert tillit tekið til þeirra afleiðinga sem þetta hefur fyrir umhverfið. Þessi stefna byggist á einstaklingshyggju – grunnstefnu kapitalismans – sem gerir ráð fyrir að einstaklingar eða hópar einstaklinga geti fari sínu fram í eiginhagsmunaskyni án tillits til heildarinnar, þ.e. án tillits til afleiðinganna fyrir annað fólk eða fyrir plánetuna sem við búum á.

Rannsóknir hafa bent til þess að ef það neyslustig sem ríkir núna að meðaltali í heiminum öllum myndi halda áfram þyrftu jarðarbúar 5 hnetti á borð við jörðina til þess að standa undir því. Ef hins vegar það neyslustig sem ríkir á Íslandi yrði yfirfært á öll önnur lönd þyrfti meira en 20 hnetti til þess að halda uppi slíkri neyslu.

Við viljum að maðurinn nái að læra að lifa í samræmi við vistkerfið sem hann eru hluti af. Það er alls ekki útilokað að ná því markmiði. Við þurfum að gera allt sem við getum til að vernda fjölbreytileika vistkerfisins og draga úr álaginu sem ráðandi stefna hefur valdið.  

Við Íslendingar þurfum að bregðast skjótt við og draga stórlega úr vistspori Íslands á allra næstu árum til þess að við komumst í hóp þess helmings mannkyns sem mengar minnst.

Þetta er hægt að gera með ýmsum ráðum, Húmanistaflokkurinn leggur meðal annars til eftirfarandi ráðstafanir:

 1. Hætt verði við olíuleit á Drekasvæðinu og öll önnur áform um aukna nýtingu á jarðefnum til orkuöflunar.
 2. Stefn verði að kolefnislausu Íslandi á allra næstu áratugum.
 3. Dregið verði úr hagvexti og hætt að nota peningalega mælikvarða á velferð.
 4. Vinnuvikan verði stytt sem stuðlað getur að minni neyslu og meiri tíma með fjölskyldu og vinum. 
 5. Innflutningur og útflutningur verði minnkaður og stuðst fremur við staðbundinn iðnað í sambandi við matvæli og aðra framleiðslu. 
 6. Dregið verði úr virkjanaframkvæmdum og þær eingöngu leyfðar í sambandi við framleiðslu á rafmagni til umhverfisvænnar starfsemi eins og gróðurhúsaræktar o.fl..
 7. Veitt verði fé til rannsókna á grænum orkugjöfum og öðrum leiðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum
 8. Votlendi verði endurheimt.
 9. Háar álögur verði settar á losun gróðurhúsalofttegunda sem gætu m.a. að skila sér inní borgaralaunakerfið.
 10. Almenningssamgöngur verði stórlega elfdar og dregið að sama skapi úr notkun einkabíla.
 11. Komið verði á hálendisþjóðgarði.

Maðurinn hefur ekki rétt til að taka til sín meira en jörðin þolir með sjálfbærum hætti. Núlifandi kynslóð ber skylda til að skila vistkerfinu í að minnsta kosti eins góðu ástandi og það var í þegar hún tók við því til hinnar næstu.

Til að ná þessum markmiðum þarf að gera grundvallarbreytingar á hagkerfinu, peningakerfinu og neyslusamfélaginu.

Píratar

Meginmarkmið umhverfisstefnu Pírata er sjálfbær þróun. Píratar vilja byggja mannlíf og atvinnulíf sem mest á sjálfbærri hugsun og virðingu við alþjóðaviðmið í umhverfismálum.

Náttúra hálendisins er mjög viðkvæm og það þarf sérstaklega að huga að verndun hálendisins. Einnig vilja Píratar draga úr olíunotkun, sem er ósjálfbær orkuauðlind og umhverfisáhrifin ekki þolanleg.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í umhverfismálum.

Samfylkingin

Að vinna gegn hlýnun jarðar er stærsta og mikilvægasta sameiginlega verkefni mannskyns. Við eigum að gera aðgerðaráætlun þar sem tilgreint er hvaða skref við ætlum að stíga og hvað hvert skref dregur mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar má nefnda orkuskipti í samgöngum og aðgerðir til að auka votlendi aftur hér á landi. Losun gróðurhúsalofttegunda spyr ekki um landamæri og áhrifin á súrnun sjávar er stórkostlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Við ætlum að vera fyrirmynd annarra í þessum málum.

Bann við plastpokanotkun og notkun plastíláta er einnig skref í þá átt að draga úr mengun sjávar. Við viljum fylgja rammaáætlun sem sátt á milli þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja vernda virkjunarkosti okkar. Þjóðgarður á miðhálendinu er mikilvægt umhverfismál sem við ætlum að vinna að.

 

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Sátt um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
 • Gjaldtaka við náttúruperlur
 • Sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu ríkisins
 • Nýtum vistvæna orku – drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda

 

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir víðtækri sátt um nýtingu náttúruauðlinda. Standa vörð um náttúruna og gæta þess að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti og með virðingu fyrir náttúrufegurð og lífríki. Það mun auka lífsgæði og velferð þjóðarinnar.

Gæta þarf að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila, en nýtingin þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka með sama hætti og gilt hefur um sjávarútveg.

Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga þegar slíkt er ekki brýn nauðsyn vegna þjóðarhags.

Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnuuppbyggingu með hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, en sjálfbærni hennar og virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt skilyrði. Í því skyni er brýnt að bæta raforkuflutningskerfi landsins. Við viljum nýta samkeppnisforskot umhverfisvænnar orku og leggja okkar af mörkum í þágu hnattrænnar sjálfbærni í orkumálum.

Fylgja skal í einu og öllu því ferli sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í því felst að ekki verði vikið frá kröfum um virkt umhverfismat á öllum stigum. Einnig að leitað verði sátta á sem breiðustum grundvelli og að tekið verði tillit til athugasemda frá almenningi, fagfólki og hagsmunaaðilum eftir að tillögur verkefnastjórnar liggja fyrir.

Miðhálendi Íslands er einstakur staður á heimsvísu, óspillt víðerni sem illa má við raski. Mikilvæg mannvirkjagerð, líkt og fyrir flutningskerfi raforku, yrði þar til svo mikilla lýta, að allar aðrar leiðir hljóta að koma fyrst til álita.

Náttúruvá vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum verður að taka alvarlega og við þurfum að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda með minni bruna og kolefnisbindingu með eflingu gróðurlenda.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Umhverfismál eru eitt mikilvægasta málefni samtímans. Sjálfbærni á að vera hornsteinn íslensks atvinnulífs. Auðlindir landsins á að nýta með sjálfbærum hætti, hvort sem litið er til fiskveiða, ferðaþjónustu, landbúnaðar eða orkuvinnslu. Stefnt sé að því að árið 2030 verði 95% allrar orku sem notuð er hér á landi endurnýjanleg. Setja á metnaðarfull markmið um orkuskipti í samgöngum og fiskveiðum. Helmingur bílaflota landsmanna verði knúinn endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir 2030 og 90% fyrir 2050.

Fullgildingu Parísarsamkomulagsins verði fylgt eftir. Skattkerfi verði beitt til að ýta undir orkuskipti, auk beins fjárstuðnings til uppbyggingu innviða. Eldsneytisgjöld verði afnumin og kolefnisgjöld tekin upp í þeirra stað til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Draga verður úr matarsóun. Líta ber til úrgangs sem verðmæta og beita grænum sköttum til að tryggja umhverfisvernd.

Vinstri græn

Umhverfismál eru ein af okkur helstu baráttumálum. Það er sérstakt baráttumál fyrir ungt fólk, þar sem við unga fólkið munum þurfa að taka á afleiðingum þess að fyrri kynslóðir fari illa með umhverfið, þar er okkar framtíð og framtíð komandi kynslóða í húfi.
Ung vinstri græn leggja höfuðáherslu á sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun felur í sér að þörfum nútímans til nýtingu auðlinda sé mætt án þess að brotið sé gegn rétti síðari kynslóða til að mæta sínum þörfum. Sjálfbær þróun gerir þá kröfu að við finnum leiðir til sjálfbærni, en hættum að gera óafturkræfar skemmdir á umhverfinu í þágu skammtímagróða. Ávinningarnir af umhverfisvernd og sjálfbærri þróun eru vistfræðilegir, félagslegir og efnahagslegir, og varða allan heiminn.
Við teljum nauðsynlegt að atvinnustarfsemi í landinu sé byggð upp í sátt við náttúruna. Frekari stóriðja en nú hefur verið komið á fót er óforsvaranleg, sérstaklega þegar litið er til þeirra umhverfisspjalla sem hún hefur þegar valdið.

Náttúru Íslands ber að vernda. Náttúran á að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verða að taka mið af sjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfbærni.

Umhverfismálin eiga ekki einungis við landsbyggðina. Ung vinstri græn telja mikilvægt að grænar áherslur séu hafðar í öndvegi við uppbyggingu í þéttbýli, hvort tveggja í samgöngu- og skipulagsmálum. Þá er rík áhersla lögð á að styrkja umhverfisvænar samgöngur líkt og strætisvagnakerfi og hjólreiðastíga en minnka áhersluna sem lögð er á einkabílinn.

Ung vinstri græn krefjast þess að náttúruauðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar en verði þær nýttar skuli þær gagnast öllum landsmönnum jafnt. Ung vinstri græn vilja að stjórnvöld hvetji sérstaklega til meðvitaðrar neyslu og umgengni við umhverfið, meðal annars með allsherjarátaki í sorpvinnslumálum og skipulagðri baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum gera það sem í okkar valdi stendur til þess að hvetja til umhverfisvænni neysluhátta með því að draga úr neyslu, endurnýta og endurvinna.
Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru stærsta verkefni mannkyns á komandi árum og áratugum. Áhrif þeirra á vistkerfi heimsins geta valdið tjóni í hverju einasta ríki og það er forgangsverkefni að draga úr áhrifum þeirra og undirbúa viðbrögð við þeim. Í því samhengi fögnum því að Parísarsáttmálinn hafi verið samþykktur og alþjóðasamfélagið viðurkenni þar með alvarleika loftlagsbreytinga og ætli að sýna samstöðu í að draga úr þeim.

Flóttafólk

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Alþýðufylkingin

Í innflytjendamálum viljum við fyrst og fremst komið sé fram við innflytjendur sem jafningja, með sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir. Þeir hafa ákveðnar sérþarfir sem þarf að sinna vel, einkum eru það innflytjendabörn sem þurfa sérstaka tungumálakennsla, þannig að móðurmál þeirra verði styrkleiki en ekki veikleiki — bæði fyrir þau sjálf og fyrir samfélagið.

Við viljum að Ísland búi sig undir að taka á móti miklum fjölda flóttamanna, bæði með því að byggja upp úrræðin sem þarf til að geta sinnt þörfum þeirra, og með því að skapa sátt um það í þjóðfélaginu, enda verður að vera sátt til þess að það sé hægt. Það er ekki hægt að taka á móti miklum fjölda flóttamanna ef það þýðir að upplausn verði í samfélaginu, og þess vegna þarf að vanda sig mjög mikið til að það heppnist vel.

Aðalstefnan í flóttamannamálum er samt að berjast gegn því sem rekur fólk á flótta til að byrja með: berjast gegn stríði, gegn hungri, gegn drepsóttum og gegn náttúruhamförum.

Við viljum gera Ísland að sérstökum griðastað fyrir fólk sem er ofsótt vegna þess að það sé samkynhneigt eða af öðrum persónulegum ástæðum, og fyrir fólk sem hefur ljóstrað upp um glæpi herveldanna.

Við viljum stofna embætti umboðsmanns fyrir aðflutta, sem hjálpar bæði innflytjendum, flóttamönnum og farandverkafólki að þekkja réttindi sín og skyldur og njóta mannréttinda, kjarasamninga og annars sem á að gilda í landinu.

Við viljum rækta alls konar menningartengsl við lönd þaðan sem margir innflytjendur á Íslandi koma, og við lönd þangað sem margir Íslendingar hafa flutt.

Björt framtíð

Björt framtíð hefur lagt og mun leggja áherslu á málefni flóttafólks í komandi alþingiskosningum enda er fólkið okkar víðsýnt og frjálslynt. Við teljum það skyldu okkar Íslendinga að taka vel á móti fólki sem leitar griðlands og alþjóðlegrar verndar utan síns heimalands vegna stríðsátaka. Björt framtíð horfir til þess mannauðs sem í flóttamönnum býr og þess virðis sem þeir geta fært íslensku samfélagi en ekki eingöngu til þess kostnaðar sem í því felst að taka á móti fólki í neyð.

Móttaka flóttafólks þarf að byggja á skynsemi, yfirvegun, mannúðarsjónarmiðum og skilvirkni til að tryggja að fólk fái þá aðstoð sem til þarf til að það hafi möguleika á að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

Þingmenn Bjartrar framtíðar og flokksmenn hafa ítrekað bent á að Dyflinar-reglugerðin er reglugerð sem Íslendingar eru ekki bundnir af, heldur sé um að ræða valfrjálsa notkun á henni. Það að beita henni án þess að gefa kost á efnislegri meðferð máls sé ómannúðlegt. Vegna þess styður Björt framtíð að hvert og eitt mál verði tekið til efnislegrar meðferðar til að tryggja mannúðlega meðferð, skilvirkni og tryggja að Íslendingar uppfylli siðferðilegar skuldbindingar sínar við alþjóðasamfélagið. Björt framtíð mun beita sér fyrir endurskoðun á eftirfylgni reglugerðarinnar hérlendis í þeim tilgangi að tryggja ofangreint.

Dögun

Dögun er fjölmenningarlega sinnaður flokkur

 • Við viljum taka vel á móti fólki í neyð, við leggjum áherslu á mannréttindi fólks óháð þáttum einsog uppruna og trú
 • Við leggjum áherslu á að virða alþjóðlega samninga um móttöku flóttamanna og að þau njóti réttinda samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Framsókn

SUF telur að Ísland eigi að sýna ábyrgð og taka á móti fólki frá stríðshrjáðum löndum eins og við höfum burði til. Mikilvægt er að vel sé tekið á móti fólkinu og að það nái að aðlagast íslensku samfélagi fljótt.

Húmanistaflokkurinn

Við viljum opna landamæri í átt til heims án landamæra með frjálsum flutningi fólks milli landa og búseturétti þar sem það kýs að búa.  Við Íslendingar teljum sjálfsagt að hafa þennan rétt og það sama ætti að gilda um allar aðrar þjóðir.

Fyrstu skrefin eru að taka á móti mun fleiri flóttamönnum en við gerum núna. Ísland er meðal ríkustu landa í heimi og við getum tekið á móti mörg þúsund flóttamönnum. Móttaka flóttamanna getur verið útgjaldaauki í fyrstu en rannsóknir hér á landi hafa sýnt að þegar fólk frá öðrum löndum fer að taka þátt í þjóðfélaginu þá verður meiri verðmætasköpun í landinu en ella.

Það þarf að veita mun meira fjármagni til mótttöku hælisleitenda og stöðva allar brottvísanir. Móttaka Íslendinga á þeim sem leitað hafa hælis hér á undanförnum árum er þjóðarskömm og í mörgum tilfellum er um alvarleg mannréttindabrot að ræða þar sem fólk er sent út í opinn dauðann.

Það ríkir mikil hræsni í sambandi við svokallaðan „flóttamannavanda“ þar sem milljónir fólks hafa misst heimili sín vegna stríðsátaka og þarf nú að flýja og leita skjóls í Evrópu.  Vesturlönd, þar með talin Evrópa, byggja ennþá á nýlendustefnu og ágirnast auðlindir þeirra landa sem fólkið flýr frá – einkum olíulindir – og beita hervaldi til að ná yfirráðum yfir þeim. Það eru Vesturlönd undir forystu Bandaríkjanna og Nato sem eru orsakavaldarnir af þessum miklu fólksflutningum.

Við Íslendingar styðjum þessar árásir með veru okkar í NATO og stuðningi við árásarstríð Bandaríkjanna. Ísland var meðal viljugra þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna in í Írak 2003. Ísland studdi einnig innrás Nato inn í Lýbanon árið 2011. Báðar þessar innrásir eru taldar hafa stuðlað að því að ISIS samtökin urðu til. Þetta er niðurstaða sérfræðinga í málefnum miðausturlanda og í síðara tilfellinu einnig niðurstaða nýlegrar rannsóknar Breskrar þingnefndar.

Þegar flóttafólkið flýr sprengjuregnið og kemur til Evrópu er því mjög illa tekið og dyrum lokað á það í mörgum löndum og það sent heim. Þetta er eins og að kveikja í húsi og þegar fólkið kemur hlaupandi út þá er því illa tekið og rekið aftur inn í húsið.

Það er mikið ríkidæmi á Vesturlöndum og þau eiga stóra skuld að gjalda þeim stríðsþjáðu löndum sem fólkið er að flýja frá. Þess vegna þurfa lönd Evrópu að bjóða velkomna þessa flóttamenn – Ísland meðtalið – og umfram allt hætta að ráðast á lönd þeirra til að sölsa undir sig auðlindir þeirra heldur bæta þeim það tjón sem  þeim hefur verið búið.

Píratar

Píratar eru alþjóðlega sinnaður flokkur sem gerir ekki siðferðislegan greinarmun á fólki eða réttindum þeirra eftir uppruna. Af því leiðir að við teljum nauðsynlegt að Íslendingar geri mun betur í að aðstoða fólk sem er á flótta undan stríði og öðrum hörmungum, m.a. með því að taka á móti mun fleiri flóttamönnum og hælisleitendum en nú er gert.

Sömuleiðis teljum við að samræma skuli íslenska innflytjendastefnu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt gagnvart öllum erlendum ríkisborgurum, hvort sem þeir sækja um hæli eða dvöl, óháð uppruna þeirra. Stefnt er að sem jöfnustum réttindum, aðgengi og tækifærum alls fólks sem á búsetu á Íslandi.

Nauðsynlegt er að leitað sé eftir þátttöku og aðild innflytjenda, flóttamanna, hælisleitenda og ríkisfangslausra við ákvarðanatöku, sérstaklega í málefnum sem varða þá.

Auka ber ferðafrelsi eftir fremsta megni, sérstaklega á milli þjóðríkja.

Sjá grunnstefnu Pírata um innflytjendamál.

Samfylkingin

Samfylkingin hefur alltaf lagt áherslu á að Ísland taki á móti fleira flóttafólki. Innflytjendur og flóttafólk auðga íslenskt samfélag og menningu.

Á síðasti ári lögðum við fram tillögu að þingsályktun á Alþingi um að taka eigi á móti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum.

Við leggjum áherslu á að:

 • Bjóða fleiri fjölskyldur frá stríðshrjáðum ríkjum velkomnar til Íslands.
 • Sameina fjölskyldur á flótta.
 • Hælisleitendum sem koma til Íslands á eigin vegum sé mætt af mannúð, tekið sé hratt á þeirra málum og börnum sé veitt sérstök þjónusta.
 • Hælisleitendur fái fljótt skorið úr sínum málum og að þeir komist fljótt á vinnumarkaðinn eða í starfstengt nám.
 • Foreldrar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og myndi tengsl við Íslendinga.
 • Flóttafjölskyldur geti átt gott líf hér á landi.
 • Vinna gegn útbreiðslu andúðar í garð fjölmenningar.
 • Íslenskt samfélag sé alþjóðlegt og byggi á fjölbreytni og frjálsu flæði einstaklinga og fjölskyldna milli landa.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á uppbyggilega samræðu og fræðslu um fjölmenningarsamfélagið og gagnkvæma aðlögun, hvort sem er í skólastarfi, á vettvangi þings og sveitarstjórna eða í samfélaginu almennt. Þannig mótum við samfélag þar sem borgarar bera virðingu hver fyrir öðrum og njóta jafnréttis. Ísland er heimili okkar allra.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Móttaka flóttafólks er sjálfsögð
 • Aðstoð við flóttafólk leiði til tækifæra til sjálfsbjargar
 • Tökum vel á móti útlendingum sem hér setjast að

 

Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Jafnframt skal alltaf hafa að leiðarljósi að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til sjálfsbjargar. Móttaka flóttafólks er sjálfsögð. Leggja skal áherslu á að kerfið sé í stakk búið til að taka á móti fólki og vanda til verka, flóttafólki og samfélaginu til heilla. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar í kjölfar neyðar sem skapast hefur í Evrópu undanfarin misseri.

Í fjölmenningarsamfélagi er mannauður og fjölbreytt reynsla til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga og víðsýni. Taka skal vel á móti fólki sem hingað vill flytja og tryggja að það njóti jafnra tækifæra á við aðra.

Tryggja þarf samkeppnishæfni landsins, með því að einfalda veitingu atvinnuleyfa, meta menntun þeirra sem hingað leita að verðleikum og tryggja að aðbúnaður á íslandi geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Móttaka flóttamanna og hælisleitenda er á ábyrgð Íslendinga eins og annarra þjóða. Viðreisn stendur fyrir opið samfélag og virka þátttöku Íslands í alþjóðlegri samvinnu; málefni flóttamanna falla skýrt þar undir. Stytta þarf úrvinnslutíma eins og kostur er, ekki síst út frá mannúðarsjónarmiði. Tryggja þarf með markvissum hætti aðlögun þeirra sem setjast hér að og veita nauðsynlega aðstoð til þess. Móttaka flóttafólks er þó ekki eina málefnið sem skiptir máli, heldur má stórbæta aðstoð við þá sem þegar hafa hlotið hæli eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Eftirfylgni hefur oft verið ábótavant sem getur ýtt undir félagslega einangrun þeirra sem hingað koma.

Samfélagið hefur mikinn hag af því að allir sem flytji hingað verði virkir samfélagsþegnar í gegnum nám eða vinnu. Auðvelda á fólki að koma til Íslands í atvinnuskyni og auðvelda erlendum námsmönnum að búa á landinu að námi loknu. Það fylgir auknum áherslum á málefni flóttafólks að meira fé þarf að leggja í málaflokkinn. Þó er rétt að benda á að styttri meðferðartími í kerfinu sparar fé, sem annars færi í að halda umsækjendum uppi. Þegar fólki er síðan auðveldað að komast á vinnumarkað skilar það sér margfalt til baka, bæði í formi skattfjár og almennrar velferðar. Aukin fjárframlög kunna því að leiða til sparnaðar fyrir samfélagið ef rétt er staðið að.

Vinstri græn

Ísland þarf að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er með því að taka á móti fleira flóttafólki. Nauðsynlegt er að Ísland grípi til aðgerða í ljósi forréttindastöðu sinnar í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.

Við teljum að huga þurfi vel að innflytjenda og flóttamannamálum, þannig að innflytjendum og flóttafólki sé búið eins gott líf hér á landi og mögulegt er, þar sem góð tækifæri eru til þess að aðlagast samfélaginu. Í því samhengi er ótækt að við sendum úr landi fólk sem hefur komið hingað í leit að betra lífi og er tilbúið að byggja sér framtíð á Íslandi.

Það eru mikil samfélagsleg verðmæti og ávinningur fólgin í innflutningi fólks hingað til lands sem kemur hingað til að vinna, sækja sér menntun og setjast hér að. Margir íslendingar hafa flutt af landi brott á undanförnum árum og hlutfall af vinnufæru fólki minnkar sífellt vegna þess að Íslendingar eignast færri börn en áður og fólk lifir lengur. Með því að leyfa fólki að koma og setjast hér að er því mikið lagt til samfélagsins. Okkur þykir öfugsnúið að vísa flóttafólki úr landi á sama tíma og flutt er inn erlent vinnuafl.

Útrýma þarf rasískum viðhorfum sem byggja á þeim forsendum að innflytjendur og flóttafólk eigi minni rétt til lífs og mannréttinda heldur en aðrir. Framkoma stofnana ríkisins og yfirvalda í þessum málaflokki hefur einkennst af skorti á mannúð, eins og fjölmörg nýleg dæmi hafa sýnt undanfarið. Útlendingastofnun þarf að leggja niður í þeirri mynd sem hún er núna. Að auki er algerlega ótækt að skýla sér á bak við Dyflinnar-sáttmálann þegar flóttamönnum er vísað úr landi, þar sem það mun einungis stækka vandann hnattrænt.
Við hvetjum til þess að íslensk stjórnvöld sæki minnst 100 barnafjölskyldur í flóttamannabúðir. Aðstæðurnar sem fólk býr við eru engum sæmandi og sagan mun dæma okkur ef við gerum ekkert til að hjálpa. Að bjarga 100 fjölskyldum er dropi í hafið en það er meira en að gera ekki neitt.

Eins væri hægt að opna fjöldahálparstöðvar víðsvegar um landið og flytja flóttafólk hingað til lands til að létta á aðstæðum í nágrannalöndum okkar og bæta aðbúnað flóttafólks. Víða í Þýskalandi hafa íþróttahallir verið lagðar undir slíkar fjöldahjálparstöðvar. Á Íslandi væri hægt að þjóðnýta íþróttamannvirki tímabundið til að mæta þessum hræðilegu aðstæðum.

Efla þarf þjónustu fyrir innflytjendur, svo sem upplýsingagjöf til þeirra um réttindi, skyldur, atvinnu og húsnæði, ásamt túlkaþjónustu. Brýnt er að tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað í launum eða á nokkurn annan hátt. Bjóða þarf upp á íslenskukennslu, innflytjendum að kostnaðarlausu, sem og móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál. Taka skal vel á móti innflytjendum, ekki síst þeim sem flýja örbirgð og stríð í heimahögum sínum. Tryggja þarf að allir innflytjendur eigi kost á menntatækifærum til að þeir geti nýtt sína hæfileika til fulls í íslensku samfélagi.

Heilbrigðiskerfið

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Alþýðufylkingin

Með því að félagsvæða það! Allir eiga að geta fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu án endurgjalds og eins nálægt heimili sínu og hægt er. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í mikla uppbyggingu um allt land, bæði á heilsugæslu og sjúkrahúsum.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er algjört forgangsmál hjá okkur, enda vitum við að það er ekki hægt að endurreisa það nema með mjög mikilli samstöðu og festu. Af hverju? Vegna þess að það eru sterk hagsmunaöfl sem standa í veginum. Það þarf t.d. að snúa við einkavæðingu í læknisþjónustu, en peningarnir sem borga fyrir hana koma úr sama sjóði og Landspítalinn fær peninga úr: Sjúkratryggingum Íslands. Það þýðir að dýr einkaframkvæmd skerðir möguleika Landspítalans á að vinna sama verk, sem þýðir að biðlistarnir þar verða lengri. Annað dæmi: Margar heilbrigðisstofnanir eru reknar í húsnæði sem er á leigu hjá fasteignafélögum. Leigusamningarnir eru oft dýrir og ekki hægt að segja þeim upp. Með öðrum orðum renna þar peningar út úr kerfinu, beint í vasa auðmanna. Þeir fáu sem njóta þessa fyrirkomulags munu berjast harkalega gegn félagsvæðingu, og þess vegna þurfum við að berjast enn harkalegar fyrir henni.

Við viljum að ríkið taki yfir lyfjaframleiðslu og lyfjasölu í landinu og að hún sé ekki rekin í gróðaskyni, heldur sé áherslan eingöngu sú að útvega fólki þau lyf sem það þarf fyrir eins lítinn kostnað og hægt er.

Það á að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið.

Það er dýrt að missa heilsuna, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir samfélagið. Þess vegna þurfum við að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja sjúkdóma og lækna þá sem samt veikjast. Það er nefnilega ekki sparnaður, heldur sóun að skera niður í heilbrigðismálum.

Þótt þessi stefna muni spara mikla peninga, sem núna borga fyrir gróða fárra, þá mun hún sjálfsagt kosta heilmikla peninga líka, sérstaklega til skamms tíma. Sem betur fer vitum við hvaðan þeir peningar eiga að koma: úr félagsvæðingu fjármálakerfisins. Núna sogar fjármálakerfið hundruð milljarðar út úr raunhagkerfinu á hverju ári. Lítið brot af þeim peningum mundi duga til að endurreisa heilbrigðiskerfið mjög rausnarlega.

Björt framtíð

Björt framtíð leggur áherslu á velferð barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Til þess teljum við að þörf sé á aukinni samvinnu allra þjónustuaðila til að styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Björt framtíð leggur áherslu á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé virtur. Þjónustan þarf að vera samstillt og aðgengileg öllum börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra án tillits til efnahags, þannig bætum við lífsgæði og minnkum sóun. Heilsugæslan hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár bæði hvað varðar mönnun og stefnumörkun. Þetta hefur haft áhrif á samskipti innan kerfis og utan. Mikilvægt er að efla samvinnu heilbrigðisþjónustu og menntakerfis til að auka lífsgæði og draga úr langvinnum heilsufarsvandamálum barna og ungmenna. Björt framtíð leggur áherslu á að grípa þau tækifæri sem eru sannarlega til staðar til heilsueflingar barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra.

Björt framtíð álítur mikilvægt að heilbrigðisþjónustan tryggi aðgengi að þjónustu og ráðgjöf sem felur í sér fjölbreytilega þjónustu allra heilbrigðisstétta og hæfir einstaklingum best hverju sinni. Áhersla er á forvarnir og meðferð sem miðast við að efla lífsgæði, sjálfstæði, val og ábyrgð hvers einstaklings. Margar vísbendingar eru um að almenningur leiti á marga staði til að leita að réttu þjónustunni. Þetta felur í sér verulegan og óþarfa kostnað og á einkum við þegar um er að ræða almennan heilbrigðisvanda en síður þegar um að ræða bráðatilvik, slys eða áföll.

Björt Framtíð telur að gera þurfi sérstakar ráðstafanir innan heilbrigðiskerfisins til þess að koma til móts við þarfir jaðarsettra hópa. Sýnt þykir að skaðaminnkandi þjónusta sem kemur til móts við jaðarsetta einstaklinga og hefur mikið forvarnargildi varðandi ýmsa sjúkdóma og bætir líðan og heilsu þeirra sem þjónustunnar njóta. Við viljum með þessu draga úr álagi á bráðadeildir.

Hér má lesa heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar


Dögun
 • Við viljum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og styttri biðlista.
 • Við viljum að þjóðin fái sanngjarnan hlut af auðlindum sínum og stofna samfélagsbanka (sbr. svar við sp. 1) til að geta gert heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa
Framsókn

Ísland hefur þrátt fyrir allt yfir að ráða mjög góðu heilbrigðiskerfi með afbragsstarfsfólki. SUF leggur áherslu á að byggður verði nýr Landsspítali á nýjum stað sem uppfyllir nútímakröfur starfsfólks og sjúklinga. Þangað til verði aðstaðan á Hringbraut bætt en jafnframt verði horft til þess að byggja upp aftur heilbrigðiskerfið vítt og breitt um landið en síðastliðin ár hefur heilbrigðisþjónusta útá landsbyggðinni dregist mjög saman. Kostnaðarþáttaka sjúklinga verði hverfandi enda lítum við svo á að það sé eitt af grunnverkefnum ríkisins að útvega þegnum landsins heilbrigðisþjónustu, óháð stöðu eða efnahag. SUF lýst illa á hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu enda gæti slíkt leitt til tvöfalds kerfis.

Húmanistaflokkurinn

Heilbrigðiskerfið er að þrotum komið og það vantar tugi milljarða króna til þess að endurreisa það.  M.a. þess vegna viljum við húmanistar gjörbreyta fjármálakerfinu. Þjóðarheimilið (heimilin, atvinnulífið, ríkið) greiðir nú hundruðir milljarða króna árlega í vexti.

Við viljum samfélag án vaxta, við viljum ekki að bankar séu reknir í gróðaskyni. Við viljum losa um þetta gífurlega fjármagn, þessar hundruðir milljarða sem renna til bankanna árlega í gegnum vextina og beina því þess í stað til að byggja upp heilbrigðiskerfið og sinna öðrum félagslegum málefnum eins og kjörum öryrkja og eldra fólks og lausn á húsnæðisvandanum.

Við viljum einnig breyta hugsunarhætti í sambandi við heilbrigðiskerfið. Eins og er þá er heilbrigðiskerfið fyrst og fremst sjúkrakerfi fyrir veikt fólk. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að sinna veiku fólki en ennþá betra er að koma í veg fyrir að fólk  verði veikt.

Við viljum draga úr stórum orsakavöldum sjúkdóma eins og áhyggjum og streitu. Rannsóknir benda til þess að með bættum lífsgæðum, heilbrigðum lífsstíl og forvarnarstarfi sé hægt að fækka verulega þeim sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu.

Með þessu verður gífurlegur sparnaður á útgöldum til Heilbrigðiskerfisins. Einnig yrði minnkað verulega vinnutap vegna sjúkdóma og annað tap á framlagi þeirra sem heilbrigðir eru til samfélagsins.

Heilbrigðiskerfið  á að vera öflugt, af bestu gæðum og ókeypis fyrir alla þar með taldar tannlækningar, augnlækningar og sálfræðiþjónusta.

Píratar

Píratar hafa gagnrýnt verulega fjársvelti heilbrigðiskerfisins og vilja styðja mun betur við það, m.a. í samræmi við stefnu okkar um að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls og aðgengileg öllum. Sömuleiðis viljum við að almannatryggingar og þjónusta heilbrigðiskerfisins nái utan um fleiri meðferðarúrræði; svo sem sjúkraendurhæfingu, meðferð við fíkn, sálfræðiþjónustu, öldrunarþjónustu og tannlækningar.

Píratar hafa viðamikla stefnu í heilbrigðismálum sem gengur m.a. út á að gera langtíma­heilbrigðisáætlun þar sem forvarnir gegna stærra hlutverki en nú. Auka verður þjónustu í dreifðri byggð til að tryggja jafnræði í aðgengi og sinna auknu álagi, til dæmis út af fjölgun ferðamanna út um allt land.

Heilbrigðiskerfið á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag og búsetu. Saman höfum við nefnilega efni á öryggi þegar við verðum veik.

Sjá samþykkt stefnumál Pírata í heilbrigðismálum.

Samfylkingin

Við ætlum að efla opinberahluta heilbrigðiskerfisins. Stórauka á fjárframlög til kerfisins með það að markmið að þau nái 11% af landsframleiðslu eins og var markmið undirskriftarsöfnunarinnar endurreisn.is.

Þá getum við stytt biðlista þannig engin þurfi að bíða lengur en tvo mánuði eftir viðeigandi aðgerð eða þjónustu. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og þar er fyrstu skrefin að lækka kostnað langveikra og gera geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu aðgengilega fyrir alla. Við ætlum ekki að rukka fólk þegar að það stendur veikast fyrir og þarf helst á stuðningi að halda.

 

Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem kenna sér meins og bjóði upp á sálfræðiþjónustu. Við viljum að læknar verði í fullu starfi á spítölum landsins en í dag eru margir í hlutastarfi sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítala óhagkvæma.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Tryggja aðgengi og jafnan rétt allra landsmanna að nauðsynlegri, öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu.
 • Geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd
 • Lækkun lyfja- og sjúkrakostnaðar einstaklinga. Lög sett sem tryggja þak á kostnað einstaklinga
 • Uppbygging Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut, fjármögnun hefur verið tryggð
 • Forvarnir og heilsuefling almennings
 • Heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað en styrkja verður grunn heilbrigðisþjónustunnar enn frekar
 • Áframhaldandi átak í að stytta biðlista
 • Aukin þjónusta við aldraða
 • Heildstæð heilbrigðisstefna mótuð og henni hrint í framkvæmd
 • Stefna um fjarheilbrigðisþjónustu

 

Liðlega 38 milljörðum króna meira hefur verið varið í heilbrigðismál á kjörtímabilinu en áður. Það er raunaukning á framlögum til heilbrigðismála upp á 16%. Það munar um minna. Vel tókst til við að verja og efla heilbrigðiskerfið á erfiðum tímum. Nú er komið að uppbygginu en forsenda uppbyggingar í þessum málaflokki er stöðugleiki í efnahagsmálum. Þá þarf að greiða niður skuldir ríkissjóðs en þannig skapast aukið svigrúm til að ráðstafa fjármunum í heilbrigðismálin.

Efnahagur fólks á ekki ráða aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Kostnaður má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt, í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs, að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar og færa hana til til jafns við það sem þekkist á Norðurlöndum.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu sem er einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og mikilvægur þáttur í að tryggja góð lífskjör og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Jafn aðgangur og réttur til heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, skal vera ófrávíkjanlegur hluti af heilbrigðisstefnunni.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Eitt af lykilatriðum Viðreisnar er að standa vörð um rétt allra landsmanna til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í heilbrigðismálum á komandi árum. Bæta þarf gæði þeirrar þjónustu sem nú er veitt, en um leið þarf heilbrigðiskerfið að vera í stakk búið að takast á við stóraukið álag og kostnað vegna öldrunar þjóðarinnar. Leiða má líkur að því að árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins muni að óbreyttu aukast um 40-60 milljarða króna vegna þessa. Því þarf að tryggja aukið fjármagn en einnig bætta nýtingu fjármuna.

Stefnt sé að því að tannlækna- og sálfræðiþjónusta verði hluti tryggingakerfis. Þá verði ráðist strax í uppbyggingu nýs Landspítala, en mjög brýn þörf er á endurnýjun spítalans og mikilvægt er að byggingu hans verði hraðað sem kostur er.  Heilbrigðisþjónusta skal vera í fremstu röð og einstaklingsmiðuð. Bjóða þarf upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir, eins og t.d. fjarlækningar.

Beita þarf forvörnum í meira mæli sem langtíma fjárfestingum í heilbrigði. Hækkandi lífaldur og vaxandi hlutfall lífsstílssjúkdóma undirstrika mikilvægi forvarna með aukinni fræðslu og metnaðarfullum manneldismarkmiðum. Efla þarf hlutverk heilsugæslunnar í forvörnum og setja Íslandi lýðheilsustefnu. Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir gegn sjálfsvígum með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Leita þarf leiða til að auka afkastagetu heilbrigðiskerfisins. Í því skyni má horfa til aukinnar fjölbreytni rekstrarforma á ákveðnum sviðum.Tryggt verði að kostnaðarþátttaka notenda sé með sanngjarnt hámark sem miðist við heildarkostnað hverrar fjölskyldu.

Vinstri græn

Fyrst og fremst þarf meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið. Með meira fjármagni er hægt að endurnýja húsnæði og tækjabúnað, greiða heilbrigðisstarfsfólki mannsæmandi laun og koma þannig í veg fyrir stórtækan flótta úr landi og lækka greiðsluþátttöku sjúklinga eins og hægt er. Aðgangur að ókeypis heilbrigðisþjónustu eru almenn mannréttindi, og við viljum vinna að því markmiði að heilbrigðiskerfið verði frítt. Peningar þjóðarinnar eiga að fara í opinbera heilbrigðiskerfið, en ekki í að styrkja einkarekna heilbrigðisþjónustu sem nýtist aðeins þeim sem að eiga peninga. Við viljum gott heilbrigðiskerfi fyrir alla, ekki lélegt heilbrigðiskerfi fyrir þau fátæku og gott heilbrigðiskerfi fyrir þá ríku, og höfnum því markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu þar sem að sjúklingar fá stöðu viðskiptavina sem hægt er að græða á. Með opinberum rekstri heilbrigðiskerfisins fæst yfirsýn yfir kerfið og hægt er að hámarka nýtingu fjármagns og tryggja aðgang án aðgreiningar, með áherslu á jafnræði og gæði.

Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu og tryggja þarf að notendur heilbrigðisþjónustunnar komi að skipulagi hennar. Byggja þarf upp öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir landið allt þannig að almenningur geti sótt sér grunnþjónustu sem næst heimabyggð.

Útgjöld vegna lyfja og læknisþjónustu hafa hækkað sem hlutfall af tekjum heimila og brýnt er að afnema sjúklingagjöld og lækka lyfjakostnað sjúklinga. Fyrsta skrefið er að öll heilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni verði gjaldfrjáls, tannlækningar, sálfræði- og geðlæknaþjónusta þar með taldar.

Lækka þarf lyfjakostnað með hagkvæmari innkaupum, hindra einokun á lyfjamarkaði og kanna möguleika á því að setja aftur á stofn lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera. Lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera gjaldfrjáls. Aðgengi að S-merktum lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af því hverju sjúklingur hefur efni á eða þeim fjölda sem þarf á sama lyfi að halda.

Forvarnir, sálfræðiþjónusta og tannlækningar eiga að vera í boði innan heilsugæslunnar. Byggja þarf upp þekkingu og þjálfun til að unnt sé að veita geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum.

Mikilvægt er að auka þekkingu á afleiðingum og einkennum ofbeldis í heilbrigðiskerfinu öllu en ekki síst í heilsugæslu, skólahjúkrun og mæðravernd. Allt heilbrigðisstarfsfólk þarf að þekkja einkenni og afleiðingar ofbeldis og tryggja þarf viðeigandi úrræði fyrir þau sem búa við eða verða fyrir hvers kyns ofbeldi.

Utanríkismál

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Alþýðufylkingin

Við erum algjörlega á móti aðild að ESB vegna þess að við álítum ESB vera samsteypu auðvaldsríkja með það aðalmarkmið að verja hagsmuni evrópsks auðvalds, gegn almenningi í Evrópu og annars staðar. Við viljum að Ísland haldi fast í fullveldi sitt vegna þess að við viljum nota þann rétt sem fullveldið gefur, til þess að félagsvæða innviði landsins — svo þeir þjóni almenningi en ekki auðvaldinu. ESB-aðild mundi trufla það alvarlega vegna þess að markaðsvæðing er stefna ESB, sem aðildarríkin þurfa að fylgja.

Við erum líka alfarið á móti því að Ísland taki þátt í fleiri árásarstríðum, og þess vegna viljum við að Ísland hætti í NATÓ, sem dró landið inn í stríðið gegn Júgóslavíu 1999, gegn Afganistan 2001 og gegn Líbýu 2011.

Í utanríkismálum viljum við að Ísland beiti sér fyrir friði, mannréttindum og umhverfisvernd, og gegn kapítalismanum sem ógnar þessu öllu.

Björt framtíð

Við viljum beita okkur fyrir því að Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar á alþjóðavísu og verði öðrum til eftirbreytni með róttækni sinni í þessum málum. Við viljum að Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum með þátttöku í þróunarsamvinnu, hjálparstarfi og friðarumleitunum, en taki ekki þátt í hernaði.

Við viljum líka að Íslendingar landi eins góðum samningi og völ er á við Evrópusambandið og að þjóðin taki afstöðu til aðildar á grunni fullkláraðs samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu, að undangenginni upplýstri og vandaðri umræðu. Við viljum að Íslendingar verði virkir og mikilvægir þátttakendur í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu innan ESB, kjósi þjóðin aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum meira frelsi ríki í viðskiptum neytendum til hagsbóta, þ.m.t. í innflutningi á matvælum. Við viljum að Ísland vinni Eurovision.

Dögun
 • Við viljum að Ísland sé áfram herlaust og kjarnorkuvopnalaust
 • Við viljum að þjóðin fái að ráða í eins stóru máli og aðild að ESB og leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu
 • Við erum á móti því að Ísland verði aðili að stórum alþjóðlegum samningum á borð við TISA sem gagnast fyrst og fremst stórfyrirtækjum.
Framsókn

Ísland á allt sitt undir því að alþjóðasamningar og lög séu virt og deilur skuli leystar friðsamlega. SUF leggur sértaka áherslu á að Ísland á mikla samleið með norðurlandaþjóðunum enda höfum við sameiginlegra hagsmuna gæta hvað varðar auðlindir, arfleið, þjóðmenningu og öryggismál. Norræn samvinna skipar mikilvægan sess í utanríkisstefnu landsins. Ennfremur vill SUF beita sér fyrir því að Ísland fordæmi og beiti sér gegn hverskonar mannréttindabrot auk þess að framlög til þróunarsamvinnu verði aukin. Ísland hefur mikið fram að færa tengt jafnréttismálum og viljum við halda áfram að berjast fyrir auknu jafnrétti kynjanna á alþjóðavettvangi líkt og Gunnar Bragi lagði sérstaka áherslu á í utanríkisráðherra tíð sinni.
SUF telur hagsmuni Íslands best borgið utan ESB, ljóst má vera að þær forsendur sem voru fyrir inngöngu á síðasta kjörtímabili eru brostnar og ljóst að ef einhver áhugi væri fyrir að halda þeim áfram ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aftur.

Húmanistaflokkurinn

Unnið verði að myndun bandalags við þau ríki sem skuldbinda sig til að koma á raunverulegu lýðræði og grundvallar mannréttindum, svo sem að tryggja afkomu alls almennings. Ákveðið hlutfall af fjárlögum verði ætlað til þess að hjálpa illa stöddum þjóðum til að uppfylla þetta markmið.

Við viljum opna landamæri í átt til heims án landamæra með frjálsum flutningi fólks milli landa og búseturétti þar sem fólk kýs að búa.  Frelsi og jafn réttur verði tryggður fyrir alla menningarheima og trúarbrögð og tryggð verði virðing fyrir fjölbreytileika.

Öllum kjarnavopnum verði eytt án tafar. Ísland hætti þátttöku í árásarstríðum Bandaríkjanna og NATO. Ísland segi sig úr NATO – þessum samtökum sem vilja nota stríð til þess að koma sínu fram. Ágreiningsmál milli landa verði leyst með samkomulagi og þjóðir heims geri sáttmála sín í milli um að ráðast ekki á hvert annað.

Húmanistar hafna stríði sem lausn á deilumálum og hafna einnig öllum hernaðarbandalögum og krefjast þess að árásarherir yfirgefi hernumin svæði.

Húmanistaflokkurinn er alþjóðlegur og alþjóðlega sinnaður  flokkur. Flokkurinn er hins vegar á móti því að Ísland gangi í ESB. Ástæðan er sú að ESB er fyrst og fremst samtök banka og alþjóðlegra fyrirtækja en ekki lýðræðisleg samtök fólksins sem býr í Evrópu.

Við styðjum hins vegar hreyfingu sem komin er af stað og studd af lýðræðissinnuðum öflum, m.a. Húmanistaflokkum í Evrópu, til þess að koma raunverulegu lýðræði í ESB löndunum. Þessi samtök nefnast DIEM 25 og voru stofnuð að frumkvæði hagfræðingsins Yanis Varoufakis fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands.

Píratar

Píratar eru eins og áður sagði alþjóðlega sinnaður flokkur og vilja að Ísland taki aukinn þátt í alþjóðlegum verkefnum og samstarfi, t.d. með því að gerast aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu og CERN. Með auknu alþjóðlegu samstarfi í vísindarannsóknum stóraukast möguleikar Íslendinga á atvinnu, menntun og tækniþróun á Íslandi.

Píratar vilja boða til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort klára eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Aðildin sjálf krefst svo að sjálfsögðu annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland vilji gerast meðlimur að Evrópusambandinu sjálfu að loknum aðildaviðræðum.

Samfylkingin

Við viljum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðan við ESB. Þjóðin á að ráða för í þessu risastóra hagsmunamáli með það fyrir augum að hér verði hægt að njóta annarra valkosta í gjaldeyrismálum.

Samfylkingin hefur til margra ára talað fyrir því að hagsmunum Ísland sé best borgið innan Evrópusambandsins. Margfalt hærri vextir hér á landi rýra lífskjör fólks hér og hækka húsnæðiskostnað fram úr hófi. Besta leiðin til að lækka vexti og tryggja stöðugleika er að taka upp evru samhliða inngöngu í Evrópusambandið. Upptaka evru er líka nauðsynleg til að skapa betri starfsskilyrði hér á landi fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði og í nýsköpun.

Samfylkingin vill að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir frjálsri Palestínu, aukinni þróunarsamvinnu, vinni að auknu jafnrétti kynjanna, friðsamlegum lausnum í deilumálum, umhverfisvernd og alvöru aðgerðum til að berjast gegn hlýnun jarðar. Við ætlum að berjast gegn aukinni misskiptingu í heiminum og fyrir mannréttindum allra við hlið systurflokka okkar sem eru leiðandi á þessum sviðum. Það gerum við með best með góðri samvinnu við önnur lýðræðisríki, virkri þátttöku innan alþjóðasamfélagsins og á vettvangi Evrópusambandsins.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi
 • Ísland standi utan ESB
 • Tengsl við Bretland eftir Brexit tryggð
 • Fríverslunarsamnings við Bandaríkin leitað
 • Utanríkisstefnan grundvöluð á norrænu samstarfi, EFTA- EES og NATO
 • Hagsmuna Íslands á norðurslóðum gætt

 

Ísland á að beita sér fyrir frjálsum viðskiptum á alþjóðavettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn vill kappkosta að treysta tengslin við Bretland þar sem úrsögn þess úr Evrópusambandinu er í undirbúningi. Eins er brýnt að leitað verði eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin og víðar um heim. Sjálfstæðisflokkyrinn telur að hagmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins. Aðildarviðræður má ekki hefja að nýju nema þjóðin verði fyrst spurð í beinni atkvæðagreiðslu hvort hún óski eftir aðild að ESB.

Forsendur þess að bæta kjör íbúa fátækustu ríkja heims eru aukin utanríkisviðskipti og virðing fyrir umhverfismálum. Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að reisa viðskiptamúra gegn þeim.

Sjá nánar á www.xd.is

Viðreisn

Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja, ekki síst á sviðum menningar, efnahags og viðskipta. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn felst í skýrri samstöðu og samvinnu við ríki sem deila með áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu. Það er nauðsynlegt að Ísland sé virkur þáttakandi í EES samstarfinu og tryggi þannig að einstaklingar og fyrirtæki njóti þeirra réttinda sem samningurinn felur í sér. Gera þarf stjórnsýslunni kleift að sinna því verkefni sómasamlega.

Aðild að Evrópusambandinu (ESB) geta fylgt margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna vill Viðreisn að það verði borið undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við ESB. Niðurstaða þeirra samningaviðræðna verði einnig borin undir þjóðina. Báðar atkvæðagreiðslur verði bindandi.

Unnið skal að því að tryggja frið og öryggi í heiminum í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir. Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar.

Vinstri græn

Ung vinstri græn grundvalla utanríkisstefnu sína á hugsjónum friðarstefnu og félagslegrar alþjóðahyggju. Markmiðið er að tryggja öllum þau mannréttindi að þurfa ekki að búa við kúgun og ófrið, hvar sem þau búa í heiminum. Við fordæmum hernaðarhyggju og vopnavæðingu, og styðjum við friðsamlegar lausnir átaka. Ísland á að vera herlaust land og við viljum ekki að her annars lands dvelji eða æfi hér á landi. Sömuleiðis erum við á móti því að að Ísland taki þátt í alþjóðasamstarfi sem felur í sér hernað eða svokallað „varnarsamstarf“. Við viljum að Íslands gangi úr NATO.
Við viljum að íslensk stjórnvöld auki á markvissan hátt samvinnu við fátæk ríki á jafnréttisgrundvelli til að styrkja innviði þeirra. Ísland ætti að verja lágmarki 1% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu, en sú tala mætti þó gjarnan vera hærri. Íslensk stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að bundinn sé endir á siðlausa viðskiptahætti og arðrán í fátækum löndum. Einnig ættu stjórnvöld að þrýsta enn frekar á Ísrael að viðurkenna landamærin frá 1967 og skili palestínsku þjóðinni þeim svæðum sem það hefur stolið.

Við teljum hagsmunum Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins. Það er eflaust margt sem gæti reynst gagnlegt við það að ganga í sambandið, t.a.m. stöðugri og öruggari gjaldmiðill. En burtséð frá því þá er Evrópusambandið hernaðarsamband í þeim skilningi að lönd innan Evrópusambandið verða að styðja stríð hvors annars. Okkur finnst ekki í lagi að Ísland skuldbindi sig með þessum hætti til þess að taka þátt í stríði annarra ríkja. Einnig er það mjög siðferðislega vafasamt á alþjóðavísu að vera í viðskiptabandalagi með öðrum vel stæðum ríkjum innan Evrópu, þar sem þróunarlönd hafa ekki sömu tækifæri til viðskipta. Þannig er þróunarlöndunum haldið niðri í alþjóðlegu viðskiptalífi.
Að lokum viljum við beita okkur fyrir lokun skattaskjóla eða alþjóðlegum aðgerðum sem miða að því og við styðjum sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða.

Stjórnarskrá

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Alþýðufylkingin

Við erum að mörgu leyti ánægð með frumvarp stjórnlagaráðs, t.d. með ákvæði um auðlindir í þjóðareign (sem þó mættu ganga lengra) og með beinni aðkomu almennings að ákvörðunum í gegn um þjóðaratkvæðagreiðslur (sem þó eru ekki nein töfralausn). Við erum ekki ánægð með 111. grein, um valdaframsal, vegna þess að við viljum ekki að Ísland framselji fullveldi sitt.

Við teljum stjórnarskrána hvorki eiga sök á kreppunni né spillingu í stjórnmálum almennt. Þess vegna teljum við ekki að ný stjórnarskrá sé svo mikilvæg að allt sé leggjandi í sölurnar fyrir hana.

Aðalbreytingarnar sem við teljum nauðsynlegar á Íslandi snúast þess vegna ekki um stjórnarskrána. Hins vegar verður tilefni til að skrifa nýja og róttækari stjórnarskrá í framtíðinni, þegar þessar breytingar eru orðnar.

Björt framtíð

Björt framtíð leggur þunga áherslu á að við setjum okkur nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs í samræmi við vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012.

Dögun
 • Við viljum nýja stjórnarskrá og aukið lýðræði fyrir fólk alla daga
 • Við viljum völd til fólksins milli kosninga
 • Við viljum aukið beint lýðræði
 • Við vilijum tryggja að 10% kjósenda geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál sem er
Framsókn

Hófsamar breytingar af vel yfirlögðu ráði á stjórnarskránni eru til bóta. Frumvarp Sigurðar Inga forsætisráðherra eru dæmi um slíkar breytingar en þær voru unnar af þverpólítískri nefnd, þar sem allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi höfðu sæti.

Húmanistaflokkurinn

Húmanistaflokkurinn telur að stjórnarskrárfrumvarpið sem Stjórlagaráð samdi gangi ekki nógu langt í  lýðræðisátt.  Við vildum að heimilað væri að þjóðin greiddi atkvæði um fjármál og skatta en þessi mál eru undanþegin í ákvæðinu um þjóðaratkvæði í frumvarpi Stjórnlagaráð.  Við töldum einnig að nýja stjórnarskráin ætti að fjalla um fjármálakerfið en um það er ekkert fjallað í frumvarpinu.

Hins vegar var stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráðs sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar var það samþykkt af þjóðinni. Þess vegna telur Húmanistaflokkurinn að stjórnarskrárfrumvarpið ætti að taka gildi þótt við teljum að  það hefði mátt bæta.

Píratar

Samþykkja skal nýja stjórnarskrá þar sem tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar. Píratar leggja gríðarlega áherslu á þetta mál í þessum kosningum og munu gera það á komandi kjörtímabili ef við fáum til þess umboð, enda er löngu kominn tími til að stjórnvöld efli loforð sitt um nýja og nútímalegri stjórnarskrá þjóðarinnar og virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór 20. október 2012.

Samfylkingin

Eitt af okkar fyrstu verkum verður að halda áfram þar sem frá var horfið vorið 2013 við gerð nýrrar stjórnarskrár. Við ætlum í þeirri vinnu að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá frá því í október 2012. Fullbúin stjórnarskrá verði borin undir þjóðina fyrir lok kjörtímabilsins.

Sjálfstæðisflokkurinn

 

 • Stjórnarskráin er grunnlög landsins og breytingar á henni geta reynst afdrifaríkar
 • Vanda þarf breytingar og forðast kollsteypur
 • Víðtæk sátt þarf að vera um stjórnarskrárbreytingar

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill fara varlega í breytingar á stjórnarskránni. Heildarendurskoðun og umbylting á öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist ekki sjónarmiðum um réttaröryggi, stöðugleika í stjórnskipun landsins og fyrirsjáanleika í samfélaginu. Það þarf því að gæta vel að öllum breytingum og að þær fari ekki í gegn nema um þær ríki sátt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að mikilvægum breytingum á stjórnarskránni, síðast árið 1995 þegar mannréttindi fólks voru tryggð í stjórnarskrá.

Við í Sjálfstæðisflokknum teljum einnig að þær tillögur sem liggja nú fyrir frá stjórnarskrárnefnd séu góður grunnur að breytingum á stjórnarskránni t.d. ákvæði um þjóðaratkvæðisgreiðslur, án þess þó að kollvarpa henni. En breytingar þarf að gera í áföngum til að tryggja þannig stöðugleika í stjórnskipun landsins.

Viðreisn

Ýmislegt í núverandi stjórnarskrá má bæta. Þess vegna telur Viðreisn að þörf sé á endurnýjun hennar. Hana skal endurnýja í áföngum og í heildstæðu og skýru ferli. Í þeirri endurnýjum skal taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs ásamt öðrum tillögum sem komið hafa fram. Skýr áætlun þarf þá að liggja fyrir til að tryggja það að endurnýjun gangi eftir.

Með nýrri stjórnarskrá yrði meðal annars stefnt að því að tryggja jafnt vægi atkvæða um allt land. Auk þess yrði stefnt að aðskilnaði ríkis og kirkju, en þó að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vinstri græn

Gamla stjórnarskráin er löngu úrelt og það er kominn tími til á að þjóðin eignist nýja og nútímalegri stjórnarskrá. Það er mikilvægt að ráðist verði í stjórnarskrárbreytingar eins fljótt og auðið er. Við viljum sérstaklega leggja áherslu á fjögur mál í nýrri stjórnarskrá: auðlindir í sameign þjóðarinnar, leiðir til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd og ákvæði um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði.

Taka þarf til greina það sem kom út úr þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 ásamt ákvæðum um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur; þ.e. ákvæði um persónukjör, jafnt vægi atkvæða og skipan kirkjumála og byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og vinnu ráðsins, stjórnalaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili.