píratar
Listabókstafur: X-P
Heiti Flokks: Píratar
Þingflokksformaður: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 6
Stutt lýsing:
Píratar leggja áherslu á lýðræði, tæknimál, frelsi og að auka traust almennings til stjórnmála.
-
Málefnin sem við munum leggja mikla áherslu á eru þau mál sem almenningur í landinu er að kalla eftir að sett verði á dagskrá. Við viljum bæta og auka aðgengi fólks að húsnæðismarkaðnum með framboðsaukandi aðgerðum, tryggja góða og skilvirka efnahagsstjórn sem reiðir sig ekki á heimili landsins til að stemma stigu við verðbólgunni, bæta heilbrigðiskerfi með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál enda er vanlíðan fólks að aukast í samfélagi og leggjast í alvöru aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum.
-
Fyrst og fremst ætlum við að tryggja að málefni ungs fólks sé á forsendum þess sjálfs. Við viljum efna til virkra samtala við ungt fólk og heyra hvaða breytingar það vill sjá í öllum málaflokkum. Málefni ungs fólks er ekki bara einn eða tveir málaflokkar og viljum við skoða alla málaflokka út frá sjónarhóli ungs fólks.
-
Píratar vilja byggja upp menntakerfi sem stuðlar að heilbrigðu og skapandi lýðræðissamfélagi þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að þroskast í samræmi við eigin áhuga og styrkleika. Við teljum að með áherslu á þverfaglegt nám, heildræna nálgun á samfélagið, skapandi og gagnrýna hugsun, framfaramiðað námsmat og andlega- og líkamlega vellíðan nemenda mun menntakerfið ekki aðeins styrkja einstaklingsbundna þekkingu heldur einnig sjálfstraust þeirra og auka ábyrgð til að takast á við áskoranir framtíðar.
-
Vegna þeirrar tæknibyltingar sem nú á sér stað er mikilvægt að leita fjölbreyttra leiða til að tryggja atvinnuöryggi allra sem hér búa. Píratar vilja veita öfluga styrki til nýsköpunar m.a. til að byggja upp grænan og sjálfbæran iðnað um land allt og búa til græn störf. Við viljum leggja áherslu á umhverfis- og loftslagsmálin á sama tíma og við viljum tryggja atvinnuöryggi framtíðarkynslóða.
-
Píratar ætla að ráðast í framboðsaukandi aðgerðir til að tryggja að ungt fólk hafi frelsi til að velja á milli þess að kaupa eigin fasteign eða leigja húsnæði. Tryggja þarf fyrst og fremst fjármögnun þeirrar uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað og það ætlum við að gera með því að t.d. skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf íbúðarhúsnæða. Þá ætlum við að stuðla að því að húsnæði sé nýtt sem heimili frekar en fjárfesting með því að setja lögheimilisskyldu á fasteignir, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og hækka fasteignagjöld á aukaíbúðum um 0,7%. Hins vegar þarf einnig að gera langtímaáætlanir og ráðast á rót vandans, sem er m.a. verðtryggingin og íslenski gjaldmiðillinn.
-
Píratar ætla að tryggja öllum aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag, nútímavæða þjónustuna með tæknilausnum, koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga, setja heilbrigðismál í forgang í fjárlögum og tryggja örugga fjármögnun þess.
-
Við ætlum að stórauka fjárframlög til geðheilbrigðismála á Íslandi, ásamt því að leggja áherslu á forvarnir, samvinnu og skaðaminnkandi úrræði. Þá ætla Píratar að tryggja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu, aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu og áframhaldandi stuðning við ungmenni eftir að þau verða 18 ára þannig að ekki verði rof í þjónustu. Píratar lögðu fram þingmál á þessu kjörtímabili um neyðargeðheilbrigðisteymi, þar sem við vildum að sett yrði á fót bráðateymi sem bregst við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi og/eða fíknivandi séu til staðar.
-
Píratar eru og hafa alltaf verið með metnaðarfyllstu stefnuna í umhverfis- og loftslagsmálum. Áhersla og vilji okkar til að grípa til róttækra aðgerða til að sporna við loftslagsvánni er skýr og ætlum við m.a. að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, stórefla stjórnsýslu loftslagsmála, tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur, halda þjóðfund á hverju kjörtímabili til að finna lausnir á baráttunni gegn loftslagsvánni, tryggja vernd líffræðilegs fjölbreytileika og gefa engan afslátt af náttúruvernd. Þetta er aðeins stutta útgáfan af umhverfis- og loftslagsstefnunni okkar en nánari upplýsingar má nálgast hér: https://piratar.is/umhverfis-og-loftslagsstefna
-
Efling og vernd mannréttinda er eitt af grunngildum Pírata og eitthvað sem flokkurinn hefur sýnt að hann gefur engan afslátt af. Á undanförnum árum hefur það til dæmis birst í því öfluga viðnámi sem þingfólk Pírata veitti ómannúðlegum breytingum á útlendingalögum, tilraunum okkar til að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu og því að við tökum skýra afstöðu með útvíkkun réttinda hinsegin fólks og höfum þess vegna veitt ríkisstjórninni virkt aðhald við innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði. Á tímum þar sem sótt er að grundvallarréttindum um heim allan þykir okkur mikilvægt að sækja fram, því sókn er besta vörnin gegn bakslaginu.
-
Við viljum efla inngildingu fólks sem flytur til Íslands, tryggja réttindi erlends launafólks, réttlátt og einfalt móttökukerfi, mannúðlega meðferð fólks á flótta og veita þeim atvinnuleyfi á meðan umsókn er í ferli. Við viljum einnig auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að menntun og efla baráttuna gegn mansali. Píratar vilja byggja upp farsælt samfélag þar sem tekið er vel á móti fólki sem hér vill búa og stuðla að verðmætasköpun með því að tryggja erlendu fólki tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og sporna gegn fordómum.
-
Píratar hafa lengi barist fyrir því að lækka kosningaaldur í 16 ár, í samræmi við ákall LUF og fleiri hagsmunasamtaka ungs fólks. Ungt fólk á að fá að láta rödd sína heyrast og viljum við tryggja þeim tækifæri á að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem snerta líf og framtíð þeirra með beinum hætti.
-
Píratar tala fyrir friðsamlegri utanríkisstefnu og teljum við sjálfsagt að leggja okkar af mörkum til annarra stríðshrjáðra svæða með mannúðaraðstoð, ekki með vopnum.
-
Róttækar breytingar á samgöngukerfinu eru ekki bara ein skjótvirkasta leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum, heldur aðgerð sem skilar aukunum lífsgæðum til frambúðar. Píratar vilja efla strætókerfi höfuðborgarsvæðisins strax, flýta borgarlínu og stórefla landsbyggðarstrætó þannig að hann þjóni miklu betur þörfum fólks. Við viljum auka fjárhagslega hvata til fólks sem stundar samgönguhjólreiðar og byggja upp innviði fyrir vistvæna ferðamáta um land allt. Það á nefnilega ekki bara að auðvelda fólki að stunda vistvæna ferðamáta, heldur verðlauna fyrir það. Svo vilja Píratar hefja tilraunir með samgöngur framtíðarinnar, t.d. með uppbyggingu lestarsamgangna.
-
Píratar trúa eindregið á „ekkert um okkur án okkar“ á öllum sviðum stefnumótunar og finnst því mikilvægt að eiga náið samráð við viðeigandi hagsmunasamtök þegar verið er að fjalla um málefni tiltekinna hópa.