//
vireisn-logo

Listabókstafur: X-C
Formaður: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Staða: Í stjórnarandstöðu
Fjöldi þingmanna: 7
Stutt lýsing: Viðreisn er frjálslynt stjórnmálaafl sem berst fyrir réttlátu samfélagi, stöðugu efnahagslífi og fjölbreyttum tækifærum.

Á hvaða málefni leggið þið mesta áherslu á fyrir alþingiskosningarnar 2021?

Við viðurkennum loftslagsvandann og göngumst við neyðarástandinu. Þess vegna þurfum við að ráðast í raunverulegar aðgerðir til að draga úr losun og koma í veg fyrir yfirvofandi hamfarir. Við viljum búa til öflugt kerfi grænna hvata til að sjá til þess að það borgi sig fyrir fyrirtæki að vera umhverfisvæn, á sama tíma og við sjáum til þess að það verði dýrt að menga. Nýsköpunarfyrirtæki eins og CarbFix gegna risa stóru hlutverki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þess má einmitt geta að á Sólarkvarða Ungra umhverfissinna lentum við í öðru sæti í loftslagsmálum og fengum bestu einkun fyrir stefnu okkar um hringrásarhagkerfið.

Viðreisn er alþjóðasinnaður flokkur og styður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en við viljum samt leyfa þjóðinni að kjósa um áframhald aðildarviðræðna. Í millitíðinni þarf að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Krónan er óstöðugur gjaldmiðill og kostar okkur um 130 milljarða á ári. Þess vegna viljum við semja við evrópska seðlabankann um að fá að tengja krónuna við Evru. Þannig búum við til heilbrigt efnahagsumhverfi, lækkum vöruverð, höldum vöxtum í lágmarki og bætum lífskjör okkar allra.

Við viljum að sjávarútvegsfyrirtækin greiði sanngjarnt gjald til þjóðarinnar fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Við viljum að ríkið geri tímabundna samninga við sjávarútvegsfyrirtækin um hversu mikið þeim er heimilt að veiða á hverju ári. Þannig fæst markaðsverð fyrir aðgang að auðlindinni á sama tíma og við tryggjum stöðugt og fyrirsjánlegt umhverfi fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Það þarf líka að innleiða skýrt auðlindaákvæði um þjóðareign og tímabindingu afnota í stjórnarskrá.

Síðast en ekki síst viljum við þjónustuvæða heilbrigðiskerfið. Á Íslandi er opinbert heilbrigðiskerfi, þar sem ríkið greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu hvers og eins. Innan kerfisins starfa bæði ríkisstarfsmenn og sjálfstætt starfandi. Á síðustu árum hefur skipulega verið grafið undan sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki, með tilheyrandi lengingu biðlista og verri þjónustu fyrir almenning. Sú þróun skapar tvöfalt heilbrigðiskerfi, en við viljum vinda ofan af henni og sjá til þess að ríkið semji á ný við sjáfstætt starfandi sérfræðinga. Ekki síst sálfræðinga, en við komum því einmitt í gegn að sálfræðitímar yrðu niðurgreiddir þannig hver tími myndi kosta mun minna.

Hvernig munið þið beita ykkur í málefnum ungs fólks?

Öll mál eru málefni ungs fólks, frá heilbrigðismálum til utanríkismála og allt þar á milli. Ákveðin mál varða þó hagsmuni ungs fólks sérstaklega. Við viljum til að mynda hækka framfærslu í námslánum svo þau endurspegli raunverulegan kostnað þess að búa á Íslandi og við viljum að ríkið hætta að skerða rétt fólks til námslána ef það vinnur með námi. Þá viljum við einnig breyta hluta námslánanna í beinan styrk. Ungt fólk þarf lægri vexti til að auðvelda því að koma undir sig fótunum, eignast heimili og stofna fjölskyldu. Með því að binda krónuna við evru getum við gert verðlag á Íslandi stöðugra og lækkað vexti varanlega. Til að stemma stigu við hækkun fasteignaverðs þarf að tryggja nægilegt framboð af húsnæði. Í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hefur Viðreisn stuðlað að metfjölda bygginga: 3000 íbúðir eru í byggingu núna og 5000 í samþykktu skipulagi. Einna mikilvægast er þó að huga að andlegri heilsu ungs fólks. Viðreisn lagði til á síðasta þingi, og fékk samþykkt, að sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd. Ríkisstjórnin hefur þó neitað að fullfjármagna niðurgreiðsluna. Ef við komumst í ríkisstjórn verður eitt af okkar fyrstu verkum að setja fullnægjandi fjármagn í niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu, því andleg heilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa.

Hver er stefna ykkar í menntamálum?

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags-  og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt. Aukið val og margþættir náms- eða kennsluhættir gerir nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái sín notið og vaxið. Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustunni. Námslán og skólagjöld eiga að taka viðmið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms. Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafa þó kost á að nýta aðeins styrkinn, án þess að taka lán. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána ásamt því að grunnframfærsla sé í samræmi við neysluviðmið. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga að hafa kost á námslánum.

Hvernig hyggist þið tryggja næg atvinnutækifæri til framtíðar?

Grænar áherslur og aukinn stuðningur við hugvitsgreinar eru lykillinn að því að fjölga atvinnutækifærum á Íslandi. Ef grunnstoðir atvinnulífsins eru of fáar eykur það hættuna á því að ytri þættir, á borð við COVID-19, hafi langvarandi neikvæð áhrif á atvinnutækifæri. Það borgar sig ekki að hafa öll eggin í sömu körfunni. Til þess að efla hugvitsiðnaðinn þurfum við stuðning við nýsköpun og stöðuri gjaldmiðil, en 73,5% forsvarsfólks nýsköpunarfyrirtækja telur að séríslenskur gjaldmiðill hafi neikvæð áhrif á rekstur þess. Til þess að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á heimsmarkaði þurfum við að vera í forystu í kolefnishlutlausri framleiðslu. Þetta er til þess fallið að fjölga störfum og auka verðmætasköpun til frambúðar.

Hvernig ætlið þið að tryggja að ungt fólk búi við húsnæðisöryggi?

Mikilvægasti liðurinn í því að tryggja húsnæðisöryggi ungs fólks er að byggja nóg. Þegar skortur er á fasteignum þá hækkar fasteignaverð sem gerir fólki, og sérstaklega ungu fólki, erfiðara að komast inn á markaðinn. Til að vinna gegn þessu þarf að tryggja að byggingarmagn anni eftirspurn og jafnvægi sé á markaðnum. Annað atriði er sérstakur stuðningur við fyrstu kaupendur í formi heimildar til að ráðstafa séreignarsparnaði við útborgun og inn á íbúðalán. Viðreisn styður að það verði gert áfram. Þriðja atriði snýr að vaxtaumhverfinu en til þess að lán séu ekki of dýr þurfa vextirnir að vera lágir. Vextir á Íslandi eru mun hærri en í nágrannalöndum okkar, sem þýðir að við borgum meira fyrir lánin yfir líftíma þeirra, en með því að binda gengi krónunnar við evru getum við lækkað vexti til muna og gert lánakjörin betri. Allt þetta þrennt helst í hendur við að tryggja húsnæðisöryggi ungs fólks: Fullnægjandi framboð, stuðningur við fyrstu kaup og gott vaxtaumhverfi.

Hvað ætlið þið að gera fyrir heilbrigðiskerfið?

Viðreisn leggur áherslu á að þjónusta við fólk sé í öndvegi í skipulagi heilbrigðis- og velferðarmála. Nýta á tækni til að tengja betur sérfræðinga og fólkið í byggðum landsins og stuðla þannig að jöfnu aðgengi. Fjarheilbrigðisþjónusta er þar lykilatriði. Efla þarf heilbrigðisstofnanir um allt land og gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks eftirsóknarverðara. Kostnaðargreining á að vera grundvöllur fjárveitinga til allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Viðreisn undirstrikar að einkarekstur innan opinbers kerfis, þar sem ríkið kaupir þjónustu og niðurgreiðir til almennings er ekki það sama og einkavæðing. Viðreisn hafnar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Það er gríðarlega aðkallandi að draga úr bráðavanda og biðlistum á Íslandi. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að bíða eftir greiningu eða þjónustu. Heilsugæslur eiga að vera öflugar um allt land og veita þá nærþjónustu sem nauðsynlegt er. Leysa þarf hið fyrsta þann bráðavanda sem snýr að greiningu og úrlausn mála varðandi skimun á leghálskrabbameini. Viðreisn leggur á að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu og aðgangur fólks að sálfræðiþjónustu eða annarri klínískri meðferð verði niðurgreiddur hið fyrsta í samræmi við nýsamþykkt lög sem Viðreisn stóð að á Alþingi. Auka þarf forvarnir og forvirkar aðgerðir í skipulagi ríkisins í málaflokknum.

Hver er stefna ykkar í baráttunni við Covid-19?

Löngu er orðið ljóst að heimsfaraldurinn er ekki tímabundið verkefni og lausnirnar geta ekki lengur verið nýtt regluverk á nokkurra vikna fresti. Við þurfum nálgun sem lítur á heimsfaraldurinn sem langtímaverkefni. Nálgun sem sem byggð er á vísindum og markmiðum um að lágmarka takmarkanir að daglegu lífi fólks og atvinnulífi. Nálgun sem byggir á virðingu fyrir frelsi fólks og meðalhófi. Við þurfum að lifa með veirunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er mikilvægt að hlúa að heilbrigðiskerfinu og gera því kleift að takast á við stöðuna. Ótækt er að sóttvarnaraðgerðir séu óhóflega íþyngjandi vegna fjárskorts heilbrigðiskerfisins. Skólaganga barna og ungmenna verður að fá að vera tryggð. Létta þarf á takmörkunum með stórauknu aðgengi að hraðprófum.

Hvernig ætlið þið að tryggja að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd?

Fyrsta skref er að tryggja að fjármagn sé til staðar á fjárlögum. Svo þurfa sjúkratryggingar að semja við sálfræðinga, enda eru þeir sjálfstætt starfandi. Það þarf ekki meira til en það eftir að frumvarp okkar um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu var samþykkt á kjörtímabilinu. Sjúkratryggingar hafa lagalega heimild til að semja, en ríkisstjórnin hefur ekki viljað veita fjármagni í það.

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Viðreisn vill hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvæn og að þau borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við skynsamlega nýtingu er lykillinn að grænni framtíð. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum og skerði ekki kost komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum máli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Viðreisn leggur áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu. Nauðsynlegt er að öll lframleiðsla og þjónusta verði kolefnishlutlaus og rýri ekki náttúrugæði til langframa. Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar. Eyða þarf þeirri óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku. Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja. Almannahagsmunir krefjast þess að næstu ríkisstjórnir setji baráttuna við loftslagsvána í algjöran forgang.

Hver eru ykkar áherslumál sem viðkoma mannréttindum og jafnrétti?

Jafnréttismál og mannréttindi eru ofin inn í DNA Viðreisnar. Í jafnréttismálum berjumst við fyrir jöfnum tækifærum allra og mismunun.

Við berjumst gegn kynbundnu ofbeldi og höfum náð fram mikilvægum breytingum á lögum í þeim efnum, m.a. að setja samþykki í forgrunn í nauðgunarákvæði hegningarlaga. Við þurfum þó að ganga lengra og tryggja að réttarvörslukerfið sé í stakk búið til að taka á kynferðisofbeldismálum. Við úrbætur á kerfinu þarf að hafa stöðu minnihlutahópa og fólks af erlendum uppruna sérstaklega í huga.

Við berjumst gegn kynbundnum launamun. Eitt fyrsta málið sem við komum í gegn eftir stofnun flokksins var jafnlaunavottun. Hún veitir mikilvægt tæki til að fylgjast með stöðu launamunar á vinnustöðum. Við höfum líka lagt til að gerð verði þjóðarsátt um bætt kjör fjölmennra kvennastétta, sem hafa alla tíð setið eftir í kjarabaráttunni.

Við berjumst fyrir því að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð. Ísland er eftirbátur margra nágrannaþjóða okkar í réttindastöðu hinsegin fólks, samvkæmt alþjóðlegum mælikvarða ILGA-Europe. Við þurfum að bæta úr því og útvíkka jafnframt jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði þannig að hún nái einnig til hinsegin fólks.

Við berjumst fyrir jöfnum réttindum fólks af erlendum uppruna. Gildir það jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms og þátttöku í stjórnmálum. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna eru með öllu ólíðandi.

Við berjumst fyrir því að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fylgt eftir með lögum og skýrum aðgerðum.Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum.

Varðandi mannréttindi berjumst við fyrir jöfnu atkvæðavægi í kosningum og aðskilnað ríkis og kirkju. Við viljum afglæpavæðingu og skaðaminnkun á sviðum þar sem refsistefnan veldur skaða að óþörfu, t.d. vegna neyslu vímuefna og hjá kynlífsverkafólki. Líta ætti á neyslu vímuefna sem heilbrigðismál og efla félagsleg úrræði og réttarvernd fyrir kynlífsverkafólk og þolendur mansals.

Tryggja verður að fólk á flótta og hælisleitendur hljóti mannsæmandi skjól hérlendis ásamt því að endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Fólk á flótta og hælisleitendur eiga að vera jafn velkomin og aðrir. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.

Hver er afstaða ykkar til lækkunar kosningaaldurs?

Flokkurinn hefur ekki mótað sér formlega afstöðu til lækkunar kosningaaldurs. Helmingur þingflokks hefur þó verið meðal meðflutningsmanna á frumvarpi um lækkun og ungliðahreyfingin hefur ályktað lækkun í hag.

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

Viðreisn er fylgjandi virkri þátttöku íslands í fjölþjóðlegu samstarfi.

Ísland á landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem starfa saman innan Evrópusambandsins. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.

Mannréttindi eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Ísland skal leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks. Ísland ætti að setja fordæmi, með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi, í málefnum flóttamanna- og farandfólks sem er í leit að betra lífi. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES að fá atvinnuleyfi og leita tækifæra á Íslandi.

Viðreisn vill að Ísland innleiði formlega feminíska utanríkisstefnu að fordæmi Svíþjóðar, Kanada og annarra ríkja og jafnrétti sé haft að leiðarljósi í öllum störfum utanríkisþjónustunnar. Þar sem alþjóðlegt bakslag hefur orðið í jafnréttismálum á síðustu árum er mikil þörf á að þeim sé haldið vel á lofti í alþjóðlegu samhengi. Ísland hefur hingað til verið öflugur málsvari jafnréttis kynja á alþjóðavettvangi og horft er til Íslands í jafnréttismálum. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi og sé ávallt á varðbergi fyrir þeim nýju áskorunum sem upp koma.  Innleiðing femínískrar utanríkisstefnu myndi styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem leiðandi afl í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu og hafa góð áhrif á störf utanríkisþjónustunnar á þann hátt að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum, stórum og smáum. Einnig verði áfram lögð sérstök áhersla á valdeflingu stúlkna og kvenna í þróunarsamstarfi, en það hefur sýnt sig að valdefling kvenna er ein árangursríkasta aðferð þróunarsamvinnu.

Öryggi Ísland er best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast varnir gegn hryðjuverkum, innra öryggi og landamæraeftirlit, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.

Ísland á áfram að vera virkt í norrænu samstarfi og leita leiða til að efla það frekar. Gangi Ísland í Evrópusambandið gæti sameinuð rödd Norðurlanda á þeim vettvangi orðiði öflugur málsvari samnorrænna gilda um lýðræði, velferð og mannréttindi.

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.