Efni og áhöld

Fyrir pallborðsþátttakendur

  • Langt borð og stólar – vatnskanna og glös – nafnspjöld til að hafa á borðinu

  • Spjöld með „já“ og „nei“ til að svara hraðaspurningum

  • Skriffæri til að taka minnispunkta

  • Hljóðnemar

Fyrir fundarstjóra

  • Skeiðklukka

  • Bjalla eða annað til að gefa hljóðmerki

  • Spurningar sem hafa verið skrifaðar niður fyrirfram

  • Skriffæri til að taka minnispunkta

  • Hljóðnemi

Fyrir áhorfendur í sal

  • Stólar

  • Hljóðnemi til að láta ganga

  • Spjöld með „já“ og „nei“ ef einhver í pallborði vill leggja snöggar spurningar fyrir áhorfendur

Leiðbeiningar fyrir skipuleggjendur pallborðsumræðna

Samantekt

  1. Hafið samráð við rektor um skipulag pallborðsumræðnanna.

  2. Ákveðið tímasetningu fyrir umræðurnar með góðum fyrirvara og sendið öllum stjórnmálaflokkum boðsbréf í tölvupósti (sjá tillögu að uppsetningu boðsbréfs í öðru skjali).

  3. Skráið hjá ykkur jafnóðum tengiliðaupplýsingar þeirra stjórnmálamanna sem boða þátttöku sína.

  4. Veljið fundarstjóra til að stýra pallborðsumræðunum.

  5. Byrjið að safna saman spurningum frá nemendum til stjórnmálafólksins minnst viku áður en umræðurnar eiga sér stað. Verið dugleg að auglýsa umræðurnar og bjóðið öllum, sem hafa áhuga, að koma að skipulagningu þeirra.

  6. Daginn fyrir umræðurnar skuluð þið athuga rýmið, sem þær eiga að fara fram í, og ganga úr skugga um að allt sé til reiðu.

  7. Takið á móti pallborðsþátttakendum þegar þeir mæta í skólann (munið að semja um það fyrirfram hver eigi að sjá um það). Verið sveigjanleg – ekki er víst að allir mæti á sama tíma.

  8. Að viðburðinum loknum skuluð þið muna að þakka þátttakendum fyrir komuna. Haldið svo stuttan lokafund með þeim sem komu að skipulagningunni.

 

Áður en pallborðsumræður hefjast:
Veljið dag- og tímasetningu og sendið boðsbréf

Veljið dag og tíma sem hentar ykkar skóla og sendið stjórnmálaflokkunum boðsbréf með góðum fyrirvara. Biðjið um að þátttaka verði staðfest við fyrirfram ákveðinn tengilið, t.d. einhvern úr kennaraliðinu. Mikilvægt er að bjóða öllum flokkum að taka þátt, en ekki er hundrað í hættunni þó einhverjir flokkar þekkist ekki boðið. Stjórnmálaflokkar hafa fjölda frambjóðenda fyrir hverjar kosningar og ættu að geta fundið fulltrúa til þátttöku í umræðunum, sé viljinn fyrir hendi.

Einfaldast er að þið boðið til umræðna á tilteknum tíma sem hentar skólanum ykkar, með góðum fyrirvara, og látið svo flokkana sjá um að skipuleggja sig eftir því.

 

Að safna saman spurningum

Í aðdraganda pallborðsumræðna um kosningar er gott að biðja nemendur að skrifa niður spurningar til stjórnmálafólksins sem svo er safnað saman, t.d. í kassa sem stillt er upp á áberandi stað í skólanum. Þannig eiga allir sem vilja möguleika á að setja fram nafnlausar spurningar.

Mælt er með því að fulltrúar nemendafélagsins, eða aðrir sem koma að skipulagningu, fari svo í gegnum allar spurningarnar og flokki þær áður en að umræðunum kemur.

Ef kennarar skólans eru áhugasamir um pallborðsumræðurnar er tilvalið að þeir taki ýmis mál, sem eru ofarlega á baugi, til umræðna í kennslustundum í aðdraganda umræðnanna og byggi svo spurningar fyrir pallborðið á þeim málefnum sem vekja mestar umræður. Þannig gefst einnig þeim nemendum sem sýna minni áhuga á samfélagsmálum færi á að segja álit sitt á helstu hitamálunum þá stundina.

Síðast en ekki síst eru kennslustundir kjörinn vettvangur til að veita greinarbetri fræðslu um ýmis málefni, og gera nemendum ljóst að stjórnmál eru ekki eitthvert fjarlægt fyrirbæri – heldur ganga þau út á umræður og ákvarðanir um mál sem hafa mikil áhrif á okkur öll.

Ef nemendur koma að undirbúningi pallborðsumræðnanna frá byrjun og taka þátt í að semja og móta spurningar fyrir þær, mun þeim finnast þeir eiga hlutdeild í viðburðinum og þar af leiðandi að hann komi þeim við.

Samfélagsmál er vel hægt að fjalla um þannig að allir skilji og séu með á nótunum.

Þessum leiðbeiningunum fylgja einnig tillögur að spurningum, sem hægt er að nýta við undirbúning pallborðsins. Þeim má að sjálfsögðu breyta og laga að þörfum hvers skóla.

 

Undirbúningur rýmis sem umræður fara fram í

Það borgar sig að ganga úr skugga um það fyrirfram að allt sé til reiðu í rýminu. Hér að neðan er einfaldur tékklisti yfir allt það mikilvægasta á undirbúningsstiginu.

Ef þið viljið gefa áhugasömum nemendum færi á því að ræða betur við þátttakendur í pallborðinu að hinum formlegu umræðum loknum, skuluð þið sjá til þess að eitthvert rými (t.d. auð kennslustofa eða bókasafn) verði frátekið til þess næsta hálftímann á eftir.

Hafið starfslið skólans með í ráðum við undirbúninginn (hversu margar kennslustundir mun viðburðurinn taka, hver er skilvirkasta leiðin til að sjá til þess að nemendur mæti á tilsettum stað og tíma, og svo framvegis).

 

Þessu þarf að hugsa fyrir:

  • Rými fyrir pallborðsumræðurnar: hátíðarsalur, matsalur, íþróttasalur eða anddyri skólans

  • Hljóðtæknimál (gætið þess að hafa nógu marga hljóðnema fyrir þátttakendur pallborðsins, og gangið úr skugga um að þeir virki og séu stilltir á hæfilegan hljóðstyrk)

  • Rými til að nota undir óformlegri umræður að pallborðinu loknu.

 

Verkaskipting

Skiptið verkum á milli þeirra einstaklinga sem sjá um skipulagningu pallborðsins:

  • Fundarstjóri

  • Tímavörður (ef annar en fundarstjóri)

  • Einhver sem fer með hljóðnema til þeirra sem spyrja spurninga úr sal

  • Einhver sem tekur á móti þátttakendum pallborðsins þegar þeir koma í skólann

  • Einhver (helst fleiri en einn) sem sér til þess að rýmin séu til reiðu

 

Fyrirkomulag pallborðsumræðnanna

Umræðurnar settar

Fundarstjóri veitir helstu upplýsingar um það hvers vegna viðburðurinn er haldinn, hvernig hann fer fram og hvernig dagskráin verður. Því næst skal kynna þá fulltrúa stjórnmálaflokka sem mættir eru til leiks og gefa hverjum þeirra tvær mínútur til að segja nokkur orð. Mikilvægt er að tímamörk séu virt allan tímann, svo að allir fái jafnmikinn tíma til að tjá sig.

 

Upphitun

Tilvalið er að koma pallborðsþátttakendum og áhorfendum í rétta gírinn með því að byrja á að leggja fyrir pallborðið nokkrar fyrirfram valdar hraðaspurningar, sem svarað er játandi neitandi – gjarnan um umdeild málefni. Hugmyndin er að draga fram skoðanamun þátttakenda, og því má ekki lyfta báðum spjöldum – ekki er í boði að svara með „kannski“ eða sitja hjá. Hægt er að leggja sömu spurningar fyrir áhorfendur, til að virkja þá strax til þátttöku. Þátttakendum pallborðsins býðst að tjá sig frekar um einhver málefni ef þeir óska þess, í að hámarki eina mínútu á mann.

 

Víðtækari spurningar

Eftir þessa upphitun er tilvalið að snúa sér að víðtækari spurningum, og hafa pallborðsþátttakendur eina og hálfa mínútu til að svara hverri. Heppilegt er að þessar spurningar hafi verið útbúnar í skólanum, svo að fram komi svör og skoðanir er varða málefni sem nemendum eru virkilega hugleikin. Inni á milli víðtækari spurninga er gott að gefa einnig möguleika á spurningum úr sal. Einnig er hægt að gefa færi á nokkrum já/nei-spurningum til viðbótar þegar víðtækari spurningum hefur verið svarað.

 

Að lokum: Þátttakendur fá orðið

Að lokum fær hver þátttakandi í pallborðinu eina mínútu til að lýsa sinni afstöðu í stuttu máli og segja áhorfendum hvers vegna þeir ættu að kjósa hann.

 

Hitt og þetta til að krydda umræðurnar

Ef þið viljið láta ólík sjónarmið koma skýrt fram er hægt að gefa pallborðsþátttakendum færi á stuttum tveggja manna orðaskiptum. Einnig er hægt að fara í leikinn „Hvað finnst þér um málefnið?“ til að létta stemninguna í pallborðinu. Ef aðstæður leyfa er einnig hægt að hafa áhorfendur með í leiknum.

Þannig gengur leikurinn fyrir sig: Þeir sem eru á einu máli um tiltekið málefni taka sér stöðu öðrum megin í salnum, og þeir sem eru á gagnstæðu máli taka sér stöðu hinum megin. Þeir sem eru óvissir um afstöðu sína geta tekið sér stöðu einhvers staðar á milli, þar sem þeim finnst þægilegast að vera þá stundina.

 

Að pallborðsumræðunum loknum:
Málin rædd í kennslustundum

Til að sem mest gagn verði af kosningapallborðsumræðum er tilvalið að nota næstu kennslustundir – að því gefnu að það henti – til að ræða þau málefni sem voru áberandi á viðburðinum. Ef engin þeirra málefna sem rædd voru tengjast námsgreinum skólans má líka nýta næstu kennslustund til að ræða einhver önnur mál. Í öllu falli ættu kennarar að nýta sér það að nemendurnir eru nú í réttu hugarástandi til að hugsa um og ræða stjórnmál.

Tilvalið er að þeir kennarar sem komið hafa að undirbúningi kosningapallborðsins, byrji að safna endurgjöf frá nemendum strax að þeim loknum.