Sósíalistar
Listabókstafur: X-J
Heiti flokks: Sósíalistaflokkur Íslands
Leiðtogi: Sanna Magdalena Mörtudóttir
Staða: Ekki á þingi
Fjöldi þingmanna: 0
Stutt lýsing:
Markmið Sósíalistaflokksins er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar.
-
Við leggjum mesta áherslu á að koma húsnæðiskerfinu í horf svo það vinni fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara örfáa fjárfesta. Við viljum styðja við og endurreisa félagslegu og óhagnaðardrifnu kerfin sem voru áður mun stærri hluti af húsnæðismarkaðnum. Óhagnaðardrifin byggingafélög líkt og íbúðafélagið Bjarg ná ekki að byggja eins og þau myndu vilja vegna of dýrra lóða og lána.
Sósíalistaflokkurinn vill veita óhagnaðardrifnum og félagslegum byggingaraðilum ódýran og jafnvel ókeypis aðgang að lóðum. Við viljum stöðva uppsópun fjárfesta á fasteignum en fjárfestar hafa tekið til sín hátt í 90% allra seldra íbúða á þessu ári.
-
Húsnæðismál og heilbrigðismál eru málefni ungs fólks. Við viljum beita okkur fyrir samfélagi þar sem allir hafa aðgengi að öruggu húsnæði og fái þá heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu sem þau þurfa. Að hafa nóg í sig og á, öruggt húsaskjól og aðgengi heilbrigðisþjónustu er grunnforsenda almennrar velferðar og vellíðunar.
Sú vanlíðan sem við sjáum á meðal ungs fólks í dag má meðal annars rekja til þess að tækifæri fólks til að flytja að heiman, til þess að safna sér fyrir íbúð, eru mjög takmörkuð og til skammar. Við viljum að íslenska menntakerfið færist nær því sem þekkist á Norðurlöndunum frekar en meiri einkavæðingu og niðurskurði. Það þýðir að við viljum styðja betur við nemendur til náms. Í stað lána ættu nemendur að fá námsstyrki til þess að stunda nám, því menntun þjóðarinnar gerir okkur öllum gott.
Við viljum stuðla að og efla þátttöku ungs fólks í félagsstörfum og stjórnmálum. Ísland á að móta sér heilsteypta stefnu í málefnum ungs fólks.
-
Menntun skal vera fyrir alla. Hún skal vera öllum aðgengileg og gjaldfrjáls. Skólamáltíðir skulu einnig vera gjaldfrjálsar í grunnskólum og framhaldsskólum.
Auka skal verk-, tækni- og lisnám á öllum skólastigum. Tómstundir skulu metnar til náms, færðar inn í skólahúsnæðið eins og kostur er og vera gjaldfrjálsar.
Við leggjum til að greidd verði námslaun í stað námslána til að tryggja það að fólk sé ekki í fjárhagsáhyggjum á meðan á námi stendur. Það tryggir einnig aukið aðgengi að námi fyrir þau sem hafa ekki sterkt bakland.
Allir skólar skulu bjóða upp á þann stuðning sem nemendur þurfa, óháð biðlistum eða greiningu. Tryggja þarf gott starfsumhverfi starfsfólks og nemenda til að stuðla að vellíðan.
Störf kennara skulu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð.
-
Við viljum efnahagskerfi sem virkar fyrir allan almenning. Við leggjum til skattalækkanir á lítil fyrirtæki á meðan við leggjum til skattahækkanir á hin allra ríkustu. Þannig viljum við auka tækifæri venjulegs fólks til þess að eiga séns gegn stórfyrirtækjunum, sem koma sér oft fyrir í einokunarstöðu. Afnema tryggingargjald fyrir t.d. fyrstu 20 starfsmennina.
Við viljum liðka um fyrir stofnun og rekstri samvinnu- og sameignarfélaga til að auðvelda fólki að hefja rekstur.
Það þarf öfluga, félagslega byggðastefnu til að tryggja tækifæri og afkomu landsbyggðarinnar. Efla þarf strandveiðikerfið til muna og taka á einokun stórútgerðanna í sjávarútvegi. Við viljum byggja landið allt um kring og einn lykill að því eru öflugar samgöngur. Sósíalistaflokkurinn vill fjárfesta mikið í samgöngum því þær fjárfestingar eru mjög arðbærar og auka almennt frelsi og velsæld samfélagsins.
Kapítalistar vilja hafa atvinnuleysi í vissum mæli til þess að halda verkafólki óöruggu. Sósíalistar vita að það er hægt að útrýma atvinnuleysi tiltölulega auðveldlega.
Til dæmis væri hægt að fjárfesta í vinnu við að endurheimta votlendið. Það er tiltölulega einfalt verkefni sem verður að ráðast í til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.Ísland er mjög ríkt í auðlindum og hér eru mikil tækifæri til nýsköpunar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda, samfélaginu til mikilla bóta.
-
Með því að byggja upp húsnæðismarkaðinn og tryggja að hann verði á félagslegum grunni mun ungt fólk eiga auðveldara með að komast inn á húsnæðismarkaðinn, hvort sem það vill leigja eða kaupa. Ef það vill leigja, þá yrði mögulegt að safna fyrir útborgun í íbúð samhliða því, en það er nær ómögulegt eins og húsnæðismarkaðurinn er í dag. Við leggjum til að settar verði hömlur á leiguverð og leiguverð skuli almennt miðast við fjórðung af ráðstöfunartekjum.
Á Íslandi er ekki nema um 3% húsnæðis félagslegt eða óhagnaðardrifið húsnæði. Áður var hlutfallið um 20%.
Lífvænlegasta borg Evrópu, samkvæmt mælingum, er Vínarborg en þar er félagslegi og óhagnaðardrifni hluti húsnæðiskerfisins 60%. Þess vegna er húsnæðisöryggi þar mjög mikið og kostnaðurinn tiltölulega lítill. -
Við viljum rétta við innviðaskuldina sem hefur byggst upp vegna vanrækslu undanfarinna stjórnvalda. Öllum á að standa til boða hágæða heilbrigðisþjónusta, þar með talið tannlækningar og sálfræðiþjónusta.
Stöðva þarf alla frekari einkavæðingu í kerfinu. Einkavædd heilbrigðiskerfi auka ójöfnuð í aðgengi að heilbrigðisþjónustu og kosta skattgreiðendur meira af peningum líka. Það sést skýrt í heiminum víðast hvar þar sem einkavædd heilbrigðiskerfi kosta meira en þau sem eru rekin einungis á félagslegum, opinberum og óhagnaðardrifnum forsendum.
Heilbrigðisstarfsfólk á að vera leiðandi í stefnumótun um heilbrigðiskerfið. Það gengur ekki að heilbrigðisstarfsfólk sé svo önnum kafið að það nái ekki að sinna manneskjulegri hlið heilbrigðisþjónustunnar. Hún er gríðarlega mikilvæg. Einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu eru þekkt fyrir það að fækka starfsmönnum, að færri séu að sinna því sama og fleiri sinntu áður. Nýlegur samningur Eflingar við Samtök Fyrirtækja í Velferðarþjónustu snérist einmitt um að minnka álag á starfsfólki svo það gæti betur sinnt skjólstæðingum sínum. Það er mjög mikilvægt að næsta ríkisstjórn standi við loforð þess samnings en stjórnvöld eru orðin alræmd fyrir það að ganga á bak orða sinna í kjarasamningum. Það er með öllu ólíðandi. -
Líðan ungs fólks er okkur mjög mikilvæg og mikilvægt er að sporna við vanlíðan með fjölbreyttum leiðum.
Við leggjum áherslu á það að sálfræðiþjónusta verði í boði í öllum skólum. Hún skal vera gjaldfrjáls hvort sem er innan veggja skólans eða utan.
Tómstundir og íþróttir skulu vera gjaldfrjálsar og gerðar aðgengilegri, tómstundir skulu færast inn í skólahúsnæði eins og kostur er.
Ójöfnuður eykur vanlíðan í samfélaginu. Við þurfum að taka á misskiptingunni og spillingunni, sem sést stöðugt betur í samfélaginu.
Lífsgæðakapphlaupið innan kapítalismans skilar færrum og færrum góðri niðurstöðu. Við þurfum að huga að félagslega grunninum, þeim efnahagslega en líka þeim andlega. Samstaða og samvinna hefur alltaf verið mesti styrkur mannkynsins og við megum ekki gleyma því.
-
Á Íslandi liggur á að endurheimta votlendið og takmarka mengandi stóriðju. Að endurheimta votlendi er eitt það mikilvægasta sem Ísland verður að gera til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Neyslumenning kapítalismans sem snýst um það að selja sem mest af varningi er virkilega mengandi og ósjálfbær með öllu. Við viljum beita okkur fyrir því að hlutir séu hannaðir til þess að endast og virka. Ísland ætti að tala fyrir þessu á alþjóðlegum vettvangi.Mikið af vörum í dag eru hannaðar til þess að skemmast eftir örfá ár. Þetta er gert viljandi svo kapítalistar geti selt meira af varningi. Þetta var ákveðið á fyrri hluta 20. aldar af fyrirtækjum sem framleiddu ljósaperur. Ljósaperurnar endust svo lengi að fyrirtækjunum þótti þau ekki selja nóg af þeim. Þau náðu ekki að vaxa mikið meira. Þess vegna tóku þau sig saman og gerðu sameiginlega reglugerð sín á milli. Ljósaperur skulu hannaðar þannig að þær skemmist mun fyrr svo hægt sé að selja mun meira af þeim. Þetta er klikkuð hugmynd sem er enn við lýði.
Kapítalismi getur ekki brugðist við loftslagsbreytingum eins og þyrfti. Það er vegna þess að stórfyrirtækin ráða för og það eina sem þau vilja er að græða peninga. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er enn í veldisvexti á jörðinni þrátt fyrir ítrekaðar áætlanir og fundi þjóða heims. Það verður að stíga mun fastar til jarðar í aðgerðum í þágu loftslagsins, umhverfisins og framtíðar mannkynsins. Þegar sérhagsmunir stórfyrirtækja og hinna allra ríkustu ráða för, verður lítið gert í þágu fólks og framtíðar kynslóða á jörðinni.
Þessu þarf að breyta svo raunverulega sé hægt að bregðast við eins og þarf til þess að koma í veg fyrir hamfarir. Heimurinn þarf að setja kapítalismanum stólinn fyrir dyrnar og tryggja lífvænlega plánetu fyrir lífríki jarðar og kynslóðir framtíðarinnar.
-
Við leggjum áherslu á að minnka ójöfnuð í landinu, með tilliti til efnahagsstöðu, kyns, kynhneigðar, þjóðernis, litarháttar, fötlunar eða annars sem getur aðgreint fólk í samfélaginu.
Í þessu samhengi er gríðarlega mikilvægt að tryggja góða efnahagslega afkomu fyrir almenning í landinu. Öll eigum við rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun, húsnæðisöryggi og jöfnum
Öll skulu fá tækifæri til að mennta sig og öll skulu fá tækifæri til að sitja við sama borð og aðrir og fá þann stuðning sem þeir þurfa til þess. „Ekkert um okkur án okkar’’ er okkur hugleikið og ætti ávallt að leiða áfram stefnumótun í samfélaginu.
-
Hlúa þarf mun betur að innflytjendum, hælisleitendum og flóttafólki sem kemur hingað til lands. Gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar hefur gert það að verkum að mikið magn innflytjenda hefur flust til Íslands á skömmum tíma. Í stað þess að undirbúa slíkar breytingar með skipulögðum og mannúðarlegum hætti hafa sérhagsmunir ráðið för. Á sama tíma og sá mikli fjöldi fólks kom hingað til að vinna í ferðaþjónustunni og öðrum greinum hefur húsnæðiskerfið verið holað að innan. Félagslegu hliðar þess voru einkavæddar og komið í hendur gráðugra fjárfesta. Heilbrigðisþjónustan hefur verið vanfjármögnuð og stöðugt eykst einkavæðing í kerfinu. Uppbygging húsnæðis hefur verið svo til alfarið á forsendum fjárfesta sem vilja hagnast.
Það þarf að byggja upp samfélagið á félagslegum grunni. Samfélagið er mun ríkara en það var fyrir nokkrum áratugum. Við höfum alla burði til þess að reka öflugt heilbrigðiskerfi sem allir hafa aðgang að. Við höfum alla burði til þess að hefja átak í óhagnaðardrifinni uppbyggingu íbúða.
Fjöldi hælisleitenda á Íslandi er ekki mikill og fer minnkandi. Núverandi stjórnvöld hafa ítrekað grafið undan mannréttindum þeirra sem hér eru og koma hræðilega fram við þau. 8 þúsund krónur á viku í mat er ekki nóg fyrir fimm manna fjölskyldu sem er að bíða úrlausnar umsóknar sinnar. Við þurfum að hlúa miklu betur að því fólki sem hingað kemur.Öllum innflytjendum, hælisleitendum og flóttafólki á að standa til boða að læra íslensku á vinnutíma ef þess þarf. Þau sem vilja eiga að geta sótt sér þá þjónustu án endurgjalds.
Við viljum taka vel á móti þeim sem hingað leita. En það er ekki einungis á þeirra herðum að aðlagast okkur, við þurfum að gera betur til þess að valdefla fólk sem hingað kemur til þátttöku í samfélaginu.
-
Við erum hlynnt því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ára. Okkur finnst mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að hafa eitthvað með það að segja hvað varðar framtíð sína sem ungt fólk á Íslandi.
Í dag fá þeir sem verða 18 ára stuttu eftir kosningar ekki að nýta sinn kosningarétt í kosningum til alþingis eða sveitastjórnar fyrr en þeir eru að verða 22 ára. Þetta finnst okkur ekki sanngjarnt.
Þetta er líka mikilvægt skref til þess að efla lýðræðisvitund og þátttöku fólks almennt í samfélaginu.
-
Ísland á að standa fyrir mannréttindum og alþjóðalögum í heiminum og stuðla að friðsælli framþróun allra þjóða. Ísland er herlaust smáríki og er okkur gríðarlega mikilvægt að alþjóðalög séu virt.
Við ættum að fordæma harðlega þau ríki sem brjóta alvarlega þau alþjóðalög sem eru til þess fallin að stuðla að stöðugleika og friði í heiminum. Ísland er búið að fordæma innrás Rússlands í Úkraínu, réttilega, en fráfarandi ríkisstjórn hefur gerst sek um þjóðarmorð Ísraels í Palestínu.
Ísland verður að stíga fastar inn til þess að stöðva þjóðarmorðið. Þó að við séum smáríki getum við margt til málanna lagt. Til dæmis með því að beita og kalla eftir viðskiptabanni á Ísrael og með því að styðja málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Málsóknin er höfðuð gegn Ísrael vegna hernáms og aðskilnaðarstefnu Ísraels gegn palestínsku þjóðinni.
Við eigum að fordæma harðlega beinan stuðning ýmissa Vesturlanda við Ísrael og fordæma sérstaklega beitingu Bandaríkjanna á neitunarvaldinu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að aðgerðum gegn þjóðarmorðinu. Ef það væri ekki fyrir misnotkun neitunarvalds Bandaríkjanna væri búið að stöðva Ísrael.
Sumir segja að Ísland geti ekkert gert til þess að stöðva þjóðarmorð Ísraels í Palestínu en höfum í huga hvað ein rödd getur skipt miklu máli í þessu samhengi. Ef Ísland stígur fast inn, fyrst Norður-Evrópuþjóða í að beita sér gegn þjóðarmorðinu, erum við að auka til muna líkurnar á því að aðrar þjóðir hugsi sér að gera slíkt hið sama. Stöndum með því sem við vitum að er rétt því það varðar okkur öll og framtíð mannkynsins í heild sinni.
Að standa vörð um mannréttindi og alþjóðalög er mikilvæg ábyrgð sem allar þjóðir verða að taka til sín. Öll lifum við saman á jörðinni og það er mannkyninu gríðarlega mikilvægt að geta komið í veg fyrir styrjaldir og átök.
-
Samgöngur ætti að stórefla í samráði við þá sem nota hana. Strætó skal vera gjaldfrjáls og virka fyrir almenning.
Við viljum ekki að vegaframkvæmdir séu settar í hendur einkafyrirtækja og höfnum öllum vegtollum. Slíkt endar á því að kosta okkur miklu meira. Einkafjárfestar vilja alltaf hagnað. Það er betra að hið opinbera fjárfesti beint í öflugum samgöngum. Öflugar samgöngur stuðla að blómlegu efnahags- og félagslífi.
Ísland er gríðarlega ríkt land og ef misskiptingin væri ekki svona mikil í samfélaginu ættum við efni á stórfelldum fjárfestingum í samgöngum. Við bendum til Færeyja, sem er miklu minna hagkerfi en Ísland en nýtir auð sinn betur til þess að byggja öflugar samgöngur og göng um eyjarnar allar.
-
„Ekkert um okkur án okkar.“
Sósíalistaflokkurinn er grasrótarhreyfing sem vill stuðla að stóraukinni lýðræðisþátttöku almennings. Við styrkjum hagsmunasamtök og félagasamtök sem vilja láta gott af sér leiða og teljum það nauðsynlega forsendu framþróunar í þágu almennings að fólk taki aukinn þátt í stjórnmálum, verkalýðsfélögum og hagsmunasamtökum alþýðufólks af ýmsum toga.
Við munum því alltaf standa fyrir virku lýðræði og raunverulegu samráði við félagsfólk okkar og hagsmunasamtök sem berjast fyrir hagsmunum fólksins í landinu.