//
Helstu upplýsingar

xB20171
Listabókstafur: B
Staða: Í minnihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að aðstaða til íþrótta- og tómstundaiðkunar sé góð í sveitarfélaginu fyrir alla aldurhópa. Góð aðstaða til heilsueflingar fyrir ungt fólk er lykilþáttur í því að viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu. Framsókn telur nauðsynlegt að nægilegt framboð þurfi að vera á nemendagörðum eða heimavist fyrir nemendur MB. Eins vill Framsóknarflokkurinn að unnið verði að því með öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi bregðast við húsnæðisvanda nemenda sem fara í háskólanám til Reykjavíkur með því að setja upp einskonar “Vesturlands heimavist” Með því móti mætti styðja við íbúa svæðisins á aldrinum 18-25 ára sem vilja sækja háskólanám til höfuðborgarinnar.

Framsókn vill beita sér fyrir því að efla nám í verk- og tæknigreinum sem og símenntun á Vesturlandi til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar og búa íslenskt samfélag undir fjórðu iðnbyltinguna sem þegar er hafin. Háskólanemar og ungt fólk í framhaldsnámi úr sveitarfélagingu þarf að geta stundað nám án þess að hafa áhyggjur af framfærslu. Við viljum beita okkur fyrir því við menntamálaráðherra að farið verði í gagngera endurskoðun námslánakerfis LÍN og leiðréttingu á frítekjumarki.

Önnur framboð - Borgarbyggð