Samfylkingin

Listabókstafur: X-S

Heiti Flokks: Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands

Formaður: Kristrún Frostadóttir

Staða: Í stjórnarandstöðu

Fjöldi þingmanna: 6

Stutt lýsing:
Samfylkingin aðhyllist markmið og leiðir jafnaðarstefnunnar. Stefna flokksins og störf byggjast á frelsi og lýðræði, kvenfrelsi, jafnrétti og samábyrgð.

  • Samfylkingin leggur megináherslu á þrjú útspil flokksins sem voru unnin í samráði við fólk alls staðar af landinu.

    • Örugg skref í heilbrigðismálum 

    • Kröfu um árangur í atvinnu og samgöngumálum 

    • Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum

    Að ná styrkri stjórn á efnahagsmálunum og ná niður vöxtum og verðbólgu verður forgangsmál hjá Samfylkingunni. Við ætlum að fjölga íbúðum strax með bráðaaðgerðum. Við ætlum að tryggja að ríkissjóður valdi ekki verðbólgu með því að taka upp stöðugleikareglu í fjármálum ríkisins. Og við ætlum að taka til í ríkisrekstri – samhliða tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum.

  • Samfylkingin leggur til að sett verði fram heildstæð stefni til lengri tíma í málefnum ungs fólks í samræmi við ákall Landssamband ungmennafélaga, ungt fólk og starfsfólk félagsmiðstöðva. Ísland er eitt af fáum löndum sem hefur ekki sett fram ungmennastefnu (e. youth policy) sem gæti verið ein ástæða þess að stjórnmálafólk forgangsraðar ekki með markvissum hætti fjármagni í málefni ungs fólks. Ungmennastefna segir til um hvernig við sem samfélag viljum tryggja að ungu fólki líði vel. Hún felur það í sér að ungmenni séu virkir þátttakendur í ákvarðanatöku í samfélaginu, fái tækifæri til að mennta sig, geti tekið þátt í öflugu félagsstarfi, komist út á vinnumarkaðinn og eignast húsnæði. Óháð því hvaðan þau koma, hvaða foreldra þau eiga eða hvar á landinu þau búa. 

    Samhliða gerð ungmennastefnu er nauðsynlegt að ungt fólk sjái strax alvöru aðgerðir sem lengi hefur verið rætt um svo sem lögfestingu félagsmiðstöðva og gæðaviðmið um starfsemi þeirra, að byggt verði nýtt meðferðarheimili fyrir unglinga, að Æskulýðssjóður og rekstrarumhverfi félagasamtaka ungs fólks og þeirra sem vinna að hagsmunum ungs fólks verði bætt og að við eflum ungmennaráð og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku um málefni sem þau varða. Nauðsynlegt er að tekið verði strax á geðheilbrigðismálum ungs fólks og að ráðist verði á þá löngu biðlista sem eru eftir þjónustu við börn og ungmenni. Ungmennastefna Íslands þarf að fjalla um velferð ungs fólks á breiðum grunni og innihalda málaflokka eins og íþrótta- og húsnæðismál út frá þörfum ungs fólks. Ungmennastefna á einnig að fjalla um aðkomu ungs fólks að atvinnu-, nýsköpunar- og menntastefnu Íslands sem á að tryggja að ungt fólk hafi tækifæri til að ná árangri í menntakerfinu og að það verði til fjölbreytt og verðmæt störf fyrir ungt fólk út um allt land.

    Þá vill Samfylkingin að almennur kosningaréttur miðist við 16 ára aldur og að gripið verði til markvissra aðgerða til að auka kosninga- og stjórnmálaþátttöku ungs fólks.

  • Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegur vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir og þar sem öll eiga möguleika á að rækta hæfileika sína og afla sér þekkingar á eigin forsendum og í þágu samfélagsins alls. Allt skólastarf á að byggjast á virðingu fyrir margbreytileika og mannréttindum. 

    Hækka þarf framfærslu- og námsstyrki fyrir framhaldsskólanemendur á landsbyggðinni sem ekki geta sótt nám í sinni heimabyggð. Enginn framhaldsskólanemandi ætti að þurfa að hafa áhyggjur af fjárhagslegri afkomu sinni. 

    Samfylkingin hefur lagt fram tillögu á þingi um gjaldfrjálsar skólamáltíðir til framhaldsskólanemenda upp að 18 ára aldri. Niðurgreiddar skólamáltíðir fyrir framhaldsskólanema eru sérstaklega mikilvægar nemendum sem koma frá efnaminni heimilum og þeim sem þurfa að sækja framhaldsskóla langt frá heimili sínu, en þeir nemendur eru oft í viðkvæmari stöðu en önnur. 

    Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að bæta starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda, með það að markmiði að laða hæft fólk til starfa í menntakerfinu. Forgangsraða þarf íslenskukennslu á öllum skólastigum, lestri og líðan í skólastarfi og tryggja að jafnt fjármagn fylgi börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. 

    Samfylkingin vill auka námsframboð, sér í lagi þegar kemur að iðnnámi. 

  • Í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur setti flokkurinn fram kröfu um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland. Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu um allt land með áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni, vel launuð störf og sterkt velferðarkerfi. Atvinnustefnu sem stendur undir íslenskum kjörum. Samfylkingin styður eindregið nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins og vill ýta undir vöxt atvinnugreina sem byggja á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu enda er nýsköpunar- og frumkvöðlastarf lykill að samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða. 

    Til að tryggja ungu fólki næg atvinnutækifæri er mikilvægt að auka möguleika ungs fólks til fjölbreyttrar menntunar, tryggja afkomuöryggi námsmanna og skapa sveigjanlegra námslánakerfi. Þá þarf að fjölga verulega við námsplássum fyrir þau sem hyggja á iðn- og starfsnám. 

  • Til að tryggja aðgengi ungs fólks að húsnæði þarf einkum tvennt að koma til. 

    Í fyrsta lagi þarf að fjölga íbúðum, bæði til leigu og kaups. Með bráðaaðgerðum getum við fjölgað íbúðum á annað þúsund næstu tvö árin, umfram áætlanir, sem heldur aftur af hærra húsnæðisverði – og þar með verðbólgu og vöxtum, með því að losa um íbúðarhúsnæði sem er þegar til en ekki nýtt til íbúðar og hins vegar með því að liðka fyrir fjölgun íbúða sem er hægt að koma hratt á markaðinn. Til þess ætlum við m.a. að ná stjórn á Airbnb, byggja einingahús og breyta atvinnuhúsnæði í vandaðar íbúðir. Þetta er nauðsynleg byrjun til að taka á bráðavandanum. En við leggjum einnig til kerfisbreytingar til lengri tíma til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði.

    Í öðru lagi þarf að ná niður vöxtum og verðbólgu svo að ungt fólk hafi burði til að greiða af húsnæðislánum. Hátt húsnæðisverð og hár vaxtakostnaður er meginástæða þess að ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn nema með aðstoð frá foreldrum. Við erum með plan til að ná niður vöxtum og verðbólgu. Um það má lesa í svari við spurningu 1.

  • Kosningaáherslur Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum byggja á Öruggum skrefum - útspili flokksins um heilbrigðismál sem hægt er að lesa hér. Þar er að finna fimm þjóðarmarkmið í heilbrigðismálum sem Samfylkingin mun setja í forgang. Samfylkingin telur að þegar umræddum markmiðum verði náð muni það hafa víðtæk jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið í heild sinni. 

    Markmiðin eru eftirfarandi: 

    1. Að fólk fái fastan heimilislækni

    2. Þjóðarátak verði gert í umönnun eldra fólks

    3. Fólki verði tryggt öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um allt land

    4. Heilbrigðisstarfsfólki verði gert mögulegt að verja stærri hluta vinnudagsins í umönnun sjúklinga 

    5. Taka ábyrgð á rekstri heilbrigðiskerfisins í heild 

    Það er sérstaklega aðkallandi að tryggja eldra fólki og fólki sem glímir við langvinn veikindi heimilislækni. Markmiðinu um að allir íbúar landsins fái fastan heimilislækni má ná á tveimur kjörtímabilum en í fyrstu viljum við setja viðkvæmustu hópana í forgang.

    Tryggja þarf eldra fólki örugga þjónustu sem virkar. Eldra fólk og aðstandendur þurfa að upplifa öryggi þegar kemur að þjónustu við eldra fólk. 

    Mikilvægt er að stytta viðbragðstíma og bæta öryggi fólks um land allt. Efling samganga er einnig órjúfanlegur þáttur í því að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Að tryggja mönnun heilbrigðiskerfisins er mikilvægasta verkefnið til framtíðar. Við höfum til að mynda lagt til að fjölga læknanemum og styrkja sérnám í heilbrigðislækningumm. Óviðunandi mönnun leiðir af sér vítahring versnandi starfsaðstæðna og þjónustu, sem síðan stuðlar að enn verri mönnun. Skapa þarf aðstæður þar sem tryggt er að heilbrigðisstarfsfólk geti varið auknum tíma í umönnun sjúklinga og minni tíma í skriffinnsku.

    Samfylkingin mun taka ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild, endurskoða þarf greiðsluþátttöku einstaklinga í kerfinu, með það að markmiði að lækka kostnað fólks. 

  • Samfylkingin vill eyða biðlistum ungs fólks eftir geðheilbrigðisþjónustu. Þau sem fá aðstoð snemma eru líklegri til þess að ná fullum bata. Barnæska og unglingsár eru mikilvæg tímabil í þroska einstaklinga og geðrænn vandi getur rænt af þeim mikilvæg tækifæri til að efla tilfinninga- og félagsþroska. Aukið aðgengi er því mikilvægt til þess að auka lífsgæði og framtíð barna og unglinga til framtíðar.

    Það er grundvallarsjónarmið Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Þannig sköpum við mannvænlegt samfélag. Snemmtæk íhlutun kemur í veg fyrir að geðrænn vandi fylgi börnum og unglingum inn á fullorðinsárin. Forsenda allrar umræðu um bætta geðheilbrigðisþjónustu er jafnt aðgengi að þjónustu. Í dag er geðheilbrigðiskerfið óskilvirkt og stefnulaust þar sem óljóst er hvaða þjónustu skal veita á mismunandi þjónustustigum - þá skortir á samþættingu milli velferðarþjónustunnar (félagsþjónustu) og heibrigðisþjónustu. Fólk veit ekki hvar það á að fá þjónustu og í mörgum tilfellum hafa þeir sem hafa góð fjárráð greiðara aðgengi þjónustu en aðrir þar sem opinbera kerfið þar sem þjónustan kostar minna einkennist af biðlistum og undirmönnun. Þá er mikilvægt að tryggja aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu um allt land en því miður er aðgengi að geðheilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni ekki nægilega gott. Það er jafnréttismál að bæta úr þessari stöðu og eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar til að tryggja öryggi í heilbrigðismálum.

  • Samfylkingin hefur sett sér metnaðarfulla og raunhæfa stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum þar sem lögð er áhersla á að lögfest séu mælanleg markmið til skemmri og lengri tíma, þak sé sett á losun og að tímasettar aðgerðaráætlanir fylgi markmiðunum.  Markmið og aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum verða að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar. Aukin þátttaka og aðkoma ungs fólks í málefnum sem varða umhverfis- og loftslagsmál er grundvallaratriði til að vinna að hagsmunum komandi kynslóða og verða orkumál og náttúruvernd að taka tillit til réttinda framtíðarkynslóða. 

    Innleiðing  hringrásarhagkerfis á Íslandi er loftslagsaðgerð og mikilvæg til þess að draga úr neyslu og sóun og minnka úrgang sem fer til urðunar. Samfylkingin vill nýta efnhagslega hvata til að draga úr losun í ferðaþjónustu með rafvæðingu samgangna og hafna og umbyltingu í almenningssamgöngum. Ráðast þarf í kraftmikið átak í landgræðslu, og endurheimt votlendis, birkiskóga, kjarrlendis og kolefnisbindingu. Tryggja verður að fiskeldi standist ströngustu umhverfiskröfur svo það geti starfað í sátt við náttúru, lífríki og samfélag - annars er greininni sjálfhætt. Matvælaframleiðsla á Íslandi þarf að fara fram með sjálfbærum hætti með dýravelferð að leiðarljósi, hvort heldur er í mjólkur- eða kjötframleiðslu.

  • Samfylkingin vinnur gegn hvers kyns mismunun sem tilkomin er vegna kyns, uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynvitundar, kyneinkenna eða annarra þátta. Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu allra kynja og ráðast af alefli gegn kynbundnum launamun eða launamunar vegna uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar og fleira. Samfylkingin vill ráðast í endurmat á virði starfa með launajöfnuð að markmiði. Í þeirri vinnu þarf að greina sérstaklega mun á ævitekjum milli kynja, lífeyrisgreiðslum og eignum til þess að jafna eða draga verulega úr þessum mun, m.a. með leiðum eins og kynjaðri fjárlagagerð og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku hins opinbera.

  • Samfylkingin fagnar auknum fjölbreytileika íslensks samfélags og leggur áherslu á mikilvægi inngildingar til að aðfluttir landsmenn njóti jafnræðis á við aðra íbúa. Samfylkingin leggur áherslu á að koma í veg fyrir að til verði erlend undirstétt á Íslandi sem býr við verri stöðu, aðbúnað og launakjör en aðrir. Til þess þarf að innleiða menntastefnu sem jafnar aðstöðumun barna og atvinnustefnu sem stendur undir lífvænlegum kjörum allra sem hér búa. 

    Þegar kemur að málum fólks á flótta eru það eru einkum þrjú viðmið sem Samfylkingin hefur haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi mannúð, í öðru lagi skilvirkni og í þriðja lagi samræmi við löggjöf annarra Evrópuríkja, þjóðréttarlegarskuldbindingar Íslands, tilmæli Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og fyrirmyndir annars staðar frá sem samræmast grunngildum jafnaðarstefnunnar. Stytta þarf málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og auka skilvirkni kerfisins, ekki eingöngu þegar kemur að skjótri afgreiðslu og brottvísun þeirra sem er synjað, heldur ekki síður hjá þeim sem eiga rétt á dvalarleyfi hér á landi enda stuðlar styttri biðtími að minni kostnaði og farsælli inngildingu. Styrkja þarf Útlendingastofnun til að taka skjótar, faglegar og vandaðar ákvarðanir til að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Þá leggur Samfylkingin áherslu á réttaröryggi og mannhelgi umsækjenda um alþjóðlega vernd og fólks í umborinni dvöl. Efla þarf innviði og verklag hins opinbera móttökukerfis flóttafólks. Mikilvægt er að virða rétt flóttafólks til fjölskyldusameiningar í samræmi við tilmæli Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna enda er fjölskyldusameining grunnforsenda farsællar inngildingar. 

    Samfylkingin vill fara í markvissar aðgerðir til að vinna gegn andúð, fordómum og hatursorðræðu sem á rætur að rekja til útilokandi þjóðernishyggju og tryggja þar með að aðflutt fólk upplifi sig velkomið og öruggt á Íslandi.

  • Samfylkingin styður lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Samfylkingin var fyrsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi til að álykta um lækkun kosningaaldurs. Samfylkingin vill styðja ungt fólk til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku. Undanfarin ár hefur ungt fólk fjarlægst stjórnmálalega umræðu í miklum mæli og sést það skýrt t.a.m. á rýni í tölfræði um kosningaþátttöku síðustu ára. Lýðræðisleg þátttaka þarf að dreifast sem jafnast á hvert svið samfélagsins, eftir aldri, stétt eða stöðu, búsetu o.s.frv. og byggjast að sem mestu leyti á hispurslausri og uppbyggilegri gagnrýni á það samfélag sem við búum í.

  • Samfylkingin stendur með þjóðum sem þurfa að þola ólöglegt hernám og yfirgang, svo sem í Palestínu og Úkraínu, og gerir kröfu um að reglur þjóðaréttar um friðsamleg samskipti þjóða séu virtar í hvívetna. Ísland á alltaf að taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum, styðja réttindabaráttu viðkvæmra hópa á heimsvísu og berjast gegn fordómum og hvers kyns mismunun.

    Samfylkingin vill að íslensk stjórnvöld beiti sér af festu á alþjóðlegum vettvangi fyrir tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu. Samfylkingin fordæmir landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og árásir á íbúa Gaza. Samfylkingin fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Einnig fordæmir Samfylkingin innrás og stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.

    Við Íslendingar eigum að leggja ríkulega af mörkum í baráttunni gegn fátækt á heimsvísu og aðstoða við efnahagslega og félagslega uppbyggingu í fátækum ríkjum. Samfylkingin leggur áherslu á að framlög Íslands til þróunarsamvinnu nái í tímasettum áföngum viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um 0,7 prósent af vergum þjóðartekjum og verði sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

    Menntun, jafnréttismál, heilbrigðismál og málefni barna og viðkvæmra hópa eru allt mikilvægir málaflokkar þróunarsamvinnu sem Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland taki virkan þátt í. Sérstaklega þarf að efla konur til menntunar, atvinnu og sjálfstæðis um allan heim og verja rétt þeirra til að ráða yfir eigin líkama.

  • Samfylkingin ætlar að auka verulega við fjárfestingar í vegakerfinu um land allt. Á sama tíma og notkun á vegakerfinu hefur margfaldast að umfangi hafa fjárfestingar í samgöngum á Íslandi dregist aftur úr og eru þær nú einungis 0,5% af vergri landsframleiðslu en meðaltalið í öðrum ríkjum OECD er um 1%. Samfylkingin vill auka fjárfestingar í samgöngum og stefnir á að Íslandi nái aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030. 

    Efling almenningssamgangna á þéttbýlissvæðum er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál sem stuðlar að jöfnuði. Stór hluti heimilisbókhaldsins fer í rekstur einkabíls sem er því miður nauðsynlegur á flestum stöðum á landinu en öflugar almenningssamgöngur eru ekki síður mikilvægar milli byggða á landi, í flugi og með ferjum þegar landleið er ekki fær. Styrkja þarf strætó á meðan framkvæmdir standa yfir við Borgarlínu svo íbúar höfuðborgarsvæðinu fái raunverulegan valkost þegar kemur að samgöngumátum. 

    Samfylkingin vill styrkja Strætó á meðan framkvæmdir við Borgarlínu standa yfir. 

    Samfylkingin vill hefja framkvæmdir við jarðgangagerð og stefnir að því að á hverjum tíma verði framkvæmdir í gangi við að minnsta kosti ein jarðgöng á hverjum tíma.

    Afstaða Samfylkingarinnar til flugvallar í Vatnsmýri er í samræmi við samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2019 þar sem fram kemur að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn. 

  • Já, líkt og fram kemur hér á undan leggur Samfylkingin til að sett verði fram heildstæð stefna til lengri tíma í málefnum ungs fólks í samræmi við ákall Landssamband ungmennafélaga, ungt fólk og starfsfólk félagsmiðstöðva. Hún fæli meðal annars í sér að tryggja virkt samráð við ungt fólk og að ungmenni séu virkir þátttakendur í ákvarðanatöku í samfélaginu. Þá á ungmennastefna einnig að fjalla um aðkomu ungs fólks að atvinnu-, nýsköpunar- og menntastefnu Íslands sem á að tryggja að ungt fólk hafi tækifæri til að ná árangri í menntakerfinu og að það verði til fjölbreytt og verðmæt störf fyrir ungt fólk út um allt land.

Previous
Previous

X-P | Píratar

Next
Next

X-V | Vinstri Græn