vg_logo_100

Listabókstafur: X-V
Formaður: Katrín Jakobsdóttir
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 10
Stutt lýsing: Flokkur sem leggur áherslur á félagslegt réttlæti, alþjóðlega friðarhyggju, kvenfrelsi og náttúruvernd.

Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?

Helstu stefnumál okkar í komandi alþingiskosningum eru: meiri jöfnuður, efling heilbrigðiskerfisins fyrir alla landsmenn og betra húsnæðiskerfi.

Meiri jöfnuður. Við viljum minnka bilið á milli hinna ríku og fátæku, og við viljum að allir hafi jafnan rétt í samfélaginu og sé ekki mismunað.

Til þess að auka jöfnuð er nauðsynlegt að byggja upp gott velferðarkerfi, þar sem þau sem þurfa hjálp fái þá hjálp til þess að geta tekið þátt í samfélaginu eins og aðrir. Því viljum við t.d. leggja áherslu á að hækka bætur til öryrkja og aldraðra, tryggja fötluðum stuðning til þess að taka fullan þátt í samfélaginu, styðja betur við barnafólk og hjálpa þeim sem stríða við fátækt eða aðra erfiðleika sem mögulegt væri að takast á við með félagslegum úrræðum.

Til að létta af þeim verst stöddu og minnka fátækt finnst okkur mikilvægt að lágmarkslaun verði hækkuð upp í 300.000 krónur. Við viljum einnig að skattbyrði á þá sem eru með lág laun sé lítil, en skref í þá átt væri að hækka skattleysismörk. Sanngjörnum auðlegðarskatti á að koma aftur á, þannig að þeir sem hafa tök á því borgi meira til samfélagsins.
Of mikið af peningum í samfélginu safnast á fáar hendur og fer til kvótakónga og útgerða, auðjöfra í ferðaiðnaði og hátt settra einstaklinga sem gegna stjórnunarstöðum í bönkum og öðrum stórfyrirtækjum. Við viljum koma veiðigjöldum á aftur og breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, láta þá sem græða mest í ferðaþjónustu borga hærra gistináttagjald og e.t.v. annarskonar gjöld sem sett yrðu á, að hærra hlutfall bónusgreiðslna sé skattskylt, að stórfyrirtæki sem græða mjög stórar fjárhæðir greiði hærri skatta og að stofnaður sé samfélagsbanki þar sem er ekki rekinn með gróðarsjónarmið í huga heldur þjóðarhagsmuni. Þá milljarða sem hægt væri að útvega með þessum hætti gætu auðveldlega nýst í það að auka jöfnuð með því að bæta heilbrigðis- og menntakerfið okkar.

Efling heilbrigðiskerfisins. Það þarf að stórauka fjárframlög í heilbrigðiskerfið. Heilbrigðiskerfið okkar er að molna að innan vegna fjárskorts; mikil þörf er á endurnýjun í húsnæði og tækjabúnaði, álag á heilbrigðisstarfsfólk er ólíðandi og lengd á biðlistum óásættanleg. Við viljum að peningar verði lagðir í það heilbrigðiskerfi og geðheilbrigðiskerfi sem þjónar almenningi, en ekki í einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sem fær styrk frá ríkinu og getur síðan borgað sér arð, líkt og sú sem hefur verið komið á fót á heilsugæslustöðvum í Reykjavík.

Betra húsnæðiskerfi. Grípa þarf til aðgerða til þess að breyta þeirri hörmulegu stöðu sem er á húsnæðismarkaðnum. Þar viljum við m.a. að stofnað sé leigu- eða kaupleigufélag sem sæi um að bjóða upp á húsnæði á viðráðanlegu verði til sölu eða leigu. Einnig þarf að finna lausn á Air-bnb vandanum, þar sem stór hluti húsnæðis fer undir gististarfsemi fyrir túrista, sem minnkar mjög framboð á íbúðum til langtímaleigu miðsvæðis í Reykjavík.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Ung vinstri græn leggja áherslu á jafnrétti til náms, þannig að nám sé aðgengilegt öllum, óháð búsetu, fjárhagsstöðu eða öðrum þáttum. Við viljum því að skólar séu gjaldfrjálsir á öllum stigum náms, frá leikskóla og upp í háskóla. Skólagögn og bækur eiga einnig að vera gjaldfrjáls fyrir alla nemendur.

Við viljum sveigjanlegt menntakerfi þar sem nemendur eru ekki steyptir í eitt mót, svo að þau sem að þurfa á að halda fái viðeigandi stuðning og allir hafi val um fjölbreytt nám og námsleiðir sem að henta þeirra þörfum og áhugasviði. Efla þarf kynfræðslu og kennslu í kynjafræði og praktísku námi, s.s. fjármálalæsi. Hækka þarf laun kennara, en þeir eiga að fá greitt í samræmi við þá menntun sem þeir hafa og það álag sem fylgir starfi þeirra. Nemar eiga þar að auki að geta haft áhrif á skólastarf, þannig að nemendur hjálpi við að móta námið og kennsluna.

Í framhaldsskóla á fólk að geta valið hvenær það hefur nám og á hve löngum tíma það klárar námið; það hentar alls ekki öllum að klára framhaldsskóla á þremur árum. Námið á að vera þannig að nemendur geti valið sér fög sem að þeir hafa áhuga á og nýtist þeim í áframhaldandi námi eða vinnu.

Það á að reyna að koma í veg fyrir að fólk detti úr námi með öllum tiltækum ráðum. Mikilvægur liður í því er að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í öllum framhaldaskólum, og raunar í skólum á öllum skólastigum. Það hefur sýnt sig að margir eiga erfitt með nám vegna andlegra erfiðleika og því er sálfræðiþjónusta nauðsynleg í skólum.
Við viljum að meira sé lagt til ríkisrekinna háskóla, en háskóli íslands hefur t.a.m. ekki undan að sinna þeim nemendafjölda sem þangað kemur, sem kemur niður á kennslu og gæðum náms.

Umbylta þarf námslánakerfinu í þágu nemenda. Í fyrsta lagi þarf að hækka námslán þannig að námsmenn geti í raun og veru framfleytt sér með þeim og þurfi ekki að vinna meðfram skóla, en það getur skapað mikla streitu og jafnvel brottfall. Við viljum breyta hluta námslánakerfisins í styrkjakerfi.

Þó margt sé gott við nýtt frumvarp um LÍN, bitna breytingar á námslánakerfinu mest á hópum sem standa höllum fæti fyrir, t.a.m. námsmönnum sem eiga ekki mikla peninga, einstæðum foreldrum og námsmönnum af landsbyggðinni. Það er m.a. vegna þess að frumvarpið leggur til að stórhækka afborgarnir námslána og afnema tekjutenginu. Þessir þættir gætu einnig valdið því að fólk sækji minna í nám fyrir störf sem borga minna, t.d. leikskólakennaranám eða þroskaþjálfanám. Styrkurinn sem frumvarpið boðar mun svo helst gagnast háskólanemum sem geta búið í foreldrahúsum á meðan námi stendur. Við teljum að LÍN eigi að vera jöfnunartæki, þannig að þau sem mest þurfa á að halda fái mesta hjálp úr sjóðnum, en frumvarpið vinnur á móti því sjónarmiði. Katrín Jakobsdóttir lagði fram frumvarp á síðasta kjörtímabili sem við teljum mun betra að mörgu leyti. Þar er m.a. lagt til að klári námsmaður grunnnám á réttum tíma sé lán hans lækkað um 25%.

Ætlið þið að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman?

 

Já, við viljum að að leigumarkaðurinn verði að raunverulegum valkosti fyrir ungt fólk, þar sem örugg langtímaleiga á viðráðanlegu standi öllum til boða. Markaðurinn eins og hann er í dag er stjórnað af stórfyrirtækjum sem einungis hugsa um gróðasjónarmið. Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er fátæktargildra fyrir ungt fólk og á landsbyggðinni er leigumarkaðurinn lítill. Þúsundir íbúða í skammtímaleigu fyrir erlenda ferðamenn hafa mikil áhrif á framboð á íbúðum sem bjóðast til leigu til langs tíma.

Það er orðið löngu tímabært að grípa til aðgerða til þess að auðvelda ungu fólki að flytja að heiman. Við leggjum til að sett verði á laggirnar leigufélag og/eða kaupleigufélag sem starfa án hagnaðarsjónarmiða, sem gera ungu fólki kleift að kaupa eða leigja sér íbúð á sanngjörnu verði. Félagið gæti m.a. haft félagsstofnun stúdenta eða sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum sér til fyrirmyndar. Til þess að það geti orðið að veruleiku þurfa bæði að koma til lagabreytingar, breytingar á skattaumhverfi og að lánastofnanir geti lánað fé til lengri tíma. Mikilvægt er að slíkt félag bjóði íbúðir af ýmsu tagi, allt frá einstaklingsíbúðum upp í stærri íbúðir. Sama fjölskylda gæti því flutt milli íbúða hjá sama félagi þrátt fyrir breyttar fjölskylduaðstæður.

Við viljum einnig skoða hugmyndir um þak á leiguverði verði til að koma til móts við leigjendur. Einnig viljum við skoða möguleikann á því að ríkið eða Íbúðalánasjóður bjóði upp á sérstök útborgunarlán sem næmu 25% af verði fyrstu eignar vaxtalaust til 5 ára. Lán af slíku tagi byðist fólki til fyrstu kaupa á íbúð og væri hugsað til þess að brúa það bil sem oft er óbrúanlegt fyrir margt ungt fólk sem er að hefja búskap og vill eignast íbúð. Loks er brýnt að standa vörð um Íbúðalánasjóð í samfélagslegri eigu.

Við teljum ofangreindir leiðir vera mun raunsæir valkostir til þess að stuðla að því að ungt fólk geti flutt úr foreldrahúsuml. Aftur á móti teljum við ólíklegt að aðgerðir ríkisstjórnar varðandi borgun séreignasparnaðar upp í  útborgun í íbúð muni hjálpa mikið af ungu fólki að kaupa sér húsnæði. Það er óraunsætt að séreignasparnaður muni gagnast ungu fólki á lágum til meðallaunum til að eiga fyrir útborgun í íbúð, þar sem stór hluti þess þarf að borga þunga leigu, standa skil á afborgunum af námslánum, ungt fjölskyldufólk borgar há leikskólagjöld og svo mætti lengi telja. Að safna fyrir útborgun í íbúð, jafnvel þegar séreignasparnaðurinn er tekinn upp í, er möguleiki fyrir fáa.

Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu?

Já, við viljum berjast fyrir því að sálfræðiþjónusta og önnur geðheilbrigðisþjónusta verði frí og aðgengileg öllum sem á þurfa að halda. Til þess að það verði að veruleika þarf að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu og gera geðheilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa. Ráða þyrfti mikið fleiri sálfræðinga á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, þar sem allir sem þurfa á að halda geta fengið meðferð. Útrýma ætti biðlistum í sálfræðimeðferð inni á landsspítala með meira fjármagni og ráðningu fleira fagsfólks í geðheilbrigðismálum. Með því að bjóða upp á fría sálfræðiþjónustu og aðra geðheilbrigðisþjónustu væri hægt að minnka líkur á því að fólk verði alvarlega andlega veikt vegna þess að það fékk ekki þá hjálp sem það þurfti á að halda þegar að það varð fyrst veikt.

Það er gríðarlegt álag og vöntum á geðlæknum og langir biðlistar. Með því að leggja meiri peninga í heilbrigðiskerfið væri hægt að minnka álag og gera staði eins og landsspítalann að betri vinnustað fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þannig ættu fleiri geðlæknar að fást til þess að starfa hér á landi í stað þess að flytja til annarra landa til að starfa.
Við viljum tryggja nemendum á öllum skólastigum aðgengi að nauðsynlegri sálfræðiþjónustu. Mikilvægt er að slík þjónusta sé gjaldfrjáls, svo fjárhagur ungs fólk standi ekki í vegi fyrir því að það geti leitað sér aðstoðar þegar þess er þörf.

Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?

Við viljum að ungt fólki sjái fyrir sér möguleika og framtíð á Íslandi. Til þess viljum við að gripið sé til aðgerða til þess að mögulegt sé fyrir fólk að leigja eða kaupa húsnæði á viðráðanlegu verði, að heilbrigðiskerfið verði eflt til muna og að námslánakerfinu verði umbylt þannig að lánin verði raunhæf fyrir fólk að lifa á, hluti námslána verði að styrk og að afborganir námslána séu sanngjarnar og viðráðanlegar.

Það er klárt mál að það þarf að huga betur að ungu fólki á landsbyggðinni. Við teljum að brýn þörf sé á betri þjónustu fyrir þennan hóp. Ungt fólk á landsbyggðinni á erfiðara að sækja sér menntun og atvinnu en þeir sem að búa á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðisþjónusta er ekki nægilega aðgengileg og samgöngur misgóðar. Námsmenn sem koma af landsbyggðinni standa höllum fæti. Jafnrétti vegna búsetu verður ekki raunhæft nema með róttækum aðgerðum svo sem búsetustyrk, skattaívilnunum og aukins framboðs á tækifærum til náms og atvinnu.

Við viljum bæta þjónustu almenningssamgangna um allt land, svo þær verði raunverulegur og góður kostur í stað bíla. Einnig viljum við skoða möguleikann á öðrum almenningssamgöngum en strætó, t.d. lestarkerfi. Netsamband þarf að vera gott um land allt, svo að fólk sem að vill búa út á landi og starfa þar hafi raunhæfan möguleika á því með því að stunda sína vinnu í gegnum tölvu.

Ungir foreldrar eiga að hafa kost á því að njóta tímans með börnunum sínum og þess að snúa aftur á vinnumarkað eða í nám ef þau kjósa svo að fæðingarorlofi loknu. Við viljum lengja fæðingarorlof í 12 mánuði, og í framhaldinu eiga öll börn að komast inn í gjaldfrjálsa leikskóla. Sú ömurlega staða sem margir ungir foreldrar eru í á tímanum milli fæðingarorlofs og þess tíma þegar börn komast inn á leikskóla er óviðunandi. Börn eiga rétt á þessari þjónustu óháð stétt og stöðu foreldra.
Við viljum betri úrræði fyrir þau sem verða fyrir ofbeldi og almennilega meðhöndlun á kynferðisbrotum. Ungar stelpur lifa við þann veruleika að munu líklegast lenda í einhvers konar kynferðisofbeldi. Mjög lítið hlutfall af þeim kæra svo, því að öllum líkindum mun kerfið bregðast þeim. Vinstri græn vilja breyta þessu með aukinni fræðslu í grunnskólum og menntaskólum. Einnig finnst þeim löngu tímabært að lögreglan sé með almennilega verkferla þegar kemur að kynferðisbrotamálum.

Við teljum mikilvægt að hvetja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku og við viljum að ungt fólk fái að hafa áhrif á stefnumótun í samfélaginu. Þess vegna viljum við lækka kosningaaldur niður í 16 ára og auka sýnileika ungs fólks í stjórnmálum. Ungt fólk til áhrifa!

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Umhverfismál eru ein af okkur helstu baráttumálum. Það er sérstakt baráttumál fyrir ungt fólk, þar sem við unga fólkið munum þurfa að taka á afleiðingum þess að fyrri kynslóðir fari illa með umhverfið, þar er okkar framtíð og framtíð komandi kynslóða í húfi.
Ung vinstri græn leggja höfuðáherslu á sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun felur í sér að þörfum nútímans til nýtingu auðlinda sé mætt án þess að brotið sé gegn rétti síðari kynslóða til að mæta sínum þörfum. Sjálfbær þróun gerir þá kröfu að við finnum leiðir til sjálfbærni, en hættum að gera óafturkræfar skemmdir á umhverfinu í þágu skammtímagróða. Ávinningarnir af umhverfisvernd og sjálfbærri þróun eru vistfræðilegir, félagslegir og efnahagslegir, og varða allan heiminn.
Við teljum nauðsynlegt að atvinnustarfsemi í landinu sé byggð upp í sátt við náttúruna. Frekari stóriðja en nú hefur verið komið á fót er óforsvaranleg, sérstaklega þegar litið er til þeirra umhverfisspjalla sem hún hefur þegar valdið.

Náttúru Íslands ber að vernda. Náttúran á að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verða að taka mið af sjónarmiðum um umhverfisvernd og sjálfbærni.

Umhverfismálin eiga ekki einungis við landsbyggðina. Ung vinstri græn telja mikilvægt að grænar áherslur séu hafðar í öndvegi við uppbyggingu í þéttbýli, hvort tveggja í samgöngu- og skipulagsmálum. Þá er rík áhersla lögð á að styrkja umhverfisvænar samgöngur líkt og strætisvagnakerfi og hjólreiðastíga en minnka áhersluna sem lögð er á einkabílinn.

Ung vinstri græn krefjast þess að náttúruauðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar en verði þær nýttar skuli þær gagnast öllum landsmönnum jafnt. Ung vinstri græn vilja að stjórnvöld hvetji sérstaklega til meðvitaðrar neyslu og umgengni við umhverfið, meðal annars með allsherjarátaki í sorpvinnslumálum og skipulagðri baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum gera það sem í okkar valdi stendur til þess að hvetja til umhverfisvænni neysluhátta með því að draga úr neyslu, endurnýta og endurvinna.
Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru stærsta verkefni mannkyns á komandi árum og áratugum. Áhrif þeirra á vistkerfi heimsins geta valdið tjóni í hverju einasta ríki og það er forgangsverkefni að draga úr áhrifum þeirra og undirbúa viðbrögð við þeim. Í því samhengi fögnum því að Parísarsáttmálinn hafi verið samþykktur og alþjóðasamfélagið viðurkenni þar með alvarleika loftlagsbreytinga og ætli að sýna samstöðu í að draga úr þeim.

Hver er stefna ykkar í innflytjenda- og flóttamannamálum?

Ísland þarf að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er með því að taka á móti fleira flóttafólki. Nauðsynlegt er að Ísland grípi til aðgerða í ljósi forréttindastöðu sinnar í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.

Við teljum að huga þurfi vel að innflytjenda og flóttamannamálum, þannig að innflytjendum og flóttafólki sé búið eins gott líf hér á landi og mögulegt er, þar sem góð tækifæri eru til þess að aðlagast samfélaginu. Í því samhengi er ótækt að við sendum úr landi fólk sem hefur komið hingað í leit að betra lífi og er tilbúið að byggja sér framtíð á Íslandi.

Það eru mikil samfélagsleg verðmæti og ávinningur fólgin í innflutningi fólks hingað til lands sem kemur hingað til að vinna, sækja sér menntun og setjast hér að. Margir íslendingar hafa flutt af landi brott á undanförnum árum og hlutfall af vinnufæru fólki minnkar sífellt vegna þess að Íslendingar eignast færri börn en áður og fólk lifir lengur. Með því að leyfa fólki að koma og setjast hér að er því mikið lagt til samfélagsins. Okkur þykir öfugsnúið að vísa flóttafólki úr landi á sama tíma og flutt er inn erlent vinnuafl.

Útrýma þarf rasískum viðhorfum sem byggja á þeim forsendum að innflytjendur og flóttafólk eigi minni rétt til lífs og mannréttinda heldur en aðrir. Framkoma stofnana ríkisins og yfirvalda í þessum málaflokki hefur einkennst af skorti á mannúð, eins og fjölmörg nýleg dæmi hafa sýnt undanfarið. Útlendingastofnun þarf að leggja niður í þeirri mynd sem hún er núna. Að auki er algerlega ótækt að skýla sér á bak við Dyflinnar-sáttmálann þegar flóttamönnum er vísað úr landi, þar sem það mun einungis stækka vandann hnattrænt.
Við hvetjum til þess að íslensk stjórnvöld sæki minnst 100 barnafjölskyldur í flóttamannabúðir. Aðstæðurnar sem fólk býr við eru engum sæmandi og sagan mun dæma okkur ef við gerum ekkert til að hjálpa. Að bjarga 100 fjölskyldum er dropi í hafið en það er meira en að gera ekki neitt.

Eins væri hægt að opna fjöldahálparstöðvar víðsvegar um landið og flytja flóttafólk hingað til lands til að létta á aðstæðum í nágrannalöndum okkar og bæta aðbúnað flóttafólks. Víða í Þýskalandi hafa íþróttahallir verið lagðar undir slíkar fjöldahjálparstöðvar. Á Íslandi væri hægt að þjóðnýta íþróttamannvirki tímabundið til að mæta þessum hræðilegu aðstæðum.

Efla þarf þjónustu fyrir innflytjendur, svo sem upplýsingagjöf til þeirra um réttindi, skyldur, atvinnu og húsnæði, ásamt túlkaþjónustu. Brýnt er að tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað í launum eða á nokkurn annan hátt. Bjóða þarf upp á íslenskukennslu, innflytjendum að kostnaðarlausu, sem og móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál. Taka skal vel á móti innflytjendum, ekki síst þeim sem flýja örbirgð og stríð í heimahögum sínum. Tryggja þarf að allir innflytjendur eigi kost á menntatækifærum til að þeir geti nýtt sína hæfileika til fulls í íslensku samfélagi.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Ung vinstri græn grundvalla utanríkisstefnu sína á hugsjónum friðarstefnu og félagslegrar alþjóðahyggju. Markmiðið er að tryggja öllum þau mannréttindi að þurfa ekki að búa við kúgun og ófrið, hvar sem þau búa í heiminum. Við fordæmum hernaðarhyggju og vopnavæðingu, og styðjum við friðsamlegar lausnir átaka. Ísland á að vera herlaust land og við viljum ekki að her annars lands dvelji eða æfi hér á landi. Sömuleiðis erum við á móti því að að Ísland taki þátt í alþjóðasamstarfi sem felur í sér hernað eða svokallað „varnarsamstarf“. Við viljum að Íslands gangi úr NATO.
Við viljum að íslensk stjórnvöld auki á markvissan hátt samvinnu við fátæk ríki á jafnréttisgrundvelli til að styrkja innviði þeirra. Ísland ætti að verja lágmarki 1% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu, en sú tala mætti þó gjarnan vera hærri. Íslensk stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að bundinn sé endir á siðlausa viðskiptahætti og arðrán í fátækum löndum. Einnig ættu stjórnvöld að þrýsta enn frekar á Ísrael að viðurkenna landamærin frá 1967 og skili palestínsku þjóðinni þeim svæðum sem það hefur stolið.

Við teljum hagsmunum Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins. Það er eflaust margt sem gæti reynst gagnlegt við það að ganga í sambandið, t.a.m. stöðugri og öruggari gjaldmiðill. En burtséð frá því þá er Evrópusambandið hernaðarsamband í þeim skilningi að lönd innan Evrópusambandið verða að styðja stríð hvors annars. Okkur finnst ekki í lagi að Ísland skuldbindi sig með þessum hætti til þess að taka þátt í stríði annarra ríkja. Einnig er það mjög siðferðislega vafasamt á alþjóðavísu að vera í viðskiptabandalagi með öðrum vel stæðum ríkjum innan Evrópu, þar sem þróunarlönd hafa ekki sömu tækifæri til viðskipta. Þannig er þróunarlöndunum haldið niðri í alþjóðlegu viðskiptalífi.
Að lokum viljum við beita okkur fyrir lokun skattaskjóla eða alþjóðlegum aðgerðum sem miða að því og við styðjum sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða.

Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?

Fyrst og fremst þarf meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið. Með meira fjármagni er hægt að endurnýja húsnæði og tækjabúnað, greiða heilbrigðisstarfsfólki mannsæmandi laun og koma þannig í veg fyrir stórtækan flótta úr landi og lækka greiðsluþátttöku sjúklinga eins og hægt er. Aðgangur að ókeypis heilbrigðisþjónustu eru almenn mannréttindi, og við viljum vinna að því markmiði að heilbrigðiskerfið verði frítt. Peningar þjóðarinnar eiga að fara í opinbera heilbrigðiskerfið, en ekki í að styrkja einkarekna heilbrigðisþjónustu sem nýtist aðeins þeim sem að eiga peninga. Við viljum gott heilbrigðiskerfi fyrir alla, ekki lélegt heilbrigðiskerfi fyrir þau fátæku og gott heilbrigðiskerfi fyrir þá ríku, og höfnum því markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu þar sem að sjúklingar fá stöðu viðskiptavina sem hægt er að græða á. Með opinberum rekstri heilbrigðiskerfisins fæst yfirsýn yfir kerfið og hægt er að hámarka nýtingu fjármagns og tryggja aðgang án aðgreiningar, með áherslu á jafnræði og gæði.

Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu og tryggja þarf að notendur heilbrigðisþjónustunnar komi að skipulagi hennar. Byggja þarf upp öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir landið allt þannig að almenningur geti sótt sér grunnþjónustu sem næst heimabyggð.

Útgjöld vegna lyfja og læknisþjónustu hafa hækkað sem hlutfall af tekjum heimila og brýnt er að afnema sjúklingagjöld og lækka lyfjakostnað sjúklinga. Fyrsta skrefið er að öll heilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni verði gjaldfrjáls, tannlækningar, sálfræði- og geðlæknaþjónusta þar með taldar.

Lækka þarf lyfjakostnað með hagkvæmari innkaupum, hindra einokun á lyfjamarkaði og kanna möguleika á því að setja aftur á stofn lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera. Lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera gjaldfrjáls. Aðgengi að S-merktum lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af því hverju sjúklingur hefur efni á eða þeim fjölda sem þarf á sama lyfi að halda.

Forvarnir, sálfræðiþjónusta og tannlækningar eiga að vera í boði innan heilsugæslunnar. Byggja þarf upp þekkingu og þjálfun til að unnt sé að veita geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum.

Mikilvægt er að auka þekkingu á afleiðingum og einkennum ofbeldis í heilbrigðiskerfinu öllu en ekki síst í heilsugæslu, skólahjúkrun og mæðravernd. Allt heilbrigðisstarfsfólk þarf að þekkja einkenni og afleiðingar ofbeldis og tryggja þarf viðeigandi úrræði fyrir þau sem búa við eða verða fyrir hvers kyns ofbeldi.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að nýrri stjórnarskrá?

Gamla stjórnarskráin er löngu úrelt og það er kominn tími til á að þjóðin eignist nýja og nútímalegri stjórnarskrá. Það er mikilvægt að ráðist verði í stjórnarskrárbreytingar eins fljótt og auðið er. Við viljum sérstaklega leggja áherslu á fjögur mál í nýrri stjórnarskrá: auðlindir í sameign þjóðarinnar, leiðir til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd og ákvæði um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði.

Taka þarf til greina það sem kom út úr þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012 ásamt ákvæðum um þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur; þ.e. ákvæði um persónukjör, jafnt vægi atkvæða og skipan kirkjumála og byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og vinnu ráðsins, stjórnalaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili.