Hentar fyrir
Bekk
Lengd
1 kennslustund
Efni og áhöld
Skriffæri
Litla pappírsmiða til að skrifa röksemdir á (til dæmis krasspappír sem búið er að klippa niður)
Hvað er hægt að læra af æfingunni?
að mynda sér skoðanir og tjá þær
að vinna saman og gera málamiðlanir
samræðutækni
Röksemdafærsla er tjáskipti sem ætluð eru til þess að hafa áhrif á viðmælandann, skoðanir hans og afstöðu. Markmið röksemdafærslu er að skjóta frekari stoðum undir skoðanir og tillögur mælandans og ljá þeim aukinn trúverðugleika (Hollihan & Baaske, 1994.).
Geta til að færa rök fyrir máli sínu kemur m.a. að notum þegar verið er að reyna að hafa áhrif á áheyrendur, miðla upplýsingum, hvetja fólk til ákvarðanatöku, í samningaviðræðum og á fundum. Ef einhver vill til dæmis sannfæra litla bróður sinn um að ekki borgi sig að reykja, reynir viðkomandi að öllum líkindum að setja fram margvísleg rök fyrir skaðsemi reykinga og hafa þannig áhrif á afstöðu bróðurins og hegðun í framhaldinu.
Við höfum meðvituð áhrif á aðrar manneskjur með tjáskiptum sem hafa það að markmiði að annaðhvort breyta eða staðfesta afstöðu þeirra (Miller, 1980). Til að geta haft áhrif á aðra er mikilvægt að kunna að færa sannfærandi rök fyrir eigin afstöðu.
Æfing í röksemdafærslu
Bekknum er skipt í sex manna hópa og hverjum hópi er síðan skipt í tvo þriggja manna undirhópa; A og B. Kennarinn úthlutar nemendunum umræðuefni í formi staðhæfingar til þess að vera með eða á móti. Dæmi um slíkar staðhæfingar:
Það ætti að lækka kosningaaldur í 16 ár.
Það ætti að kaupa nýjan sófa til að hafa í matsalnum.
Það ætti að bjóða upp á fría sálfræðiþjónustu í skólum.
Hver og einn hópur finnur röksemdir fyrir sinni skoðun á málinu – A-hóparnir með og B-hóparnir á móti. Einn meðlimur hvers hóps sér um að skrifa röksemdirnar niður.
Þegar búið er að finna röksemdir skal hópurinn velta því fyrir sér á hvaða atriði sé best að hefja röksemdafærsluna, hvert verði hlutverk hvers og eins meðlims hópsins í röksemdafærslunni og hvað hver og einn eigi að segja.
Þegar röksemdafærslurnar hafa svo verið bornar fram er hlutverkunum víxlað, þannig að hópar A verða hópar B og öfugt. Nýtt umræðuefni er valið, hóparnir fá nokkar mínútur til að finna röksemdir með og á móti og því næst eru nýjar röksemdafærslur lagðar fram.
Í lokin er farið í gegnum þær niðurstöður sem komist var að. Komu fram einhverjar hugmyndir sem allir gátu verið sammála um? Einnig er rætt hvernig nemendunum fannst æfingin. Hvernig fannst þeim að skipta um hlutverk, með og á móti? Hvað fannst þeim þeir læra af æfingunni?