//

Hentar fyrir:

Hópa af ýmsum stærðum.

Efni og áhöld

  • Stórar pappírsarkir
  • Litlir límmiðar, t.d. stjörnur eða hringir
  • Tússpennar
  • Hugmyndablað kennara (hlaða niður)

Lengd

U.þ.b. 30 mínútur

Hvað er hægt að læra af æfingunni?

  • að mynda sér skoðanir og tjá þær
  • að vinna saman og gera málamiðlanir
  • samræðutækni

Undirbúningur hefst á því að eftirfarandi fjórar fyrirsagnir (sem dæmi) eru ritaðar á fjórar pappírsarkir: Ég, Fjölskylda mín, Skólinn minn, Áhugamál mín.

Undir hverja fyrirsögn á svo að skrá nokkur atriði á viðkomandi sviðum sem nemendum finnst mega gera breytingar á. (Hugmyndir að slíkum atriðum er að finna í skjalinu „Að hugsa sjálfstætt“. Kennarar geta líka sett fram eigin hugmyndir að fyrirsögnum og atriðum.) Arkirnar eru hengdar upp á mismunandi stöðum í kennslustofunni/salnum og nemendur fá skriffæri til að bæta atriðum á þau. Auk þess fær hver og einn nemandi fáeina límmiða (t.d. stjörnur eða hringi) sem hægt er að líma á arkirnar til að sýna stuðning við þau atriði sem þegar hafa verið skrifuð, til að forðast endurtekningar og spara pláss.

Hver nemandi skoðar hverja örk og bætir við listann að vild. Tilvalið er að spila einhverja þægilega tónlist á meðan á þessu stendur, svo að nemendurnir geti slakað á og einbeitt sér að verkefninu.

 

Þegar allir eru búnir að fara yfir allar arkirnar og bæta eigin hugmyndum við er nemendunum skipt í pör/litla hópa og hvert par/hópur velur þá örk sem þykir áhugaverðust. Hvert par/hópur hugleiðir svo og ræðir sín á milli hvaða aðferðum mætti beita til að koma í framkvæmd þeim breytingum sem lagðar eru til á örkinni þeirra (sjá dæmi í skjalinu „Að hugsa sjálfstætt“).

Hver og einn hópur kynnir svo sína örk og þær hugmyndir að aðferðum sem hafa komið fram. Á eftir hverri kynningu ræða allir allar hugmyndirnar í sameiningu. Farið einnig yfir þær arkir sem ekkert par/hópur valdi. Ef nemendahópurinn er fámennur til að byrja með, má sleppa því að skipta honum í pör og ræða þess í stað allar arkirnar í stóra hópnum.

Markmið æfingarinnar er að sýna fram á að ýmsar leiðir eru færar til breytinga, og að öll getum við haft áhrif með margvíslegum hætti. Hver og einn getur áorkað heilmiklu með eigin þátttöku og virkni!