Listabókstafur: X-S
Formaður: Logi Már Einarsson
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 8
Stutt lýsing: „Flokkurinn staðsetur sig vinstra megin við miðju og eru grunngildi hans jöfnuður, alþjóðahyggja og mannréttindi.“
Við í Samfylkingunni ætlum að setja ungt fólk og fjölskyldur í forgang – og ráðast í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Við viljum byggja upp sterkara samfélag þar sem allir hafa aðgang að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og ráðast í róttækar loftslagsaðgerðir þar sem ekkert svið samfélagsins verður undanskilið. Við viljum styðja miklu betur við ungt fólk og efla sameiginlegu kerfin okkar í stað þess að skera niður. Við ætlum að bæta kjör eldra fólks og öryrkja og endurskoða barnabótakerfið þannig fleiri fjölskyldur njóti stuðnings og barnabætur verði hærri. Þessar kjarabætur verða fjármagnaðar með stóreignaskatti á ríkasta 1% landsmanna, hertu skatteftirliti og hærri veiðigjöldum á stærstu útgerðarfyrirtæki landsins.
Við ætlum að auka aðgengi og innleiða gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk og vinna markvisst niður biðlista barna og ungmenna eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Við ætlum að styrkja félög ungmenna í sessi, stofna framkvæmdasjóð ungmenna til að fjármagna verkefni sem ungt fólk stendur að og stofna launasjóð fyrir íslenskt afreksíþróttafólk í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sérsambönd þess. Við viljum að efnalitlir nemendur eigi kost á styrkjum til að geta stundað framhaldsskólanám líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Við ætlum að hækka grunnframfærslu og frítekjumark námsmanna og tryggja þeim rétt til atvinnuleysisbóta og hækka fæðingarstyrk námsmanna. Við ætlum að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk, styrkja háskóla og framhaldsskóla og móta nýja atvinnustefnu þannig að spennandi og fjölbreytt störf við hæfi standi ungu fólki til boða að loknu námi. Við viljum einnig styðja sérstaklega við ungt fólk í minnihlutahópum; t.a.m. innflytjendur, flóttafólk, hinsegin og fatlað fólk.
Við viljum skapa menntakerfi þar sem enginn er skilinn eftir, og hver nemandi fær fræðslu á eigin forsendum. Nú þarf sérstaklega að styðja við framhaldsskólanema sem hafa þurft að sæta takmörkunum til náms og félagslífs, og grípa til aðgerða til að forða brottfalli.
Í kosningastefnu okkar leggjum við áherslu á eftirfarandi atriði, að:
- Hækka grunnframfærslu stúdenta og hækka frítekjumark námslána.
- Styrkja nýsköpun og þróunarstarf í menntamálum, efla stoðþjónustu við kennara og nemendur og bæta aðgengi að sálfræðingum, félagsráðgjöfum og annarri stuðningsþjónustu í skólum.
- Styðja sveitarfélög og skóla þar sem hátt hlutfall barna hefur íslensku ekki að móðurmáli svo efla megi íslensku- og móðurmálskennslu á öllum skólastigum.
- Auka við framlög til rannsóknar- og vísindasjóða og liðka fyrir þátttöku Íslendinga í stórum alþjóðlegum nýsköpunar- og rannsóknarverkefnum.
- Efla listnám með lækkun skólagjalda við Listaháskóla Íslands og greiðara aðgengi fólks að listnámi um allt land.
- Efla iðn-, verk- og starfsnám og auka þar framboð til þess að fleiri fái inngöngu í skólana.
Samfylkingin ætlar að móta framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland sem byggir á meiri fjölbreytni og felur í sér græna uppbyggingu og umbyltingu atvinnulífs. Aukin fjölbreytni í atvinnulífi skýtur fleiri og sterkari stoðum undir íslenskt hagkerfi og útflutning – og fjölgar tækifærum. Þá ætlum við að stofna grænan fjárfestingarsjóð í opinberri eigu sem leitar samstarfs við einkafjárfesta og sveitarfélög um allt land um uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi og græns iðnaðar og þjónustu. Dæmi um verkefni sem slíkur sjóður gæti styrkt er framleiðsla á lífrænu eldsneyti, þróun tæknilausna til föngunar og förgunar kolefnis og uppbygging iðn- og auðlindagarða þar sem virði hreinnar orku er hámarkað.
Að tryggja húsnæðisöryggi fólks er og verður eitt af aðaláherslum Samfylkingarinnar. Við ætlum að byggja 1000 leigu- og búseturéttaríbúðir á ári með húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða. Þar á meðal eru námsmannaíbúðir og íbúðir byggðar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Með auknu framboði á slíkum íbúðum lækkar húsnæðisverð á leigumarkaði, sem gerir fyrstu kaupendum auðveldara fyrir, auk þess sem það stuðlar að jafnvægi á húsnæðismarkaði almennt. Auk þess ætlum við að tryggja réttarbætur fyrir leigjendur og sterkari varnir gegn óhóflegum hækkunum á húsnæðismarkaði.
Í kosningastefnu okkar leggjum við áherslu á að:
- Auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu, og ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun og stytta biðlista eftir brýnum aðgerðum.
- Ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Gera geðheilbrigðisþjónustu að hluta af almenna heilbrigðiskerfinu. Byggja nútímalegar geðdeildir og vinna markvisst niður biðlista barna og ungmenna eftir nauðsynlegri þjónustu.
- Innleiða gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni.
- Styrkja forvarnir. Bæta strax úr fyrirkomulagi skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini og taka upp skimanir fyrir fleiri gerðum krabbameins sem hafa sýnt sig að skila árangri en eru ekki framkvæmdar á Íslandi.
- Létta álagi af Landspítala með kerfisbreytingum, nýjum búsetu- og þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk, aukinni heimaþjónustu og markvissri fjölgun hjúkrunarrýma. Leiðrétta greiðslur vegna hjúkrunarrýma.
- Nýta betur fjármagn sem veitt er til heilbrigðismála með eflingu innri endurskoðunar hjá hinu opinbera auk stýringar, samræmingar og skilvirkara eftirlits með ólíkum þáttum heilbrigðiskerfisins.
- Efla heilbrigðisþjónustu við fólk um allt land með ákvæðum um starfsaðstæður og kjör heilbrigðisstétta og fjárfestingu í tæknilausnum til fjarlækninga. Greiða allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð.
Í baráttunni við COVID-19 hefur Samfylkingin haft það að leiðarljósi að fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis og hlusta á raddir sérfræðinga. Nú er stór hluti þjóðarinnar bólusettur sem minnkar líkur á dauðsföllum og smitum en smit berast áfram milli einstaklinga. Sá litli hópur sem er óbólusettur er ásamt viðkvæmum hópum ennþá útsettur fyrir veikindum en ljóst er að grípa þarf til aðgerða sem eru til þess fallnar að hægt sé að lifa með þeim til lengri tíma. Ungt fólk og sérstaklega framhaldsskólanemar hafa fundið hvað mest fyrir afleiðingum harðra aðgerða og við viljum því að gripið sé til úrræða sem eru til þess fallin að tryggja að nám og félagslíf ungs fólks og framhaldsskólanema geti farið fram með sem eðlilegustum hætti. Raddir ungs fólks eiga að hafa vægi í slíkri ákvarðanatöku rétt eins og í öllum ákvörðunum sem varða hagsmuni ungs fólks.
Semja þarf við sálfræðinga og tryggja fjármagn í fjárlögum. Hér er forgangsatriði að þau sem mest þurfa á þjónustunni að halda fái hana strax. Fjölga þarf sálfræðingum í skólum, á heilsugæslum og víðar þar sem hún er aðgengileg ungu fólki. Þetta er mikilvæg forvörn: gott aðgengi að sálfræðiþjónustu getur dregið úr álagi á geðspítala síðar meir og spornað gegn nýgengi örorku.
Forgangsmál Samfylkingarinnar í loftslags- og umhverfismálum eru eftirfarandi, en ítarlegri kosningaáherslur flokksins í málaflokknum má nálgast á vefnum xs.is/loftslag
- Lögfesta markmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
- Móta nýja og miklu metnaðarfyllri aðgerðaáætlun, byggja upp sterka og skilvirka loftslagsstjórnsýslu og fjölga hvötum til grænna umskipta.
- Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og flýta Borgarlínu og öðrum loftslagsvænum framkvæmdum í samgönguáætlun. Byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um Ísland án einkabíls.
- Gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og átak í lagningu hjólastíga.
- Hraða orkuskiptum í samgöngum: Fjölga hleðslustöðvum um allt land, styðja við rafvæðingu bílaleiguflotans og afnema skattafslætti vegna kaupa á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
- Stofna grænan fjárfestingarsjóð að norrænni fyrirmynd. Hann verður í eigu hins opinbera og starfar með einkafjárfestum að uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi.
- Ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur, með því að hætta að skilyrða styrki við framleiðslu á kjöti og mjólk en styðja loftslagsvæn verkefni, sjálfbæra matvælaframleiðslu og kolefnisbindingu með breyttri landnotkun, svo sem endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt.
- Banna alfarið flutninga og notkun svartolíu í íslenskri landhelgi, rafvæða hafnir og leggja bann við olíuborun í efnahagslögsögunni.
- Styðja markvisst við tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar.
- Taka upp græna utanríkisstefnu og nýta sérstöðu Íslands og forskot í orkumálum til að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð fyrir rannsóknir og þróun lausna í loftslagsmálum
Samfylkingin er mannréttindaflokkur. Á meðal mannréttindamála sem við setjum á oddinn í komandi kosningum eru eftirfarandi:
- Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Samfylkingin vill lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun sem þörf er á vegna þessa samnings og annarra. Bæta þarf tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, og brýnt er að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð verði fjölgað jafnt og þétt.
- Betri réttarstaða þolenda
Samfylkingin vill tryggja þolendum í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum málsaðild þegar réttað er yfir geranda, stytta málsmeðferðartíma, lögbinda rétt til launaðs leyfis í kjölfar brots, rýmka gjafsóknarreglur og tryggja brotaþolum langtímastuðning og öryggi meðan mál eru til rannsóknar.
- Mannúðlegri móttaka fólks á flótta
Samfylkingin vill taka betur á móti fólki af erlendum uppruna, móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leiðarljósi, og láta af þrengstu túlkunum á útlendingalögum við meðferð á umsóknum. Flokkurinn vill að hætt verði að vísa burt barnafjölskyldum sem fest hafa hér rætur og stöðva frávísanir til óöruggra ríkja.
- Réttindi hinsegin fólks
Samfylkingin vill tryggja lagaleg réttindi og öryggi hinsegin fólks. Við ætlum að halda áfram að vinna okkur upp Regnbogakortið, í góðu og nánu samstarfi við hagsmunasamtök þeirra, þar til Ísland verður í fararbroddi á heimsvísu í mannréttindum hinsegin fólks. Útgangspunkturinn skal alltaf vera forræði hverrar manneskju yfir sjálfri sér og að við skilgreinum okkur öll sjálf.
Samfylkingin styður og beitir sér fyrir lækkun kosningaaldurs í 16 ár.
Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim og sé alltaf málsvari friðar, mannúðar, jafnréttis og lýðræðis.
Samfylkingin er Evrópuflokkur, beitir sér fyrir kraftmikilli samvinnu Íslands við önnur lýðræðisríki og stefnir að fullri aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þangað til þessu markmiði er náð þurfa íslensk stjórnvöld að nýta með markvissari hætti þau tækifæri sem felast í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins, efla hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og bæta framkvæmd EES-samningsins.
Samfylkingin stendur með þjóðum sem þurfa að þola ólöglegt hernám og yfirgang stórvelda, svo sem í Palestínu, og gerir kröfu um að reglur þjóðaréttar um friðsamleg samskipti þjóða séu virtar í hvívetna. Ísland á alltaf að taka slaginn gegn mannréttindabrotum, styðja réttindabaráttu viðkvæmra hópa á heimsvísu og taka forystu í baráttu gegn fordómum og hvers kyns mismunun
Ísland á að beita rödd sinni gegn mannréttindabrotum og taka forystu í alþjóðlegri baráttu gegn fordómum, öfgum og mismunun. Við eigum að styðja við réttindabaráttu viðkvæmra hópa á alþjóðavísu.
Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Íslendingum ber að leggja ríkulega af mörkum til að taka þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr hungri, fátækt, barnadauða og félagslegu ranglæti og stuðla að friði. Samfylkingin leggur áherslu á að framlög Íslands til þróunarsamvinnu nái viðmiðum Sameinuðu Þjónanna um 0,7% af vergum þjóðartekjum á næsta kjörtímabili og vill stefna að því að í lok þess verði það sambærilegt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.
Samfylkingin vill að Ísland reki græna utanríkisstefnu með áherslu á sjálfbæra þróun og aðgerðir gegn loftslagsvánni. Liður í þessu er að skipaður verði sendiherra loftslagsmála sem samhæfi stefnu og skilaboð Íslands erlendis um loftslagsmál og að mörkuð verði stefna um græna fríverslun og alþjóðaviðskipti með hliðsjón af loftslagsmarkmiðum Íslands.