Hentar fyrir
Hópa sem þekkjast vel innbyrðis og þar sem myndast hefur traust
Lengd
1 kennslustund
Efni og áhöld
Tafla og töflutúss (eða flettipappír)
Texti við hæfi, t.d. blaðagreinar
Skriffæri og pappír
Hvað er hægt að læra af æfingunni?
að mynda sér skoðanir og tjá þær
að vinna saman og gera málamiðlanir
samræðutækni
Krefjandi æfingar í því að koma fram ætti í raun ekki að hefja fyrr en nemendahópurinn hefur náð að hristast saman og gera margvíslegar æfingar í tjáningu og boðskiptum. Hæfnin til að tjá sig og tala fyrir framan fólk styrkist ef kennari eða umsjónaraðili beitir skilvirkum og hvetjandi aðferðum, þar sem öllum gefst færi á að máta sig við margvísleg hlutverk og þar sem þátttakendur venjast því að skiptast á að hafa orðið og vera miðpunktur athyglinnar í hópnum.
Mikilvægt er að huga að því að andrúmsloftið sé öruggt fyrir alla og gæta þess að enginn sé látinn koma fram án þess að vera undirbúinn og tilbúinn til þess. Einnig er mikilvægt að þátttakendur öðlist jákvæða reynslu af því að koma fram.
Gott er að ræða fyrirbæri á borð við stress og kvíða í tengslum við æfingarnar, hvað slíkar tilfinningar merkja og hversu algengar þær eru. Það er æskilegt að tala um sviðsskrekk og kvíða sem eitthvað sem allir eigi rétt á að upplifa, og sem ekki sé ástæða til að dylja fyrir öðrum. Stress er viðbragð líkamans við þýðingarmiklum aðstæðum, og það segir ekkert um hæfni viðkomandi til að koma fram. Jafnvel frægir einstaklingar, sem hafa viðurværi sitt af því að koma fram fyrir aðra, finna fyrir stressi og sviðsskrekk. Stress er eðlilegt, og í hófi getur það jafnvel verið til góðs. Stressið eykur magn adrenalíns í blóðinu svo að manni finnst maður orkumeiri en ella.
Settu þér raunhæf markmið, ekki krefjast hins ómögulega af sjálfri/sjálfum þér.
Hugsaðu um sjálfa/n þig á sviðinu með jákvæðum hætti.
Með æfingu og ástundun geturðu lært að hafa stjórn á stressi og sviðsskrekk. Til dæmis eru til námskeið og bækur um efnið.
Komdu fram og talaðu. Æfingin skapar meistarann!
Áður en hin eiginlega æfing hefst skal velta því fyrir sér hvað einkenni góðan fyrirlestur. Þau atriði sem nemendum detta í hug eru skrifuð upp á töflu.
Þegar verið er að meta fyrirlestur er t.d. hægt að beina athyglinni að eftirtöldum þáttum:
Hvernig byrjar fyrirlesturinn?
Er samhengi í framvindu fyrirlestrarins?
Hvernig er farið úr einu atriði yfir í annað? Skráið þær aðferðir og þær setningar sem notaðar eru til að tengja á milli eins atriðis og þess næsta.
Hvað er gert til þess að gera efnið áhugavert fyrir þennan tiltekna markhóp og auðvelt fyrir hann að tengja við?
Hvernig gengur fyrirlesara að afmarka efni sitt, með tilliti til tímarammans? Hvað er fyrirlesturinn langur?
Hvernig tekst fyrirlesara upp við að varpa ljósi á efnið? Hvaða aðferðir notar hann, hvernig beitir hann tungumálinu?
Hvernig er fyrirlestrarstíllinn? (augnsamband, látbragð, raddbeiting, málnotkun, orðaforði).
Hvernig lýkur fyrirlestrinum?
Við mat á hverjum fyrirlestri er gott að leggja áherslu á að endurgjöf og gagnrýni séu uppbyggileg, og setja til dæmis þá viðmiðunarreglu að reyna að hafa megnið af endurgjöfinni jákvætt.
Æfing í því að koma fram
Nemendum er skipt í hópa með 4–6 nemendur í hverjum og fær hver hópur texta til umfjöllunar. Kennarinn getur valið einhvern texta sem tengist því að hafa áhrif og sem er á heppilegu stigi með tilliti til þekkingar og hæfni nemendanna. Til dæmis er gott að notast við blaðagreinar.
Hóparnir lesa textana, greina aðalatriði þeirra og reyna eftir bestu getu að setja aðalatriðin fram á sjónrænan hátt, t.d. með teikningu eða öðru sambærilegu móti. Því næst velta þeir því fyrir sér hvernig þeir geti kynnt sinn texta fyrir hinum.
Nú kynnir hver hópur sinn texta fyrir hinum hópunum. Meðan hinir hlusta eiga þeir að reyna að tileinka sér aðalatriði þess texta sem verið er að kynna og velta því fyrir sér um leið hvað var vel gert í kynningunni og hvað mætti fara betur. Eftir hverja kynningu segja hinir hóparnir hvað þeir lærðu, hvað þeim fannst vel gert og hvað mega betur fara. Allar tillögur að úrbótum eru skrifaðar niður.
Úrvinnsla æfingar: Eftir hverja kynningu og endurgjöf nemenda fer kennari stuttlega yfir innihald kynningarinnar og hvernig til tókst. Jákvæð og uppbyggileg endurgjöf skiptir hér miklu.
Þegar allir textarnir hafa verið kynntir ræðir nemendahópurinn hvernig hverjum og einum fannst takast til, hvernig var að hlusta á kynningar hinna og hvernig hópavinnan gekk fyrir sig.