//

Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?

 In

Loftslagsmál – græn orka – tækifæri Íslands

Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.

Framsókn vill efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu, og nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Verkefnin þurfa að vera markvissari og skilvirkari og til þess að leiða það telur Framsókn nauðsynlegt að koma á sérstöku loftslagsráðuneyti. Stefnan er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Hringrásarhagkerfið snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs.

Í samstarfi við vísindasamfélagið, félagasamtök og sveitarfélög þarf að vinna að almennri vitundarvakningu um tækifæri almennings til að hafa áhrif. Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál.

Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Til þess verða nauðsynlegir innviðar að vera fyrir hendi.

Eftirspurn eftir framleiðslu úr grænni orku og hreinu vatni fer hraðvaxandi um alla heim. Framsókn vill nýta tækifæri til útflutnings á orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.