– Við viljum áfram vera í fremstu röð þegar kemur að ánægju íbúa með þjónustu sem Garðabær veitir. Jafnframt að bæjarbragurinn einkennist af samkennd íbúa, hjálpsemi og náungakærleik og að íbúar Garðabæjar geti verið stoltir af því að vera Garðbæingar.
– Vera í forystu í umhverfismálum og vernda náttúru og útivistarsvæði m.a. með aukinni áherslu á flokkun sorps, snyrtilegt umhverfi og þétta göngu- og hjólastíganets.
– Vera í forystu varðandi upplýsingagjöf til íbúa, snjallvæðingu, lýðræðisleg vinnubrögðum og gegnsærri stjórnsýslu. Við viljum eiga samtal við íbúa okkar um lausnir og framþróun sveitarfélagsins.
– Vera í forystu í skólamálum m.a. með því að bjóða frjálst val um skóla og fjölbreytt rekstrarform skóla. Lögð verður aukin áhersla á skapandi greinar og að mæta þörfum og hæfni hvers nemanda. Við viljum að nemendum líði vel í skólanum sínum.
– Við viljum að Garðbæingar séu öruggir í sínu sveitarfélagi. Við viljum efla árangursríka nágrannavörslu til að fækka innbrotum og skemmdarverkum. Við munum áfram leitast við að skapa öruggara umhverfi fyrir bæjarbúa með upplýsingagjöf, leiðbeiningum og uppsetningu myndeftirlitskerfis á völdum stöðum í bænum með góðri samvinnu við lögregluna.
– Vera í fararbroddi í íþrótta- og tómstundamálum þar sem boðið er upp á faglegt og fjölbreytt starf og góða aðstöðu til líkams- og heilsuræktar. Hin ýmsu félög sem sinna íþrótta- og tómstundastarfi eru samstarfsaðilar sveitarfélagins og við viljum styrkja myndarlega við þeirra starfsemi í þágu fjölskyldna í Garðabæ. Við ætlum að vera í forystu í lýðheilsumálum þar sem lögð er áhersla á andlega, líkamlega og félagslega heilsu allra bæjarbúa. Við ætlum að taka nýtt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri í notkun og bæta líkamsræktaraðstöðu á Ásgarðssvæðinu.
– Vera í forystu í skipulagsmálum þar sem áhersla er lögð á fjölskylduvænt umhverfi, lágreista byggð og fjölbreytt búsetuúrræði sem kemur til móts við unga sem aldna. Jafnframt að auðvelda samgöngur milli hverfa m.a með því að Hafnarfjarðarvegur verði settur í stokk.
– Við munum leggja aukna áherslu á að styðja við og hvetja listafólk í Garðabæ til að skapa framsækinn menningarbæ og styðja þannig við góðan „ garðbæskan“ bæjarbrag. Hafinn verði undirbúningur að byggingu menningar- og fræðahúss til að ramma inn og skapa lifandi vettvang með mikið aðdráttarafl fyrir menningu, listir og samveru bæjarbúa, andlit bæjarins út á við, sem gjörbreyti til batnaðar aðstöðu bæjarbúa til sköpunar og til að njóta fjölbreyttrar menningarstarfsemi.
– Við viljum halda vel utan um allt fólkið okkar, styðja við einstaklinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda til virkni og sjálfshjálpar.
– Við ætlum að auðvelda ungu fólki að eignast eða leigja húsnæði, m.a. með samningum við verktaka og úthlutun lóða sérstaklega í framangreindum tilgangi.
– Við ætlum að efla stuðning við ungt fólk sem af margvíslegum ástæðum líður ekki vel, m.a. með aukinni sálfræðiaðstoð, náms- og starfsráðgjöf og fjölskylduráðgjöf.
– Við ætlum í samvinnu við Ungmennaráð Garðabæjar að skapa aðstöðu „Ungmennahús“ fyrir ungt fólk 16 ára og eldri til að hittast og eiga samskipti þar sem í boði er m.a. aðstaða til að læra og njóta menningar.
– Við viljum hækka hvatapeninga þannig að sem flestir geti nýtt sér fjölbreytt tilboð til íþrótta- og tómstundaiðju.
– Við viljum annast rekstur Fjölbrautaskólans í Garðabæ m.a. í þeim tilgangi að halda sem best utan um okkar fólk og efla samvinnu á milli skólastiga.
– Við ætlum að styrkja unga efnilega Garðbæinga sem skara framúr í skóla, íþrótta- og félagsstarfi og listum til frekari afreka. Árlega verða veittir styrkir í þessum tilgangi undir heitinu „Ungir Garðabæingar til forystu“.
– Við viljum fá unga fólkið í lið með okkur til að deila upplýsingum um það sem er að gerast í bænum okkar, m.a í þeim tilgangi að efla bæjarbrag og skapa þá tilfinningu að tilheyra bæ sem er í forystu.
– Við ætlum að vera í forystu í að efla þátttöku ungs fólks í Garðabæ í hugleiðslu, yoga og núvitund. Við teljum að sú iðkun skapi góðan grunn til framtíðar þegar kemur að því að þjálfa athygli, auka sjálfsþekkingu og samskiptafærni og hlúa að hjálplegu hugarfari sem gagnast í einkalífi og starfi. Við viljum að unga fólkinu okkar líði vel og að það hafi trú á sjálfu sér og framtíðinni.
– Við ætlum að efna til árlegra kosninga „skuggakosninga“ um verkefni sem tengjast ungu fólki, þ.e. um hugmyndir ungs fólks um hvernig við tökum forystu í málefnum sem tengjast ungu fólki.