miðflokkurinn
Listabókstafur: X-M
Heiti Flokks: Miðflokkurinn
Formaður: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 3
Stutt lýsing:
Miðflokkurinn er flokkur sem vill veita og varðveita stöðugleika og standa vörð um hefðbundin grunngildi, en um leið vera flokkur hugmyndaauðgi og framfara, samfélaginu öllu til heilla.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á trausta stjórn efnahagsmála og hallalaus fjárlög til að ná niður verðbólgu og stýrivöxtum. Við viljum ýta undir einkaframtakið og verðmætasköpun í landinu og efla fjölbreytileika atvinnulífsins og koma hreyfingu á húsnæðismarkaðinn. Um leið vill Miðflokkurinn koma böndum á stjórnleysið sem ríkir á landamærunum og skrifa ný útlendingalög frá grunni.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað og koma hreyfingu á hlutina. Í þeim tilgangi hefur flokkurinn kynnt aðgerðaráætlun sem við köllum „íslenska drauminn“ – en hann felur í sér fjölda aðgerða sem tryggja að allir hafi tækifæri til að eignast eigið húsnæði. Þessum aðgerðum verður sérstaklega beint að ungu fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Um leið vill Miðflokkurinn efla jafnrétti til náms og stuðla að því að allir geti fundið sér tækifæri í samfélaginu.
-
Skemmst er frá því að segja að Miðflokkurinn lætur sér mjög annt um íslenskuna, bæði sem rit- og talmál. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenska sé í forgrunni hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum og að samfélagið taki saman höndum um eflingu íslensku meðal fólks í framlínustörfum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskukennsla barna og unglinga verði efld. Ef íslenskan lifir sterku lífi, þarf ekki að hafa áhyggjur af íslenskum bókmenntum eða listum.
-
Ungt fólk á meira undir en aðrir að hér sé heilbrigt og öflugt atvinnulíf sem skapar fjölbreytt störf. Miðflokkurinn talar fyrir skynsömum lausnum sem eiga að nýtast til þess að efla atvinnutækifæri ungs fólks.
-
Lausnir Miðflokksins í húsnæðismálum miða allar að því að skapa skilvirkan og fjölbreyttan húsnæðismarkað sem mun þá nýtast ungu fólki sérstaklega. Um leið og framboð eykst mun verð á húsnæði lækka. Sama má segja um efnahagsmálin, skynsöm stefna lækkar verðbólgu og um leið vaxtakostnað þeirra sem kaupa sér húsnæði. Miðflokkurinn vill efla og styðja við þær aðgerðir sem beinast að fyrstu kaupendum húsnæðis. Einnig vill flokkurinn efla og styrkja félagslega þátt húsnæðiskerfisins og þá sérstaklega íbúðir fyrir námsmenn.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunum sjúklinga sé best borgið í blönduðu kerfi undir forsjá hins opinbera. Ekki skal breyta þeirri grundvallarstefnu. Miðflokkurinn hafnar tvöföldu heilbrigðiskerfi og leggur áherslu á að eyða biðlistum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að forvarnir verði lykilatriði og þá skal leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og að eftirlit verði stóraukið, meðal annars með gjaldfrjálsum heilbrigðisskimunum. Með heilbrigðisskimunum er hægt að grípa fyrr inn í þegar sjúkdómar og hættur steðja að. Miðflokkurinn telur að leiðarljós breytinga verði að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar þar sem heilbrigðisþjónusta krefst vandaðri undirbúnings og eftirfylgni í náinni samvinnu við alla þá sem eiga í hlut.
-
Geðheilbrigðismál ungs fólks er málaflokkur sem verður að leggja aukna áherslu á bæði með virkum úrræðum sem auka vellíðan ungs fólks og auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu og aðstoð í heilbrigðiskerfinu. Ekki er síður mikilvægt að efla jákvæð samskipti á sem fjölbreyttustum vettvangi.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem getur í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu. Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokkurinn styður skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismála sé sem mest hjá heimamönnum, sé það unnt.
-
Ísland stendur fremst meðal þjóða þegar kemur að mannréttindum og jafnrétti. Miðflokkurinn áttar sig á að það þarf alltaf að halda vöku sinni í þessum málaflokki og mun leggja sig fram um að styrkja og efla stöðu mannréttinda og jafnréttis í landinu.
-
Miðflokkurinn telur að gæsla landamæra og málefni hælisleitenda og flóttamanna kalli á hertar aðgerðir til að vernda íslenskt samfélag. Miðflokkurinn leggur áherslu á að litið sé til reynslu Norðurlandanna varðandi málefni hælisleitenda. Mikilvægt er að útgjöld ríkissjóðs til málefna hælisleitenda og flóttamanna verði hamin og skilvirkni í málsmeðferð aukin. Miðflokkurinn leggur áherslu á að standa við skuldbindingar gagnvart alþjóðlegum stofnunum. Miðflokkurinn áttar sig á að málefni útlendinga verður að skoða frá mörgum sjónarhornum. Þannig höfum við innflytjendur sem hingað koma til starfa og auðga bæði menningu og efnahag. Mikilvægt er að auðvelda hingað komu menntaðs fólks sem skilar miklu til íslensks atvinnulífs.
-
Miðflokkurinn sér ekki ástæðu til að lækka kosningaaldur frá því sem nú er enda fer saman kosningaaldur og forræðisaldur. Það eru mörg önnur tækifæri til að styðja við virkni og þátttöku ungs fólks í samfélaginu og mikilvægt að leggja áherslu á jákvæð samskipti fyrir ungt fólk á sem fjölbreyttustum vettvangi.
-
Miðflokkurinn leggur áhersla á að styðja fólk á flóttafólk sem næst heimaslóð þar sem fé nýtist sem best og taka við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á samgöngumál til að tryggja íbúum landsins jafna stöðu, hvar sem þeir búa. Bíllinn mun áfram gegna mikilvægu hlutverki og stjórnvöld mega ekki þrengja að einkabílnum meira en orðið hefur. Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Til að auka hraða uppbyggingar þarf fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar. Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við rofið kyrrstöðuna og sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest. endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest.
-
Miðflokkurinn telur að velferð og vellíðan ungs fólks sé eitthvert mikilvægasta verkefni sem hvert þjóðfélag þarf að stefna að. Því er ákaflega mikilvægt að styðja ungt fólk til þroska og hamingju í gegnum skólakerfið um leið og því er gefinn kostur á þátttöku við leik og störf á öðrum vettvangi. Miðflokkurinn fagnar því að eiga samtöl við ungt fólk á hverjum þeim vettvangi sem það kýs og hefur flokkurinn lagt sig sérstaklega eftir því að efla starf meðal ungra flokksmanna og bjóða ungu fólki þar með upp á samtal um stjórnmál og framtíð þjóðarinnar.