//

Um Verkefnið

Lýðræðisverkefnið #ÉgKýs er allsherjar lýðræðisátak sem fyrst var haldið fyrir  alþingiskosningarnar 2016.

Í átakinu felst að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Átakið felst í að gera allt sem ungu fólki dettur í hug sem mögulega eykur kosningaþátttöku og lýðræðislega ábyrgð ungs fólks. Haldnir verða fundir ungs fólks með frambjóðendum um land allt, farið verður í netherferð og lýðræðisvika haldin hátíðleg, sem endar með skuggakosningum í framhaldsskólum. Þetta er m.a. framlag ungs fólks, en til þess að lýðræðið vaxi og dafni eru allir, ungir sem aldnir, hvattir til þess að virkja aðra með öllum ráðum og brögðum. Notið gjarnan myllumerkið #ÉgKýs til að vera með okkur.

Landssamband ungmennafélaga (LUF) og Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) halda utan um verkefnið sem er samstarf margra hagsmunaaðila sem koma að því með einum eða örðum hætti: Til að mynda aðildarfélög LUF og SÍF, stjórnmálaflokkarnir og ungliðahreyfingar þeirra, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Hitt Húsið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, fjölmiðlar og margir fleiri.

Landskjörstjórn 2021:

Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri SÍF

Júlíus Viggó Ólafsson, forseti SÍF

Sigurður Sigurðsson, fyrrv. forseti LUF

Steinunn Ása Sigurðardóttir, lýðræðisfulltrúi LUF

Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF

Framkvæmdaaðilar

Landssamband ungmennafélaga (LUF) var stofnað árið 2004 sem regnhlífasamtök ungmennafélaga á Íslandi. Aðildarfélög LUF eru 36 talsins, þau eru frjáls félagasamtök sem starfa á landsvísu og vinna að hagsmunum ungs fólks. Hlutverk LUF er að vera fulltrúi og málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum, samráðs- og samstarfsvettvangur íslenskra ungmennafélaga og fulltrúi þeirra á alþjóðavettvangi. LUF er aðili að „Nordic Baltic Cooperation“ og „European Youth Forum“ og tekur því mjög virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Markmið LUF er að upplýsa og þjónusta aðildarfélögin, efla samstarf þeirra á milli ásamt því að hvetja til alþjóðlegrar samvinnu. Einnig er það markmið LUF að hvetja til virkrar samfélagslegrar þátttöku ungs fólks og þekkingarsköpunar um málefni sem varða ungt fólk. Lýðræðisþátttaka ungs fólks er jafnframt einn af hornsteinum yfirlýstrar stefnu félagsins.

LUF hefur margoft lýst yfir áhyggjum af dvínandi samfélagslegri þátttöku ungs fólks og barðist m.a. fyrir því að kjörsókn eftir aldri yrði skrásett. Þingsályktunartillaga þess efnis var samþykkt vorið 2014. Í sveitastjórnarkosningunum árið 2014 var þess vegna í fyrsta skiptið tekin saman aldursskipt tölfræði um kosningarþátttöku. Vegna þess hversu sláandi niðurstöður sveitarsjórnarkosnininga 2014 voru – að einungis um helmingur ungmenna undir 30 ára aldri nýtti sér kosningarétt sinn – brást LUF við með alþjóðlegri ungmennaráðstefnu. Systursamtökum LUF frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum var boðið að sækja ráðstefnuna til að m.a. deila úrræðum sem hafa virkað í þeirra löndum. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar var mikilvægi ungmennafélaga í lýðræðisríkjum þegar það kemur að samfélags- og stjórnmálaþátttöku. En LUF hefur undanfarin ár unnið í nánu samstarfi við systurfélög sín að því að hvetja ungt fólk til virkrar þátttöku með því að þróa aðferðir til þess að ná til þeirra. Eftir ráðstefnuna var gerð samantekt um þær leiðir sem hafa virkað í nágrannaríkjum okkar, þær þróaðar af ungu fólki og heimfærðar yfir á íslenskar aðsæður. Úr varð lýðræðisherferðin #ÉgKýs og formlegt samstarf við eitt stærsta aðildarfélag LUF og megin hagsmunaaðila framhaldsskólanema; SÍF.

Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) var stofnað árið 2007 við sameiningu Hagsmunafélags framhaldsskólanema og Iðnnemasambands Íslands, en Félag framhaldsskólanema hafði liðið undir lok nokkrum árum fyrr. Allir framhaldsskólar landsins eiga aðild að SÍF og er sambandið því hagsmunastök allra framhaldsskólanema.

SÍF er með þjónustusamning við menntamálaráðnuneytið og á sambandið fulltrúa í ýmsum ráðum og nefndum á vegum ríkisins sem fjalla um málefni tengd framhaldsskólanemum og menntun þeirra. Þannig fær SÍF tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum sem teknar eru og gætir þar hagsmuna nemenda. Einnig á SÍF fulltrúa í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Þá er sambandið aðili að OBESSU (The Organizing Bureau of European School Student Unions), regnhlífasamtökum hagsmunafélaga námsmanna í Evrópu.

Verkefni SÍF eru afar fjölbreytt;  meðal annars eru árlega haldnir aðalfundir og sambandsstjórnarfundir með fulltrúum nemenda, það fær til umsagnar frumvörp til laga og tekur þátt í einstökum verkefnum með systrasamtökum erlendis.

Nemendur og nemendafélög geta leitað til SÍF eftir aðstoð, með spurningar og hugmyndir eða annað sem tengist framhaldsskólanemum.