//

Hentar fyrir:

Framhaldsskólanemendur í t.d. íslensku eða samfélagsfræði.

Efni og áhöld

  • Skriffæri og pappír til að skrifa niður röksemdir

Lengd

1-2 kennslustundir

Hvað er hægt að læra af æfingunni?

  • að mynda sér skoðanir og tjá þær
  • að vinna saman og gera málamiðlanir
  • samræðutækni

Orðið málamiðlun vísar oft til þess að verið sé að sætta mismunandi skoðanir eða afstöðu tveggja aðila. Málamiðlanir gera okkur kleift að komast að niðurstöðu sem allir hlutaðeigandi geta sætt sig við, þrátt fyrir skoðanamun. Í málamiðlun felast tjáskipti sem miða að því að ná tilteknu markmiði. Markmið málamiðlunar getur t.d. verið að leysa einhvern vanda, komast að samkomulagi eða ná að gera sameiginlegar áætlanir. (Jattu-Wahlström & Kallio, 1992.)

 

Ýmsir þættir hafa áhrif á það hve vel tekst til að miðla málum, svo sem hlutaðeigandi aðilar og tengsl þeirra, markmið málamiðlunarinnar og efni, svo og aðstæður og utanaðkomandi þættir. Opið og frjálslegt andrúmsloft gerir öllum auðveldara að tjá skoðanir sínar og komast að niðurstöðu.

 

Æfing

Nemendum er skipt í 4–6 manna hópa og hverjum hópi er síðan skipt í tvo tveggja eða þriggja manna undirhópa: hópa A og hópa B. Kennarinn finnur upp á einhverju umræðuefni til að ná málamiðlun um – eitt dæmi væri staður til að fara í bekkjarferð á. Nemendurnir í A-hópunum vilja t.d. fara í skíðaferð norður í land, en þeir í B-hópunum í skoðunarferð til Vestmannaeyja.

 

Hver hópur um sig ræðir mögulegar röksemdir til að styðja sína skoðun og skrifar þær niður. Því næst ræðir hver A-hópur við samsvarandi B-hóp og meðlimir deila þeim röksemdum sem þeir vilja nota til að styðja sína hlið.

 

Að lokum ræða nemendurnir allir saman í hóp, reyna að semja og komast að málamiðlun um áfangastað sem allir geta verið sáttir við. Lausnin getur jafnvel fólgist í einhverjum þriðja áfangastað, sem ekki var rætt um í byrjun.

 

Þegar sameiginleg niðurstaða er komin í málið spyr kennarinn hvern hóp fyrir sig um þá niðurstöðu sem komist var að innan þess hóps, og hvernig nemendunum hafi tekist að komast að samkomulagi um hana.

 

Að lokum má ræða hvernig nemendum hafi fundist æfingin. Lærðu þeir eitthvað af henni, og þá hvað? Var auðvelt að komast að sameiginlegri niðurstöðu? Ekki er verra ef umræðuefnið er eitthvað sem vekur sterk viðbrögð og sem allir nemendurnir hafa nægilega innsýn/þekkingu í.