vidreisn_logo_trans

Listabókstafur: X-C
Formaður: Benedikt Jóhannesson
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 7
Stutt lýsing: Viðreisn er frjálslynt stjónmálaafl sem berst fyrir réttlátu samfélagi, stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum tækifærum. 

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?
  1. Kerfisbreytingar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Markaðsleið farin í sjávarútvegi, þar sem hluti kvótans er settur á uppboð á hverju ári og afgjaldinu varið í innviðasjóði á hverju svæði um sig. Stuðningur við bændur miði að auknu hagræði landbúnaðar. Valfrelsi neytenda verði aukið með opnun á innflutningi á erlendum landbúnaðarvörum og markvissri lækkun verndartolla. Þetta mun stórlega bæta hag þeirra sem hafa úr litlu að spila.
  2. Efla þarf heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu samfélagsins. Standa vörð um rétt allra til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og tryggja gott aðgengi. Tryggt verði að kostnaðarþátttaka notenda sé með sanngjarnt hámark sem miðist við heildarkostnað hverrar fjölskyldu. Sálfræðiþjónusta verði eðlilegur hluti tryggingakerfis.
  3. Vextir eru einn hæsti kostnaðarliður íslenskra heimila og fyrirtækja. Lækka má vexti umtalsvert með  upptöku myntráðs í því skyni að tryggja stöðugleika krónunnar. Stöðugt gengi er jafnframt forsenda verðlagsstöðugleika. Aukinn stöðugleiki og lægri vextir er kjarabót til allra.
Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Í menntamálum telur Viðreisn brýnt að auka fjölbreytni og sveigjanleika. Mikilvægt er að fólk fái svigrúm og frelsi til að læra það sem hentar hæfileika- og áhugasviði þeirra. Það hentar einum að gera eitt og öðrum að gera annað. Mikilvægt er að virða þetta svo hægt sé að nýta krafta og eiginleika einstaklinga til fulls.

Við viljum stytta námstíma á grunn- og framhaldsskólastigi til samræmis við nágrannalönd okkar. Markmiðið með því er meðal annars að auka sveigjanleika í námshraða. Auka þarf fjölbreytni og gera skapandi og starfstengdu námi hærra undir höfði. Sporna þarf gegn brotthvarfi nemenda úr námi. Þar þarf sérstaklega að horfa til drengja og nemenda af erlendum uppruna. Tryggja þarf fjármögnun menntakerfisins. Auka þarf samstarf atvinnulífs og menntakerfis á öllum skólastigum og tryggja að námsframboð endurspegli atvinnutækifæri hverju sinni.

Viðreisn styður þá megin hugsun í LÍN frumvarpi að teknir verði upp beinir námsstyrkir í stað niðurgreiddra lána. Slíkt fyrirkomulag mun minnka skuldsetningu flestra námsmanna og virka hvetjandi á námsframvindu. Huga þarf þó vel að áhrifum þessara breytinga á einstaka hópa áður en þeim er hrint í framkvæmd. Viðreisn vill áfram tekjutengja afborganir námslána.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

Auðvelda þarf ungu fólki fyrstu skrefin á fasteignamarkaði. Í húsnæðismálum er einna helst þrennt sem torveldar ungu fólki að flytja að heiman; háir vextir, hár byggingakostnaður og ómarkviss stuðningur. Því þurfa lausnir að vera markvissar og byggjast á skynsemi.

Tryggja þarf nægt framboð lóða hverju sinni til að mæta eftirspurn, hvort heldur sem er til leigu eða kaups. Skapa þarf hvata til að byggja húsnæði með hagkvæmum hætti til að auka framboð af húsnæði og lækka byggingakostnað. Stjórnvöld eiga að horfa til aukinnar nýsköpunar á íbúðamarkaði, þar sem horft verði til íbúðarforma sem endurspegla breyttar kröfur. Má þar nefna smærri íbúðir, aukið vægi sameigna o.s.frv. Viðreisn styður frumvarp um almennar íbúðir sem ætlað er að stuðla að uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Samræma þarf vaxta- og húsaleigubætur. Heimila á ungu fólki að nýta lífeyrissparnað til útborgunar við fyrstu kaup.

Stefna Viðreisnar að taka upp myntráð á Íslandi mun strax hafa jákvæð áhrif á vaxtastig og því bein áhrif á möguleika ungs fólks til fasteignakaupa.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu?

Góð andleg heilsa er forsenda velferðar. Viðreisn vill að lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir gegn sjálfsvígum með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu, ekki síst í aldurshópnum 18 til 25 ára. Taka skal mið af þörfum nemenda og almennri vellíðan þeirra. Stefnt sé að því sálfræðiþjónusta verði eðlilegur hluti tryggingakerfis.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Ungt fólk hefur frá upphafi tekið virkan þátt í stofnun og mótun Viðreisnar. Þá er ungt fólk áberandi í efstu sætum á listum flokksins í öllum kjördæmum landsins. Þetta fólk þekkir stöðu ungs fólks vel. Viðreisn telur mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt stefnumótun og skipulagningu samfélagsins. Stefna flokksins í málefnum ungs fólks einkennist því af raunverulegum og raunhæfum lausnum, þá ekki síst hvað varðar húsnæðis- og menntamál.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Umhverfismál eru eitt mikilvægasta málefni samtímans. Sjálfbærni á að vera hornsteinn íslensks atvinnulífs. Auðlindir landsins á að nýta með sjálfbærum hætti, hvort sem litið er til fiskveiða, ferðaþjónustu, landbúnaðar eða orkuvinnslu. Stefnt sé að því að árið 2030 verði 95% allrar orku sem notuð er hér á landi endurnýjanleg. Setja á metnaðarfull markmið um orkuskipti í samgöngum og fiskveiðum. Helmingur bílaflota landsmanna verði knúinn endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir 2030 og 90% fyrir 2050.

Fullgildingu Parísarsamkomulagsins verði fylgt eftir. Skattkerfi verði beitt til að ýta undir orkuskipti, auk beins fjárstuðnings til uppbyggingu innviða. Eldsneytisgjöld verði afnumin og kolefnisgjöld tekin upp í þeirra stað til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Draga verður úr matarsóun. Líta ber til úrgangs sem verðmæta og beita grænum sköttum til að tryggja umhverfisvernd.

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Móttaka flóttamanna og hælisleitenda er á ábyrgð Íslendinga eins og annarra þjóða. Viðreisn stendur fyrir opið samfélag og virka þátttöku Íslands í alþjóðlegri samvinnu; málefni flóttamanna falla skýrt þar undir. Stytta þarf úrvinnslutíma eins og kostur er, ekki síst út frá mannúðarsjónarmiði. Tryggja þarf með markvissum hætti aðlögun þeirra sem setjast hér að og veita nauðsynlega aðstoð til þess. Móttaka flóttafólks er þó ekki eina málefnið sem skiptir máli, heldur má stórbæta aðstoð við þá sem þegar hafa hlotið hæli eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Eftirfylgni hefur oft verið ábótavant sem getur ýtt undir félagslega einangrun þeirra sem hingað koma.

Samfélagið hefur mikinn hag af því að allir sem flytji hingað verði virkir samfélagsþegnar í gegnum nám eða vinnu. Auðvelda á fólki að koma til Íslands í atvinnuskyni og auðvelda erlendum námsmönnum að búa á landinu að námi loknu. Það fylgir auknum áherslum á málefni flóttafólks að meira fé þarf að leggja í málaflokkinn. Þó er rétt að benda á að styttri meðferðartími í kerfinu sparar fé, sem annars færi í að halda umsækjendum uppi. Þegar fólki er síðan auðveldað að komast á vinnumarkað skilar það sér margfalt til baka, bæði í formi skattfjár og almennrar velferðar. Aukin fjárframlög kunna því að leiða til sparnaðar fyrir samfélagið ef rétt er staðið að.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Eitt af lykilatriðum Viðreisnar er að standa vörð um rétt allra landsmanna til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í heilbrigðismálum á komandi árum. Bæta þarf gæði þeirrar þjónustu sem nú er veitt, en um leið þarf heilbrigðiskerfið að vera í stakk búið að takast á við stóraukið álag og kostnað vegna öldrunar þjóðarinnar. Leiða má líkur að því að árlegur kostnaður heilbrigðiskerfisins muni að óbreyttu aukast um 40-60 milljarða króna vegna þessa. Því þarf að tryggja aukið fjármagn en einnig bætta nýtingu fjármuna.

Stefnt sé að því að tannlækna- og sálfræðiþjónusta verði hluti tryggingakerfis. Þá verði ráðist strax í uppbyggingu nýs Landspítala, en mjög brýn þörf er á endurnýjun spítalans og mikilvægt er að byggingu hans verði hraðað sem kostur er.  Heilbrigðisþjónusta skal vera í fremstu röð og einstaklingsmiðuð. Bjóða þarf upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir, eins og t.d. fjarlækningar.

Beita þarf forvörnum í meira mæli sem langtíma fjárfestingum í heilbrigði. Hækkandi lífaldur og vaxandi hlutfall lífsstílssjúkdóma undirstrika mikilvægi forvarna með aukinni fræðslu og metnaðarfullum manneldismarkmiðum. Efla þarf hlutverk heilsugæslunnar í forvörnum og setja Íslandi lýðheilsustefnu. Lögð verði aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála og forvarnir gegn sjálfsvígum með auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Leita þarf leiða til að auka afkastagetu heilbrigðiskerfisins. Í því skyni má horfa til aukinnar fjölbreytni rekstrarforma á ákveðnum sviðum.Tryggt verði að kostnaðarþátttaka notenda sé með sanngjarnt hámark sem miðist við heildarkostnað hverrar fjölskyldu.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Hagsmunir Íslands eru samofnir hagsmunum Evrópuríkja, ekki síst á sviðum menningar, efnahags og viðskipta. Styrkur Íslands í samskiptum við umheiminn felst í skýrri samstöðu og samvinnu við ríki sem deila með áherslu á mannréttindi, athafnafrelsi, neytendavernd, réttlæti í samskiptum borgaranna við hið opinbera og óháð eftirlit með framkvæmd milliríkjasamninga.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu. Það er nauðsynlegt að Ísland sé virkur þáttakandi í EES samstarfinu og tryggi þannig að einstaklingar og fyrirtæki njóti þeirra réttinda sem samningurinn felur í sér. Gera þarf stjórnsýslunni kleift að sinna því verkefni sómasamlega.

Aðild að Evrópusambandinu (ESB) geta fylgt margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna vill Viðreisn að það verði borið undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við ESB. Niðurstaða þeirra samningaviðræðna verði einnig borin undir þjóðina. Báðar atkvæðagreiðslur verði bindandi.

Unnið skal að því að tryggja frið og öryggi í heiminum í samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir. Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Ýmislegt í núverandi stjórnarskrá má bæta. Þess vegna telur Viðreisn að þörf sé á endurnýjun hennar. Hana skal endurnýja í áföngum og í heildstæðu og skýru ferli. Í þeirri endurnýjum skal taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs ásamt öðrum tillögum sem komið hafa fram. Skýr áætlun þarf þá að liggja fyrir til að tryggja það að endurnýjun gangi eftir.

Með nýrri stjórnarskrá yrði meðal annars stefnt að því að tryggja jafnt vægi atkvæða um allt land. Auk þess yrði stefnt að aðskilnaði ríkis og kirkju, en þó að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.