//

Hver eru ykkar áherslumál sem viðkoma mannréttindum og jafnrétti?

 In

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

Við teljum að Ísland eigi að axla ábyrgð eins og önnur ríki á því að taka á móti flóttafólki. Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukinn kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.  Við höfum beitt okkur fyrir því núna á vettvangi ríkisstjórnarinnar að taka á móti auknum fjölda frá Afganistan vegna þess alvarlega ástands sem þar er uppi og munum vinna að því áfram.