Við leggjum mikla áherslu á að bjóða barnafjölskyldum upp á góða þjónustu. Við viljum sjá sveitarfélagið stækka og eflast. Hér eru mörg tækifæri en til að fólk vilji setjast hér að þarf að tryggja að í boði sé þjónusta á borð við leikskólpláss fyrir börn frá 1 árs aldri og fjölþætt tómstundastarf fyrir börn og ungmenni.
Við teljum að sveitarfélagið geti gert betur í að styðja við uppbyggingu öflugs og fjölbreytilegs atvinnulífs. Sveitarfélagið þarf að vera vakandi fyrir tækifærum og alltaf reiðubúið til samtals við fyrirtæki og frumkvöðla, bæði þá sem þegar eru á svæðinu og einnig þá sem vilja koma og byggja upp nýja starfsemi.
Stór hluti sveitarfélagsins er dreifbýll og það er okkur öllum mikilvægt að búseta í dreifbýli sé valkostur, hvort sem þeir sem það kjósa vilja stunda hefðbundinn landbúnað, stunda aðra atvinnustarfsemi eða einfaldlega búa í dreifbýli en sækja atvinnu í þéttbýli. Við viljum því bæta þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir í dreifbýli, svo sem snjómokstur, og berjast fyrir bættum fjarskiptatengingum og öðrum innviðum í sveitunum.
Sveitarfélög þurfa trausta og öfluga pólitíska forystu. Þeir sem veljast til að leiða sveitarstjórnir þurfa að vera reiðubúnir að leggja sig öll fram við að tala máli sveitarfélagsins við alþingismenn, ráðherra, stofnanir og fyrirtæki. Þá er einnig mikilvægt að pólitískir fulltrúar eigi regluleg og milliliðalaus samskipti við íbúa sveitarfélagsins, félagasamtök og fulltrúa atvinnulífsins, svo eitthvað sé nefnt.
Framsóknarfólk býður sig fram til þess að vera ykkar fólk í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.
Það er mikilvægt að ungt fólk fái beina aðkomu að ákvörðunum sem teknar eru innan sveitarstjórna. Framsókn á Fljótsdalshéraði hefur beitt sér fyrir eflingu ungmennaráðs sveitarfélagsins svo að rödd ungs fólks sé meira áberandi innan stjórnkerfis sveitarfélagsins. Við viljum sjá þá þróun halda áfram og að störf í ungmennaráði verði áfram launuð, kjör ungmennaráðsfulltrúa bætt og ábyrgð þeirra aukin í samræmi við það.
Við höfum látið verkin tala varðandi aðkomu ungs fólks með því að treysta ungu fólki til ábyrgðar. Yngst til að taka sæti í bæjarstjórn á núverandi kjörtímabili er Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, varabæjarfulltrúi B-lista, sem einnig situr í atvinnu- og menningarnefnd sveitarfélagsins. Hún skipar nú 4. sætið á framboðslistanum og við viljum gjarnan sjá hana komast í bæjarstjórn en hún er 23 ára gömul. Fleira ungt fólk á sæti á framboðslistanum og við erum ófeimin við að treysta þessu unga fólki til verka.
Við viljum ná að ljúka því verkefni að byggja upp menningarhús á Egilsstöðum, auk annars með því að stórbæta aðstöðu til ýmiskonar sviðslista í Sláturhúsinu. Þá viljum við sjá áframhaldandi öflugt tómstundastarf á vegum frjálsra félagasamtaka og styðja við slíkt starf með ýmsum hætti.
Við teljum nauðsynlegt að hjálpa ungu fólki sem hefur hug á að setjast að í sveitarfélaginu að finna sér húsnæði við hæfi. Þetta má til dæmis gera með því að sveitarfélagið komi að uppbyggingu og rekstri leiguíbúða sem sérstaklega eru hugsaðar fyrir ungt fólk sem er að hefja búskap á eigin vegum. Við gerum þetta fyrir eldra fólk. Hvers vegna ekki ungt fólk líka? Slíkar leiguíbúðir myndu geta verið fyrsta skrefið og hjálpað til við að brúa bilið þar til að viðkomandi er í stöðu til að komast í eigin húsnæði.