Vinstri græn
Listabókstafur: X-V
Heiti flokks: Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Formaður: Svandís Svavarsdóttir
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 7
Stutt lýsing:
Flokkur sem leggur áherslur á félagslegt réttlæti, alþjóðlega friðarhyggju, kvenfrelsi og náttúruvernd.
-
Við í VG erum alveg skýr með það að íbúðarhúsnæði er fyrir fólk, fjölskyldur en ekki fjárfesta. Það á að koma í veg fyrir brask með heimili og við viljum leigubremsu strax. Okkur finnst að skólaganga, allt frá leikskóla til háskóla eigi að vera ókeypis og námsgögn líka. Við viljum við hlúa að kennurum, nemendum og starfsfólki í skólum. Við viljum að barnafjölskyldur fá meiri tíma saman og að þeir sem hafa minnstu tekjurnar fái hærri fæðingarorlofsgreiðslur og barnabætur. Almennt viljum við í VG að laun fólks dugi þeim til að lifa heilbrigðu og öruggu lífi.
Við viljum að öll séu jöfn og að mannréttindi séu virt alltaf. Við viljum uppræta kynjamisrétti, tryggja frelsi frá ofbeldi og leiðrétta það að kvennastörf séu vanmetin. Við ætlum að berjast gegn kvenfyrirlitningu og fordómum almennt í samfélaginu með öllum tiltækum ráðum. Við viljum setja lög um hatursorðræðu í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa.
Við stöndum með náttúrunni, með loftslaginu og dýrum. Við viljum ekki leyfa hvalveiðar. Við viljum að þau sem nýta sér náttúruauðlindirnar okkar allra borgi fyrir það sanngjarnt verð. Við viljum berjast gegn hamfarahlýnun, losa minna og binda meira. Aðgerðir í náttúruvernd og loftslagsmálum verða að vera róttækar, þetta er jörðin okkar allra og jörðin sem þið munið erfa.
Við stöndum með friði og með frjálsri Palestínu. Við fordæmum þjóðarmorð Ísraels í Palestínu og okkur finnst að stjórnvöld eigi að gera allt sem þau geta til að stöðva það. Við segjum stopp við harkalegri og ómannúðlegri stefnu gegn fólki á flótta. Við eigum að taka fagnandi á móti þeim sem hingað koma. Það þarf að vinna markvisst að inngildingu í íslensku samfélagi og valdeflingu jaðarsettra hópa.
-
Það á ekki að þurfa eiga ríka foreldra til að geta eignast íbúð. Við viljum nota skattkerfið til að fjárfestar safni ekki íbúðum til að leigja á okurverði, við viljum takmarka airbnb og setja á leigubremsu strax. Við viljum að ríkið hjálpi til við að byggja meira og það þarf að koma upp félagslegu íbúðakerfi þar sem fólk getur eignast íbúðina. Við viljum hjálpa ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn með því að berjast gegn vöxtum og með sérstökum lánum og við viljum að séreignasparnaðurinn verði áfram nýttur í fyrstu íbúðarkaup.
Við viljum ókeypis skóla á öllum stigum. Við viljum lækka vexti á námslánum og nota námslánakerfið til að laða stúdenta heim til Íslands úr námi. Námsmenn þurfa að fá almennilega grunnframfærslu. Við viljum ekki að nemendur þurfi að vinna svona mikið með skóla.Við viljum almennt passa að nemendur detti ekki úr námi. Við viljum styðja nemendur og sérstaklega nemendur með innflytjendabakgrunn. Við styðjum nemendur líka með því að styðja kennara sem eiga að fá mannsæmandi laun. Við viljum ekki að skólar verði einkavæddir eitthvað fólk geti grætt á skólum og búið til stéttaskiptingu með skólanum.
Við viljum útrýma biðlistum fyrir börn og ungmenni í hvaða þjónustu sem er, hvort sem það er heilbrigðisþjónusta, geðheilbrigðisþjónusta eða annað.
Við viljum líka hjálpa ungu fólki með því að bæta hag foreldra þeirra. Við viljum vinna markvisst gegn fátækt barna og ungmenna með því að bæta hag fjölskyldna með lægstu launin og með því að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra.
Og kannski það mikilvægasta fyrir komandi kynslóðir eru róttækar en raunhæfar aðgerðir í loftslagsmálum! Þau sem menga verða að borga. Við viljum festa í lög 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum setja miklu meiri pening í loftslagsaðgerðir og flýta þeim. Við viljum vera hætt að nota jarðefnaeldsneyti 2040.
-
Við viljum frían skóla á öllum námstigum! Frá leikskóla til háskóla og við viljum festa það í lög að öll börn fái leikskólapláss eftir fæðingarorlof. Við viljum að námsefni sé ókeypis og við viljum að það sé meira af góðu og fjölbreyttu námsefni til. Við viljum ekki að það sé stéttaskipting í skólum. Það eiga öll rétt á að læra. Við viljum ekki einkavæða skólakerfið, svo að það verði til einkaskólar sem verði betri en aðrir skólar. Það eiga öll rétt á jafn góðri menntun.
Við viljum styðja betur við kennara og meta þau að verðleikum. Við viljum styðja þau frekar þegar kemur að íslenskukennslu fyrir börn innflytjenda. Svo eiga öll börn rétt á að læra móðurmál sitt, það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli og börn af erlendum uppruna.
Við viljum að allskonar háskólanám sé í boði og líka í framhaldsskóla, ekkí síst hvað varðar listnám. Öll börn eiga að fá að vera í listnámi, alveg óháð efnahag heima. Við viljum að umhversilæsi sé kennd í skólum svo allir nemendur viti meira um loftslagsmál enda varðar þetta helst ykkar framtíð. Það þarf líka að skoða námslánakerfið. Við viljum skoða það að gera námslán vaxtalaus. Námslán eins og þau eru núna eru ekki að virka fyrir öll.
Við viljum öfluga og vel fjármagnaða háskóla og við viljum auka framlög til þeirra.
-
Íslenskt samfélag þarf að styðja ungt fólk í því að koma undir sig fótunum og eignast þak yfir höfuðið. Skila þarf fólki tíma með fjölskyldum og samfélagið þarf að miða að því að gera samfélagið fjölskyldu- og barnvænna.
Styðja þarf við hátækniiðnaðinn á Íslandi. Hátækniiðnaður gegnir lykilhlutverki í að efla alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands og skapa störf sem byggja á háþróaðri þekkingu og hugviti. Með áherslu á tæknimenntun, rannsóknir og þróunarstarf getur Ísland verið í fararbroddi í nýsköpun og tækniframförum til framtíðar. Skapandi greinar gegna einnig lykilhlutverki í því að skapa auðugt samfélag, bæði á efnahagslega en líka á óefnislega mælikvarða. Án skapandi greina verður engin nýsköpun.
Á sama tíma þarf atvinnulífið sem er á að þróast í átt að sjálfbærni með áherslu á græn störf, skapandi greinar, sjálfbæra þróun og nýsköpun. Með því að aftengja hagvöxt nýtingu jarðefnaeldsneytið í auknum mæli þá drögum við úr kolefnissporinu og sköpum tækifæri fyrir ungt fólk.
Til þess að tryggja að atvinnulíf byggist upp um allt land þarf að bæta innviði, samgöngur, fjarskipti, tækifæri til menntunar og aðra grunnþjónustu.
-
Við viljum stöðva brask á húsnæðismarkað með því að skattleggja slíkt brask. Húsnæðismarkaðurinn er ekki fyrir fjárfesta heldur fyrir fólk að leita að heimili. Við viljum takmarka Airbnb og setja á leigubremsu strax! Við viljum tryggja gæða húsnæði fyrir öll óháð efnahag.
Við viljum að ríkið og sveitafélög hjálpist við að byggja meira og það þarf að koma upp félagslegu íbúðakerfi þar sem fólk getur eignast íbúðina. Við viljum aðstoða verkalýðsfélög að byggja fleiri leiguíbúðir sem eru leigaðar úr á sanngjörnum kjörum. Við viljum hjálpa ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn með því að berjast gegn vöxtum og með sérstökum lánum og við viljum að séreignasparnaðurinn verði áfram nýttur í fyrstu íbúðarkaup. VG vill líka að skólaganga sé nemendum og fjölskyldum frí á öllum skólastigum. Við viljum lækka vexti á námslánum Þetta myndi gera það að verkum að ungt fólk kæmi úr námi og inn á húsnæðismarkaðinn með meiri pening og minni skuldir.
-
Okkur í VG finnst að ríkið eigi að reka heilbrigðiskerfið. Við viljum ekki að það sé einkavætt frekar og að sumt fólk geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu. Við viljum gera opinbera heilbrigðiskerfið betra og sterkara og verja það fyrir fólki sem vill græða á því.
Við viljum stytta biðlista og auka vel í geðheilbrigðisþjónustu.
Við viljum efla heilsugæsluna út um allt land og tryggja að sama hvar þú býrð á landinu hafir þú jafn góðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þú þarft hvort sem það er að fara til heimilislæknis eða fæða barn.
Við í VG erum mjög hrifin af forvörnum eða að hjálpa fólki fyrr á ævinni að halda í góða heilsu. Við dreifa því betur hvert fólk sækir sér heilbrigðisaðstoð. Stundum þarf að fara til sjúkraþjálfara eða til sálfræðings frekar en að fara til heimilislæknis.
Okkur finnst að heilbrigðisþjónusta eigi að vera ókeypis. Fyrst um sinn eiga þau að lækka svo minni hlutfall af launum fólks fari í það og á endanum á hún að vera ókeypis. Lyf fyrir börn og ungmenni eiga að vera ókeypis líka.
Við trúum á skaðaminnkun þegar kemur að fólki með vímuefnavanda. Við fengum samþykkt frumvarp um neyslurými og við lögðum fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta sem því miður var ekki samþykkt á Alþingi.
-
Það þarf að efla opinbera heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og auka vel í geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega þegar kemur að börnum og ungmennum. Þegar Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, var heilbrigðisráðherra bætti hún heilsugæsluna mjög mikið, komugjöld á heilsugæsluna voru lækkuð mjög mikið, niður í 500 krónur og börn,öryrkjar og aldraðir borga ekkert. Hún setti sálfræðiþjónustu inn á heilsugæsluna og hún kom á fót geðheilsuteymum um allt land.Þrátt fyrir þessar framfarir og fleiri þá verðum við að gera betur. Fjölga þarf sálfræðingum þannig að öll sem þurfi geti komist til sálfræðings eða aðra viðeigandi geðheilbrigðisstétt í gegnum heilsugæsluna.
Við verðum að styrkja verulega meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda og við verðum að styðja börn í skólum. Við viljum vinna markvisst að því að útrýma fátækt barna sem auðvitað hefur áhrif á andlega heilsu þess. Ójöfnuður hefur mikið að segja þegar kemur andlegri heilsu og að útrýma fátækt er ein sterkasta forvörn sem í boði er. Við viljum að fólk þurfi ekki að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, við trúum því að við komumst þangað í skrefum.
Börn og ungmenni eiga að lifa við frelsi frá ofbeldi, rasisma, stéttaskiptingu og kvenfyrirlitningu. Aukinn stuðning þarf meðal annars í skólum og fullnægjandi mönnun, bættan aðbúnað og skýrar aðgerðir, tæki, tól og svigrúm til að tryggja slíkt frelsi. Vinnum markvisst gegn fátækt barna. Bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra.
-
Aðgerðir í náttúruvernd og loftslagsmálum verða að vera róttækar en raunhæfar. Það sem skiptir mestu máli er að þau sem menga þau þurfa að borga fyrir það. Við þurfum að festa í lög markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og setja heildræna stefnu í loftslagsmálum sem nær til allra sviða samfélagsins og þar með viljum við stórauka fjárveitingar til loftslagsaðgerða og flýta þeim eins og hægt er!
Við viljum að grænþvottur verði refsiverður í lögum og að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt 2040. Við viljum að þau sem eru að nýta auðlindir okkar allra borgi fyrir það sanngjarnt gjald sem rennur aftur til samfélagsins. Við viljum halda orkuauðlindum í almannaeign.
Við viljum banna hvalveiðar, friða Eyjafjörð, Öxarfjörð og Seyðisfjörð fyrir sjókvíaeldi og banna fiskeldi í opnum sjókvíum í skrefum. Við erum með náttúruna að láni og við eigum að koma þannig fram við hana. Við eigum að passa hana fyrir þeim sem vilja skemma hana til þess að græða á því. Við viljum vernda vistkerfin, dýrin, plönturnar stórar og smáar.
Við í VG kjósum náttúruna og við vonum að þið gerið það líka.
-
Fólk á að njóta fullra réttinda í samfélaginu óháð því hvernig það skilgreinir sig. Það þarf að setja það í lög að banna hatursorðræðu og hatursglæpi í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa. Við eigum að fara eftir alþjóðlegum mannréttindasamningum í einu og öllu. Það þarf til dæmis að endurskoða hvernig Útlendingastofnun lítur og vinnur eftir alþjóðlegum mannréttindasamningum. Við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem vilja búa hér, tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins.
Við eigum öll jafnan rétt á frelsi frá ofbeldi og mismunun. Mannréttindi eru sjálfsögð réttindi en það er alls ekki sjálfsagt að staðið sé vörð um þau. Við viljum standa vörð um þungunarrofslöggjöfina, það var alls ekki sjálfsagt að hún hafi verið samþykkt. Við viljum uppræta kynbundið ofbeldi og mismunun. Við þurfum að hlúa að þolendum kynbundins ofbeldis og styrkja stöðu þeirra í réttarkerfinu. Við viljum að ríkið verði skaðabótaskylt gagnvart þolendum ef mál þeirra er felld niður vegna mistaka eða vegna þess að málið tók allt of langan tíma í kerfinu.
Við viljum standa vörð um löggjöfina um kynrænt sjálfræði. Við viljum auka vernd trans og intersex fólks, sérstaklega barna. Við þurfum brjóta á bak niður bakslaginu gagnvart hinsegin fólki, það má ekki líðast. Við þurfum að innleiða samning Sameinuðu þjóðana um réttindi fatlaðs fólks. Það getum við gert þegar ný Mannréttindastofnun, sem VG fékk samþykkta á þingi, tekur til starfa.
-
Fólk sem hingað leitar hefur sömu mannréttindi og aðrir í okkar samfélagi. Fordómar, hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum eða útlendingum verða ekki liðnir á Íslandi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að fjölbreytileiki sé styrkur hvers samfélags og að íslenskt samfélag eigi taka þeim fagnandi sem hingað koma óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Vinna þarf að markvissri inngildingu í samfélaginu og valdeflingu jaðarsettra hópa. Öllum innflytjendum þarf að vera tryggð íslenskukennsla þeim að kostnaðarlausu, á vinnutíma og án launataps. Innflytjendur og flóttafólk á að fá menntun og reynslu sína metna svo það geti starfað við fag sitt.
Við eigum að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða, og afgreiðsla umsókna á að vera skjót og fagleg. Ef aldur barns er á reiki skal barnið ætíð njóta vafans. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal gera það með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum.
Endurskoða verður skipulag og vinnubrögð Útlendingastofnunar þannig að starfsemi stofnunarinnar taki fullt tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga. Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar. Standa vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins en ekki nota Dyflinnarreglugerðina gegn fólki.
Við í VG höfnum alfarið orðræðu hægri aflanna um að innflytjendur séu á einhvern hátt byrði á samfélagið okkar og það er mjög varhugavert að upphefja þannig umræðu að þú ákveðir það að fólk með tiltekinn hörundslit, eða af tilteknum trúarbrögðum eða af tilteknum bakgrunni sé í sjálfu sér ógn við samfélagið. Það heitir rasismi. Það er það sem það heitir.
-
VG vil lækka kosningaaldur í 16 ár.
-
Við í VG kjósum frið.
Utanríkisstefna Íslands þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála og fordæmum hvers kyns árásarstríð og ofbeldi í samskiptum þjóða. Ísland á að beita sér gegn múrum og girðingum á milli þjóða og þjóðfélagshópa og styðja sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða. Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna.
Íslendingar eiga að stórauka framlag sitt til þróunarsamvinnu með jafnrétti að leiðarljósi og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þess að framlögin nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum. Aðalmarkmið þróunarverkefna á vegum Íslendinga á að vera að fólki sé gert kleift að verða sjálfbjarga á eigin forsendum með loftslagsmál og sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Við stöndum með frjálsri Palestínu. Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Við viljum beita okkur fyrir því að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum verði komið á gagnvart Ísrael vegna framgöngu Ísraelshers í Palestínu. Stjórnvöld eiga að styðja við málsókn Suður-Afríku hjá Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna gegn Ísrael fyrir þjóðarmorð á Gaza og beita sér fyrir því með virkum hætti að draga ísraelsk stjórnvöld til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi, mannréttindabrot og landrán.
Stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum.
-
Hraða þarf uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Setja þarf lög um almenningssamgöngur, tryggja orkuskipti þeirra, efla þær um allt land og tryggja að þær séu aðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu eins og kostur er og efla Strætó tafarlaust með stuðningi ríkisins. Grænni tengingu milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar þarf að forgangsraða.
Mikilvægt er að auka fjárfestingu og viðhald í samgöngum svo að unnt sé að tryggja öruggar samgöngur og stytta vegalengdir og ferðatíma milli byggða og atvinnusvæða.Vil viljum bora göng og fjármagna jarðgangnaáætlun. Þannig verði lagður grunnur af velsæld og verðmætasköpun um land allt. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir ungt fólk og öll sem þurfa að reiða sig á almenningssamgöngur.
Almenningssamgöngur eru ekki bara frábært loftslagsmál heldur líka félagslegt réttlætismál. Fólk á að vera gert kleift að komast hratt og örugglega á milli staða, sækja vinnu langt frá heimili sínu án þess að skaða umhverfið eða heimilisbókhaldið.
-
Það er mjög mikilvægt að ungt fólk fái sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Raddir allra hópa samfélagsins þurfa að eiga sæti við borðið þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Því vill hreyfingin að ungu fólki sé ávallt tryggð aðkoma að umræðum og ákvarðanatöku innan hreyfingarinnar. Við erum með ungt fólk til dæmis á lista hjá okkur og í forrystunni en fyrsta sætið í Reykjavík norður er einmitt Finnur Ricart Andrason, sem er 22 ára gamall og kemur úr Ungum umhverfissinnum.
Við í VG höfum alltaf lagt mikla áherslu á að vera í miklu og góðu samtali við grasrótar-og félagasamtök eins og ungmennafélög. Við teljum að efla þurfi starfsemi ungmennaráða sveitarfélaga og við viljum Tryggja lýðræðislega þátttöku nemenda í skólastarfi þar sem þau læra lýðræðisleg vinnubrögð og eru upplýst um réttindi sín og skyldur.