//
piratar

Listabókstafur: X-P
Formaður: Halldóra Mogensen
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 7
Stutt lýsing: Píratar leggja áherslu á borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins, gagnsæi, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt.

Á hvaða málefni leggið þið mesta áherslu á fyrir alþingiskosningarnar 2021?

Píratar samþykktu kosningastefnuskrá í 24 köflum fyrir komandi kosningar. Þar er snert á öllu frá atvinnumálum til útlendingamála, menntamálum til nýsköpunar, geðheilbrigði til byggðamála o.s.frv.

Lýðræði – í víðum skilningi – er sem rauður þráður í gegnum alla stefnuna. Flokkurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á eflingu lýðræðis á Íslandi og að koma hreint til dyranna. Fyrir vikið er yfirskrift kosningastefnu Pírata í anda flokksins: Lýðræði – ekkert kjaftæði.

Lýðræði er samt ekki bara kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, heldur líka nálgun á stjórnmál. Að leggja áherslu á fólk, hugmyndir þess og velferð, þannig að öll hafi tíma og tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. Píratar setja stefnuna á sjálfbært velsældarsamfélag sem hvílir á nýrri stjórnarskrá, hagkerfi framtíðarinnar, sanngjörnum leikreglum og virðingu við náttúru og fólk. Samfélag þar sem fólk hefur raunverulega getu til að taka þátt í lýðræðinu og rödd þess skiptir einhverju máli.

Velsældarsamfélagið hvílir á fimm stoðum, sem segja má að séu helstu áherslur Pírata í þessum kosningum:

 • Efnahagskerfi 21. aldarinnar
 • Umhverfis- og loftslagshugsun
 • Nýja stjórnarskráin, auðvitað
 • Virkar varnir gegn spillingu
 • Róttækar breytingar í sjávarútvegi

Innan velsældarsamfélagsins erum við síðan með:

 • Nýtt og framsækið menntakerfi sem byggir á námsstyrkjum.
 • Nýsköpunarstefnu í 20 liðum sem getur tekist á við loftslagsbreytingar, sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna.
 • Uppstokkun og uppbyggingu á húsnæðismarkaði og sterkari stöðu leigjenda
 • Nýjan tónn í útlendingamálum og Útlendingastofnun lögð niður
 • Gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og þvingunarlausa og valdeflandi geðheilbrigðisþjónustu.
 • Hætt að refsa vímuefnanotendum og skaðaminnkandi aðferðir í stað bannstefnu.
 • Og margt, margt

Hér má sjá kynningu á kosningastefnu Pírata og hér má nálgast hana í heild sinni.

Hvernig munið þið beita ykkur í málefnum ungs fólks?

„Við Píratar leggjum áherslu á málefni ungs fólks. Við viljum efla lýðræðisvitund ungs fólks og virða rétt barna og ungmenna til að koma að ákvörðunum um eigin hagsmuni og kynslóða framtíðarinnar. Bætum kjör yngra fólks sem hefur setið eftir á undanförnum áratugum.“

Svona hljóða upphafsorð kaflans „Ungt fólk og framtíðin“ í kosningastefnu Pírata. Í ljósi þess að Píratar berjast fyrir auknu lýðræði ætlum við að hafa ungt fólk miklu meira með í ráðum þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um framtíð þess. Við ætlum því að setja á fót virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að koma skoðunum sínum beint á framfæri við valdhafa. Það er þó ekki nóg að hlusta bara. Samráð og samtal verður líka að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum og ríkisstjórn Pírata mun sýna hvernig hún vinnur úr hugmyndum samráðsins.

Fjölbreyttur hópur – fjölbreyttar aðgerðir
Við vitum að ungt fólk er fjölbreyttur hópur. Sum eru í skóla, önnur í vinnu, mörg búa í foreldrahúsum á meðan önnur eru sjálf orðin foreldrar. „Málefni ungs fólks“ snerta því ekki bara fjölbreyttan hóp heldur líka fjölbreytta málaflokka.

Í kosningastefnu Pírata er ótal margt sem gagnast ungu fólki. Í stefnunni um húsnæðismál er þannig ekki aðeins talað um að ráðast í mikla uppbyggingu íbúða í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg, heldur líka að gera heimavist að raunverulegum valkosti fyrir framhaldsskólanema.

Í efnahagsstefnu Pírata er líka hugað að yngra fólki, enda sýna rannsóknir að kjör þeirra hafa dregist aftur úr öðrum hópum. Íslenskir námsmenn vinna líka miklu meira en námsmenn í löndum sem við berum okkur saman við og það er þróun sem þarf að snúa við. Hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur, námsstyrkir, hærri barnabætur, sveigjanlegra fæðingarorlof og aukin áhersla á nýsköpun eru meðal þess sem Píratar telja að henti ungu fólki sérstaklega vel. Það þýðir lægri skuldir að loknu námi og fleiri tækifæri í kjölfarið.

Píratar leggja líka mjög mikið upp úr geðheilbrigði, sem við teljum eina af grunnstoðum samfélagsins. Við viljum því að fræðsla um líðan og umræða um geðheilbrigði eigi sér stað strax á fyrstu stigum skólakerfisins, auk þess sem sálfræðingar eigi að vera til taks á öllum skólastigum.

Eins og segir hér að ofan er ótal margt í kosningastefnu Pírata sem gagnast ungu fólki. Meðal þeirra eru stefnurnar um:

 • Efnahagsmál
 • Loftslagsmál
 • Nýju stjórnarskrána
 • Atvinnu og nýsköpun
 • Menntun
 • Húsnæðismál
 • Málefni öryrkja og fatlaðs fólks
 • Heilbrigði, geðheilbrigði og skaðaminnkun
 • Byggðamál
 • Ungt fólk og framtíðina
 • Internet og netfrelsi
 • og fleiri.
Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Menntastefna Pírata miðar að því að gera fólk og samfélagið allt tilbúið fyrir stærstu áskoranir samtímans; eins og loftslagsbreytingar, fjórðu iðnbyltinguna og sjálfvirknivæðinguna. Starfshættir munu gjörbreytast á næstu árum og áratugum, mörg störf munu hverf og önnur verða til, og sum þekking fer að skipta meira máli en áður.

Við búum menntakerfið undir þessar breytingar með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í kerfinu, setja nemandann í fyrsta sæti, styðja við starfsfólk og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

Menntun skiptir því miklu máli í mörgum stefnum Pírata, eins og í loftslags- og nýsköpunarstefnunum, auk þess sem menntun spilar mikilvægan þátt í fjölmenningarstefnu Pírata, byggðarstefnunni okkar og stefnunni um ungt fólk og framtíðina. Sjálf menntastefna Pírata er í 11 köflum, sem hljóma svona í mjög stuttu máli:

 1. Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
  Áhersla á gagnrýna hugsun og læsi í víðum skilningi
 2. Aukinn sveigjanleiki
  Sveigjanleg skil milli skólastiga og aukin sí- og endurmenntun
 3. Nemandinn í forgrunn
  Nemandinn verði miðpunktur menntakerfisins
 4. Færri próf og meira símat
  Aukin áhersla á símat, reynslumiðað nám og reglulega endurgjöf
 5. Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi
  Nemendur og kennarar fái að móta kennsluna innan víðs ramma.
 6. Stuðningur við starfsfólk
  Metum kennara að verðleikum og styrkjum starfssamfélög þeirra
 7. Uppfærum menntakerfið
  Endurskoðum námskrá í breiðu samráði fyrir breytingarnar sem framundan eru
 8. Framfærsla nemenda
  Færum okkur úr námslánum yfir í styrki og greiðum út persónuafslátt
 9. Öryggi frá ofbeldi og áreitni
  Tryggjum verkferla og áætlanir sem stuðla að öryggi barna og námsmanna
 10. Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla
  Ríki og sveitarfélög vinni að því að láta leikskólapláss standa til boða eftir fæðingarorlof
 11. Metum menntunina
  Viðurkennum menntun og starfsréttindi útlendinga
Hvernig hyggist þið tryggja næg atvinnutækifæri til framtíðar?

Í samræmi við trú Pírata á lýðræðið ætlum við að fjárfesta í fólki. Það er fólk sem fær hugmyndirnar sem munu koma okkur út úr núverandi hremmingum og hremmingum framtíðarinnar. Þess vegna vilja Píratar auðvelda fólki að láta reyna á hugmyndirnar sínar – auðvelda því að skapa eitthvað nýtt.  Það er bæði gáfulegt og nauðsynlegt því íslenskt atvinnulíf hefur verið alltof einsleitt í áratugi.

Við Píratar teljum hins vegar að það sé ekki nóg að tryggja atvinnutækifæri til framtíðar. Það þurfi líka að tryggja að atvinnutækifæri framtíðarinnar verði græn.

Í stuttu máli vilja Píratar gera það tvennum hætti, sem sést í atvinnustefnunni okkar og loftslagsstefnunni.

 • Með því að styðja við græn fyrirtæki
 • Með aðgerðaráætlun í nýsköpun í 20 liðum

Í kaflanum um græna umbreytingu atvinnulífs segir t.d. að Píratar ætli að láta mengandi fyrirtæki borga fyrir mengun sína „til þess að greiða götu grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.“ Þá ætla Píratar að veita öfluga nýsköpunarstyrki til að byggja upp grænan og sjálfbæran iðnað til framtíðar. Að sama skapi þurfi að efla loftslagssjóð og aðra samkeppnissjóði, með sérstaka áherslu á styrki til framkvæmdaverkefna sem stuðla að samdrætti í losun.

Alls konar nýsköpun
En nýsköpun er meira en bara hátækni. Besta leiðin til að tryggja fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins er að horfa til nýsköpunar á öllum sviðum: Í opinberri starfsemi, grunnrannsóknum, skapandi greinum, samfélagslegum lausnum, tæknigeiranum og með samstarfi við fólk úti um allt land.

Þess vegna eru Píratar með ítarlega nýsköpunarstefnu, sem kveður m.a. á um:

 • Að einfalda stofnun nýsköpunarfyrirtækja, t.d. með nýju fyrirtækjaformi
 • Að einfalda fjármögnun sprotafyrirtækja, t.d. með reglum um hópfjárfestingar
 • Aukinn stuðning við þróunarsetur
 • Að gera styrkjaumhverfið á Íslandi heildrænna, aðgengilegra, sveigjanlegra og kvikara
 • Samfellda fræðsla um nýsköpun í menntakerfinu
 • Vaxtarsprotaklasa með alþjóðlegu tengslaneti, markaðsþekkingu og dreifileiðum
 • Að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð á sviði umhverfis- og loftslagsmála

Þar að auki ætla Píratar að innleiða hvatningu fyrir atvinnulausa til að taka þátt í nýsköpun. Það má t.d. gera með því að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að ráða fólk beint af atvinnuleysisskrá.

Þá sárvantar Íslandi alla framtíðarsýn í atvinnumálum. Okkar fyrsta verk væri því að klára tillögu Pírata, sem Alþingi samþykkti í vor, um að Íslendingar setji sér sjálfbæra iðnaðarstefnu til framtíðar.

Hvernig ætlið þið að tryggja að ungt fólk búi við húsnæðisöryggi?

Píratar telja að öruggt húsaskjól sé ein af grunnþörfum mannsins. Þess vegna viljum við að stjórnvöld beiti sér af krafti í húsnæðismálum og sjái til þess að landsmenn hafi þak yfir höfuðið.

Í stuttu máli viljum við endurhanna húsnæðiskerfið í samvinnu við sveitarfélögin, enda eru húsnæðismál eitt stærsta kjaramál fólks á öllum aldri. Færa kerfið frá gróðabraski í átt að óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum. Húsnæðisöryggi er þó ekki bara að fá þak yfir höfuðið heldur líka að sjá til þess að húsnæðið sjálft sé öruggt og ekki beinlínis heilsuspillandi. Þess vegna leggja Píratar einnig mikla áherslu á að upplýsa um raunverulegt ástand fasteigna og koma í veg fyrir skemmdir, eins og vegna myglu eða raka.

Húsnæðisstefna Pírata er í sex köflum, sem hljóða svona í mjög grófum dráttum:

 1. Komum húsnæðismarkaði í jafnvægi með stórauknum framlögum til nýrra íbúða
  Tryggjum framboð af íbúðum samkvæmt fyrirséðri þörf og herjum á uppsafnaðan skort
 2. Húsnæði fyrir námsfólk
  Gerum heimavist að raunverulegum valkosti um allt land
 3. Búsetuúrræði fyrir öll sem þurfa
  Fjölgum íbúðum sem koma til móts við þarfir ólíkra hópa, í takti við þeirra óskir
 4. Eflum réttindavernd leigjenda
  Eflum réttindi leigjenda, styrkjum leigjendasamtök og stuðlum að langtímaleigusamningum
 5. Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum
  Auðveldum sveitarfélögum yfir tiltekinni stærð til að byggja félagslegt húsnæði
 6. Heilnæmt húsnæði
  Aðgerðir sem stuðla að heilnæmu húsnæði, gagnagrunnur um ástand fasteigna og átak gegn rakaskemmdum og myglu

Öryggi á fasteignamarkaði
Þar að auki leggjum við mikla áherslu á valfrelsi á fasteignamarkaði. Þannig viljum við tryggja frjálst val kaupenda á fasteignasala við gerð þjónustusamnings.  Að sama skapi viljum við skoða hvort æskilegt sé að senda smávægilegan ágreining í fasteignamálum til smákröfudómstóls, sem við viljum stofna, til að forðast óhófleg útgjöld í deilumálum. Píratar hafa jafnframt samþykkta stefnu um að styrkja Neytendasamtökin svo þau geti aðstoðað við að leysa úr deilum milli leigutaka og leigusala.

Þá ætlum við líka að ganga úr skugga um að tillagan okkar um „smurbók heimilisins,“ sem Alþingi samþykkti í vor, verði að lögum. Það mun auka öryggi í fasteignaviðskiptum til muna.

Hvað ætlið þið að gera fyrir heilbrigðiskerfið?

Píratar vita að í heilbrigðismálum duga engar bókhaldsbrellur. Niðurskurður í forvörnum mun einungis leiða til aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu síðar. Sparnaður í viðhaldi bygginga leiðir til veikinda íbúa og starfsfólks. Mengun mun áfram draga tugi Íslendinga til dauða á hverju ári ef ekkert er gert. Við nýtum peninginn einfaldlega betur með því að nálgast heilbrigðismálin heildstætt.

Kosningastefna Pírata í heilbrigðismálum er þrískipt. Kjarni hennar er að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls og fullfjármögnuð, réttindi sjúklinga og starfsfólks aukin og áhersla á skaðaminnkun og forvarnir. Hér er stefnan í mjög einfölduðu máli:

Heilbrigðismál
Við viljum standa vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu og efla hana á landsbyggðinni. Við viljum að heilbrigðisþjónusta sé gjaldfrjáls og tryggja niðurgreiðslu á tannlækningum, augnlækningum, sérfræðilækningum o.fl. Við viljum gera fjarheilbrigðisþjónustu að raunverulegum valkosti. Við stöndum með heilbrigðisstéttum og viljum sjá til þess að kjaraviðræður þeirra endi ekki alltaf fyrir gerðardómi.

Geðheilbrigði
Píratar vilja meðferðarúrræði við geðrænum vanda sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu í stað þvingana og frelsissviptinga. Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu, auka fjármagn í geðheilbrigðiskerfið og tryggja aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu.

Skaðaminnkun
Við lítum á vímuefnanotendur sem manneskjur, ekki glæpamenn. Þess vegna þarf að afglæpavæða neysluskammta og leggja áherslu á gagnreyndar forvarnir, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræði.

Heilbrigðisstefnuna í heild má nálgast hér, í köflum 11., 12. og 13.

Hver er stefna ykkar í baráttunni við Covid-19?

Grunnstefna Pírata hefur reynst gott leiðarljós í faraldrinum. Í grunnstefnunni er þrennt sem kom sérstaklega að góðum notum á fordæmalausum tímum:

 • Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
 • Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
 • Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

Grunnstefna Pírata, sem allar aðrar stefnur okkar byggja á, hafði því þau áhrif í faraldrinum að:

 • Við vildum að vísindin væru í fyrirrúmi, í samræmi við kröfuna um vel upplýstar ákvarðanir.
 • Við lögðum áherslu á að ekki yrði gengið lengra á frelsi fólks en brýn nauðsyn krefðist, í samræmi við verndun borgararéttinda.
 • Við kölluðum stöðugt eftir öllum gögnum og rökum frá stjórnvöldum, í samræmi við kröfuna um að almenningur gæti verið upplýstur um stöðuna og forsendur aðgerða.

Heilbrigðiskerfið er lykillinn
Þá samþykktu Píratar sérstaka stefnu um sóttvarnir á dögunum. Þar segir að „öflugt og vel mannað heilbrigðiskerfi er grunnforsenda fyrir góðum viðbrögðum og vörnum gegn heimsfaraldri.“ Því verði að tryggja að heilbrigðiskerfið geti staðist álagið sem fylgir faraldri. Stjórnvöld hafa hins vegar klikkað á því og er það ein stærsta ástæðan fyrir því að við búum ennþá við takmarkanir á daglegu lífi.

Að sama skapi segir í sóttvarnastefnunni að geðheilbrigðismálin verði að vera í lagi. Stór hópur fólks hefur verið einangraður svo mánuðum skiptir og það verði því að passa upp á andlega líðan. Þá leggjum við áherslu á að tryggja skilvirkt skólastarf barna og unglinga, sem hafa þurft að færa miklar félagslegar fórnir í faraldrinum.

Fari faraldurinn gjörsamlega úr böndunum, t.d. með nýju, miklu hættulegra afbrigði veirunnar og þörf á hörðum aðgerðum, þá teljum við að öflugar smitvarnir á landamærum séu skynsamari leið til að takmarka útbreiðslu smita á Íslandi. Af tvennu illu skuli því velja takmarkanir á landamærum frekar en frelsisskerðingar innanlands. Það standi betur vörð um réttindi fólks.

Þá finnst okkur nauðsynlegt að Íslandi styðji við og sé fullur þátttakandi i alþjóðlegu samstarfi um viðbrögð við heimsfaraldri. Faraldurinn klárast ekki nema að hann klárist alls staðar og við, sem rík þjóð, eigum að taka þátt í þeirri baráttu.

Hvernig ætlið þið að tryggja að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd?

Einfalda svarið við þessari spurningu er: Með því að setja pening í að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Píratar voru í hópi þeirra þingmanna sem samþykktu að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ríkisstjórnin hefur ekki viljað fjármagna það.

En hvað kostar það mikið? Það er erfitt að meta það nákvæmlega – einfaldlega vegna þess að það er erfitt að áætla hversu mörg myndu nýta tækifærið og fara til sálfræðings. Hins vegar þurfum við ekki alveg að skjóta út í loftið.

Sparnaður til framtíðar
Áður en þingmenn samþykktu frumvarpið um að niðurgreiða sálfræðiþjónustu fengu þeir minnisblað frá Sjúkratryggingum Íslands. Þar segir að ef 10 þúsund einstaklingar fari fimm til tíu sinnum á ári til sálfræðings gæti það kostað ríkissjóð um 875 til 1750 milljónir árlega. Tveir milljarðar til að byrja með gæti því verið eðlilegt viðmið.

Það segir þó ekki alla söguna. Áætlanir benda nefnilega til að niðurgreiðslan myndi spara ríkissjóði háar fjárhæðir til lengri tíma litið og koma í veg fyrir þjáningu fólks með geðheilbrigðisvanda. Niðurgreiðslan gæti þannig lækkað lyfjakostnað, dregið úr áhrifum andlegra veikinda á atvinnutækifæri fólks, framlegð þess í starfi verði meiri, fjöldi veikindadaga færri o.s.frv.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er lykilatriði þegar kemur að því að greina sálræna kvilla á fyrstu stigum. Þannig getum við bæði hlíft einstaklingum við kvölum og ríkissjóði við miklum kostnaði til framtíðar. Það er ekki síst þess vegna sem mikil áhersla er lögð á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun í geðheilbrigðisstefnu Pírata – og jú, að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Við Píratar erum mjög stolt af stefnunni okkar í umhverfis- og loftslagsmálum. Svo stolt raunar að loftslagsmálin eru eitt aðaláherslumálið okkar í þessum kosningum.

Píratar líta ekki á loftslagsmálin sem einhvern einn málaflokk heldur eru þau samofin fullt af öðrum stefnum.  Nýsköpun, samgöngur, byggða- eða efnahagsmál – alls staðar eru grænar aðgerðir í fyrirrúmi.

Píratar ætla að ráðast að rót vandans. Það gerum við með því að innleiða nýja nálgun í efnahagsmálum og breyta hvötunum í hagkerfinu þannig að rányrkja á auðlindum og gróðasjónarmið trompi ekki lengur hagsmuni náttúrunnar og komandi kynslóða. Við ætlum að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og fylgja því eftir með metnaðarfullum, réttlátum og framsæknum aðgerðum sem færa ábyrgðina þar sem hún á raunverulega heima – á stjórnvöld og stórfyrirtæki, ekki almenning.

Vandinn er vissulega stór en tækifærin eru það líka. Loftslagsvænar lausnir munu vera í algjöru aðalhlutverki í atvinnu- og verðmætasköpun um allan heim næstu áratugina. Við Píratar viljum því bæði verið ábyrg í loftslagsmálum um leið og við grípum þessi tækifæri.

Hin eiginlega loftslagsstefna Pírata er í átta köflum. Hún er róttæk, ítarleg, metnaðarfull og má nálgast hér í heild sinni, en hér er hún í mjög einfaldaðri mynd.

 1. Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi
  Setjum metnaðarfull markmið og stöndum við þau
 2. Valdeflum almenning
  Auðveldum fólki að taka þátt í breytingunum
 3. Græn umbreyting í allra hag
  Gerum kröfur á stjórnvöld og fyrirtæki sem bera mesta ábyrgð
 4. Stjórnsýsla og stjórnvöld
  Styrkjum stjórnsýslu loftslagsmála
 5. Græn umbreyting atvinnulífs
  Styrkjum græna sprota og búum til græna hvata
 6. Náttúruvernd
  Verndum óspillta náttúru og setjum vernd miðhálendis í lýðræðislegt ferli
 7. Hringrásarsamfélag
  Skýr stefna á hringrásarsamfélag
 8. Aðgerðir á alþjóðasviðinu
  Ísland beiti sér fyrir loftslagsmálum á alþjóðavettvangi
Hver eru ykkar áherslumál sem viðkoma mannréttindum og jafnrétti?

Það er ekki hægt að tala um raunverulegt lýðræði ef fólk hefur ekki jafnan aðgang að samfélaginu. Þess vegna er jafnrétti allra Pírötum gríðarlega mikilvægt. Það sem meira er, jafnrétti er einn af hornsteinum sjálfrar grunnstefnu Pírata sem allar aðrar stefnur okkar byggja á. Í grunnstefnunni okkar segir meðal annars:

 • Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
 • Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
 • Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
 • Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.

Við stofnun flokksins settum við líka sérstaka jafnréttisstefnu. Í henni kemur fram að:

 • Margt sé enn óunnið til að jafna stöðu ólíkra hópa samfélagsins; þ.m.t. kynjanna, barna, aldraðra, hinsegin fólks, innflytjenda og fatlaðra
 • Píratar berjist gegn mismunun og staðalímyndum um fólk
 • Ekki sé nóg að samfélagið sé umburðarlynt heldur sé mikilvægt að allir einstaklingar séu samþykktir, metnir að verðleikum og fái jöfn tækifæri til að njóta sín, vaxa og dafna
 • Ofbeldi skuli aldrei líðast og huga þarf sérstaklega að stöðu ólíkra hópa og sníða fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði að ólíkum aðstæðum fólks
 • Hvetja skuli til opinnar og upplýstrar umræðu um jafnréttismál

Hinsegin borg

Áhersla Pírata á lýðræði og borgararéttindi allra hefur áhrif á öll okkar störf. Tökum sem dæmi það sem við höfum gert í Reykjavík í málefnum hinsegin fólks:

Samþykktum að gera salerni ókyngreind í stjórnsýsluhúsnæði Reykjavíkurborgar til að auka aðgengi allra kynja að Reykjavíkurborg sem vinnustað. Unnum að meiri og betri jafnréttis-, kynja- og hinseginfræðslu og kynfræðslu innan Reykjavíkurborgar. Unnum að auknu aðgengi að þjónustu borgarinnar, húsnæði og klefum með leiðbeiningum og upplýsingum fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja til að tryggja aðgengi trans og intersex fólks að klefum í takt við þeirra kynvitund.

Að auki er í undirbúningi vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi og er grunnurinn sprottinn úr samstarfi við Samtökin 78 og Trans Ísland um aukið aðgengi allra kynja að þjónustu borgarinnar og klefum. Við höfum staðið fyrir skýrum pólitískum skilaboðum innan stjórnsýslunnar og út á við hvað varðar fulla innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði og hvað það þýðir fyrir aðgengi að klefum, salernum og húsnæði. Trans fólk hefur val um þá klefa sem þeim henta og á að njóta stuðnings starfsfólks hvað það varðar án þess að verða fyrir óþægilegri reynslu

Við höfum einnig látið vinna úttekt á aðgengi allra kynja að húsnæði þar sem þjónusta er veitt og verið er að fylgja henni eftir. Með jafnréttisúttektum á hverfisíþróttafélögum sem voru unnar í samstarfi við félögin hefur verið stutt við að þau starfi eftir virkri jafnréttisstefnu. Við beittum okkur fyrir að í nýrri íþróttastefnu er gerð sú krafa á íþróttafélögin að börn eigi kost á þátttöku til jafns óháð kynhneigð eða kynvitund.

Þá hafa Píratar jafnframt stuðlað að góðri samvinnu við Samtökin 78 og Trans Ísland um öll mál er varða trans og hinsegin málefni hjá Reykjavíkurborg.

Hver er afstaða ykkar til lækkunar kosningaaldurs?

Píratar hafa lagt fram frumvörp á Alþingi sem miða að því að lækka kosningaaldurinn í 16 ár, síðast í fyrrahaust. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að Píratar segi í kosningastefnu sinni:

„Við viljum lækka kosningaaldur og færa öllum þeim sem verða 16 ára á árinu kosningarétt í öllum kosningum. Ef fólk borgar skatta á það að geta sagt skoðun sína á því hvernig þeim er varið.“

Samhliða þessu telja Píratar rétt að efla menntakerfið, t.d. með því að veita aukna kennslu um lýðræði og kosningar.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Í utanríkismálum leggja Píratar mikla áherslu á loftslagsmál, mannréttindi (t.a.m. eftirlit með mannréttindabrotum í fríverslunarsamningum) og gagnsæi – ekki síst við samningagerð. Það sést bersýnilega af formennsku Pírata í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og þingmannanefndar EFTA-ríkjanna.

EES
Pírötum finnst EES-samningurinn hafa verið mikið heillaspor fyrir þjóðina. Þess vegna er áframhaldandi EES-samstarf á dagskrá hjá Pírötum og það sem meira er – Ísland myndi taka sér allt það rými sem það gæti á vettvangi EES til að tryggja enn betur stöðu og hagsmuni almennings.

Evrópusambandið
Pírötum finnast aðildarviðræður við Evrópusambandið varða heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og því er mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings í þeim efnum. Píratar munu þess vegna hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúka þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðdraganda beggja atkvæðagreiðsla gerum við kröfu um að fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar, svo að almenningur eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum.

NATO

Þjóðin hefur aldrei verið spurð um veru landsins í NATO og telja Píratar mikilvægt að rödd hennar fái að heyrast. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði á virkan hátt innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Loftslagsmál

Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Píratar ætla að stuðla að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggja áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Píratar vilja jafnframt hafa framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Við viljum styðja þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugri ríkjum heims.

Ísland í alþjóðasamfélaginu
Ísland á að gerast aðili að Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) og Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN). Píratar vilja setja á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar í umhverfis- og loftslagsmálum í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Við viljum setja á fót alþjóðlegan fjárfestingasjóð á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Byggja skal upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.

Mannréttindi á alþjóðavettvangi
Ísland verður að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vernd mannréttinda, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðlegum stofnunum sem það á aðild að og í milliríkjasamningum sem það undirritar. Píratar vilja aukið eftirlit með brotum gegn mannréttindaákvæðum í fríverslunarsamningum. Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands á almenningur að hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er. Birta á opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins ásamt upplýsingum um hver ber ábyrgð á framkvæmd og framfylgd þeirra.