//
Helstu upplýsingar
Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.

Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.

Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.

Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.

Fyrstu baráttumál Sósíalistaflokks Íslands eru þessi:

1. Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.

2. Aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði.

3. Aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.

4. Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.

5. Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Sósíalistaflokkur Íslands vill færa völdin til fólksins, þar með unga fólksins. Fólk á að hafa völd yfir eigin aðstæðum í skóla jafnt sem á vinnustað.

Frelsi: Auka ber valfrelsi nemenda um hvað þau læra, hvenær og hvernig. Samtök nemenda eiga að vera virk við stjórn skóla og annara stofnana sem þau sækja. Þetta á ekki aðeins við um framhaldsskóla og háskóla heldur einnig grunnskóla og allar stofnanir sem börn og ungmenni nýta sér. Lækka ber kosningarétt með það að markmiði að hann verði fæðingarréttur allra.

Jöfnuður: Þar sem börn og ungmenni hafa engar tekjur á ekki að leggja á þau nein gjöld; mötuneyti í skólum, strætó, frístundir, listnám, íþróttir og önnur opinber þjónusta skal veitt öllum börnunum án kostnaðar. Þau sem ekki hafa tekjur hafa ekkert efnahagslegt sjálfstæði. Krafan er því: Engar tekjur = engin gjöld.

Mannhelgi: Vinna ber gegn stéttaskiptingu í skólakerfinu svo allir nemendur hafi sömu tækifæri til náms. Miða ber þjónustu skólanna við þá nemendur sem búa við mestar takmarkanir og lakastar aðstæður heima fyrir svo enginn nemandi hrökklist frá námi vegna veikinda, fötlunar, fátæktar, uppruna eða erfiðleika heima fyrir. Við höldum samfélag svo allir geti notið sín.

Samkennd: Við þurfum að endurreisa samfélag okkar upp úr rústum einstaklingshyggjunnar. Markmið samfélagsins á ekki að vera að gera fáeina ríka heldur alla hamingjusama. Maðurinn er hópdýr og öll afrek sín hefur hann unnið í hópvinnu. Einn er maðurinn veikur, vonlítill og hræddur. Öll starfsemi hins opinbera á því að byggja á og stefna að aukinni samkennd íbúanna. Án samkenndar, mannvirðingar, frelsis og jafnaðar leysist samfélagið okkar upp.

Önnur framboð - Kópavogur