//

Hvað ætlið þið að gera fyrir heilbrigðiskerfið?

 In

Heilbrigðisþjónustan – Einstaklingurinn í öndvegi

Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.

Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.

Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi. Það er þýðingarmikil fjárfesting í fólki.

Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.

Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% útgjalda ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.

Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við – áður en vandinn verður stærri. Ekki síst þarf að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og félagslega veika hópa.

Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Finnar hafa náð þar eftirtektarverðum árangri við að hjálpa eldra fólki að varðveita sjálfstæði sitt og virka samfélagsþátttöku. Hugsa þarf  þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.

Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna.