FRAMSÓKN
Listabókstafur: X-B
Heiti flokks: Framsóknarflokkurinn
Formaður: Sigurður Ingi Jóhannsson
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 13
Stutt lýsing:
Framsókn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem spilar á miðjunni og leitar lausna á hverju málefni fyrir sig á grundvelli skynsemi og rökhyggju.
-
Við setjum fjölskyldur í fyrsta sæti, leggjum áherslu á að bæta gott samfélag og styðjum ábyrg ríkisfjármál.
Heimilin: Framsókn vill létta undir með heimilum með því að lækka skatt á matvæli og draga úr matarkostnaði. Við viljum tryggja fyrirsjáanleika við mánaðarmótin með óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til langs tíma. Við stefnum að réttlátari húsnæðismarkaði með auknu framboði á húsnæði í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Við viljum veita skattalega hvata fyrir hagkvæmari íbúðir og auka fjármagn í hlutdeildarlán.
Samfélagið: Framsókn vill skapa öruggara samfélag með því að efla löggæslu og samfélags lögreglu, herða eftirlit á landamærum og leggja áherslu á innviði landsins. Við viljum tryggja að samgöngukerfið, göng, raforku- og dreifikerfi, og vatnsveitur verði í góðu ástandi. Við viljum einnig tryggja matvælaöryggi með öflugum landbúnaði og sjávarútvegi.
Framsókn vill setja börn í forgang með lengingu fæðingarorlofs og stuðla að samfélagi þar sem öll börn fá tækifæri til að blómstra. Við viljum tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu, efnahag og uppruna og fjárfesta í heilbrigðiskerfinu. Við viljum bæta lífsgæði eldri borgara og tryggja að þeir fái þjónustu á þeirra forsendum.
Við viljum tryggja að auðlindir landsins séu í eigu Íslendinga og tryggja að sanngjarn arður af nýtingu þeirra renni til samfélagsins.
Framsókn stendur vörð um íslenskuna, íslensk gildi og menningu. Við viljum að íslenskan sé samkeppnishæf í tækniheimi, að Íslendingar af erlendu bergi brotnir hafi tækifæri til að læra íslensku og öfluga menningu, listir og íþróttir.
Ábyrgari ríkisfjármál: Framsókn vill ábyrg ríkisfjármál sem skapa skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Með lækkun skulda, bættu lánshæfismati og lækkun vaxtagjalda ríkissjóðs munum við tryggja betri lánakjör. Hagvöxtur á grunni samkeppnishæfs atvinnulífs er einnig í forgrunni, þar sem umgjörð atvinnulífsins á Íslandi er styrkt til að viðhalda hagvexti og skapa fleiri störf.
-
Framsókn vill styðja ungt fólk með því að efla menntun og tryggja aðgengi að fjölbreyttu námi um allt land. Við viljum fjölga ungmennahúsum fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára, þar sem þau fá tækifæri til virkra verkefna og þátttöku í samfélaginu. Einnig leggjum við áherslu á snemmtæka íhlutun til að veita aðstoð fyrr þegar hennar er þörf.
Framsókn leggur mikla áherslu á að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk. Flokkurinn vill tryggja tímanlegt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og að börn og að ungmenni fái nauðsynlegan stuðning innan eðlilegs tímaramma. Einnig er lögð áhersla á að auka fjárfestingu í geðheilbrigðisþjónustu og fylgja eftir fyrirliggjandi uppbyggingaráformum, eins og nýju húsnæði geðdeildar Landspítala.
Framsókn telur mikilvægt að efla úrræði og snemmtæka íhlutun á öllum skólastigum og þvert á öll kerfi til að styðja við ungt fólk.
-
Framsókn vill tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og að menntakerfið sé sterkt og aðgengilegt frá grunnskóla til háskóla. Við viljum tryggja gjaldfrjáls námsgögn fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum til að létta fjárhagslega byrði fjölskyldna. Við viljum einnig efla fjarnám og sveigjanlegt nám, þannig að nemendur geti stundað nám óháð búsetu.
Framsókn vill efla fjölbreytt nám með áherslu á list-, verk- og tæknigreinar til að undirbúa nemendur betur fyrir framtíðina. Við viljum einnig styrkja kennara og veita þeim tækifæri til að þróa sig í starfi og bæta kennsluaðferðir. Nýsköpun í menntun og þróun námsefnis er mikilvæg til að gera námið meira spennandi og aðgengilegt.
-
Framsókn hyggst tryggja ungu fólki næg atvinnutækifæri með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf. Við viljum styðja nýjar hugmyndir og fyrirtæki, sem skapa fleiri störf og spennandi verkefni fyrir ungt fólk.
Við leggjum einnig áherslu á að menntakerfið sé í takt við þarfir vinnumarkaðarins og að það bjóði upp á fjölbreytt námstækifæri í greinum þar sem vöntun er á starfsfólki, svo sem í tæknigreinum og iðngreinum. Þannig öðlast ungt fólk þá hæfni sem þarf til að ná árangri í starfi. Við viljum stuðla að vexti skapandi greina og nýrra atvinnuvega, þar sem fjárfesting í þessum greinum skapar ný störf sem henta áhugamálum ungs fólks.
Framsókn vill einnig bæta aðgengi að starfsþjálfun og starfsnámi, sem veitir ungu fólki dýrmæta reynslu sem nýtist á vinnumarkaði. Við viljum stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs með sveigjanleika í starfi og stuðningi við ungt fólk.
Markmiðið er að tryggja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri fyrir ungt fólk til framtíðar.
-
Framsókn ætlar að tryggja að ungt fólk hafi gott aðgengi að húsnæði. Við viljum við auka framboð á hagkvæmu húsnæði með byggingu fleiri íbúða sem eru á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Við viljum einnig vinna með sveitarfélögum til að tryggja nægilegt framboð af lóðum fyrir nýbyggingar, sem auðveldar byggingu og bætir aðgengi að húsnæði.
Við leggjum einnig áherslu á að bæta leigumarkaðinn með því að auka framboð á leiguíbúðum á sanngjörnu verði, þannig að ungt fólk hafi fleiri valkosti. Við viljum tryggja stöðugleika á leigumarkaði með því að halda húsnæðiskostnaði í samræmi við greiðslugetu fólks.
Við viljum styðja fyrstu kaupendur með eflingu hlutdeildarlána og festa það í sessi að fólk geti notað viðbótarlífeyrissparnað inn á fasteignalán. Með þessum aðgerðum viljum við tryggja að ungt fólk hafi aðgang að öruggu og viðráðanlegu húsnæði.
-
Framsókn ætlar að bæta heilbrigðiskerfið á Íslandi með því að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu eða efnahag. Við viljum efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda og tryggja að þjónustan sé eins aðgengileg og mögulegt er. Mikilvægur þáttur í þessari stefnu er að stytta biðlista, sérstaklega í geðheilbrigðismálum, með aukinni fjárfestingu í snemmtækum inngripum. Þá viljum við nýta fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu fyrir alla, líka fyrir þá sem búa á landsbyggðinni.
Við viljum bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að tryggja næga mönnun og aukinn stuðning við starfsfólk til að draga úr álagi og bæta þjónustu við almenning. Framsókn vill stuðla að nýsköpun og rannsóknum í heilbrigðismálum, til að bæta þjónustu og auka skilvirkni í kerfinu.
-
Framsókn ætlar að stuðla að bættri andlegri heilsu ungs fólks með því að tryggja aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Við viljum stytta biðlista og tryggja að ungt fólk fái hjálp þegar það þarf á henni að halda. Einnig viljum við efla forvarnir og fræðslu um andlega heilsu í skólum. Það er mikilvægt að ungt fólk læri hvernig það getur tekist á við streitu og álag á heilbrigðan hátt.
Við viljum líka bæta aðgengi að stuðningsúrræðum í skólum, eins og ráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Með því að hafa þessa þjónustu innan skólanna, verður auðveldara fyrir nemendur að leita sér hjálpar þegar þeir þurfa á henni að halda.
Auk þess viljum við stuðla að heilbrigðum lífsstíl, sem hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu. Við hvetjum ungt fólk til að stunda reglulega hreyfingu, borða hollan mat og tryggja að það fái nægan svefn.
Framsókn vill vinna með foreldrum og fjölskyldum til að styðja ungt fólk við að viðhalda góðri andlegri heilsu. Með því að styrkja samvinnu milli skóla og heimila getum við búið til öflugt stuðningsnet.
-
Framsókn vill vernda náttúruna og stuðla að sjálfbærni. Við teljum mikilvægt að nýta náttúruauðlindir á skynsamlegan hátt og viljum að arðurinn af þeim renni til samfélagsins. Við viljum draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna með fyrirtækjum að því að finna sjálfbærar lausnir í framleiðsluferlum. Við viljum einnig auka notkun á innlendum og grænum orkugjöfum til að styðja við orkuskipti.
Endurvinnsla og minnkun á sóun eru líka mikilvæg markmið fyrir okkur. Með því að auka fræðslu og bæta aðgengi að endurvinnslustöðvum viljum við tryggja betri nýtingu auðlinda og minni úrgang.
Við viljum vernda lífríki landsins og sjávar, með því að viðhalda vistkerfum og líffræðilegum fjölbreytileika. Þetta er mikilvægt fyrir heilsu náttúrunnar og framtíðina.
Við viljum bæta innviði fyrir umhverfisvænar samgöngur, eins og almenningssamgöngur og hjólastíga. Þetta gerir fólki kleift að ferðast á vistvænan hátt og dregur úr mengun.
Framsókn vill taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, því við trúum því að samstarf við aðrar þjóðir sé lykilatriði til að tryggja betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.
-
Framsókn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis og/eða stöðu að öðru leyti. Það er eitt af hlutverkum Framsóknar að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun.
Framsókn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á öllum sviðum, en Framsókn var fyrst flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi.
Framsókn vill efla jafnrétti í menntakerfinu og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að námi, óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum. Flokkurinn styður rétt til þungunarrofs og leggur áherslu á gott aðgengi að getnaðarvörnum og tíðarvörum í skólum.
Framsókn leggur áherslu á að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars með jöfnun launamunar og stuðningi við jafnréttisverkefni. Markmiðið er að stuðla að réttlátu og jafnréttissinnuðu atvinnulífi, þar sem fjölbreytileiki kynja og annarra hópa sé endurspeglaður í stjórnunarstöðum.
Framsókn styður réttindi hinsegin fólks og vill auka fræðslu um málefni þeirra á öllum skólastigum. Einnig er lögð áhersla á að uppfæra orðalag laga og reglna með tilliti til kynhlutleysis og að tryggja aðgengi að kynhlutlausum búningsklefum.
Framsóknarflokkurinn styður rétt kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama, þar með talið réttinn til þungunarrofs. Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal getnaðarvörnum, og stuðningi fyrir konur sem velja að fara í þungunarrof.
-
Framsókn vill inngildandi nálgun í málefnum útlendinga, sem snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku, viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding er samvinnuverkefni alls samfélagsins. Það kallar á vinnu að inngildingu á flestum sviðum samfélagsins til að stuðla að virkri þátttöku fólks af erlendu bergi brotnu jafnt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Framsókn leggur áherslu á að lykill að inngildingu er betra aðgengi að íslensku og samfélagsfræðslu fyrir innflytjendur á öllum aldri og á öllum skólastigum, sem og viðurkenning á þekkingu og reynslu innflytjenda.
Framsókn vill innleiða hvata til íslenskunáms og tryggja rétt innflytjenda til íslenskunáms á vinnutíma, þeim að kostnaðarlausu. Þá vill Framsókn að ríkið leggi áherslu á að styðja við tækniframþróun sem auðveldar fólki að læra íslensku.
Framsókn leggur áherslu á stuðning við börn af erlendum uppruna, með móðurmálskennslu og stuðning við leik- og grunnskóla. Markmiðið er að tryggja samræmda þjónustu og viðeigandi stuðning fyrir alla.
Huga þarf að farsæld barna sem hingað flytja. Framsókn leggur áherslu á að tryggja börnum af erlendum uppruna nauðsynlegan stuðning til virkar þátttöku í samfélaginu, hvort sem er í skólakerfinu, tómstundastarfi eða á öðrum sviðum samfélagsins. Framsókn vill tryggja aukna þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi, enda gegnir það mikilvægu hlutverki hvað varðar aðlögun að samfélaginu.
Framsókn vill bæta móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd með auknu samráði við sveitarfélög til að dreifa álagi á innviði þeirra. Flokkurinn vill einnig auðvelda innflytjendum að fá menntun sína erlendis frá viðurkennda með raunfærnimati. Jafnframt á náms- og starfsráðgjöf að standa fullorðnum innflytjendum til boða.
-
Framsókn hefur ekki tekið afstöðu til lækkunar kosningaaldurs. Þegar er heimilt fyrir sveitarstjórnir að miða kosningaaldur í íbúakosningum við 16 ár.
Lækkun kosningaaldurs myndi veita ungu fólki meiri rödd í samfélaginu, leyfa þeim að hafa bein áhrif á ákvarðanir sem hafa áhrif á þeirra framtíð og auka jafnframt áhuga á stjórnmálum.
Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar nálgist ungt fólk á þeirra forsendum og kynni sín málefni. Að ungt fólk fái fræðslu og tækifæri til að taka þátt í umræðum um stjórnmál og lýðræði í skólum. Framsókn hefur sýnt það í verki að flokkurinn treystir ungu fólki til þátttöku í stjórnmálum. Við erum með yngsta kjörna þingmanninn á Alþingi, yngsta borgarfulltrúa sögunnar og yngsta sveitarstjórann. Framsókn leggur áherslu á að hlusta á raddir ungs fólks og veita þeim vettvang til að hafa alvöru áhrif á sitt samfélag.
-
Framsókn vill að Ísland leggi sitt af mörkum til að styðja stríðshrjáð svæði með mannúðlegum aðgerðum. Við leggjum áherslu á að veita mannúðaraðstoð, eins og mat, vatn, lyf og skjól, til þeirra sem þurfa á því að halda. Ísland getur einnig stutt alþjóðlegar hjálparstofnanir með fjárhagslegum stuðningi og sérfræðiaðstoð, þannig að þær geti náð til fleiri og veitt nauðsynlega hjálp.
Við teljum einnig mikilvægt að Ísland taki þátt í friðarviðræðum og alþjóðlegu samstarfi til að stuðla að lausnum á átökum. Með því að styðja diplómatískar aðgerðir og friðarumleitanir getum við hjálpað til við að ná fram varanlegum lausnum sem stuðla að friði og stöðugleika.
Framsókn vill einnig taka á móti flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum og veita því skjól og stuðning til að byrja nýtt líf í öruggu umhverfi. Við viljum stuðla að fræðslu og vitundarvakningu um ástandið á stríðshrjáðum svæðum. Með því að auka skilning og samkennd getum við hvatt fleiri til að leggja sitt af mörkum og hjálpa.
-
Framsókn vill bæta samgöngur á Íslandi til að tryggja öryggi og aðgengi fyrir alla. Við leggjum áherslu á að byggja upp öfluga og örugga samgönguinnviði um allt land til að bæta lífsgæði.
Við viljum bæta vegakerfið, sérstaklega á umferðarmestu köflum, með því að fjárfesta í viðhaldi og uppbyggingu vega. Þetta mun auka öryggi og draga úr umferðartöfum.
Framsókn vill efla almenningssamgöngur um allt land, sem mun draga úr bílaumferð og mengun og hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Við styðjum vistvænar samgöngur, eins og hjólreiðar og göngu, með því að bæta göngu- og hjólastíga til að hvetja fólk til að velja umhverfisvæna ferðamáta.
Framsókn vill stuðla að nýsköpun í samgöngumálum og innleiða nýjar tæknilausnir til að auka skilvirkni og bæta þjónustu.
-
Framsókn treystir ungu fólki sem sérfræðingum í eigin málefnum. Við viljum tryggja að ungmenni fái rödd í samfélaginu og að þeirra sjónarmiðum sé tekið alvarlega. Við viljum að samráð við ungmenni fari fram á lýðræðislegan hátt, þar sem forsvarsfólk ungmennafélaga með lýðræðislegt umboð getur tekið þátt í að koma á framfæri sjónarmiðum ungs fólks.
Við styðjum að ungmenni taki þátt í ákvörðunum sem varða þeirra framtíð, með því að vinna með ungmennaráðum og öðrum formlegum vettvangi þar sem ungt fólk getur komið sínum skoðunum á framfæri. Með því að skapa þessi tækifæri er hægt að tryggja að raddir ungs fólks heyrist í stefnumótun og ákvarðanatöku.