Listabókstafur: X-D
Formaður: Bjarni Benediktsson
Staða: Í ríkisstjórn
Fjöldi þingmanna: 16
Stutt lýsing: ,,Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”
Við leggjum mesta áherslu á efnahagsmál, heilbrigðismál og umhverfis- og loftslagsmál.
Efnahagsmál
Efnahagsmál snerta okkur öll, þó við veltum þeim mismikið fyrir okkur frá degi til dags. Það hver stjórna og hvernig hefur áhrif á allt umhverfið okkar. Ábyrgri efnahagsstjórn fylgja lægri vextir og verðbólga, sem gerir okkur auðveldara að taka húsnæðislán og fá almennt meira fyrir hverja krónu. Stöðugleiki og sanngjarnt skattkerfi, þar sem skattar eru ekki of háir, stuðla að því að fleiri vilji reka hér fyrirtæki, skapa ný störf og borga skatta til að halda heilbrigðis- og menntakerfinu gangandi.
Heilbrigðismál
Heilbrigðiskerfið þurfum við alltaf að hugsa út frá fólki og hvernig við veitum bestu mögulegu þjónustuna. Allir eiga að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð stöðu og efnahag. Til að þjónustan sé sem allra best þurfum við að leggja áherslu á hver útkoman er, en ekki bara hve margar krónur fara inn eða hvort þjónustan sé veitt af ríkinu eða einkaaðilum.
Umhverfis- og loftslagsmál
Sjálfstæðisflokkurinn er og ætlar áfram að vera leiðandi í aðgerðum til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Flokkurinn hefur sett skýr markmið um græna orkubyltingu og að Ísland verði fyrst landa í heiminum óháð jarðefnaeldsneyti. Við eigum að nýta okkar grænu og hreinu orku, frekar en að flytja hana inn með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori. Á þessu sviði trúum við mest á framtakssemi, nýsköpun og hvata fyrir fólk og fyrirtæki, frekar en boð, bönn og nýja skatta.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í verki að við treystum ungu fólki til forystu. Við áttum ekki bara fyrsta kvenkyns borgarstjórann og fyrsta kvenkyns ráðherrann, heldur eigum við líka tvo yngstu kvenráðherra sögunnar; Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu. Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á að halda málefnum og hagsmunum ungs fólks á lofti.
Húsnæðismál eru eitt stærsta hagsmunamál unga fólksins. Skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar í húsnæðiskaupum hefur hjálpað mörgu ungu fólki að eignast og borga af íbúð. Auk þess höfum við innleitt helmings afslátt af stimpilgjöldum (sérstakt gjald sem þarf að greiða þegar fasteign skiptir um eiganda) fyrir fyrstu kaupendur, sem skiptir miklu máli. Það þarf líka að tryggja það að hér sé nægt framboð af húsnæði svo að húsnæðisverð sé viðráðanlegt, sérstaklega fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á markaðnum.
Í menntamálum þarf að auka valfrelsi og sveigjanleika í námi, í stað þess að mæla alla nemendur eftir sömu mælistiku. Það þarf að leggja mun meiri áherslu á kennslu í almennri færni, s.s. fjármálalæsi og kynfræðslu, á grunnskólastigi. List- og verkgreinar þurfa líka að vera raunverulegur valkostur við hliðina á bóknámi. Menntakerfið á að vera brú inn í atvinnulífið og tengsl milli skóla og atvinnulífs þarf að efla, sérstaklega á sviði nýsköpunar.
Sjálfstæðisflokkurinn trúir því að menntakerfið sé besta verkfærið til að tryggja öllum jöfn tækifæri. Við þurfum meira valfrelsi og meiri fjölbreytni í skólunum okkar og eigum ekki að reyna að setja alla í sama mótið. Við þurfum nútímalegra og einstaklingsmiðaðra nám á öllum skólastigum þar sem nemendur geta blómstrað á sínum forsendum. Við eigum öll að hafa sama rétt og aðgengi að námi. Þess vegna viljum við nú gera stórátak í netvæðingu á háskólanámi á Íslandi. Fólk um allt land á að geta menntað sig þó það eigi börn, búi ekki í Reykjavík eða þurfi að vinna með námi. Jafnrétti til náms er algert grundvallaratriði í að Ísland verði áfram land tækifæranna.
Hlutverk stjórnmálamanna er að gera frjóan jarðveg fyrir atvinnulífið. Stjórnvöld og eftirlitsaðilar eiga ekki að vera hindrun heldur bjóða fram aðstoð sína. Með lágum sköttum og skynsamlegu regluverki vill fólk frekar stofna og reka fyrirtæki af öllum gerðum á Íslandi, sem þar með skapar spennandi atvinnutækifæri fyrir ungt fólk. Síðustu ár höfum við lagt gríðarlega mikið í að ýta undir frumkvöðlastarf hér á landi, sem þegar hefur skilað fjölmörgum nýjum og spennandi atvinnutækifærum. Við ætlum að halda áfram að byggja upp af sama krafti næstu árin.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt stöðu ungs fólks til að eignast fasteign með því að leyfa fólki að ráðstafa séreignasparnaðinum sínum skattfrjálst til húsnæðiskaupa og veita helmings afslátt af stimpilgjaldi fyrir fyrstu kaupendur. Til að auðvelda ungu fólki húsnæðiskaup enn frekar mætti ganga lengra, en þingmenn flokksins hafa áður lagt fram frumvörp um að stimpilgjöld verði alfarið afnumin. Húsnæðisverð þarf hins vegar að vera viðráðanlegt og til þess þarf að einfalda regluverk til að lækka byggingarkostnað og útdeila fleiri lóðum til að byggja á, svo að nýbyggingum fjölgi. Í bæjarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn, á borð við Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ og Mosfellsbæ, hefur verið mikil uppbygging undanfarin ár.
Við viljum þjónustutryggja hvern og einn sjúkling. Það þýðir að einstaklingurinn ræður hvert hann sækir sér þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda og Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða þjónustuna. Til að gera það mögulegt ætlum við að efla Sjúkratryggingar Íslands og gera þeim mögulegt að semja við fleiri aðila í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum að leggja áherslu á fjölbreyttar lausnir, og að fólk geti sótt sér niðurgreidda þjónustu hjá sjálfstætt starfandi læknum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum o.fl. Á meðan sumum finnst að fólk eigi helst bara að geta fengið niðurgreidda þjónustu hjá ríkisstarfsmönnum teljum við að fjölbreytnin sé best á þessu sviði, eins og öðrum. Með þessu fáum við fleiri aðila að borðinu sem styttir biðtíma og losar um pláss á Landspítalanum.
Við þurfum einnig að vera opin fyrir nýsköpun og stafrænum lausnum í heilbrigðiskerfinu, til að auðvelda starfsfólki vinnuna og bæta upplifun sjúklinga. Í þeim heimi er margt spennandi að gerast, til dæmis fjarþjónusta fyrir þá sem búa í dreifðum byggðum og bein samskipti við lækna á netinu. Við eigum að vera í fremstu röð á þessu sviði.
Okkur hefur gengið vel að berjast við Covid-19, bæði heilsufarslega og efnahagslega. Hér hafa alvarleg veikindi og dauðsföll verið sjaldgæfari en víðast hvar annarsstaðar miðað við höfðatölu og okkur tókst betur en flestum ríkjum að styðja við fyrirtæki og heimili. Hins vegar er nú ljóst að veiran er ekki á förum. Nú þegar meirihluti er bólusettur og hættan á alvarlegum veikindum er miklu minni er mikilvægt að við endurheimtum frelsið og eðlilegt líf. Að við getum skemmt okkur og notið lífsins á takmarkana.
Á kjörtímabilinu hefur verið lagt gríðarlega mikið aukalega í að efla geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með fjölgun sálfræðinga á heilsugæslum og víðar. Í fyrra voru sömuleiðis samþykkt lög sem heimila heilbrigðisráðherra að semja við Sjúkratryggingar Íslands um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Til þess að tryggja niðurgreidda sálfræðiþjónustu þarf að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og forgangsraða fjármagni í að niðurgreiða þá þjónustu. Stór liður í því er að bæta nýtingu fjármagns þvert á heilbrigðiskerfið og hraða stafrænum lausnum í heilbrigðisþjónustu. Þegar kemur að geðheilbrigðismálum vill Sjálfstæðisflokkurinn líka leggja mun meiri áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir.
Við eigum að nýta okkar grænu og hreinu orku, í stað þess að flytja hana inn, til að verða fyrsta landið óháð jarðefnaeldsneyti (kol og olíu). Á þessu sviði trúum við mest á framtakssemi, nýsköpun og hvata fyrir fólk og fyrirtæki, frekar en að setja bara á ný bönn og nýja skatta.
Undanfarin ár í þessum málaflokki hafa einkennst af skattlagningu og bönnum. Til þess að ná raunverulegum árangri í umhverfismálum verðum við að nýta jákvæða hvata eins og skattaafslætti, sem hafa til dæmis verið innleiddir á umhverfisvæna bíla. Einnig verðum við að fá atvinnulífið með okkur í lið, nýta okkur þær lausnir sem verða til þar og greiða leiðina fyrir nýjum lausnum. Þar eru grænar fjárfestingar og nýsköpun lykilatriði.
Hér á landi getum við nýtt hreina, græna orku til að framleiða vörur, geyma gögn og sinna annarri þjónustu fyrir umheiminn á miklu umhverfisvænni hátt en önnur ríki. Með því að slík starfsemi fari fram hér, frekar en erlendis þar sem eru notaðir óumhverfisvænir orkugjafar, leggjum við okkar af mörkum í baráttunni á heimsvísu og sköpum á sama tíma störf og skatttekjur á Íslandi.
Allir eiga að fá notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs- eða stjórnmálaskoðana, kyns, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið fremstur í flokki þegar kemur að mannréttindum og jafnrétti í áratugi og mun vera það áfram. Undir forystu flokksins var mannréttindakafla bætt inn í stjórnarskrá Íslands og flokkurinn lék lykilhlutverk í að feður fengu sjálfstæðan rétt til að taka fæðingarorlof.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á baráttuna gegn kynbundu ofbeldi og að auka traust til kerfisins sem tekur á slíku ofbeldi. Stór skref hafa verið tekin í þeim efnum, t.d. með banni við að senda nektarmyndir án samþykkis og nýju ákvæði í lögum sem gerir umsáturseinelti (e. stalking) refsivert.
Á síðasta kjörtímabili var ráðist í margar aðgerðir sem snúa að mannréttindum og jafnrétti. Má þar nefna lög um kynrænt sjálfræði (frelsi til að skilgreina eigið kyn), lög um skipta búsetu barna (jafnar stöðu foreldra sem ala upp barn á tveimur heimilum), aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, úrbætur á réttarstöðu fatlaðs fólks og úrbætur á stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram á þessari braut.
Ungir sjálfstæðismenn hafa ályktað og komið því inn í stefnu Sjálfstæðisflokksins að lækka kosningaaldur. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins verið meðflutningsmenn á slíkum frumvörpum. Það er þó eðlilegt að undirbúa slíkt vel og skuggakosningarnar eru t.d. mikilvægur hlekkur í þeim undirbúningi sem þarf að fara fram.
Eitt mesta hagsmunamál íslensks atvinnulífs er greiður aðgangur að erlendum mörkuðum. Þannig getum við keypt vörur og þjónustu frá útlöndum án þess að það kosti okkur miklu meira en aðrar þjóðir. Þar er EES-samningurinn mikilvægur, en einnig tvíhliða fríverslunarsamningar við aðrar þjóðir – eins og við gerðum nýlega við Bretland o.fl. Við viljum halda áfram alþjóðlegu samstarfi á sviði viðskipta, mannréttinda og varnarmála, en teljum – eins og meirihluti þjóðarinnar – að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Í EES samstarfinu fáum við fjölmarga kosti Evrópusamstarfsins, án þess að þurfa að gangast undir íþyngjandi reglur og skyldur sem fylgja því að vera í sambandinu sjálfu.