//

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

 In

Meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Sem smáríki á Ísland hag sinn undir því að alþjóðasamningar og lög séu virt og þjóðir leysi sín deilumál friðsamlega. Eins eru það hagsmunir smáríkja að stuðla að

alþjóðlegri samvinnu til þess að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins. Öflug þátttaka og hagsmunagæsla í alþjóðastarfi er mikilvægur liður í að tryggja sjálfstæði landsins.

Framsóknarflokkurinn fagnar þeim árangri og mikilvægu áföngum sem náðst hafa á sviði utanríkismála á undanförnum misserum. Fullgildingu Parísar-samningsins og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var fyrir 9 árum en var fullgiltur hérlendis nýlega að frumkvæði utanríkisráðherra.

Reynslan hefur kennt okkur að Ísland þarf að eiga sterka rödd á alþjóðavettvangi. Mikilvægt er að sendiskrifstofur landsins hafi styrk til að sinna nauðsynlegri hagsmunagæslu og fylgja eftir áherslum í utanríkisstefnu.

Íslendingar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta með nágrannaþjóðum sínum hvað varðar auðlindir, arfleifð, þjóðmenningu og öryggismál. Samstarf við nágrannaþjóðir okkar skipi sem fyrr mikilvægan sess í utanríkisstefnu landsins.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á alþjóðlegt samstarf, m.a. á sviði öryggis, viðskipta, menntunar, menningar, mannréttinda og velferðarmála. Aðgangur að alþjóðlegum mörkuðum er útflutningsþjóð eins og Íslandi lífsnauðsyn. Stjórnvöld skulu markvisst stuðla að auknum útflutningi vöru og þjónustu, þar sem markmiðið er að sem mestur virðisauki verði til á Íslandi með fullvinnslu sem stuðlar að jákvæðum viðskiptajöfnuði og bættum lífskjörum í landinu. Tækifæri íslands sem sjálfstæðs ríkis utan ríkjabandalaga eru nánast óendanleg, og það ber að nýta.

Fríverslunarsamningar greiða leið fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki en við gerð slíkra samninga þarf ávallt að hafa hagsmuni almennings, gangsæi og óskorað fullveldi þjóðarinnar að leiðarljósi. Stefna skal áfram að fjölgun fríverslunarsamninga, loftferðarsamninga og samninga um vegabréfsáritanir til þess að treysta hag Íslendinga í alþjóðlegum heimi. Kanna skal sérstaklega tækifæri á nýmarkaðssvæðum íslensku viðskiptalífi til hagsbóta

Ísland taki ekki þátt í viðskiptaþvingunum, nema þeim sem ákveðnar eru á vettvangi öryggisráðs sameinuðu þjóðanna og samþykktar hafa verið af alþingi í hvert sinn.

Framsóknarflokkurinn vill að Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum

EES samningurinn hefur veitt aðgang að sameiginlegum markaði Evrópu og verið grunnur að samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt langtíma hagsmuni Íslands. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu.

Mikilvægi Norðurslóða fer vaxandi. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að Ísland verði virkur aðili í stefnumótun er varðar málefni norðurslóða.

Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu ásamt þátttöku í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli tryggir best öryggi borgaranna og ríkisins enda séu mannréttindi og lýðræði leiðarljós slíks varnarsamstarfs. Þátttaka Íslands í slíku samstarfi skal byggja á borgaralegum, félagslegum, og mannúðartengdum verkefnum.

Hagsmunir Íslands liggja í verndun umhverfis og sjálfbærri nýtingu auðlinda til lands og sjávar. Sjávarútvegur er ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Því er mikilvægt að standa vörð um fiskveiðiauðlindir kringum landið og kynna sjálfbæra fiskveiðistefnu Íslands á alþjóðavettvangi.

Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málarflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum. Ísland á að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi.