//

Hvernig munið þið beita ykkur í málefnum ungs fólks?

 In

„Við Píratar leggjum áherslu á málefni ungs fólks. Við viljum efla lýðræðisvitund ungs fólks og virða rétt barna og ungmenna til að koma að ákvörðunum um eigin hagsmuni og kynslóða framtíðarinnar. Bætum kjör yngra fólks sem hefur setið eftir á undanförnum áratugum.“

Svona hljóða upphafsorð kaflans „Ungt fólk og framtíðin“ í kosningastefnu Pírata. Í ljósi þess að Píratar berjast fyrir auknu lýðræði ætlum við að hafa ungt fólk miklu meira með í ráðum þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um framtíð þess. Við ætlum því að setja á fót virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að koma skoðunum sínum beint á framfæri við valdhafa. Það er þó ekki nóg að hlusta bara. Samráð og samtal verður líka að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum og ríkisstjórn Pírata mun sýna hvernig hún vinnur úr hugmyndum samráðsins.

Fjölbreyttur hópur – fjölbreyttar aðgerðir
Við vitum að ungt fólk er fjölbreyttur hópur. Sum eru í skóla, önnur í vinnu, mörg búa í foreldrahúsum á meðan önnur eru sjálf orðin foreldrar. „Málefni ungs fólks“ snerta því ekki bara fjölbreyttan hóp heldur líka fjölbreytta málaflokka.

Í kosningastefnu Pírata er ótal margt sem gagnast ungu fólki. Í stefnunni um húsnæðismál er þannig ekki aðeins talað um að ráðast í mikla uppbyggingu íbúða í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg, heldur líka að gera heimavist að raunverulegum valkosti fyrir framhaldsskólanema.

Í efnahagsstefnu Pírata er líka hugað að yngra fólki, enda sýna rannsóknir að kjör þeirra hafa dregist aftur úr öðrum hópum. Íslenskir námsmenn vinna líka miklu meira en námsmenn í löndum sem við berum okkur saman við og það er þróun sem þarf að snúa við. Hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur, námsstyrkir, hærri barnabætur, sveigjanlegra fæðingarorlof og aukin áhersla á nýsköpun eru meðal þess sem Píratar telja að henti ungu fólki sérstaklega vel. Það þýðir lægri skuldir að loknu námi og fleiri tækifæri í kjölfarið.

Píratar leggja líka mjög mikið upp úr geðheilbrigði, sem við teljum eina af grunnstoðum samfélagsins. Við viljum því að fræðsla um líðan og umræða um geðheilbrigði eigi sér stað strax á fyrstu stigum skólakerfisins, auk þess sem sálfræðingar eigi að vera til taks á öllum skólastigum.

Eins og segir hér að ofan er ótal margt í kosningastefnu Pírata sem gagnast ungu fólki. Meðal þeirra eru stefnurnar um:

  • Efnahagsmál
  • Loftslagsmál
  • Nýju stjórnarskrána
  • Atvinnu og nýsköpun
  • Menntun
  • Húsnæðismál
  • Málefni öryrkja og fatlaðs fólks
  • Heilbrigði, geðheilbrigði og skaðaminnkun
  • Byggðamál
  • Ungt fólk og framtíðina
  • Internet og netfrelsi
  • og fleiri.