//

Hver er stefna ykkar í utanríkismálum?

 In

Í utanríkismálum leggja Píratar mikla áherslu á loftslagsmál, mannréttindi (t.a.m. eftirlit með mannréttindabrotum í fríverslunarsamningum) og gagnsæi – ekki síst við samningagerð. Það sést bersýnilega af formennsku Pírata í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og þingmannanefndar EFTA-ríkjanna.

EES
Pírötum finnst EES-samningurinn hafa verið mikið heillaspor fyrir þjóðina. Þess vegna er áframhaldandi EES-samstarf á dagskrá hjá Pírötum og það sem meira er – Ísland myndi taka sér allt það rými sem það gæti á vettvangi EES til að tryggja enn betur stöðu og hagsmuni almennings.

Evrópusambandið
Pírötum finnast aðildarviðræður við Evrópusambandið varða heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og því er mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings í þeim efnum. Píratar munu þess vegna hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúka þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðdraganda beggja atkvæðagreiðsla gerum við kröfu um að fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar, svo að almenningur eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum.

NATO

Þjóðin hefur aldrei verið spurð um veru landsins í NATO og telja Píratar mikilvægt að rödd hennar fái að heyrast. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði á virkan hátt innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Loftslagsmál

Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Píratar ætla að stuðla að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggja áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Píratar vilja jafnframt hafa framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Við viljum styðja þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugri ríkjum heims.

Ísland í alþjóðasamfélaginu
Ísland á að gerast aðili að Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) og Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN). Píratar vilja setja á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar í umhverfis- og loftslagsmálum í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Við viljum setja á fót alþjóðlegan fjárfestingasjóð á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Byggja skal upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.

Mannréttindi á alþjóðavettvangi
Ísland verður að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vernd mannréttinda, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðlegum stofnunum sem það á aðild að og í milliríkjasamningum sem það undirritar. Píratar vilja aukið eftirlit með brotum gegn mannréttindaákvæðum í fríverslunarsamningum. Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands á almenningur að hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er. Birta á opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins ásamt upplýsingum um hver ber ábyrgð á framkvæmd og framfylgd þeirra.