//
Helstu upplýsingar

logoT
Listabókstafur: T
Staða: Í meirihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Þessa daganna er vinna við málefnaskrá T-listans í fullum gangi. Haldnir hafa verið tveir fundir í tengslum við uppstillingu á listann og á þeim fundum komu fram góðar og gagnlegar ábendingar frá fundarmönnum sem verða teknar inní málefnavinnuna. Frambjóðendur listans hafa verið að funda síðustu dagana til að vinna að málefnaskránni. Eins hafa íbúar verið duglegir að hafa samband og koma með ábendingar sem munu rata inní stefnuskrá.

Þau eru mörg málefnin sem T – listinn mun leggja áherslu á fyrir komandi kjörtímabil en það er ekki tímabært að fara út í nákvæma útfærslu þar sem vinna stendur yfir þessa dagana. En í stuttu máli má segja að áherslan verði á alla þá málaflokka sem snerta rekstur og starfsemi í sveitarfélagi sem er í mjög örum vexti. Í Bláskógabyggð eru miklar auðlindir hvort sem það er í mannauð eða náttúrunni. Öllum þáttum þarf að hlúa að, styrkja, bæta og stefna hærra.
Íbúar eru hvattir til að koma ábendingum á framfæri með því að hafa samband beint við frambjóðendur, í gegnum facebook-síðu listans, eða með því að senda póst á netfangið xtlisti@gamil.com.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

T-listinn hefur sett málefni ungs fólks á oddinn og mun gera það áfram á komandi kjörtímabili. Á kjörtímabilinu sem er að ljúka stóð sveitarstjórn að því að stofna ungmennaráð Bláskógabyggðar. Það ráð þarf að fá fækifæri til að styrkjast í sessi, eflast og dafna á eigin forsendum, en með góðum stuðningi frá sveitarstjórn. Hlúa þarf vel að frístundamálum ungs fólks, íþrótta- og æskulýðsmálum enda eru þau ein besta forvörn sem hægt er að hugsa sér.

Í Bláskógabyggð er starfrækt félagsmiðstöð, góð íþróttamannvirki eru í sveitarfélaginu og þau þarf að nýta vel með þarfir ungs fólks í huga. Sveitarfélagið þarf að vera sýnilegt og virkt á samfélagsmiðlum. Með því móti komast upplýsingar hraðast og best á framfæri, til ungs fólks og allra íbúa.

Unga fólkið er okkar framtíðarfjársjóður. Ef ungu fólki er gefið tækifæri, veitt ábyrgð og hvatning getur framtíðin ekki orðið annað en björt.

Önnur framboð - Bláskógabyggð