Píratar leggja áherslu á lýðræði og pólitíska ábyrgð. Allir eiga að hafa tækifæri til að koma að stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni sem þá varðar. Valdefling almennings er mikilvæg og er það vilji okkar að auka traust almennings á stjórnmálum. Aukið gagnsæi gerir almenningi kleift að fylgjast með gjörðum pólitískra fulltrúa, en með því móti er hægt að vinna gegn spillingu og valdníðslu, auk þess sem gæði í ákvarðanatöku eykst.
Píratar á Akureyri leggja mikla áherslu á beint lýðræði og möguleika bæjarbúa á að hafa áhrif á þau málefni sem þá varðar. Leiðirnar að því markmiði eru margar og verkfærin fjölbreytt, við eigum hvorki að vera hrædd né feimin við að prófa og þróa nýjar leiðir í valdeflingu samfélagsins. Við viljum samráð við bæjarbúa í ákvarðanatöku, ekki sýndarsamráð, heldur raunverulegt samráð.
Ungmenni og íþrótta- og tómstundaiðkun
Auðvelda þarf minni félögum að taka við frístundaávísun, það auðveldar þeim rekstur félagsins og eykur fjölbreytni í valmöguleikum ungmenna á íþrótta- og frístundaiðkun hverskonar.
Húsnæðismál ungs fólks
Ungu fólki þarf að standa til boða húsnæði á viðráðanlegu verði, margar leiðir eru að því marki, þarf að velja þá leið sem hefur hvað mestan ávinning fyrir samfélagið í heild. Sveitarfélagið á að beita sér fyrir því að auka framboð á litlu og meðalstóru húsnæði.
Ungmennaráð
Fyrir Pírata er mikilvægt að ungmennaráð bæjarins sé starfandi og virkt. Þar þarf stjórnsýsla bæjarins að taka virkan þátt, sinna upplýsingaskyldu sinni gagnvart ráðinu sem og að hvetja það til þátttöku í ákvarðanaferli er varða mál tengd ungu fólki. Auka þarf sýnileika ungmennaráðs meðal allra bæjarbúa.
Beint lýðræði
Frá upphafi hafa Píratar barist fyrir beinu lýðræði fyrir alla. Það þýðir líka að Píratar vilja auka möguleika ungs fólks á að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi, bæði hvað varðar ákvarðanatöku sem og áætlanagerð.
Atvinnumál ungmenna
Auka þarf fræðslu til ungmenna um réttindi þeirra og skyldur á atvinnumarkaðinum.
Menntamál
Öllum á að standa til boða nám við hæfi í skólum bæjarins. Áhersla skal lögð á heilbrigða sál í hraustum líkama þar sem gætt er að andlegri, sem og líkamlegri heilsu nemenda. Píratar telja mikilvægt að líta til framtíðar, því teljum við mikilvægt að koma forritunarkennslu inn í námið þar sem því verður við komið, auk þess sem leggja verður meiri áherslu á verknám.
Daggæslu- og leikskólamál eiga að vera í forgrunni þar sem umönnun, félagsleg þjálfun og menntun fari fram í gegnum leik. Til þess að koma til móts við foreldra þarf kerfið að vera tilbúið til þess að taka við börnunum þegar fæðingarorlofi lýkur.