-
Lýðræðisleikir
Leysið lýðræðisverkefni í skólastofunni.
-
Heimsókn frá flokkunum
Fáið fulltrúa flokkanna í heimsókn til að kynna stefnumálin.
-
Skuggakosningar
Haldið skuggakosningar og kannið afstöðu nemendanna.
Lýðræðisvika framhaldsskólanna
Lýðræðisvikan fer fram í framhaldsskólum landsins vikuna 6.-9. september. Þá eru kennarar hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni og stuðla að stjórnmálaumræðu í kennslustundum. Lýðræðisvikan endar á skuggakosningum og eru nemendur hvattir til að taka upplýsta ákvörðun áður en gengið er til atkvæðagreiðslu. Nemendur geta kynnt sér stefnumál flokkanna og hvað þeir hyggjast gera í málefnum ungs fólks undir „Framboðin“. Nemendur eru hvattir til að bjóða flokkunum í heimsókn og skipuleggja t.d. málfund eða pallborðsumræður.
Gert er ráð fyrir að hver þátttökuskóli skipuleggi og útfæri sína lýðræðisviku eftir aðstæðum, getu og nemendafjölda. Hér að neðan eru dæmi/leiðbeiningar um það sem hægt er að gera.
Lýðræðisleikir
Lýðræði á sér margar birtingarmyndir og einskorðast alls ekki við flokkapólitík og formlegar kosningar. Lýðræðislegar aðferðir eiga allsstaðar við, t.d. í kennslustofunni, í félagslífinu og á heimilinu.
Hér að neðan er að finna leiki og æfingar sem hægt er að nota í kennslustundum.
Heimsóknir frá fulltrúum flokkanna
Við erum svo heppin að Ísland er lítið land með stuttar boðleiðir. Ólíkt öðrum löndum þá er auðvelt að komast í beint samband við stjórnvöld og ræða beint við fólkið sem sækist eftir völdum.
Nemendafélög framhaldsskólanna eru hvött til að bjóða frambjóðendum í heimsókn í skólann, þar sem nemendur geta rætt við þá, spurt spurninga og komið sínum hugmyndum á framfæri.
Hér má finna þrjár mismunandi tillögur að framkvæmd heimsóknar fulltrúa flokkanna.
Skuggakosningar
Lýðræðisvikunni lýkur með skuggakosningu, þar sem nemendur skólans kjósa á milli þeirra flokka sem hyggjast bjóða fram til Alþingis, í því kjördæmi sem skólinn er staðsettur.
Skuggakosningar verða haldnar í framhaldsskólum þann 9. september en niðurstöður þeirra verða ekki gerðar opinberar fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað á kjördag alþingiskosninga þann 25. september.