VIÐREISN
Listabókstafur: X-C
Heiti Flokks: Viðreisn
Formaður: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 5
Stutt lýsing:
Viðreisn er frjálslynt stjórnmálaafl sem berst fyrir réttlátu samfélagi, stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum tækifærum.
-
Stærsta mál Viðreisnar fyrir þessar kosningar er baráttan við verðbólgu og háa vexti. Viðvarandi verðbólga er séríslenskt vandamál. Hér er hún að jafnaði margfalt hærri en í nágrannaríkjum okkar og yfirvöldum hefur reynst miklu erfiðara að ná henni niður. Þessu ætlum við að breyta með skynsamri og agaðri hagstjórn.
Ísland á að vera til fyrirmyndar í málefnum barna og ungmenna. Við þurfum að útrýma biðlistum og tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Við viljum efla forvarnir og fræðslu, bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri.
Viðreisn er eini alvöru frelsisflokkurinn á Alþingi. Við viljum frjálst þjóðfélag þar sem jafnvægi ríkir á milli frelsis einstaklinga, jafnréttis og samkenndar. Við treystum einstaklingum og viljum frelsi til athafna og viðskipta og tryggja þannig sanngjarna samkeppni. -
Viðreisn vill tryggja öruggari framtíð ungs fólks. Þetta er gert með að laga húsnæðislánaumhverfi á Íslandi, tryggja barnvænt og sveigjanlegt samfélag og að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd fyrir ungt fólk, sérstaklega innan menntakerfisins. Með því að ná tökum á ríkisfjármálunum mun Viðreisn tryggja að skuldasöfnun ríkissjóðs og falli ekki á næstu kynslóðir til að greiða. Viðreisn hefur og mun áfram leggja áherslu á að ungt fólk hafi aðkomu að málum sem að þeim snýr.
-
Viðreisn veit að menntun er grundvöllur jafnra tækifæra á Íslandi og þess vegna þarf menntakerfið að vera öflugt. Viðreisn vill tryggja frelsi og fjölbreytileika meðal menntastofnana til að nemendur geti stundað það nám sem hentar hverjum og einum. Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi með sérstökum stuðning við kennara vegna vegna þess hve nemendahópurinn er fjölbreyttur, t.d. til að styðja kennara við íslenskunám nema af erlendum uppruna. Innan skóla þarf að mæta þörfum nemenda með öflugu teymisstarfi fagfólks.
-
Við þurfum að tryggja að á Íslandi blómstri fjölbreytt atvinna, svo að ungt fólk geti fundið tækifæri í þeim greinum sem þau vilja starfa innan. Sérstaklega þarf að byggja upp sterkan þekkingingariðnað, sem getur vaxið á alþjóðlegan markað. Hugvit, nýsköpun og tækni er lykill að blómlegu atvinnulífi til framtíðar og kröftugu íslensku efnahagslífi.
-
Með því að byggja miklu meira. Tryggja þarf að uppbygging eigi sér stað um allt land og einfalda reglugerðir í samstarfi við fagfólk með fjölbreytt húsnæði að leiðarljósi - af hverju má ekki kaupa ódýrari íbúð án geymslu ef þú veist að geymslan fylgir ekki með?
-
Það er erfitt að komast til heimilislæknis, sem á að vera fyrsti viðkomustaður okkar í heilbrigðiskerfinu. Létta þarf á störfum heilsugæslunnar með því að draga úr skriffinsku lækna og auka tímann sem þeir hafa til að hitta sjúklinga.
Viðreisn leggur mikla áherslu á að börn eiga ekki að vera á biðlistum þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.
Viðreisn ætlar að stytta biðlista með því að leggja áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Að þú komist til læknis þegar þú þarft á honum að halda.
-
Viðreisn fékk samþykkt lög þess efnis að sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands en stjórnvöld hafa ekki tryggt til þess fjármagn nema að mjög litlu leyti. Viðreisn mun fylgja þessu frumvarpi eftir og semja við sjálfstætt starfandi meðferðaraðila til þess að að auka aðgengi að þessari heilbrigðisþjónustu. Einnig vill Viðreisn efla forvarnir og setja sérstaka áherslu á að vinna niður biðlista barna, ásamt því að tryggja nauðsynleg og fjölbreytt meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni, svo sem Stuðla.
-
Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga með það að markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Stuðla þarf að orkuskiptum og með því að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku.
-
Frjálslyndi, frelsi og jafnrétti hafa alltaf verið leiðarstef í stefnu Viðreisnar. Við viljum tryggja jöfn réttindi allra, óháð kyni, kynþætti eða kynvitund. Á Alþingi hefur Viðreisn meðal annars náð í gegn banni við bælingarmeðferðum á hinsegin fólki, endurskilgreint nauðgun í hegningarlögum sem skort á samþykki og auðveldað þolendum ofbeldis í hjónabandi snöggan skilnað. Við stóðum vörð um rétt kvenna til að stjórna eigin líkama og höfum barist gegn kynbundnu ofbeldi. Við höfum einnig barist fyrir því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Viðreisn mun halda áfram standa vörð um þessi réttindi.
-
Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms sem og þátttöku í stjórnmálum. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að koma hingað til lands að vinna og horfum þar sérstaklega til kanadísku leiðarinnar.
Viðreisn telur að gildandi umgjörð fyrir fólk í leit að alþjóðlegri vernd sé óskilvirkt og dýrt, í núverandi mynd og ómannúðlegt. Því sé brýnt að taka á því kerfi þannig að fólk sé ekki fast í óvissu mánuðum, og jafnvel árum saman á meðan unnið er úr umsókn þeirra. Það er brýnt að fólk fái niðurstöður úr sínum málum innan ásættanlegs tímaramma.
-
Viðreisnar styður það að lækka kosningaraldur niður í 16 ár, og voru þingmenn flokksins meðflutningsmenn frumvarps sem var lagt til á 153. löggjafarþingi þess efnis. Viðreisn hefur lengi lagt áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungmenna og hefur vakið athygli á því að ekki sé tekið nægt tillit til ungs fólks í allri ákvarðanatöku sem varðar þeirra hag. Það væri því skref í rétta átt að lækka kosningaaldur niður í 16 ára, samhliða aukinni fræðslu til að bæta úr þeirri stöðu.
-
Ísland á að vinna náið með alþjóðastofnunum til að tryggja manúðaraðstoð á stríðshrjáðum svæðum. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
-
Við þurfum að fjárfesta í samgöngukerfinu öllu. Viðreisn hefur stutt Samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, að efla almenningssamgöngur og uppbyggingu innviða fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Samgönguinnviðir hafa verið vanræktir undanfarin ár og við verðum að gera betur.
-
Viðreisn vill eiga í góðu samstarfi við allt forsvarsfólk félaga sem hefur til þess lýðræðislegt umboð, ungmennafélög eru þar engin undantekning. Það er mikilvægt að hlusta á raddir ungs fólks þegar að kemur að málefnum sem að því snýr.