Helstu upplýsingar

Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Listabókstafur: V
Staða: Í minnihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Vinstri græn vilja efla Borgarbyggð enn frekar og gera hana að eftirsóttum búsetukosti fyrir fólk á öllum aldri, fjölbreytt samfélag er skemmtilegt samfélag.

Við viljum öfluga skóla á öllum stigum sem veita nemendum góða menntun og koma til móts við þarfir ólíkra einstaklinga. Foreldrar verða að geta gengið að því sem vísu að fá pláss fyrir börn sín á leikskóla og að þau njóti góðs atlætis í grunnskólum nærri heimahögum.
Að sama skapi er mikilvægt að aðstaða til íþróttaiðkunar og heilsueflingar í anda heilsueflandi samfélags sé góð og í takt við þarfir samfélagsins. Vinstri græn leggja ekki síður áherslu á að heilsuefling sé af andlegum toga og því þarf aðgengi einstaklinga að sérhæfðum aðilum sem sinna geðheilbrigðismálum að vera til staðar.

Umhverfisvernd er eitt af helstu áherslumálum flokksins. Við viljum bæta sorphirðu sveitafélagsins, auka flokkun sorps og huga að framtíðarlausnum náttúrunni í hag.

Við viljum aukið gagnsæi, opið bókhald og aukið íbúalýðræði. Hugur íbúanna skiptir okkur máli og við viljum heyra raddir þeirra þegar kemur að ákvörðunartöku ýmissa mála sem snerta okkur öll.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Ungt fólk á rétt til að koma að ákvarðanatökum um þau málefni sem varða það.
Í sveitarfélaginu eru skólar á öllum stigum, og þannig viljum við að það verði til frambúðar. Menntaskóli Borgarfjarðar hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið en það er mikilvægt að ungt fólk geti sótt sér menntun í heimahéraði. Fjölbrautaskólinn á Akranesi veitir einnig mikilvæga menntun í iðn- og verknámi, og vilja Vinstri græn að Borgarbyggð eigi áfram aðild að honum.
Vinstri græn telja mikilvægt að staðið verði vörð um bæði Háskólann á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Við viljum bæta samgöngur fyrir ungt fólk í sveitarfélaginu svo þau geti sinnt námi og tómstundum víðsvegar um héraðið. Ekki síður þarf það að vera raunhæfur valkostur, sem nemandi í menntaskóla Borgarfjarðar, að vera á heimavist í Borgarnesi.

Háhraða nettenging er lykilatriði í fjárfestingu innviða í Borgarbyggð, tryggir fjölbreytt náms- og atvinnuframboð og eykur val til búsetu.

Mikilvægt er að félagsaðstaða sé tryggð í menntaskóla Borgarfjarðar sem og viðunandi aðstaða til náms og hópavinnu.

Önnur framboð - Borgarbyggð