//

Hentar fyrir:

Hópa af ýmsum stærðum.

Efni og áhöld

  • Skriffæri og pappír fyrir eftirlitsnemandann

Lengd

1 kennslustund

Hvað er hægt að læra af æfingunni?

  • að mynda sér skoðanir og tjá þær
  • að hlusta á hvort annað
  • að sýna virka hlustun
  • samræðutækni

Listin að hlusta er afar miðlæg í allri samskiptahæfni. Með því að leggja við hlustir getur verið átt við það að hlusta á og skilja þau orð sem eru látin falla, en einnig það að beita athyglisgáfunni til að lesa í það sem er tjáð öðruvísi en með orðum – t.d. með tóni, hljómfalli og jafnvel orðavali.

 

Afar mikilvægt er að taka vel eftir og nota athyglisgáfuna, því að þannig drögum við ályktanir af tali fólks og túlkum svipbrigði þeirra og látbragð. Góður hlustandi kann ennfremur þá list að leggja eigin skoðanir til hliðar á meðan hlustað er á aðra.

 

Æfing í því að hlusta

Æfingin hefst á því að kennari og nemendur velta því fyrir sér í sameiningu hvað einkenni góðan hlustanda. Kennari (eða annar sem hefur umsjón með æfingunni) skrifar þau atriði sem eru nefnd upp á töflu. Því næst er nemendunum skipt í 4–5 manna hópa. Einn nemandi er valinn til þess að fylgjast með vinnu hópanna.

 

Í hópunum eru rædd ýmis mál sem tengjast því hvernig hægt er að hafa áhrif á vettvangi skólans, s.s. hlutverk nemendafélagsins og starfsemi þess. Nemandinn sem á að fylgjast með vinnu hópanna gengur á milli þeirra, fylgist með umræðum og skrifar hjá sér dæmi um það sem einkennir góðan hlustanda. Að umræðunum loknum er farið yfir þau atriði sem eftirlitsnemandinn tók sérstaklega eftir hjá hverjum hópi. Að lokum er svo rætt hvað nemendum fannst um æfinguna og hvað læra megi af henni.