FYRIR KÓPAVOG (X-K) er nýtt bæjarmálafélag sem býður fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi. Bæjarmálafélagið er óháð framboð sem samanstendur af fólki sem berst fyrir hagsmunum Kópavogsbæjar. Bæjarmálafélagið leggur sérstaklega áherslu á málefni ungs fólks og eru tveir ungir frambjóðendur í efstu 4 sætunum hjá listanum. Það eru þau Rebekka Þurý Pétursdóttir,19 ára framhaldsskólanemi sem skipar þriðja sæti listans og Hlynur Helgason, 27 ára alþjóðahagfræðingur sem er í því fjórða. Þau munu taka sæti í nefndum eða ráðum á vegum Kópavogsbæjar að loknum kosningum þegar FYRIR KÓPAVOG nær inn fulltrúum í bæjarstjórn.
Menning: FYRIR KÓPAVOG ætlar að efla tónlistar- og listastarf ungs fólks í Kópavogi. Einnig ætlum við að efla starfsemi Molans með það að markmiði að ná í fleiri sem geta nýtt sér þjónustu Molans með sérstaka áherslu á skapandi greinar.
Umhverfismál: FYRIR KÓPAVOG leggur áherslu á að gera almenningssamgöngur meira aðlaðandi og að bílafloti Kópavogsbæjar keyri á rafmagni eða metan. Einnig viljum við að áhersla verði lögð á flokkun með vindundarvakningu m.a. að taka þátt í verkefninu „Plastið í poka“ hjá Sorpu
Samgöngur og opin svæði: FYRIR KÓPAVOG vill að samgöngur verði gerðar öruggari með bættri hreinsun á göngu- og hjólaleiðum þannig að íbúar Kópavogs komist til vinnu hvort sem þeir gangi, hjóli eða keyri. Þá viljum við öflugt viðhald á götum og göngustígum bæjarins og að opin svæði, eins og Kópavogstún, Rútstún, Hlíðargarður, Kópavogsdalurinn, Fossvogsdalurinn og Guðmundarlundur verði gerð enn frekar aðlaðandi til útivistar, t.d. með útigrilli yfir sumartímann og leiksvæði fyrir börn.
Íþróttamál: FYRIR KÓPAVOG ætlar að bæta nýtingu íþróttahúsa í Kópavogi. Einnig er á stefnuskránni að íþróttastyrk megi nota undir annað en íþróttir og kallast því tómstunda- og frístundastyrkur. Stefnt er að því að sá styrkur hækki í 53.000 krónur. Jafnframt viljum við setja í gang lýðheilsukort fyrir ungmenni 18-23 ára. Slíkt framtak er lýðheilsumál og eykur andlega og líkamlega vellíðan.
Húsnæðismál: FYRIR KÓPAVOG leggur áherslu á að ungt fólk geti búið og sest að í Kópavogi. FYRIR KÓPAVOG ætlar að úthluta lóðum fyrir smærri ódýrari íbúðir með það fyrir augum að ungt fólk komist úr foreldrahúsum. Jafnframt er stefnt á að taka höndum saman við verkalýðsfélögin og byggja í samvinnu við þau leiguíbúðir.