Kópavogur til framtíðar
Tíundi hver íbúi landsins býr í Kópavogi. Bærinn er þriðji stærsti vinnustaður landsins og er miðstöð atvinnulífs og þjónustu á mörgum sviðum. Sameiginleg áskorun kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn er að veita íbúum framúrskarandi þjónustu, að tryggja ánægju starfsmanna og að ná árangri við félagslegar framfarir sem sveitarfélagið ber ábyrgð á. Forsendan fyrir því að ná besta mögulega árangri er að vinna verkin í þverpólitískri sátt óháð stjórnmálaflokkum. Þannig höfum við unnið á kjörtímabilinu og þannig viljum við vinna áfram. Með framsækinni stefnumótun fyrir Kópavog höfum við sett okkur háleit markmið og sýnum árangur okkar í verki með skýrum árangursmælikvörðum
BF Viðreisn vill taka þátt í því að efla sjálfbæra þróun í Kópavogi og horfum því til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þar er stefnt að því að útrýma fátækt og mismunun, auka velmegun allra og gera heiminn að betri stað.
BF Viðreisn vill fjölga úrræðum til að styðja fjárhagslega við barnafjölskyldur sem búa við fátækt og ráðast í markvissar aðgerðir, m.a. með stofnun tómstundasjóðs velferðarsviðs og þéttu samstarfi við félagasamtök, íþróttafélög og tómstundafélög.
BF Viðreisn vill fjölga félagslegum íbúðum með því að tryggja áfram forkaupsrétt bæjarins að hluta nýrra íbúða í hverfum sem eru í uppbyggingu.
BF Viðreisn vill setja nýja menntastefnu fyrir Kópavog og tryggja þannig að bærinn verði áfram leiðandi á sviði menntamála. Leggjum áherslu á að styrkja sérstaklega list- og verkgreinakennslu.
BF Viðreisn vill halda áfram að þróa íbúalýðræði í Kópavogi og auka samráð við íbúa við að endurbæta hverfin.
BF Viðreisn vill að fyrsta barnamenningarhúsið verði opnað í Kópavogi í samræmi við nýlegar áherslur menningarstefnu Kópavogsbæjar.
BF Viðreisn vill hvetja ríkisvaldið til að staðsetja háskóla í Kópavogi og viljum leggja okkar af mörkum við að búa Listaháskóla Íslands góða starfsumgjörð í bæjarfélaginu.
BF Viðreisn vill taka forvarnir föstum tökum í anda áherslna um bætta lýðheilsu sem fram koma í nýrri stefnu um málaflokkinn.
BF Viðreisn vill fjölga minni íbúðum og úrræðum fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði.
BF Viðreisn leggur ríka áherslu á að halda áfram að styðja börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi óháð efnahag eða félagslegri stöðu.
BF Viðreisn vill að stefnt stefnt sé að því á kjörtímabilinu að hækka frístundastyrkina enn frekar og að frítt verði inn fyrir börn að 18 ára aldri á sundstaði sveitarfélagsins.
BF Viðreisn vill hefja uppbyggingu á göngu- og hjólastígum í Kópavogi.
BF Viðreisn vill ráðast í átak í uppbyggingu opinna svæða og leiksvæða og halda áfram endurnýjun skólalóða.