//
Helstu upplýsingar

Vinstri græn
Listabókstafur: V
Staða: Í minnihluta í sveitarstjórn

Hver eru helstu stefnumál framboðsins?

Okkar hjartans mál er réttlátt samfélag og að íbúar bæjarins eigi gott og innihaldsríkt líf. Þess vegna viljum við huga sérstaklega vel að umhverfinu, skólunum, barnafjölskyldum, jafnrétti og lýðheilsu.

Við hugsum lengra en til næstu fjögurra ára. Við viljum sjá samfélagið okkar þróast til að nýta það besta sem framtíðin hefur upp á að bjóða og að vera fyrirfram tilbúin til að takast á við þau úrlausnarefni sem framundan eru.

Við viljum að Akureyri sé leiðandi í umhverfismálum og að við skilum náttúru og umhverfi í betra ástandi til komandi kynslóða. Það þarf að styðja við vistvænar samgöngur, minnka sóun og úrgang, auka flokkun og endurvinnslu. Akureyri á að vera kolefnishlutlaust sveitarfélag og virða rétt íbúa til heilnæms umhverfis og náttúru.

Menntun er ein grunnforsenda velferðar í samfélagi og skólar eru hornsteinn jöfnunar og jafnræðis. Við viljum bæta aðgengi að leikskólaplássum og að menntun sé gjaldfrjáls í leikskóla, grunnskóla ásamt skólamáltíðum og frístundastarfi. Einnig viljum við bæta starfsaðstæður bæði kennara og nemenda.

Við viljum stytta vinnuviku barna og fullorðinna. Akureyrarbær taki fyrstu skrefin í þá átt á sínum vinnustöðum. Tryggja þarf þjónustu við börn og samfellu skóla og frístundastarfs. Gera þarf umbætur í húsnæðismálum og styðja við uppbyggingu sanngjarns leigumarkaðar á húsnæði til að auðvelda barnafjölskyldum hversdaginn.

Réttlátt samfélag krefst velferðarkerfis sem mætir þörfum íbúanna á þeirra forsendum og tryggir aðgengi allra til þátttöku í samfélaginu. Mannréttindi eru mannréttindi allra.

Stjórnsýslan á að þjóna almenningi. Alltaf þarf að hugsa um hvernig við getum gert betur og mikilvægt er að bæta samtalið milli íbúa og stjórnsýslunnar. Þegar stefnumótun og ákvarðanir eru undirbúnar þarf að leggja vinnu í að leita eftir skoðunum og hagsmunum fjölbreyttra hópa íbúa og þá sérstaklega þeirra sem ekki hafa sterka rödd.

Hvað vill framboðið gera í málefnum ungs fólks?

Mikilvægast af öllu er að viðhalda góðu samfélagi þar sem stjórnkerfinu er annt um íbúana og stjórnvöld eru í stöðugu samtali við þá. Með því að hugsa alltaf um hvernig við getum gert betur skilum við góðu samfélagi til þeirra sem við ábyrgðinni munu taka og þar fer saman stærsta hagsmunamál ungs fólks og okkar mesta metnaðarmál.

Við viljum auka þátttöku og áhrif ungs fólks bæði með því að lækka kosningaaldur, auka aðkomu ungmennaráðs sem og að bæta samtalið milli stjórnvalda og ungs fólks á þeirra forsendum.

Önnur framboð - Akureyri