//

Hver eru ykkar áherslumál sem viðkoma mannréttindum og jafnrétti?

 In

Það er ekki hægt að tala um raunverulegt lýðræði ef fólk hefur ekki jafnan aðgang að samfélaginu. Þess vegna er jafnrétti allra Pírötum gríðarlega mikilvægt. Það sem meira er, jafnrétti er einn af hornsteinum sjálfrar grunnstefnu Pírata sem allar aðrar stefnur okkar byggja á. Í grunnstefnunni okkar segir meðal annars:

  • Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
  • Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
  • Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
  • Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.

Við stofnun flokksins settum við líka sérstaka jafnréttisstefnu. Í henni kemur fram að:

  • Margt sé enn óunnið til að jafna stöðu ólíkra hópa samfélagsins; þ.m.t. kynjanna, barna, aldraðra, hinsegin fólks, innflytjenda og fatlaðra
  • Píratar berjist gegn mismunun og staðalímyndum um fólk
  • Ekki sé nóg að samfélagið sé umburðarlynt heldur sé mikilvægt að allir einstaklingar séu samþykktir, metnir að verðleikum og fái jöfn tækifæri til að njóta sín, vaxa og dafna
  • Ofbeldi skuli aldrei líðast og huga þarf sérstaklega að stöðu ólíkra hópa og sníða fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði að ólíkum aðstæðum fólks
  • Hvetja skuli til opinnar og upplýstrar umræðu um jafnréttismál

Hinsegin borg

Áhersla Pírata á lýðræði og borgararéttindi allra hefur áhrif á öll okkar störf. Tökum sem dæmi það sem við höfum gert í Reykjavík í málefnum hinsegin fólks:

Samþykktum að gera salerni ókyngreind í stjórnsýsluhúsnæði Reykjavíkurborgar til að auka aðgengi allra kynja að Reykjavíkurborg sem vinnustað. Unnum að meiri og betri jafnréttis-, kynja- og hinseginfræðslu og kynfræðslu innan Reykjavíkurborgar. Unnum að auknu aðgengi að þjónustu borgarinnar, húsnæði og klefum með leiðbeiningum og upplýsingum fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja til að tryggja aðgengi trans og intersex fólks að klefum í takt við þeirra kynvitund.

Að auki er í undirbúningi vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi og er grunnurinn sprottinn úr samstarfi við Samtökin 78 og Trans Ísland um aukið aðgengi allra kynja að þjónustu borgarinnar og klefum. Við höfum staðið fyrir skýrum pólitískum skilaboðum innan stjórnsýslunnar og út á við hvað varðar fulla innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði og hvað það þýðir fyrir aðgengi að klefum, salernum og húsnæði. Trans fólk hefur val um þá klefa sem þeim henta og á að njóta stuðnings starfsfólks hvað það varðar án þess að verða fyrir óþægilegri reynslu

Við höfum einnig látið vinna úttekt á aðgengi allra kynja að húsnæði þar sem þjónusta er veitt og verið er að fylgja henni eftir. Með jafnréttisúttektum á hverfisíþróttafélögum sem voru unnar í samstarfi við félögin hefur verið stutt við að þau starfi eftir virkri jafnréttisstefnu. Við beittum okkur fyrir að í nýrri íþróttastefnu er gerð sú krafa á íþróttafélögin að börn eigi kost á þátttöku til jafns óháð kynhneigð eða kynvitund.

Þá hafa Píratar jafnframt stuðlað að góðri samvinnu við Samtökin 78 og Trans Ísland um öll mál er varða trans og hinsegin málefni hjá Reykjavíkurborg.